Í síðasta pistli bar dálítið á minnisleysi, kannski aldurstengdu, kannski tengdu athyglisbrestinum en kannski líka vegna þess að það er fljótt að fenna yfir ómerkilega hluti eins og stuttar ferðir á löngu kannaðar slóðir. Samt er það einhvern veginn þannig að í hverri ferð má sjá eitthvað nýtt, beri maður sig á annað borð eftir því. Það er hægt að aka sömu leiðina mörgum sinnum án þess að sjá nokkuð nýtt, en renni maður svo augunum dálítið út fyrir hefðbundna sjónlínu má oft sjá eitthvað sem ekki hefur vakið athygli áður. Stundum er það eitthvað nauða ómerkilegt, svona rétt eins og hálfhulin heimtröð að hálfföllnu eyðibýli.
Svo gerist það að maður beygir inn á þessa hálfósýnilegu heimtröð og kemst að því að við enda hennar, í hvarfi bak við hóla og hæðir, standa rústir sveitabýlis sem á langa og merkilega sögu. M.a. hefur heil sýsla verið nefnd eftir þessu býli og nóbelsskáldið (dálítið merkilegt að hjá sögu-og sagnaþjóðinni er nóg að nefna "nóbelsskáldið". Við eigum nefnilega bara eitt, og það mun vera nær mannsaldur síðan það fékk sín verðlaun.....) hefur m.a.s. skrifað um heimsókn þangað á sínum sokkabandsárum.
Kannski skilur enginn bofs í þessum skrifum, en kannski hefur einhver áttað sig á að ég er að skrifa um býlið Bringur, sem ekki ómerkari sýsla en Gull-Bringusýsla er nefnd eftir (ritháttur sýslunafnsins er hins vegar minn eigin). Sé ekið um þjóðveginn fram Mosfellsdal er afleggjarinn að þessu merka eyðibýli til hægri spölkorn ofan við Gljúfrastein. Hann liggur þráðbeint út frá malbikinu, upp dálitla hæð og hverfur yfir hana. Þetta er stutt leið og við enda hennar er upplýsingaskilti. Síðasta hluta leiðarinnar að eyðibýlinu þarf að ganga og þá er ekki verra að hafa með sér myndavél því í farvegi neðan heimatúnsins rennur Kaldakvísl og í henni fellur Helgufoss í afar fallegu gili. Kaldakvísl rennur svo áfram niður Mosfellsdal og undir þjóðveg eitt í öðru fallegu gili rétt við nýja húsahverfið í Leirvogstungu.
Rétt ofan við afleggjarann að Bringum er svo annar til vinstri ( norðurs) sem merktur er Hrafnhólar, muni ég rétt. Sé beygt inn á þann afleggjara og ekið spölkorn hverfur veröldin eins og við þekkjum hana og við tekur sú sem var - maður dettur svona fimmtíu, sextíu ár aftur í tímann og Reykjavík sést ekki. Aðeins hólar, ásar, stöku sveitabæir þar sem jú, ókei, hestamenn hafa komið sér fyrir í stað fjár-og kúabænda áður og sjá má stöku Landkrúser og Reinsróver í stað Willy´s-jeppa. Reykjavík er eins víðs fjarri og hugsast getur og hvílíkur léttir, trúið mér !!
Sveit í borg...............
Sé maður vel akandi ( og þá er átt við jeppling ekki síðri en svarta hrossadráparann) má aka gegnum dalinn, yfir ársprænur, læki og polla til vesturs, þá liggur leiðin meðfram Leirvogsá allar götur niður að iðnaðarhverfinu á Esjumel. Vilji einhver hins vegar halda áfram að skoða fossa má finna enn einn afleggjarann til hægri af Hrafnhólavegi. Sá er einfaldlega merktur Tröllafoss og leiðir að samnefndum fossi í Leirvogsá ofanverðri. Ekki er Tröllafoss nú neitt tröllvaxinn í samanburði við marga aðra, en það er heldur ekkert gull í Gullfossi......
Ég var jú í huganum kominn niður á Esjumel hér áðan og best að halda áfram þaðan. Þegar ekið er út úr iðnaðarhverfinu og beygt eins og mann langi helst heim til Ísafjarðar (þ.e. til vesturs/hægri) kemur maður nær strax að gatnamótum, rækilega merktum Álfsnes. Þar fá Ísafjarðardraumarnir snöggan endi því leiðin liggur til vinstri á þessum gatnamótum og út á nesið þar sem Reykvíkingar og nærsveitamenn urða sorpið sitt. Á nesinu, sem er talsvert landmikið, er einnig skotæfingasvæði og líklega vissara að halda sig sem lengst frá því. Á leið út nesið standa þessi listaverk, unnin æfðum höndum úr áli en ómerkt með öllu og fátt eða ekkert um þau finnanlegt á netinu:
Ef einhver veit eitthvað um þessi listaverk væri gaman að heyra af því.....
