Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


10.08.2013 08:36

Til Eyja - síðari hluti.

Síðasta pistli lauk í hálfgerðum "blús" við gæludýragrafreitinn á Heimaey. Mér fannst, svona eftir á að ég hefði kannski átt að nefna hann Mola minn, sem var jú sárt saknað og er stundum enn. Ég ákvað því að birta aðra mynd úr safni af þeim félögum báðum. Myndin er tekin á góðri stund, þar sem hvorugur stríðir hinum, en þess háttar var nær daglegt brauð. Þetta voru falleg dýr og vel gerð. Nóg um það:



.....og þá aftur til Eyja. 

Af öxlinni austanundir Helgafellinu er ákaflega víðsýnt, ekki síst í blíðviðrinu þennan þriðjudag. Við mynduðum í suðaustur, yfir Stakkabót og Stakkana sem þar standa upp úr sjónum. Líklega brýtur einhvern tíma meira á þeim en í þetta sinn. Þarna, ofan við Stakkabótina hægra megin er austurendi annarrar flugbrautarinnar, aðeins örskammt frá brúninni:



Lítil flugvél flaug lágflug yfir höfðum okkar, svona eins og flugmaðurinn væri í einhvers konar ferðamannaeftirliti. Ekki var það þó, líklega hefur hann aðeins verið að njóta útsýnis og veðurblíðu....



Við héldum til baka niður í bæ og komum við hjá vatnstanknum gamla, sem hraunið braut. Ofan við (bakvið) tankinn stóð sundlaug Eyjamanna um árabil en af henni sést ekkert.



Það var dálítið merkilegt hversu fáir ferðamenn voru á rölti um Skansinn, því það virtist vera talsvert af þeim í bænum. Þarna var bókstaflega ekki hræða, og hreinlætisaðstaða á bílaplani rétt við vatnstankinn var lokuð og læst. Við stafkirkjuna norsku var engan að sjá....



Við ókum niður í bæ og lögðum bílnum. Gengum þaðan upp á hraunjaðarinn þar sem hann gnæfir yfir þeim húsum sem næst standa. Uppi á hrauninu eru stígar, merktir nöfnum þeirra gatna er undir liggja. Þarna undir er Heimatorg:



Það var dálítið skrýtin tilhugsun að skoða skiltin þarna uppi og átta sig á að það voru heilir sextán metrar niður á húsin sem stóðu þarna. Sextan metrar, og aðeins örstuttu neðar var hraunjaðarinn og heil hús sem enn var búið í. Ótrúlegt hvað þykkfljótandi hraunið gat hrúgast upp í skarpan jaðar. Þarna uppi hafði svo ýmisskonar gróður tekið sér bólfestu og græni liturinn sást allsstaðar milli hrauntoppanna....



Í þessum hvammi framan í hraunjaðrinum stóð lengi framhlið með glugga úr stofu húss sem hraunið kurlaði. Þegar við vorum í Eyjum vorið 2000 stóð  framhliðin að mestu eins og hún var þegar gosi lauk. Nú, þrettán árum síðar var hún hrunin og aðeins brak eftir. 



Hins vegar var komið mjög gott upplýsingaskilti um rústina og húsið, eins og það leit út fyrir gos. Neðri myndin er ein af þeim þekktari frá gosinu og hefur birst í ótal bókum og ferðabæklingum. Þá efri hafði ég aldrei séð áður og hafði  á tilfinningunni þegar ég skoðaði rústina árið 2000 og allar götur síðan, að rústin væri af einhvers konar þakkvisti með svölum. Nú var hægt hægt að átta sig mun betur:



Það leið að kvöldi og þegar hungrið tók að sverfa að eftir langan og viðburðaríkan dag fengum við símaleiðsögn frá vini á fastalandinu til ágætis veitingastaðar í bænum. Sumum kemur spánskt fyrir sjónir að Akureyringar skuli fá sér kók og pylsu með rauðkáli. Þeir sömu ættu þá að bregða sér til Eyja og prófa pizzu með muldu "böggles" yfir! Við gerðum það og getum bæði borið um að stundum er einu sinni alveg nóg........

