29.07.2012 10:04
Þriðji dagurinn, mánudagur, heilsaði með sól og blíðu. Það var frekar fátt á tjaldsvæði Urðartinds í Norðurfirði og ágætt rými fyrir frændurnar Orra og Tjörva til að spretta aðeins úr spori. Strandveiðibátarnir sem kvöldið áður höfðu fyllt bryggjurými staðarins voru allir löngu farnir út og þar með Kristmundur á Lunda, líkast til dálítið syfjaður eftir raskið kvöldið áður. Á áætlun þenna dag var sund í lauginni að Krossnesi og síðan ferð yfir til Ingólfsfjarðar og Ófeigsfjarðar. Við byrjuðum í Krossnesi að loknum morgunmat. Þar var laugarvörður Páll Lýður Pálsson frá Reykjarfirði, smiður og vélsleðaferðalangur, félagi Kristmundar í Stálveri. Laugin var fín og öll aðstaða til fyrirmyndar, mun betri en ég hafði búist við. Þá er staðsetningin, niðri við fjöruborðið, einstök og ákaflega skemmtileg.
Dálitlu utar en Krossneslaug er eyðibýlið Fell á vegarenda. Þar voru hús ágætlega uppistandandi utan hvað þakjárn var farið að fjúka af útihúsum enda fór býlið í eyði um ´94. Eftir sundlaugarferðina var ætlunin að aka út að Felli en vegurinn var seinfarinn og tilgangurinn aðeins sá að aka á enda hans. Það var ekkert sérstaklega göfugur tilgangur, svona þannig séð og eftir stuttar samningaviðræður um borð í Arnarnesinu var ákveðið að snúa við og nýta tímann í annað. Eftir snúning á þröngum vegi hoppaði ég út til að taka myndir og um leið kom bíll! Það var svo sem auðvitað að hægt væri að vera fyrir öðrum í þessu einskismannslandi og ég bölvaði hressilega fjandans túristunum, alveg þar til ég sá ekilinn. Þar var nefnilega kominn stórvinur minn, Þorbjörn Steingrímsson á Garðstöðum við Djúp, brotajárnsbóndi með meiru. Við Bjössi áttum fínt spjall þarna í kantinum, svo hélt hvor sína leið.
Stefnan var tekin á Ingólfsfjörð, ekið inn að Melum í Trékyllisvík og beygt þar upp hálsinn sem skilur milli fjarða. Hálsinn er frekar lágur og auðekinn flestum bílum nema þeim allralægstu. Þó eru tvær dálítið brattar beygjur rétt ofan við Eyri í Ingólfsfirði sem gætu verið erfiðar afturþungum, framhjóladrifnum húsbílum á uppleið. Uppi á há-hálsinum mættum við Pétri í Ófeigsfirði Guðmundssyni á stórum sendibíl. Við erum málkunnugir enda er Pétur einn af fastagestum í Stálveri hjá Kristmundi. Ég hafði boð að bera Pétri frá Kristmundi en þau reyndust þá þegar hafa skilað sér eftir öðrum leiðum. Áfram var því haldið og næst staldrað við hjá gömlu síldarverksmiðjunni á Eyri. Þar eru mikil mannvirki enn uppistandandi þó talsvert hafi verið rifið af fallandi og fjúkandi skemmum og skúrum. Við heilsuðum uppá kríuna og kíktum á gríðarstóran, steinsteyptan lýsistank sem stendur ofan og innan við verksmiðjuhúsin. Þeir sem hafa séð sjónvarpsmynd Hrafns Gunnlaugssonar, "Blóðrautt sólarlag", muna eflaust eftir atriðinu þegar Helgi heitinn Skúlason klifraði inn í álíka tank á Djúpavík og hrópaði svo undir tók, til að láta bergmála. Ég gerði þetta sama þarna að Eyri og get fullyrt að ég hef aldrei á ævinni heyrt annað eins bergmál! Það var hreinlega eins og allur þessi dauðakyrri fjörður nötraði af hávaðanum.
