Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.07.2013 09:06

Skrapdagur

Í "sumar"  (gæsalappirnar eru mjög eðlilegar)  hafa veður skipast þannig að blíðan hefur frekar fallið á virka daga en helgar. Þetta er allavega mín skoðun eftir lauslega, óvísindalega könnun. Ég get hins vegar stutt þessa lauslegu, óvísindalegu könnun með þeim bjargföstu rökum að líkurnar á því að gott veður falli á virka daga frekar en helgar eru tölfræðilega fimm á móti tveimur. Þetta rammskakka hlutfall er auðvitað helvedes skítt fyrir þá sem stunda hefðbundna vinnu og hafa lítil frí önnur en helgar, heldur skárra fyrir þá sem eiga sín mánaðarlöngu skikkuð sumarfrí á launum en auðvitað sallafínt fyrir þá sem eru atvinnulausir og hafa fátt fyrir stafni annað en að horfa upp í loftið og bíða eftir sólinni sem aldrei kemur. (þegar þetta er ritað á laugardagsmorgni 13.7. er hellirigning). Ef sú gula sést hins vegar augnablik er hægt að grípa það ótruflaður og leggjast í einhverja sundlaugina eða renna spölkorn út í náttúruna og ímynda sér að maður sé í sólarferð til útlanda. 

HÓPKAUP er fyrirbæri sem ég hef ekki alveg fullan skilning á. Þó skilst mér að til séu nokkur ámóta apparöt sem stunda það að bjóða fólki vöru eða þjónustu í tiltekinn tíma á mikið niðursettu verði í auglýsingaskyni. Ég hef ekki kunnáttu til að nýta mér þessi tilboð en ég þekki fólk sem grípur álitlegar gæsir þegar þær gefast og hef stundum fengið að njóta þeirra líka...(þ.e. gæsanna..)

Um miðjan maí dúkkaði einmitt upp svona álitlegt tilboð á einu Hópkaupsapparatinu, þar sem í boði var hálfsannarstíma sigling með Sæferðum í Stykkishólmi. Í pakkanum var leiðsögn, eyjaskoðun og skeldýraskrap með smökkun. Þetta leit allt mjög vel út svo það var keyptur pakki fyrir tvo og okkur Bassa var boðið í "farþegasætið".

Svo leið tíminn, helgarnar buðu uppá óspennandi veður og tíminn leið. Tilboðið gilti í mánuð og það var farið að styttast í endann. Loks var ákveðið að afskrifa helgarnar, plata veðurguðina dálítið og stökkva í miðri viku. Fyrir valinu varð miðvikudagurinn 12. júní og til að reyna nú aðeins að gera ferðalag úr túrnum var lagt upp daginn áður á hrossadráparanum með nýja tjaldvagninn hennar Dagnýjar í eftirdragi. Ég hef margoft lýst minni skoðun á þess lags draghýsum og strigahótelum af hvers kyns tagi og hvika hvergi frá, en viðurkenni að stundum verður maður að gefa hlutum séns af því það eru víst ekki allir á sömu skoðun og ég. Þess vegna eru líka til tjaldvagnar........

Það var svo sem ekkert sérstakt veður þriðjudaginn ellefta og spáin fyrir miðvikudaginn lofaði engu spánarveðri. Það átti samt að hanga nokkurn veginn þurrt, jafnvel gæti sést til sólar og vindur átti ekki að ná fellibylsstyrk. Það var því kominn tími til að tengja og með strigahótelið í eftirdragi og þrjá hunda í skottinu var ekið upp í Stykkishólm. Þar reyndust frekar fáir á tjaldsvæðinu, við völdum okkur pláss og reistum hótelið.



 Síðan tók við hefðbundin dagskrá, kvöldmatur og hundaganga. Úti við Skipavík var mjór, grasi vaxinn tangi sem hentaði sérlega vel fyrir hlauparana þrjá og meðan tvífætlingar sátu í grasi lögðu ferfætlingarnir ótalda kílómetra að baki í spretthlaupi og eltingaleik með tilheyrandi urri og gelti. 

Miðvikudagurinn heilsaði með rigningarúða sem hætti þó fljótlega og í hægri golu þornaði grasið von bráðar. Hundarnir fengu sína hreyfingu á sama stað og kvöldið áður og hamagangurinn var engu minni.  Ég leit í heimsókn til Gulla og Löllu að vanda og tók Gulla með mér í skoðunarferð um þorpið. Það er rétt að taka fram að við Gulli förum stundum svona skoðunarferðir en það sem við skoðum er frekar óhefðbundið og myndi fæstum þykja merkilegt - gamlir bátar, jafnvel bátsflök, véladrasl, húsarústir og annað sem almennt er jafnvel talið lýti á umhverfinu. Okkar skoðanir fara hins vegar saman í mörgu og m.a. því að yfirleitt megi sjá eitthvað merkilegt við hvern einasta hlut sem einhvern tíma hefur verið notaður við eitthvað...........

Siglingunni var ætlaður tími rétt eftir miðjan dag, við pökkuðum strigahótelinu saman, hengdum aftaní og  mættum tímanlega til skips. Eins og sést á myndinni var skýjað og fánar blöktu dálítið en vindáttin var suðvestlæg og Hvammsfjörðurinn sjólaus með öllu.





Svo mátti alveg sjá að sumum leiddist ekkert..........



