.....
.og heim um Hrífunes og Álftaver.
Kannski hefði titillinn bara átt að standa í heilu lagi í hausnum en mér fannst þetta svoddan langloka að betra væri að skipta því í tvennt. Samt var þetta nú röðin á viðkomustöðunum. Þegar við höfðum lokið við að mynda heim að Hólmi, eins og fram kemur í síðasta pistli lá leiðin vestur um og upp með Hunkubökkum. Þar sleppir malbiki en malarvegurinn sem við tekur er ágætur og vel fær öllum bílum - í það minnsta fyrstu kílómetrana. Rétt innan við Hunkubakka greinist leiðin í tvennt, til hægri (austurs) liggur hún inn í Laka og er kyrfilega merkt "Illfær vegur", en til vinstri liggur hún yfir lágan og stuttan háls niður að Fjaðrá, yfir hana á brú að kirkjustaðnum Holti sem eitt sinn var. Þetta bæjarnafn, Holt, kemur oft fyrir í frásögn Jóns Trausta af Skaftáreldum, eins og mörg önnur bæjanöfn á þessu svæði og vestar. Leið okkar Elínar lá hins vegar ekki yfir brúna heldur aðeins að henni og við lögðum sjúkrabílnum á litlu bílastæði við austurenda brúarinnar. Þar er stórt upplýsingaskilti um þetta magnaða náttúrufyrirbæri, Fjaðrárgljúfur.
Það má kannski nefna, svona fyrir þá sem skoða kort af svæðinu, að á gamla herforingjaráðskortinu (1/100.000) er Fjaðrá nefnd Fjarðará en gljúfrið greinilega teiknað. Þarna mun aðeins um augljósa villu að ræða en ekki aðra nafnmynd.
Allt um það má fræðast um Fjaðrá og Fjaðrárgljúfur með einföldu gúggli, svo ég skelli strax inn myndunum sem hún Elín tók, enda hafði það verið hennar draumur til margra ára að heimsækja þennan stað:
Svo kom ein þar sem fauskinum var stillt upp eins og ferðamanni, með bakpoka frá Hrunbanka Íslands ehf og öllu! Það er hægt að vera montinn þegar hallinn er bara tíu gráður og maður hefur lifað af fjallgöngu á Helgafellið stuttu áður....
Ég hef alltaf verið lofthræddur með afbrigðum. Það eina sem hefur getað ýtt mér fram á brún hengiflugs er að nálægt sé einhver ennþá lofthræddari. Þannig var það þarna og ég mjakaði mér fram á þennan klettarana til að horfa niður og í kring. Það var alveg áhættunnar virði....
...og vegna þess að ég komst lifandi til baka fannst mér að hún EH yrði að fá að njóta útsýnisins líka. Hún var lengi vel ófáanleg til að reyna en lét sig á endanum og sá ekki eftir því:
Af klettanefinu rákum við augun í þetta eina og einstaka tré sem stóð þráðbeint upp úr dálitlum klettshaus. Sjáiði það, á miðri mynd?
Með því að súmma aðeins sást það betur. Þá sást líka vel steinkarlinn sem gætir þess. Sjáiði nefið sem ber í stall trésins? Ókei, en sjáiði danska dátann með háu loðhúfuna, sem stendur vinstra megin við tréð og horfir niður gljúfrið? Sjáiði kannski líka broskallinn hægra megin við tréð?
Þótt við höfum verið heppin og sloppið við skaða í prílinu var ekki hægt að segja það sama um alla. Hún gimba sem liggur þarna í ánni, hvítur depill beint undir ljósa, ferhyrnda blettinum bítur ekki þessa heims gras framar. Það var óþarfi að súmma á hana...
Loka þessarri myndasyrpu frá Fjaðrárgljúfri með tveimur sérstaklega fallegum, sem Elín tók. Það má bæta við í lokin að þegar við vorum efst í gljúfrinu sáum við hóp fólks á gangi niðri í því. Þetta voru átta eða tíu manns, karlar og konur í yngri kantinum. Þau óðu ána þar sem þurfti og höfðu að öllum líkindum lagt af stað frá brúnni neðar, gengið eins hátt og gengt var og voru á bakaleið er við sáum þau. Ekki voru þau sérstaklega ferðabúin, m.a. var ein daman aðeins á ljósum sumarkjól sem hún vafði upp þegar vaða þurfti djúpt. Ekki var leiðin í gilinu ógreiðari en svo að þau voru talsvert á undan okkur niður að brú. Ef neðri myndin "prentast vel" má sjá mann í ljósbláum bol fjærst á odda malareyrar í miðri ánni.
