Klukkan er rétt rúmlega átta á sunnudagsmorgni og ég er að fara að mála geymslugólfið mitt. Það liggur á að klára geymsluna til að geta tæmt bókasafnið út af háalofti Brekkunnar og komið því fyrir hér á Höfðingjasetrinu (nafnið kom til vegna staðsetningarinnar - vinnufélögunum fannst það tilvalið því á Höfðanum hljóta jú að búa höfðingjar....ég varð að vera sammála því.) Safnið hefur reyndar rýrnað talsvert því ég grisjaði úr allar þær bækur sem mér fannst óliklegt að ég læsi á næstu árum. Það urðu alls sjö stórir bókakassar sem fóru í dreifingu hjá Góða hirðinum - mér datt ekki í hug að reyna að selja þetta sjálfur. Það er svo ekki víst nema aðrir sjö eigi eftir að enda á sama stað. Allir bókaskápar heimilisins eru komnir hingað til mín, þeir áttu að rúma nokkurn fjölda bókanna á háalofti Brekkunnar. Þegar búið var að tína bækur út úr skápum, undan rúmum og öðrum þeim afkimum sem hægt hafði verið að troða þeim, og EH hafði tekið "sínar" bækur til hliðar, þá kom á daginn að þessir bókaskápar rúma rétt það sem fyrirfannst í íbúðinni sjálfri - háaloftsbækurnar eru alveg eftir!
Það var annars komið fram að ég smíðaði á sínum tíma hillur á háaloftið svo bókastaflarnir þar væru aðgengilegir. Ég er að berjast við það sama hér heima, þ.e. að gera allar ferðabækur og þessháttar fróðleik aðgengilegan með lítilli fyrirhöfn. Hvers virði eru bækur sem enginn kemst í?
Úti er þokumóða, rigningarúði en frekar hlýtt. Ágætis inniveður, tilvalið til að mála gólf.
Eigið góðan dag og látið ekki plata ykkur........