Eftir matinn og stuttan göngutúr í bæinn var komið að nokkurskonar "ríjúníon" hjá Elínu við nokkrar skólasystur frá Varmalandi "nokkrum" árum fyrr. Við Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff héldum áfram rannsóknarleiðangri um bæinn og skoðuðum m.a. gömul og ný mannvirki á Eiðinu. Þar stendur uppi vélbáturinn og safngripurinn Blátindur, sem áhugahópur snyrti og lagfærði fyrir nokkrum árum. Í slíkum verkum dugar þó áhuginn einn skammt því ekkert er ókeypis. Mér skilst að opinberir aðilar í Eyjum hafi átt að taka við merkinu en lítið eða ekkert orðið úr. Fyrir stuttu las ég þó frétt þar sem talað var um að bærinn myndi sjá um varðveislu Blátinds ásamt gamla hafnsögubátnum Létti, sem er annar gullmoli þeirra Eyjamanna. Ég myndaði ekki Blátind vegna þess að það hefði aðeins orðið hryggðarmynd, en læt nægja að tengja yfir á fróðleiksstubb um hann HÉR og HÉR

Það kvöldaði, við Bassi vorum orðnir syfjaðir og fluttum okkur upp á tjaldsvæðið við Þórsheimilið, á sama stað og nóttina áður. Elín Huld mætti svo einhvern tíma seinna - allavega var hún á sínum stað morguninn eftir.......

....sem var miðvikudagurinn 17.júlí og það var þokuslæðingur allan hringinn!


Nú lá leiðin inn í Herjólfsdal og skyldi gengið um svæðið. Þar var þjóðhátíðarundirbúningur í fullum gangi og upp um allar hlíðar voru unglingar með bensínorf að snyrta og laga. Af þessu hlaust talsverður hávaði en ekki þó til ama. Um sama leyti og við reimuðum á okkur skóna komu  a.m.k. þrjár misstórar rútur fullar af ferðamönnum sem dreifðu sér um dalinn. Líklega var þar komin skýringin á fólksfæðinni við Skansinn, þann merkilega sögustað: Ferðamennirnir sem við höfðum séð í bænum voru líklega í einum, stórum hópi sem handstýrt var milli sögustaða með leiðsögn. 



Það rétt náðist að kíkja á bæ Herjólfs að utan. Augnabliki eftir myndatökuna fylltist hann af útlendum túristum. Eftir það var ekki öðrum fært inn. Bærinn virðist hins vegar vera hinn merkilegasti, vel byggður og vandaður. Skemmtilegt framtak og ekki síðra að hafa upplýsingaspjaldið við hann. Þessi upplýsingaskilti, séu þau vel hirt, eru sannkallað gulls ígildi fyrir fróðleiksfúsa og sem betur fer fer þeim fjölgandi. 





Um þenna hrygg liggur gönguleið yfir í Stafnsnesvík, hafi ég tekið rétt eftir. Stafnsnesvík er, eins og nafnið bendir til, dálítil vík sem skerst inn í Dalsfjallið suðvestanvert og er mörkuð af því og Stafnsnesi, mjóum klettarana sem um leið er útvörður Dalsfjalls til suðvesturs. Fyrir botni víkurinnar er malarfjara og ef marka má sögumanninn sem ég hlustaði á í fyrrasumar var Stafnsnesvík áður fyrr - og er kannski enn - vinsæll griðastaður þjóðhátíðargesta sem leituðu friðar til einkaathafna. Kannski hafa þjóðhátíðargestir fyrri ára verið betur gangfærir en nú gerist, því leiðin er sannarlega ekki auðfarin. Við höfðum reimað á okkur gönguskóna til að ganga þarna yfir en þoka og mistur sem smám saman lagðist yfir er leið á daginn drógu úr áhuganum og við létum ófarið að sinni.



Þessi kona var að gefa öndunum á "þjóðhátíðartjörninni" brauð. Ég gat ekki betur heyrt en hún rabbaði við þær á íslensku. Það voru engir mávar sjáanlegir þarna, ég fann skýringuna síðar.



Séð svona aftaná er nýja þjóðhátíðarsviðið bara myndarlegasta mannvirki. Ég hleraði á tjaldsvæðinu að íþróttafélagið (væntanlega þá ÍBV) hefði byggt húsið og ætti það en kostnaðurinn í milljónum myndi líklega enda í þriggja stafa tölu. Hitt skildist mér líka, að þörfin fyrir nýtt svið hefði sannarlega verið til staðar. Það er þá vonandi að komandi þjóðhátíðir skili einhverju í kassann. Um að gera að gera hlutina myndarlega ef ráðist er í þá á annað borð. 



Það vantar enn talsvert á að byggingin teljist fullgerð og kannski er það stefna þeirra sem ráða að sníða sér stakk eftir vexti og vinna eftir efnum. Þetta verður eflaust hin glæsilegasta bygging er lýkur:



Er þetta ekki Fjósaklettur þarna vinstra megin á myndinni? Allavega var búið að hlaða myndarlegan bálköst úr vörubrettum upp á klettinn. Um allan dal var fólk að vinna við undirbúning.



Við gengum með jaðri golfvallarins út að Kaplagjótu. Í grámóskunni mátti sjá eyjar í fjarska, trúlega eru þetta Álsey t.h. og síðan Brandur, Hellisey og Suðurey:



Það ar gaman að virða fyrir sér bergið í Kaplagjótu. Þrátt fyrir að vera sorfið og nagað af sjó og vindi var það alsett grænum toppum enda liggur það vel við sól og fuglinn skilur eftir sig fínan áburð...