Inni við botn Ingólfsfjarðar stendur samnefnt eyðibýli, í ágætri hirðu og sumarnotkun. Fyrir miðjum botni stóðu nokkrir bátar á fjörukambinum og einn þeirra vakti sérstaka athygli. Þar var komin 1601, Hrönn, fyrrum KE en nú ST. Raunar var varla hægt að lesa neitt að gagni nema nafnið á stýrishúsinu, en það var svo sem alveg nóg. Ég var oft og lengi búinn að reyna að afla mér upplýsinga um afdrif þessa fallega, fjögurra tonna dekkbáts án árangurs. Svo þegar ég loks hitti mennina sem hefðu getað sagt mér allt sem ég vildi vita, mundi ég ekki eftir að spyrja. Það var líklega árið 1988 sem Hrönnin var í Bolungarvík, í eigu Flosa og Finnboga Jakobssona. Þeir höfðu keypt bátinn til að hirða af honum kvótann og restin var til sölu á því verði sem þá gekk fyrir kvótalausa trébáta - sama og ekkert! Ég var kominn með aðra höndina á bátinn þá en þar sem annar - heimamaður - hafði verið búinn að biðja um hann á undan og sá var ákveðinn í að taka hann, missti ég af kaupunum. Hrönnin var smíðuð í Stykkishólmi árið 1978 og var því aðeins um tíu ára gömul, með um sextíu hestafla Vetus/Peugeotvél. Mér fannst þá grátlegt að hafa misst af þessum bát, hefur alla tíð fundist og finnst enn. Ekki síst er það grátlegt þegar örlög þessarrar fallegu fleytu eru þau að grotna niður á fjörukambi norður í Ingólfsfirði. Á sínum tíma hefði ég hiklaust selt sálina fyrir bátinn þarna við bryggjuna í Bolungarvík, nú er hann líklega "beyond the point of no return" eins og alltof margir velbyggðir trébátar sem grotna niður í vanhirðu víða um land.
Nú á ég Stakkanesið og það er ekki að grotna neitt niður. Maður á að una glaður við sitt og það var því ekki grátið lengi þarna á kambinum yfir Hrönninni, heldur haldið áfram fyrir fjörðinn, út á Seljanes og áfram inn í Ófeigsfjörð. Náttúrufegurðin er einstök á þessum slóðum og það verður fyrst skiljanlegt þegar þeir eru heimsóttir, hversu heimamenn eru áhugasamir um að dvelja þar lengri eða skemmri tíma á hverju sumri. Það hljóta að teljast forréttindi í dýrara lagi að eiga athvarf og ítök á þessum slóðum og geta notið þess að vinna verkin sín við fuglasöng, öldu-, lækjar- og fossanið - að maður tali ekki um stormhljóðin og brimið, þegar sá gállinn er á Kára! Hluti forréttindanna er svo auðvitað sá að geta þegar haustar, gengið frá húsum og búnaði, horfið til þéttbýlisstaðanna og eytt vetrinum þar í stað þess að þreyja snjóinn og stormana við öryggis-og samgönguleysi Strandavetrarins, líkt og forfeðurnir máttu gera.........
Það er vel hýst í Ófeigsfirði og þar er einnig að finna þokkalega búið tjaldsvæði fyrir þá ferðalanga sem kjósa að eyða nótt í paradís! Það var hins vegar ekki á okkar áætlun þetta skiptið, heldur ókum við út framhjá bæjunum áleiðis að vegarenda við Hvalá norðan fjarðar. Við fórum þó ekki alla leið heldur snerum um miðja, líkt og við Fell fyrr um daginn. Mér lá ekkert á að vegarendanum - Hvalá er ekkert að fara neitt og ég á eftir að koma aftur á þessar slóðir. Klárlega!
