Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


11.06.2013 08:05

Rekið um í reiðileysi - annar hluti

Næst var það Borgarfjörður. Af því ég er farinn að tapa minni - eða það held ég allavega - þá man ég ekki hvers vegna leiðin lá þangað, en eitthvert erindi átti ég þó. Ég man heldur ekki hvernig svo æxlaðist að Elín Huld fór með. Það er eins og mig minni að það tengist eitthvað fyrirlestri sem Einar Kárason hélt í Sögusetrinu í Borgarnesi, um skáldið Sturla Þórðarson. Hvort fyrirlesturinn var orsök eða afleiðing man ég ekki......

Allavega var fyrsti viðkomustaður - ég á alltaf í vandræðum með að koma beint að efninu og það á líka við ferðalög, ég kemst sjaldan beint á áfangastað - Akranes. Ég hef svo sem oft komið áður til Akranesar, svo enn sé vitnað í sjónvarpskonuna sem ég nefndi síðast. Nú datt mér hins vegar í hug að rannsaka nokkra spotta sem liggja út frá þjóðveginum við norðanvert Akrafjall. Nálægt steypustöðinni og gámastöð Akurnesinga liggur spotti til suðurs í átt að rótum Akrafjalls. Þar, þ.e. undir fjallsrótunum, mátti sjá nokkurn fjölda bíla og er nær dró mátti álykta af umferð og búnaði gangandi fólks að skipulögð hópganga á fjallið væri á niðurleið. Þarna innfrá var einnig mannvirki sem líklegast er vatnsból Akurnesinga og minnti nokkuð á hið gamla vatnsból Ísfirðinga á Dagverðardal - sem einnig var vinsæll sundstaður sauðfjár á svæðinu. Mér sýndist frágangur Skagamanna þó betri á vatnsbólinu þeirra. Vegurinn reyndist liggja í hring og eftir stuttan akstur var komið inn á malbikaða þjóðveginn vestan undir Akrafjalli. Annar áhugaverður spotti lá til norðurs, nærri tjaldsvæði bæjarins. Hann lá í sveigum og bugðum til austurs að hluta en endaði við lága klettavík í fjörunni. Á ýmsu mátti sjá að þarna væri göngu- og útivistarsvæði, sjá mátti borð og bekki, minnismerki og svo þennan afar sérstaka stein: 



Á nálægu skilti mátti lesa útlistun á tilveru steinsins:



Þið afsakið glampann á myndinni, sólarglennan sem gerði þennan dag dugði til að skemma myndir en ekki til að ylja upp veröldina, hún mátti sín lítils gegn ísköldum vindbelgingnum. Þarna má semsagt með þolinmæði lesa um þær systur Elínu og Straumfjarðar - Höllu. Í framhaldi af myndatökunum lá beint við að máta ferðafélagann í sæti nöfnu sinnar. Af myndinni má marka að afturhluti Elínar Höllusystur muni hafa verið allmiklu fyrirferðarmeiri en mátsins........




Ég man núna allt í einu hver megintilgangur ferðarinnar var. Hann var sá, að mynda í bak og fyrir aflagðan fjallabíl sem vistaður er á afviknum stað í Borgarfirði. Ég er trúaður á framhaldslíf (farartækja) sér rétt á málum haldið og einn félagi minn er sömu trúar. Honum voru myndirnar ætlaðar. 

Leiðin mun næst hafa legið í Borgarnes (eða til Borgarnesar, svo enn sé vitnað í þann fræga sjónvarpsþátt, Djúpu laugina) og að öllum líkindum hefur verið áð í Geirabakaríi við brúarsporðinn. Ég man það ekki en ágiskunin er góð í ljósi þess að ég kem helst alltaf við í Geirabakaríi. Næsti áfangastaður var svo bíllinn (hér langar mig að bæta við "góði" en ég veit ekkert hvort hann er góður svo ég sleppi því bara) sem ætlunin var að mynda. Það var gert vel og vandlega, en myndirnar eru afar viðkvæmt trúnaðarmál að sinni. Eitt má ég þó segja - trú mín á framhaldslíf farartækisins styrktist heldur við nánari skoðun.