Þó var ekki mikið af fugli þarna núna og við sáum aðeins þetta eina lundapar. Í þessum gróðurtoppum voru líka auðséðar lundaholur. Trúlega hafa þær samt ekki verið mjög djúpar!



Þegar við komum aftur í bæinn tókst mér að suða út ís. Ef grannt er skoðað má sjá á andlitinu á mér hversu langþráður hann var:



Næsti viðkomustaður var náttúrugripasafnið að Sæheimum. Þar tók hann Tóti á móti okkur:



Tóti heitir reyndar fullu nafni Þórarinn Ingi, og hafi ég tekið rétt eftir fékk hann nafnið að gjöf í tilefni þess að sama dag og safninu barst hann að gjöf sem ungi háðu Eyjamenn knattspyrnuleik. Í honum skoraði Þórarinn Ingi Valdimarsson Eyjamaður sigurmark og því þótti liggja beinast við að skíra ungann í höfuðið á hetjunni. Tóti lundi er klárlega ekki síðri hetja þó á öðru sviði sé, því ef marka má viðbrögð erlendra safngesta  er vandfundin öflugri PR-fulltrúi:



Kíkið á ÞETTA



Svo lauk safnskoðun og Tóti var kvaddur. Við gengum um götur í "gamla" bænum upp af höfninni og kíktum m.a. á þessi litríku hús. Þær gerast varla flottari, verbúðirnar:







Úti fyrir íbúðarhúsi sátu þessi heiðurshjón í sólstólum og biðu - líklega sólarinnar. Eða kannski komandi þjóðhátíðar?



Við lötruðum áfram ofan hafnarinnar í áttina að Spröngunni. Þarna er bláa höndin allsráðandi, þetta eru byggingar Ísfélags Vestmannaeyja:



Það hefði ekki verið leiðinlegt að ganga upp á Klifið í betra skyggni. Mér fannst það varla fyrirhafnarinnar virði í ekki betra skyggni. Ég á samt klárlega eftir að ganga þarna upp einhvern tíma því útsýnið er eflaust magnað. 



Þegar við komum út að Spröngunni sáum við skýringuna á því hvers vegna endurnar á tjörninni í Herjólfsdal sátu einar að brauðinu. Þarna voru nefnilega nær allir mávar Vestmannaeyja samankomnir á þingi, og þeir sem ekki voru þarna í berginu voru kafuppteknir yfir frárennsli frá einhverri vinnslustöðinni sem litaði sjóinn við vesturhorn Eiðisins milli Heimakletts og Klifsins. Hávaðinn á þessum tveimur stöðum var hreint yfirþyrmandi!



Í Spröngunni voru nokkrir krakkar að spreyta sig. Þessi dama var áberandi fimust og fór margar sveiflur án þess að fipast hið minnsta. Það dró heldur ekkert úr henni þegar full rúta af túristum stoppaði rétt neðan við:





Það var farið að líða á daginn og farið að nálgast brottför Herjólfs. Við höfðum ekki verið svo forsjál að panta ferðina til lands með fyrirvara og lentum því á biðlista tvær síðustu ferðir dagsins. Veðurspá morgundagsins, fimmtudagsins var slæm og jafnvel gat svo farið að sigling félli niður. Að auki var upppantað í allar ferðir þann dag líka svo okkur var ekki til setunnar boðið að mæta á biðbekkinn í afgreiðslu Herjólfs. Við vorum númer fimm á biðlista í þessar tvær síðustu ferðir miðvikudagsins og eftir talsverðar vangaveltur höfðum við ákveðið sem síðasta úrræði að skilja bílinn eftir hjá fólki í Eyjum og fara sjálf á fæti yfir sundið. Við vorum búin að gera ráðstafanir til að verða sótt í Landeyjahöfn og í raun búin að sætta okkur svo við orðinn hlut (og hálfpartinn farin að vonast til að bíllinn kæmist ekki með svo við gætum átt hann lengur úti í Eyjum sem tilefni til annarrar heimsóknar) að þegar allir voru komnir um borð í Herjólf, bæði fólk og farartæki, urðum við hálffúl yfir að því ágæta starfsfólki skyldi að endingu takast að finna smugu fyrir sjúkrabílinn - við vorum hreinlega ekki tilbúin til að fara heim strax!

Þessvegna var ákveðið að áður en sumarið væri úti skyldu Vestmannaeyjar heimsóttar á ný!




Flettingar í dag: 297
Gestir í dag: 130
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135264
Samtals gestir: 27952
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:45:28


Tenglar