Við dvöldum u.þ.b. klukkutíma í Ófeigsfirði og það var farið að líða verulega á daginn þegar við lögðum af stað til baka. Þegar við ókum um Seljanes og inn Ingólfsfjörðinn sáum við Pétur koma til baka handan fjarðar og það var ótrúlegt hvað sendibílinn bar hratt yfir! Utan við Ingólfsfjarðarbæinn er lítil trilluhöfn, við bryggju lágu tveir bátar. Annars vegar Valgerður ST, lítil og lagleg trétrilla sem ég hef aðeins séð á mynd áður, hinn var hraðbátur Péturs í Ófeigsfirði. Meðan ég myndaði bátana þeysti Pétur heim á hlað Ingólfsfjarðarbæjarins og hvarf inn.
Við höfðum aðeins stutta viðdvöl á Eyri í bakaleiðinni, mest til að mynda systurskip Stakkanessins sem þar stendur undir skúrvegg. Síðan var lagt á hálsinn að nýju og ekið yfir í Trékyllisvík og þaðan aftur í Norðurfjörð. Trillurnar streymdu inn til löndunar á þessum síðasta veiðidegi tímabilsins. Meðal þeirra sem voru að landa var Gunnlaugur Gunnlaugsson frá Ísafirði á Færeyingi sem áður hét Bylgja 6130 og var í eigu Bjarna Guðmundssonar (Ingibjartssonar) á Ísafirði. Mér sýndist Diddi hafa sett vel í´ann. Þá voru þrír, nýir Sómabátar að landa, allir frá Ísafirði og í eigu fjölskyldu Gumma Jens (Jóhanns Péturs Ragnarssonar). Kristmund Kristmundsson frá Gjögri sá ég hvergi enda er Lundi ST ekki með hraðskreiðustu bátum og eigandinn ekki kunnur að neinum handaslætti.
Ferðadrekinn var fylltur af bensíni í Norðurfirði og að auki var fyllt á kæliskápinn. Það var svo ekki eftir neinu að bíða, við höfðum náð fínum degi í sveitinni og lögðum af stað suðureftir. Handverkshúsið Kört í Trékyllisvík var heimsótt en að því loknu var stefnan tekin suðureftir til Bjarnarfjarðar. Það var komið fram um kvöldmat þegar þangað var komið og þar sem mig hafði lengi langað að koma fram í Goðdal og sjá vettvang snjóflóðsins sem þar féll á bæinn 1949 og minnst var á í síðasta pistli ákváðum við að aka fram eftir og grilla stórsteikina þar. Við trébrú í botni Bjarnarfjarðar mættum við bíl, hinkruðum og hleyptum honum yfir en síðan var "staðið flatt" inn að vegamótum fram í Goðdal. Skömmu fyrir beygjuna heyrðist skrítið hljóð í ferðadrekanum sem ágerðist heldur. Það var því stöðvað og skoðað. Vinstra afturdekk reyndist nær loftlaust og af hvissinu að dæma var það ekkert nálargat sem lak út um! Það var ekkert varadekk með í för, enda óhægt um vik að koma 35" hjóli fyrir í eða á bílnum og svo á bara ekkert að springa á svona dekkjum á venjulegum vegi. Ferðadrekinn er hins vegar búinn loftpressu og kút og um sama leyti og ég bjóst til að virkja þann búnað renndi upp að okkur maður á sendibíl sem var á leið fram í dalinn. Hann benti okkur heim að Svanshóli, innsta byggða býli sveitarinnar og sagði okkur að reyna að komast þangað heim - þar væri ábyggilega hægt að fá dekkinu bjargað. Heim að Svanshóli komumst við með því að pumpa tvisvar upp dekkið á leiðinni, svo hratt fossaði loftið úr og það var dagsljóst að meira en lítið var að. Um leið og við stoppuðum á bæjarhlaðinu féll bíllinn á felguna með skelli!