Annar útúrdúr: Þegar við Arnar þór Gunnarsson, fyrsta eggið í hreiðrinu okkar, spjöllum saman um ferðir og ferðalög, minnir hann mig stundum á eitt sem ég sagði við hann fyrir langalöngu. Það var eitthvað á þá leið að færi maður í bíltúr eitthvert út úr bænum ætti maður helst ekki að velja sömu leið til baka væru aðrir kostir í boði. Í Borgarfirði er eitthvert þéttasta spottakerfi landsins og venjulega um nokkra möguleika að ræða vilji maður breyta um bakaleið. Í þessu tilfelli lá leiðin suður af þjóðvegi eitt, um Ferjukot og gömlu Hvítárbrúna. Við syðri sporð brúarinnar er gamall sumarbústaður, skammt frá er enn eldri kofi og á hól á árbakkanum er minnisvarða, með sama sniði og víðar má sjá í Borgarfirði. M.a. hef ég birt mynd af annarri samskonar uppi á Mýrum. Sú er til minningar um Ána, einn af hásetum Skallagríms. Áni þáði jörð að gjöf frá Skallagrími og gaf nafnið Ánabrekka. 



...og svo varðan við sporð Hvítárbrúar, sem minnir með áletruninni: "Hvítárvellir - hér var kaupstefna til forna" á hinn gamla  verslunarstað er þar stóð:



Heiðurshundurinn Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff notaði tækifærið og eftir að hafa merkt sér vörðuna kannaði hann strúktúr sjálfar brúarinnar:



....og svo ein af kofanum og farartækinu:



Enn var ekið, nú um spotta sem liggur af malarveginum við býlið Hvítárvelli og til austurs (eða það fannst mér allavega). Á vegskilti stendur "Reykholt" og kílómetratala sem telur eitthvað tæpa þrjá tugi. Þennan spotta hafði ég ekki ekið svo ég myndi og beygði því inná hann. Ekki hafði langt verið ekið er umhverfið rifjaðist upp og þegar veiðihöllin við Grímsá kom í ljós mundi ég að ég hafði ekið þennan veg fyrir rúmum áratug á Járntjaldinu sáluga. Nú var fararskjótinn sjálfur Hrossadráparinn og var auðvitað eins og svart og hvítt.

Þessi merkti vegspotti reyndist svo ekki nema lítill hluti þeirra tæpu þrjátíu kílómetra sem tilgreindir voru á skiltinu, von bráðar vorum við komin út á malbikaða Húsafellshraðbrautina og beygðum til suðurs.

Ekinn var hringur um Hvanneyri og litið á helstu byggingar. Þaðan var ekið að Hreppslaug, sem í dag er í fréttum vegna rekstrarerfiðleika og skuldabagga s.l. sumars. Eins og fram kemur í frétt dagsins glímir laugin við sama reglugerðarfarganið og tröllríður flestu hér á skerinu, enda samevrópskt og stórborgarmiðað að flestu leyti. Mér fannst þetta slæmar fréttir því Hreppslaug við Andakíl er ein þeirra sundlauga á listanum mínum sem ég hef enn ekki heimsótt, þrátt fyrir margar tilraunir hefur mér aldrei tekist að hitta á opnunartímann. Ég ætla sannarlega að vona að takist að opna laugina í sumar svo ég geti prófað hana og merkt við á listanum, sem nú telur um eða yfir áttatíu heimsóttar laugar.

Frétt mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/11/hreppslaug_ad_drukkna/

Heimtröðin af þjóðveginum um sunnanverðar Borgarfjörð að Hreppslaug liggur áfram yfir lágan háls yfir í Skorradal. Af þessum hálsi var fallegt útsýni norður yfir sveitirnar og uppi á honum gat að líta skilti með ekki síður fallegri mynd. Ég gat ekki betur séð en þekkja mætti fyrrum umhverfisráðherra á henni, í rjúpulíki:



Deginum var, þegar þarna var komið, farið að halla verulega og maginn kallaði á fóður. Olíssjoppan í Borgarnesi en ein fárra vegasjoppa sem býður upp á djúpsteikta fiskrétti og er góð tilbreyting frá pizzum og hamborgurum. Það var ekkert hægt að kvarta undan plokkfiskinum þeirra...........

Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 217
Flettingar í gær: 1205
Gestir í gær: 620
Samtals flettingar: 139373
Samtals gestir: 29414
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:13:26


Tenglar