Ef marka má veðurspár er veturinn að koma aftur. Það er dálítið snúið, satt að segja var það ekki alveg á teikniborðinu hjá mér að fá kulda og jafnvel snjó. Stakkanesið hefur fengið smá hugg undanfarið, einnig sjúkrabíllinn. (sem ég hef velt fyrir mér hvort eigi að fá nafn. Í ljósi þess að ferðabíllinn hefur stundum verið kallaður Arnarnes, trillan heitir Stakkanes og litli, forljóti plastbalinn sem gengt hefur hlutverki landbáts hefur stundum, með skírskotun til sköpulagsins verið kallaður Fagranes, hefur sú hugmynd komið upp að kalla sjúkrabílinn Langanes. Hann er jú lengsta gerð af Econoline svo það gæti svo sem alveg passað, auk þess sem Langanes er nesið sem skilur milli Dynjandivogs og Geirþjófsfjarðar í Arnarfirði og því rammvestfirskt nafn....)
Svo hefur verið unnið nokkuð drjúgt í öðrum uppsöfnuðum verkefnum, s.s. Isuzuvörubílnum. Ég hélt að það, að vera heimahangandi atvinnuleysingi myndi færa mér nægan tíma til að sinna öllu fyrirliggjandi en svo er alls ekki. Dagarnir eru ótrúlega stuttir þó þeir séu teknir jafnsnemma og venjulega og þótt sífellt sé nagað í verkefnalistann virðist hann aðeins lengjast í hinn endann, því alltaf kemur maður auga á eitthvað nýtt sem þarf að bæta og breyta.
Það er bjart úti, sól í sinni og ég er á leið upp í Borgarfjörð til að kíkja á bláu rútuna einu sinni enn. Við General Bolt-on erum sammála um að nú verði eitthvað að fara að gerast í hennar málum. Vetrarskot gæti skekkt þær hugmyndir en staðreyndin er samt ljós - það þarf að fara að koma bílnum suður! Svo væri kannski ekki úr vegi að kíkja á Sverri Guðmunds og Amalíu, ef þau eru í sumarhöllinni sinni við Galtarholt. Allavega ætla ég að ljúka deginum á uppistandi/fyrirlestri Einars Kárasonar í Landnámssetrinu í Borgarnesi, þar sem umfjöllunarefnið er Sturla Þórðarson. Sturla var uppi á þrettándu öld, merkilegur maður fyrir margra hluta sakir og, eins og segir í "prógramminu", nokkurs konar Forest Gump sinnar tíðar. Allsstaðar þar sem eitthvað var að gerast var Sturla Þórðarson, ef ekki sem beinn þátttakandi, þá sem áhorfandi.
Svo vona ég bara að ég nái heim áður en veturinn skellur á..........