Sveitabýlið Álfsnes er nú aðstaða fyrir starfsmenn sorpurðunarsvæðisins og þar er allt hið snyrtilegasta og vel um gengið. Eitt vakti þó sérstaka athygli: Skammt frá býlinu er skurður í landið og ég sá ekki betur en hann væri fullur af dósum og flöskum. Mátti til að athuga þetta betur og það var rétt: Í skurðinum og kringum hann á þónokkru svæði voru dósir og flöskur í hundraðavís - ef ekki þúsunda-. Ég gat ekki að mér gert að hugsa hvort þetta væri öll endurvinnslan sem verið væri að borga fyrir þegar fólk kæmi með tómu ílátin á móttökustöð og skipti þeim fyrir aura. Ég hugsa að ég hefði getað aurað saman fyrir utanlandsferð með öllum þeim dósum og flöskum sem þarna lágu á víð og dreif. Ja, allavega góðri ferð innanlands með hóteli og öllu..........
Áfram um eitt skref, til suðurs framhjá sorpurðunarsvæðinu og því svæði sem metangasvinnslan er á, í átt að hælinu í Víðinesi. Enn liggur afleggjari af okkar leið, nú mjög ógreinilegur til hægri og út nesið til móts við Þerney, sem liggur þarna skammt undan landi. Þarna kemur sér vel að vera akandi á hrossadrápara því slóðinn er afleitur, alla leið niður í fjöru gegnt Þerney. Í fjörunni er vinnuskúr, gámar og sitthvað fleira, enda hefur mér skilist að starfsmenn Húsdýragarðsins hafi þarna aðstöðu og Þerney sé notuð sem "sumarleyfisstaður" fyrir dýr úr garðinum. Ekki kann ég meira frá því að segja en flest þarna í fjörunni var lúið og þreytt:
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Álfsnesbæinn í baksýn. Á þeirri hér fyrir neðan er horft frá landi út til Þerneyjar:
Það var ekki meira að sjá þarna í fjörunni svo slóðinn var þræddur til baka. Þegar upp á "almennilegan" veg kom var haldið áfram þar sem frá var horfið, beygt til suðurs og ekið inn á hlað við Víðineshælið. Ekki er ég alveg með á hreinu hvað kalla á þennan stað. Eitt sinn var þarna drykkjumannahæli, eins og það var kallað í minni sveit. Síðar var um árabil rekið heimili fyrir heilabilaða í Víðinesi. Öllum rekstri þarna var hætt fyrir fáum árum og það er hreint sorglegt að sjá hve húsunum hefur hrakað. Þetta eru ekki gamlar byggingar en af þeim má tvennt ráða: Líklega hefur ekki verið sérlega vandað til þeirra í upphafi og viðhaldi seinustu starfsárin hefur verið verulega ábótavant. Af því í umræðu um staðsetningu nýs fangelsis kom Víðines til greina en var sópað út af borðinu, þá sýnist mér menn hafa farið dálítið fram úr sér. Ef einhver staður gæti orðið fangelsi með skikkanlegum tilkostnaði myndi ég halda að þarna væri staðurinn og enginn annar. Staðurinn er afskekktur en þó nánast inni í borginni, húsin eru til staðar ( þau lélegustu hafa þegar verið rifin og jafnað yfir) og fátt eitt að gera nema girða sæmilega kringum svæðið. Ég er nær hundrað prósent klár á því að flestir þeirra sem þarna yrðu dæmdir til dvalar tækju fegins hendi tækifæri til að taka til höndum og bæta og lagfæra húsakostinn sjálfir. Það er fátt verra en iðjuleysi og m.t.t. þess hvernig að málum er staðið á Kvíabryggju hlýtur að vera hægt að nýta þessi hús á svipaðan hátt.
Deginum var farið að halla verulega, svona eins og oft áður þegar maður kemst á kaf í eitthvað skemmtilegt, og tími til kominn að halda heim í kjúkling á KFC. Þó ég muni það ekki alveg, er líklegt að á eftir hafi fylgt ís á Aktu-Taktu.
........og af því ég var nú farinn að prédika hér ofar, þá má ég til að nefna að vilji fólk fá ís með lúxusdýfu sem er líkust múrhúð, þá er ráðið að fara á Aktu- Taktu.
Kannski kemur að því að Víðines verði nýtt sem meðferðarstöð fyrir ísfíkla. Ég veit hver yrði vistmaður númer eitt.......