Svo kom að brottför. Þegar komið var rétt útfyrir höfnina gerðust æðri máttarvöld svo elskuleg að hífa skýjateppið aðeins ofar svo birti verulega í lofti og með mátulegu frjálslyndi mátti greina sólarglampa á stöku stað gegnum rof. Farþegahópurinn var frekar lítill, taldi aðeins tólf, fjórtán hræður og mátti heyra fleiri en eitt og fleiri en tvö tungumál. Siglt var hefðbundna leið út að Þórishólma (mér er nær að halda að hver einasta túristasigling úr Hólminum hefjist við Þórishólma, enda stórskemmtilegur staður bæði sem náttúrufyrirbæri og fyrir fuglalíf).





Dýpið fast við stuðlabergsvegginn er um 20 metrar og tvíbytnan Særún gat því nánast nartað í stálið!



Lundinn á myndinni var hálf einmana (eða kannski einlunda) þarna uppi á eynni. Sjálfsagt hefur þetta verið hans konungsríki áður fyrr en eins og svo víða annarsstaðar hefur honum fækkað í hólmanum og ritan er tekin við ríkinu. 

Særún var látin berast með straumi austur og inn fyrir hólmann og allsstaðar var fugl, ýmist á sundi eða á syllum. Okkur Íslendingum þykir kannski ekkert merkilegt að sjá og heyra einhverja bölvaða máva en það mátti glöggt greina af hljómi annarra tungumála að upplifunin var afar sérstök.

 

Særúnu var snúið inneftir og siglt að Hvítabjarnarey þar sem sögð var sagan af skessunni í Kerlingarskarði og steininum sem hún grýtti í áttina að kirkjunni á Helgafelli en missti marks, lenti í miðri Hvítabjarnarey og klauf hana í tvennt. Sagan, sem alltaf er jafn góð var sögð á tveimur tungumálum og enn mátti greina að útlendingarnir höfðu ákaflega gaman af og þótti merkilegt að sjá steininn sem enn situr í skarðinu...



Svo var siglt innfyrir Hvítabjarnarey og litið á Byrgisklett. Það stóð passlega vel á föllum til þess að byrgið í klettinum kom glögglega í ljós en eins og sést á röndinni fer opið alveg í kaf á flóði. Mér skilst að hellirinn sé allnokkru stærri en opið og oft komi fyrir að kajakræðarar rói þarna inn.



Norðaustan við Byrgisklett var skelplógnum slakað og togað í nokkrar mínútur. Ég tók ekki tímann en gæti giskað á tvær til fimm. 



Svo var híft og ekki brást veiðin: 





Pokinn var losaður á borðið og dreift úr innihaldinu. Allt voru þetta sjávardýr sem okkur Íslendingum eru vel kunn (amk. þeim sem hafa alist upp við sjávarsíðuna) en enn var greinilegt að útlendingunum fannst þetta stórkostleg upplifun - þetta var ekki eins og á sædýrasafni, þarna mátti pota, handleika, velta um og jafnvel borða! Þau þrjú sem sáu um hlaðborðið báru nefnilega fram hvítvín í litlum flöskum og sósur til að bragðbæta skelfiskinn. Svo var hafist handa við að skera úr. 



Það var aðeins hörpuskelfiskurinn sem var borðaður. Eins og þeir vita sem þekkja til er yfirleitt aðeins borðaður vöðvinn sem opnar og lokar skelinni. Skorið var úr fyrir hvern og einn og neðri skelin rétt fram með vöðvanum lausum. Fiskurinn var svo tekinn með prjónum og dýft í sósu eftir smekk. Drengurinn á myndinni (sem við stutt spjall reyndist nákominn ættingi Dána kálfs og því auðvitað ekta Vestfirðingur) hafði ekki skorið úr mörgum skeljum þegar ég sá að hann notaði nákvæmlega sama handbragð og við krakkarnir sem unnum í skel í Rækjustöðinni á Ísafirði sumarið 1971. Ég mátti til að fá að prófa og þurfti ekki nema tvær til þrjár skeljar til að ná handtökunum (sem eru svo sem engin geimvísindi). Eftir það stóð ég með hnífinn, skar og át og eftir á að hyggja er ég hræddur um að ég hafi verið nærri því að aféta útlendingana, en hugga mig þó við að flestir þeirra voru frekar feimnir við þetta heimafengna sushi. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig hörpudiskur fjölgar sér en af því appelsínuguli, skeifulaga pokinn í innvolsinu líktist afar mikið hrognasekkjum í þorski, mátti ég til að smakka hann. Bragðið var ágætt og ég sit hér við tölvuna svo ekki var maturinn banvænn!



Svo dalaði áhuginn og fólk hvarf frá borðinu. Restinni af skeldýrunum var rutt í hafið. eflaust voru þau frelsinu fegin enda hef ég fyrir satt að þau geti lifað talsvert lengri tíma á borðinu. Svo er aftur spurning hvort einhver þeirra eru orðin pirruð á að vera með reglulegu millibili plægð upp og velt á alla kanta af forvitnum túristum áður en þeim er kastað í hafið aftur. Þeim til huggunar má benda á að hlutskipti hörpudiskins er þó öllu verra - hann er einfaldlega étinn af túristunum.

Allt gott tekur enda og svo var einnig með þennan afar skemmtilega veiðitúr. Særún tók stefnu milli Skoreyja og lands í átt til Stykkishólms og fljótlega var lagst að bryggju. Okkur var ekkert að vanbúnaði, stefnan var tekin suður og lent í Kópavogi á miðju kvöldi. 

Muni ég rétt rigndi eldi og brennisteini á leiðinni......

Flettingar í dag: 297
Gestir í dag: 130
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135264
Samtals gestir: 27952
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:45:28


Tenglar