Það var farið að örla á skýjum á himni þegar við yfirgáfum Fjaðrárgljúfur og héldum í heimátt, til vesturs. Við ókum hring af þjóðvegi eitt upp með Ásabæjum, yfir Eldvatn og Kúðafljót, og síðan niður gegnum Hrífunes. Rétt við vestari vegamótin inn á númer eitt (þau vegamót eru aðeins merkt "Hrífunes" en eystri vegamótin eru merkt "Landmannalaugar / Fjallabak nyrðra) stendur kennileitið Laufskálavarða. Henni fylgir sú sögn að ferðamenn skuli hlaða vörðu sér til faraheilla, þá þeir fari um Mýrdalssand fyrsta sinni. Það var langt síðan við fórum þetta í fyrsta sinn en sagan er góð og útbreidd, eins og sjá má af fjölda smávarða:
Næsti viðkomustaður okkar skyldi vera Álftaver, Eins og sjá má af myndunum hér að ofan var orðið alskýjað og farið að kula talsvert. Okkur langaði samt að renna niðureftir, leiðin af þjóðveginum niður að bæjunum er örstutt og vegurinn þokkalegur malarvegur. Kirkjan í Álftaveri stendur skammt frá býlunum Norðurhjáleigu og Þykkvabæjarklaustri en er í tali nefnd Þykkvabæjarklausturskirkja. Þetta er dálítið ruglandi því sá Þykkvibær sem flestir þekkja úr daglegu tali er miklu vestar og þekktari af kartöflum en klaustri. Einhvern veginn er þó nafnið tilkomið og víst er að það er ævagamalt því Þykkvabæjarklaustur var, eins og önnur slík, lagt niður við siðaskiptin 1550.
Ég hef áður skoðað og myndað þessa kirkju en þá var ég einn á ferð sumarið 2005. Nú var bæði notuð betri myndavél og myndasmiður:
Í kirkjunni er milliloft með bekkjum en mér er ekki alveg ljóst hverjum þeir hafa verið ætlaðir. Án þess að nokkur hafi orðað það beinlínis við mig hef ég alltaf talið að kirkjubekkir ættu hreinlega að vera óþægilegir. Kannski er einhver meinlætahugmynd þar fólgin í, en kannski eru bekkirnir vísvitandi hafðir jafn vondir og þeir venjulega eru til að menn sofni síður undir messu. Ég veit ekki alveg hverjum þessi bekkur hefur verið ætlaður en víst er að sá sem í honum situr verður þeirri stund fegnastur er kirkjuklukkurnar hringja út messuna.....
Það gilti einu þótt smávaxnari manneskja væri mátuð í bekkinn andspænis - andlitið var alltaf í bitanum þótt setið væri á blábekkjarenda!
Á hól við norðurvegg kirkjunnar stendur þessi minningarsteinn um klaustrið að Þykkvabæ.
"TIL MINJA UM KLAUSTRIÐ Í ÞYKKVABÆ 1168 - 1550.
Það er ljóst að hér í sveit hefur ekki verið til nein "InnDjúpsáætlun" eins og vestra þegar byggja skyldi upp á hverjum bæ í Ísafjarðardjúpi. Ég veit ekki hvort er fjárhús og hvort er fjós. Húsið vinstra megin líkist hins vegar ákaflega mikið bænhúsinu í Öxney á Breiðafirði - kannski sami arkitektinn? En kannski eru torfkofar einfaldlega hver öðrum líkir
Svona grínlaust þá virtist almennt vera mjög þokkalega búið í Álftaveri. Svo mátti víða sjá svona aukabúskap eins og hér að neðan. Netakúlur og hringir skiptu hundruðum eða meira og mátti sjá á allnokkrum stöðum stórar hrúgur af þeim. Kannski er þetta "rekaviður" framtíðarinnar? Tæplega verða þó byggð hús úr þessu efni. Hvað veit maður þó? Var ekki flíspeysan sem ég klæddist akkúrat á þessu augnabliki einmitt úr endurunnu plasti?
Við yfirgáfum Álftaver og áðum næst að Vík í Mýrdal. Þar var etinn þjóðvegahamborgari en síðan ekið áfram í vesturátt. Lágskýin urðu að þoku og henni fylgdi regnúði. Klukkan var rétt um tíu að kvöldi þegar við renndum í hlað við Langbrók í Fljótshlíð, veifuðum Útilegukortinu og lögðum sjúkrabílnum í náttstað. Nóttin var blaut, miðvikudagsmorguninn enn blautari og þegar við ókum heim uppúr hádegi sá varla handaskil á Hellisheiði.
....það var hins vegar þurrt í Reykjavík! Ótrúlegt!
Að síðustu má taka fram að allar ofanbirtar myndir, ásamt fjölda annarra eru finnanlegar undir "Myndaalbúm" efst á forsíðu. Albúmið heitir "Dverghamrar"
..........................................................................................................................
Næst: Vestmannaeyjar!
mmmmmmmmmmmmmmmmm