Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


31.07.2012 22:17

Átta daga ferðin # 3.

Upp rann hinn fimmti dagur - miðvikudagurinn 18. júlí. Þegar ég vaknaði á húsbílastæðinu hans Ella Odds í Neðsta áttaði ég mig á að ég hafði sofið í einum dúr alla nóttina - nokkuð sem er afar sjaldgæft. Ég áttaði mig líka á fleiru, t.d. því að klukkan var hálfsjö og það var hávært lyftaraskrölt sem hafði vakið mig. Hvern andskotann voru menn að raska ró sofandi ferðafólks sem greitt hafði peninga fyrir svefnfrið, klukkan hálfsjö að morgni? M.a.s. hörðustu lyftarajaxlar frystihúsanna höfðu ekki hafið störf á þeim tíma. Hvað gekk á? Heilabúið var dálitla stund í gang en svo áttaði ég mig á því að aðeins eitt gat valdið þessum lyftaragassagangi á þessum ókristilega tíma. Það hlaut að vera komið skemmtiferðaskip. Ég reis upp við dogg (en þetta orðatiltæki, að rísa upp við dogg, finnst mér skemmtilegt. Ég nota það hér vegna þess að á sama augnabliki og ég reisti mig upp risu doggarnir Tjörvi og Orri einnig upp í búrum sínum) og gerði smárifu á gardínu ferðadrekans. Tilgátan var rétt, það var komið skemmtiferðaskip og það var verið að færa til eitthvað dót á höfninni því tilheyrandi. Ég hlustaði á skröltið töluverða stund, af því ég er svo þolinmóður að ég get hlustað á svona truflun langa stund án þess að fara og beita einhvern ofbeldi. Samt velti ég fyrir mér þessum hrikalega ókosti annars frambærilegs gistisvæðis þarna í Neðstanum. Klukkan varð hálfátta og á slaginu þurfti einhver alverdens fáviti að mæta til vinnu í nágrenninu á krosshjóli, og nýta Ásgeirsgötuna enda til enda til að fíla kraftinn í smellitíkinni. Þvílíkur andskotans, djöfulsins hávaði og þvílíkt botnlaust heila- og tillitsleysi við ferðalangana sem sváfu í húsbílunum sínum á svæðinu!!  Mér var farið að renna verulega í skap og ég var virkilega farinn að upphugsa einhverja skelfilega aftökuaðferð ef ég næði í mótoristann morgunglaða. Í þessum vangaveltum miðjum varð klukkan átta og á hjólbarðaverkstæðinu í fimmtíu metra fjarlægð hófu lofthamrarnir upp söng sinn við langan flutningatrailer sem lagt var við gafl hússins húsbílastæðismegin. Áhöfnin á Arnarnesinu, bæði tví- og ferfætlingar átti ekki annars úrkosti en að fara á fætur og framreiða morgunverð. Það var meira en dagsljóst að á þessu gistisvæði réðu plásskaupendur ekki sínum eigin fótaferðartíma, heldur var það athafnalíf bæjarins sem rak menn á lappirnar.

Það hafði rignt talsvert um nóttina og um morguninn rigndi enn þótt minna væri. Við yfirgáfum blettinn okkar með litlum söknuði og ókum af stað upp í bæ. Litum á skemmtiferðaskipið og hafnarlífið, lögðum svo bílnum í bænum og kíktum í verslun. Því næst lá leiðin inn í Súðavík aftur, við höfðum ekið gegnum þorpið á hraðferð daginn áður vegna leka dekksins og ég lofaði kokknum og kortalesaranum að bæta úr. Í Súðavík var litið á Raggagarð og fleira skoðunarvert, og eftir um tveggja tíma viðdvöl á staðnum var enn lagt af stað, nú til baka alla leið út í Bolungarvík. Þar var rennt um og bærinn skoðaður eins og hægt var milli regndemba, sem höfðu skollið yfir öðru hverju allt frá morgni. Í betra veðri hefði verið gamana að ganga fram að surtarbrandsnámunni að Gili en nú var það varla viðlit. Mig hafði langað að fara upp á Bolafjall og sýna henni Dagnýju konungsríkið mitt, Djúpið, Jökulfirðina og allt annað sem þaðan ber fyrir augu, en við sáum varla Bolafjallið sjálft fyrir þoku, hvað þá meira. Dagskráin var að tæmast, aðeins einu atriði var ólokið. Við áttum eftir að heimsækja vinafólk á Ísafirði sem við höfðum mælt okkur mót við daginn áður. Þangað snerum við okkur næst og eftir góðan vinafund var blásið til brottfarar og Ísafjörður kvaddur að sinni. Dvölin í heimabænum hafði aðeins verið rétt rúmlega sólarhringur og förinni var heitið til Suðureyrar. Það birti heldur til er leið á daginn og á Suðureyri var fallegasta veður. Við ókum gegnum þorpið allt út í Staðardal, snerum þar og heimsóttum bæjarsjoppuna. Um leið litum við á tjaldsvæðið því tími var kominn til að huga að næturgististað. Ég hefði svo sem alveg verið til í að gista þetta ágæta svæði á sjávarkambinum og hlusta morguninn eftir á lífæð þorpsins, smábátana, sigla til hafs. Það varð hins vegar að samkomulagi að klára Vestfjarðagöngin og aka til Flateyrar, þar sem er frábært tjaldsvæði, prýðilega staðsett og gulltryggt að næstu nágrannar gera gestum ekki rúmrusk, enda flestir lagstir til hvíldar fyrir árum og áratugum. Við  lögðum drekanum á góðum bletti í skjólsælu rjóðri - ekki það að við þyrftum skjól, það var dauðalogn - og "græjuðum grillið". Úr varð dýrindis kjúklingaveisla að hætti Dagnýjar og Orri og Tjörvi fengu sinn Platinum hundamat með ábót. Eftir kvöldmat og uppvask var svo farin gönguferð um þorpið enda til enda með hundana, að henni lokinni settist hundaeigandinn í hægindastól með prjónana sína en við þrír gengum annan hring um þorpið og nú ennþá ýtarlegri. Það mátti eiginlega heita að komin væri nótt þegar við snerum til baka til bílsins og bjuggumst til svefns. 

Ég læt þetta duga núna. Sjötti dagurinn var langur og viðburðaríkur, auk þess sem ég þarf að fara að klippa myndirnar inn í frásögnina. Þær eru allar ómerktar í albúminu og mig hefur vantað réttan netvafra til að geta unnið þær. Nú er hann kominn og ekkert til fyrirstöðu nema klassískur tímaskortur.....
Flettingar í dag: 722
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 71
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 156964
Samtals gestir: 32393
Tölur uppfærðar: 1.7.2025 16:36:20


Tenglar