Við náðum sambandi við heimafólk og fengum ágæta lagfæringu á dekkinu. Á því reyndist vera torkennileg rifa sem ekki gat hafa komið af öðru en aðskotahlut á veginum. Eftir sex eða sjö tappa virtist dekkið loks þétt, við þökkuðum fyrir okkur og héldum af stað á ný. Meðan dekkið var lagað velti ég fyrir mér ástæðunni fyrir rifunni og datt helst í hug, miðað við tímann sem dekkið var að tæma sig af lofti, að gatið hefði komið á það rétt við trébrúna. Þegar við svo ókum frá Svanshóli datt mér í hug að athuga hvort eitthvað sæist á eða í grennd við brúna sem skýrt gæti skemmdina. Ekkert stóð upp úr brúargólfinu sjálfu en í brekkunni ofan við hana lá sirka 15-20 cm langur bútur af fjaðrablaði. Á öðrum enda þess var klemma, á hinum hálft gat fyrir miðfjaðrabolta. Þessi bútur var því greinilega hálft fjaðrablað úr tjaldvagni eða fellihýsi, hafði dottið úr vagninum ofan við brúna og þegar ég ók svo yfir hann með framhjólið hafði hann kastast til og rekist á kaf í afturdekkið! Gamli Sherlock!
Um leið og ég skoðaði blaðbútinn kíkti ég á viðgerðina á dekkinu og komst að því að hún lak enn töluvert. Það var því ekki um annað að ræða en aka aftur heim að Svanshóli og biðja um fleiri tappa. Það var auðleyst og enn var þakkað og haldið af stað. Nú var öll ferðaáætlunin í uppnámi. Við höfðum ætlað okkur að aka, eftir kvöldgrill í Goðdal, yfir Steingrímsfjarðarheiði og út Snæfjallaströnd að Dalbæ og gista þar. Nú þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að treysta dekkinu og ákvað því að aka beint yfir til Hólmavíkur þó útúrdúr væri, gista þar um nóttina og athuga með ástand dekksins að morgni. Ég hafði þegar gert ráðstafanir til að fá sent annað dekk úr Reykjavík ef þurfa þætti og það myndi skýrast að morgni hvort ég þyrfti að fá það til Hólmavíkur eða hvort hættandi væri á að aka áfram til Ísafjarðar um Djúp. Við komum okkur fyrir á tjaldsvæði Hólmvíkinga, grilluðum kvöldsteikina um hálftíuleytið og sofnuðum södd.........
Morguninn eftir reyndist lítið hafa sigið úr dekkinu. Við vorum snemma á fótum og eftir að hafa gert upp tjaldsvæðið lögðum við af stað til Ísafjarðar og fórum hratt yfir. Það kom fljótlega í ljós að þótt dekkið hefði haldið lofti um nóttina lak það talsvert í akstri. Í Ísafirði í Djúpi var farið að síga talsvert úr því og nauðsynlegt að renna heim að hótel Reykjanesi til að pumpa í. Þaðan var ekið á fullu áleiðis úteftir. Einu sinni þurfti þó að stoppa á leiðinni til að pumpa í, en sú dæling dugði til Ísafjarðar. Þegar þangað kom var ekið beinustu leið á dekkjaverkstæðið og meðan ferðadrekinn var lagður í hendur þeirra Bjarka og Domma fór áhöfnin - að ferfætlingunum undanskildum - í sund. Það passaði svo að eftir sundlaugarferðina var bíllinn tilbúinn og þó svo Dommi teldi dekkið nær ónýtt eftir endann á fjaðrablaðinu vildi hann meina að það ætti að duga suður - og kannski lengra! Dommi er ekki sá bjartsýnasti á svæðinu og það var tæplega hægt að fá betri meðmæli með nær ónýtu dekki en að "líklega myndi það sleppa"
Ég hafði erindi að sinna vestra og að því loknu var ferðadrekanum lagt á húsbílasvæðinu hans Ella Odds í Suðurtanganum og sest að fiskihlaðborði í Tjöruhúsinu handan götunnar. Það var því stutt að fara í háttinn að loknum fjórða degi ferðalagsins.
Framhald í pípunum.....