Ég virðist ekki geta komist hjá því - sem reyndar er óhjákvæmilegt - að eldast um eitt ár í hvert skipti sem nýr júnímánuður heilsar. Ég finn svo sem engan stóran mun á mér núna og fyrir svona tíu árum eða svo, jú kannski er ég slakari öllum framkvæmdum en áhuginn er enn sá sami.
Það bar svo til um þessar mundir að enn hófst júnímánuður. Annar dagur hans var minn dagur eins og áður, annar dagurinn var líka sjómannadagur og eðli málsins (og vanans) samkvæmt lagði ég af stað upp í Stykkishólm strax að morgni. Veðrið var, gagnstætt venju þetta sumarið, alveg ágætt, þokkalega bjart og sæmilega hlýtt. Hrossadráparann bar hratt yfir og um hádegisbil eða þar fyrr var ég kominn norður fyrir nes. Af því tíminn var nægur fannst mér tilvalið að kíkja á nýjustu síldarvöðuna í Kolgrafafirðinum. Þar gekk mikið á, ég sá að vísu enga síld en fuglar himinsins sem vissulega eru skarpeygari en ég, virtust sjá eitthvað afd henni ef marka mátti allar dýfurnar. Þarna var mikið af súlu, svo mikið að lá við sólmyrkva á stundum. Það var alveg ótrúleg sjón að sjá þessa stóru fugla leggja aftur vængina og stinga sér úr mikilli hæð lóðbeint niður. Sumar stungu sér svo nálægt brúnni yfir fjörðinn að sjá mátti þær á fullri ferð undir vatnsborðinu.
Svo, líkt og hendi væri veifað datt botninn úr "fiskiríinu" hjá súlunum, líkt og síldin hefði látið sig hverfa allt í einu. Stungurnar hættu og við tók ráðleysislegt háloftahringsól. Það var því helst í stöðunni að halda áfram för og finna eitthvað nýtt að skoða. Út með Grundarfirði austanverðum er kirkjustaðurinn Setberg, gamall og gróinn. Kirkjugarðurinn er spölkorn norðan kirkjunnar og það hæfði deginum að ganga um þennan lokastað gamalla sjómanna - þ.e. þeirra sem á annað borð hlutu að endingu leg í mold. Hinir eru jú ófáir.......
Kirkjan að Setbergi er lítil, turnlaus timburkirkja, byggð árið 1892. Hún virðist hafa fengið gott viðhald og er að sjá í ágætu standi.
Staðurinn er fallegur, eins og umhverfið allt. Í Suður-Bár, skammt frá er rekin ferðaþjónusta og þar er m.a. myndarlegasti golfvöllur. Ef einhverjir sem lesa muna eftir Eddu-slysinu á Grundarfirði, þá mun það hafa verið við Suður-Bár sem nótabát Eddunnar rak að landi með hluta áhafnarinnar.
Frá Setbergi lá leiðin inn að bænum Eiði við Kolgrafafjörð og nú var stefnan tekin af malbikinu og inn fjörðinn. Þá leið hef ég ekki farið síðan brúin yfir Kolgrafafjörð var opnuð haustið 2004. Satt að segja var hreinlega eins og ég væri að aka fjörðinn í fyrsta sinn - ég mundi fátt eða ekkert frá honum frá því hann var alfaraleið um Nes. Skrýtið hvað hugurinn á til að þurrka út upplýsingar sem ekki eru framkallaðar í langan tíma......
Úr Kolgrafafirði var ekið í Hraunsfjörð, inn hann og yfir á gömlu laxaræktarstíflunni. Síðan gegnum Berserkjahraun og gamla þjóðveginn austur um allt þar til hann mætir þjóðveginum við vegamótin upp á Vatnaleiðina. Stykkishólmur var næsti áfangastaður. Það hefur áður -og oft - komið fram að ég reyni að heim,sækja Hólminn hvern sjómannadag til að komast í boðssiglinguna sem er fastur viðburður í boði Sæferða. Siglingin er venjulega farin að áliðnum degi og það var enn nokkur stund til brottfarar. Ég notaði tímann til að heimsækja gömlu hjónin Gulla og Löllu, en sú heimsókn er jafn fastur liður og siglingin sjálf. Eins og venjulega var mér tekið eins og týnda syninum. Eftir drjúgt kaffispjall var farið að hilla undir siglinguna, kominn tími til að kveðja og drífa sig um borð. Ferðin var farin á flóabátnum Baldri, eins og svo oft áður og leiðin lá um hefðbundnar slóðir, Þórishólma, Hvítabjarnarey og inn fyrir Skoreyjar.
Siglingin tók u.þ.b. klukkutíma og er í land var komið var farið að huga að næsta ætlunarverki ferðarinnar - að ganga á Helgafell. Ég er ekki mikill fjallgöngugarpur og Helgafell er ekki hátt - muni ég rétt nær það ekki hundrað metrum. Mér fannst ég yrði samt að reyna, enda vil ég alls ekki meta fjöll eftir hæð þeirra í metrum heldur miklu frekar víðsýninu af toppi þeirra. Það er hægt að klifra uppá einhverja fjallstinda úti í heimi, mörg þúsund metra og sjá svo ekki rassgat en Helgafellið með sína tæpu hundrað slær mörgu mont-fjallinu við á því sviði. Þvílíkt útsýni, maður lifandi!
Ég má til að setja hér eina mynd af sjálfum mér, til sönnunar afrekinu. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er ekki svona feitur - sýnist það bara af því vindurinn blés í úlpuna.....
Í þessum litla reit við hlið kirkjugarðsins er minningarsteinn um Guðrúnu Ósvífursdóttur. Kannski er leiði hennar þarna undir, kannski ekki. Kannski er þetta bara gert fyrir túrista með söguáhuga.
Degi var farið að halla, næsti áfangastaður var Olís í Borgarnesi þar sem fæst djúpsteiktur fiskur. Hvað var meira við hæfi á sjómannadegi en að ljúka honum með fínni fiskmáltíð?
Það rigndi í Reykjavík um kvöldið..........ótrúlegt en satt!
Í lokin er rétt að taka fram, svo allrar sanngirni sé gætt, að ég tók fæstar myndanna, ef nokkrar. Elín Huld var með í för enda mun betri myndasmiður......