Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


19.12.2012 22:53

Og jólin nálgast.....

Hér í Höfðaborg var tekin pólitísk ákvörðun á dögunum. Hún er nokkurn veginn á þá leið að jólin komi þann 15. desember og standi -reyndar líkt og hjá öðrum- fram yfir þrettándann. Þetta þýðir að frá og með 15. des. er aðeins unnið að því sem lýtur beint að jólaundirbúningi og allt viðgerðarbrölt er lagt til hliðar. Engin regla er án undantekninga og ég þarf örlítið að hugga farartæki fyrir sjúkrahússliggjandi félaga um hátíðirnar en annað ekki.

Svo var víst einhverjum raflögnum ólokið í vinnuplássinu, ljós vantar og tenglar eru á röngum stöðum. Kannski verði gripið í þessháttar verkefni þegar hlé verður á konfektáti og bókalestri. Vörubílskrílinu var ekið -fyrir eigin vélarafli auðvitað- út úr húsi á dögunum. Einn prufuhringur var ekinn um hverfið, ekki langur því apparatið er ekki á númerum en þó nógu langur til að komast að því að allt virkaði nokkurn veginn eðlilega. Bílnum var svo lagt á sama stað og áður, niðri við Stálver í nágrenni Stakkanessins. Þar bíður hann þess að röðin komi að honum aftur. Það eru einhverjar vikur í það.


Það er orðið afar jólalegt hér uppi hjá okkur Áróru. Búið að tjalda því skrauti sem tjaldað verður að jólatrénu slepptu - við ætlum ekki að hafa neitt jólatré í ár. Við höfum heldur enga útiseríu. Eðli málsins samkvæmt erum við ekkert að auglýsa okkur hér, en þetta er þá í fyrsta sinn síðan jólin 1986 að við höfum enga útiseríu. Áróra var reyndar ekki til árið 1986 en þau jól settum við fyrst upp seríu á litla húsinu að Króki 1 á Ísafirði.

Sú hugmynd kom upp að sækja Stakkanesið í geymsluna, planta því hér utan við dyrnar og hengja á það slönguseríuna sem ég notaði tvenn jól heima á Lyngbrekkunni. Svo sá ég jólaveðurspána í kvöld.....

Miðað við þá spá er Stakkanesið best óhreyft.

Eitt að lokum: Ég hef sett inn nýjan tenglaflokk með tengingum á eldri síðurnar. Mig grunar að rannsóknarlögreglumaðurinn sem gerðist fingralangur hér um árið og gerði mitt efni að sínu undir eigin nafni á eigin síðu láti þessháttar athæfi eiga sig framvegis. Þess vegna opna ég tenginguna á milli að nýju ef einhvern langar að fletta upp í eldra efni. Það má gjarnan bæta því við að einhverra hluta vegna þýðir ekki að "gúggla" neitt af því sem skrifað var á Vísisbloggið - það kemur ekki fram. Hins vegar kemur allt fram sem skrifað var á blog.central  og blogger.com. Kannski nennir einhver að gramsa í þessum gömlu skrifum......

Flettingar í dag: 239
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135206
Samtals gestir: 27929
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:47:58


Tenglar