Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


05.06.2013 09:25

Rekið um í reiðileysi...

Klukkan er rétt að verða hálftíu á miðvikudagsmorgni og af því ég nenni engu öðru í augnablikinu ætla ég að gefa mér hálftíma í skrif. Önnur verkefni bíða uppúr tíu.

Á dögunum rak mig austur fyrir fjall. Það gerist stundum að mig langar að skreppa eitthvert, og ef þokkalega viðrar læt ég það eftir mér - það er ekkert til að stoppa mig hvort eð er. Leiðin lá til staðar sem mig hefur lengi langað að skoða en aldrei orðið af. Sumir staðir eru einfaldlega of nálægt manni. Þannig er um Laugardæli, rétt utan (austan) Selfoss (eða Selfossar, eins og Dóra Takefusa beygði nafnið svo snilldarlega í einhverjum sjónvarpsþætti). Að Laugardælum stendur sérstaklega falleg kirkja sem um margt svipar til Selfosskirkju en ber einnig svip af kirkjunni á Húsavík og jafnvel fleirum sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði, svosem kirkjunni að Undirfelli í Vatnsdal:


(ómerkt mynd fundin á netinu. Sjá líka http://www.kirkjukort.net/kirkjur/undirfellskirkja_0276.html )
 

Allt um það er Laugardælakirkja afar fallegt hús:







Framan við kirkjuna er leiði stórmeistarans Bobby Fischer, en megintilgangur ferðarinnar var að líta á það:



Að Laugardælum hefur löngum verið stórbýli. Ekki veit ég hver staða búskapar er nú en þetta gamla fjós hefur allavega lokið sínu hlutverki. Það minnti raunar dálítið á svipaðar byggingar sem ég hef séð úti í Danmörku - sumar voru þar jafnvel í svipuðu formi og þessi:





Við íbúðarhús í grendinni stóð þessi aldni höfðingi og virtist, fljótt á litið, í fínu formi. Ég man í fljótu bragði eftir tveimur álíka heima á Ísafirði. Öðrum ók Kristján Reimarsson pípulagningameistari og hinum Hermann heitinn Jakobsson:



Líklega hef ég svo, að lokinni skoðun á öllu því sem mér fannst skoðunarvert, fengið mér að borða á veitingastaðnum Kaktus á Selfossi. Ég nota hvert tækifæri sem gefst til að borða á þessum snyrtilegasta veitingastað landsins. Af máltíðinni á ég hins vegar enga mynd.

Klukkan er orðin tíu og tíminn útrunninn. Bæti við þetta síðar í dag.

Viðbót kl. 23.15: Var að koma heim eftir snúninga dagsins og vil frekar fara að sofa en skrifa meira. 

Flettingar í dag: 239
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135206
Samtals gestir: 27929
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:47:58


Tenglar