Þetta fallega lag hans Sigfúsar hefur verið dálítið hugstætt undanfarið. Sumarkoman þarf nefnilega alls ekki að vera bundin ákveðnum degi eða veðrabreytingum. Sumarkoman getur verið huglæg, hún getur t.d. skapast af aðstæðum hvers og eins, jafnvel ákveðnu hugarástandi. .....
.......og mér sýnist vera stutt í að "sólskin ljómi um bæinn"
Nóg um það. Stórútgerðarmaðurinn Sverrir Guðmundsson leit inn í gærkvöldi og sagði sögur af stórþorskagengd út af Reykjavík. Við Sverrir eigum það sameiginlegt, ásamt mörgu öðru, að hafa hvorugur meira en meðalarmlengd. Þegar Sverrir breiddi út faðminn til að lýsa stærð þorskanna sem hobbyveiðimenn í Snarfara voru að bera á land þá hefði hann helst þurft að hafa ekki minna en svona venjulegt sautjándajúnífánaprik í hvorri hönd. Allavega bognuðu handleggirnir aftur á bak í viðleitninni við að sýna þessar risaskepnur sem mættar voru á Hraunið til þess eins að láta drepa sig.
Sverrir er kurteis og lét vera að ympra á því sem hann raunverulega vildi, þ.e. Stakkanesið á flot í einum hvínandi djöfulsins hvelli, upp með rúllurnar og fulla ferð út á mið! Ég get ekkert neitað því að svona sögur kveikja í manni löngun til að sjósetja en það sem togar á móti er drjúgur listi aðkallandi verkefna við flutningana. Ég á enn eftir að lagfæra talsvert í kringum mig til að geta flutt það sem þarf að flytja af Brekkunni hingað uppeftir. Svo er bílskúrinn sér kapítuli og ekki auðflutt úr honum. Kannski man einhver gamall Ísfirðingur eftir skúrnum hans Jóns Valdimarssonar niðri á höfn. Bílskúrinn á Brekkunni er ekki ólíkur að innanverðu.
Það er laugardagsmorgunn, síðasti dagur marsmánaðar og kl. 10 liggur leiðin suður í Hafnarfjörð til að skoða trillu með manni sem langar mikið í trillu.
Ekki þó Sverri...........