Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


30.07.2013 08:16

Tvær stuttar......

Áður en ég legg í að skrifa Vestmannaeyjatúrinn sem lofað var síðast þarf ég eiginlega að koma frá mér tveimur öðrum, örstuttum. Þeir eru samt eiginlega þrír, þessir stuttu túrar ef með er talin skírnin hennar Elvu Sofiu. Elva Sofia var nefnilega skírð í Skálholtskirkju laugardaginn 20. júlí sl, í endalausri veðurblíðu. Það var blásið til veislu í Miklaholti í Tungum, en báðir foreldrarnir tengjast þangað sterkum böndum. Mér var boðið að vera viðstaddur, og vegna þess að enginn var til að hafa vit fyrir mér gleymdi ég myndavélinni. Ég var þó með símann og beitti honum eins og hægt var. Þessi stutta frásögn er kannski ekki frétt í sjálfu sér, nema vegna þess að ég veit að einhverjir Ísfirðingar lesa, og hann Jón Þór Birgisson (Jónssonar útibússtjóra L.Í.) var ekki nema 16 ára þegar hann fluttist vestur, frá Selfossi. Hann lærði rafvirkjun í Pólnum og síðar skógfræði í Danmörku. Jón Þór kom til Íslands í júlíbyrjun ásamt konunni sinni, henni Katarinu og þremur börnum, Ágústi Erni, Evu Lilju og svo skottinu  Elvu Sofiu. Nú er Íslandsdvölinni að ljúka og leiðin liggur til Danmerkur á ný. Ég má til að stinga hér inn mynd af þessarri flottu fjölskyldu:



Daginn eftir, sunnudaginn 21. var síðra veður í Tungunum en blíðan hafði færst til vesturs og lá yfir höfuðborgarsvæðinu og uppmeð. Því var tilvalið að snúa sér í þá áttina. Það eru allmörg ár síðan ég reyndi fyrst að heimsækja Hreppslaug í Andakíl í Borgarfirði, líklega komið á annan tug. Mig hefur hins vegar aldrei borið að garði á réttum tíma, annaðhvort hef ég verið of snemma að vori eða of seint að hausti. Hreppslaug hefur því ekki fengið sinn kross í sundlaugakladdann minn, sem telur nú hátt í áttatíu laugar víðsvegar um land. Nú small hins vegar allt saman og ég lagði af stað eftir hádegi við þriðja mann (heitir það ekki það þegar þrír eru í för?). Þegar upp í Andakíl var komið var veðrið á þann veg að við lágum í lauginni og pottunum hálfan þriðja tíma! Sennilega hefðum við soðnað þarna ef okkur hefði ekki verið borinn ís út á pottbarminn. Því miður hafði ég ekki vit á að mynda Hreppslaug en hún mun eiga sína facebook-síðu, hafi ég skilið rétt:   

 https://www.facebook.com/hreppslaug

Það var semsé talsvert liðið á daginn þegar við loksins yfirgáfum laugina, sólbökuð og sæl.  Næsti viðkomustaður var Fossatún, þar var gengið um svæðið og skoðað. Sumir þurftu að storka örlögunum:







Auðvitað á maður aldrei að storka örlögunum. Þessháttar athæfi getur aldrei leitt neitt gott af sér og gat ekki endað nema á einn veg - í potti skessunnar í Fossatúni.  Hún Elín var reyndar afar ósátt við þennan úrskurð og gerði ákafar athugasemdir við hann eins og sjá má:



Það fór svo að sættir náðust, Elín lofaði að haga sér betur á leiksvæðinu og skessan lofaði að hafa vatnið aðeins kaldara næst. Á endanum urðu allir glaðir:



Deginum lauk svo í plokkfiski hjá Olís í Borgarnesi.

S.l. laugardagsmorgun var þessi líka einmuna veðurblíða í borginni og nágrenni. Það var því tilvalið að hreyfa Stakkanesið aðeins, enda hefur það legið við bryggju mestalla þoku- og úrkomutíðina í sumar. Ég sigldi á þennan stað við Gufunes á dögunum, tók þá engar myndir en lofaði þeim síðar. Nú var komið að þessu "síðar" og ég myndaði á símann. Myndin er tekin við klettana fram af gömlu áburðarverksmiðjunni og sést í hana til vinstri.



Það var hálffallið út en dýpið við og á milli klakkanna var hvergi minna en tveir og hálfur metri - þ.e.a.s. þar sem ekki var sýnilegt haft á milli. Á nokkrum stöðum var vandalaust að leggja að klettunum, hefði maður viljað klifra upp á þá.





Hér að neðan sést út til Geldinganess og ofar til Akrafjalls:



Bryggjan í Gufunesi framundan:



..og auðvitað var heiðurshundurinn Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff með í för, hægur og rólegur að vanda nema þegar hann mundi eftir súkkulaðikexinu í lúkarnum. Þá rauk öll rósemi út í veður og vind....



Augnabliki eftir að síðasta mynd var tekin hringdi myndavélin (síminn). Félagar í Keflavík voru í vandræðum og þurftu hjálp. Það var því ekki til setunnar boðið, Stakkanesinu stefnt til hafnar og stuttu seinna var hrossadráparinn svarti á fullri ferð suðureftir. Þar lauk svo deginum.



Flettingar í dag: 273
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135240
Samtals gestir: 27944
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:09:53


Tenglar