Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


21.01.2012 10:01

Hvers vegna var afi Eyma sjómanns hættulegur?

Ný skoðunarstöð Aðalskoðunar var vígð föstudaginn þrettánda janúar. Þessi stöð er í nýju húsi Bón-og þvottastöðvarinnar  við Grjótháls í Rvk, rétt vestan við Shellstöðina  (sem eitt sinn hét Select við Vesturlandsveg). Opnunarhátíðin skyldi hefjast kl. 17 og allt fram til síðustu mínútu- og jafnvel örlítið fram yfir hana - var unnið á fullu í húsinu. Myndirnar hér að neðan eru teknar kl. hálfellefu á föstudagsmorgninum úr hárri tröppu, sem skrifarinn hékk í við vinnu sína:





Svo leið á daginn og smám saman rofaði til á gólfinu. Maðurinn með derhúfuna kom með stórar ljósmyndir af þekktum stöðum á landinu, en slíkar myndir prýða allar skoðunarstöðvar fyrirtækisins. Hann fórnaði hins vegar höndum þegar hann sá atganginn, mældi fyrir myndunum og hélt síðan á braut með sínar myndir, ákveðinn í að hengja þær ekki upp meðan allt væri á kafi í ryki innandyra. Hann kom svo aftur síðar um daginn og vann sitt verk með prýði. 

Eitt var það sem huga þurfti sérstaklega að fyrir vígsluna. Það var ræðupallurinn. Engin er opnun án ræðu og því var raðað upp vörubrettum í einu horninu, þau vafin bláu áklæði svo úr varð laglegasta leiksvið. Enginn vígsla fer heldur svo fram að ekki komi einhver og spili á hljóðfæri eða syngi. Í þetta sinn skyldi gera hlutina Grand, ræðupallurinn varð að rúma þá félaga Ragga Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson sem skyldu sjá um tónlistaratriðið. Um fjögurleytið mættu félagarnir, röðuðu sínum tækjum og tólum á pallinn, gerðu klárt og fóru svo aftur, enda enn klukkutími í athöfn (og klukkutími er ótrúlega drjúgur þegar allir eru á fullu að klára sitt verk). Við Raggi erum málkunnugir gegnum bílabrasið hans og heilsuðumst stuttlega enda báðir önnum kafnir þau augnablikin. Sem raunar var frekar slæmt, því á mér brann spurning sem mig langaði að spyrja Ragga. 

Spurningin (sem einnig er titill pistilsins) varð þannig til: Eitt þeirra laga sem ég hef haldið uppá allt frá barnæsku er Föðurbæn sjómannsins. Lagið er eftir Þórunni Franz en textinn eftir séra Árelíus Níelsson. Þegar Þursaflokkurinn lék sér með talaðan hluta texta lagsins í alþekktri pönkútgáfu af "Jón var kræfur karl og hraustur"  þá fannst mér grínið aðeins hnykkja á því hversu góður upprunalegi textinn var í meðförum Ragga. Svo liðu árin, urðu að tugum og alltaf var "Föðurbæn sjómannsins" í jafnmiklu uppáhaldi hjá mér.

Fyrir ekkisvolöngu eignaðist ég disk sem Raggi gaf út og heitir "Vel sjóaður". Þar er lagið "Föðurbæn sjómannsins" í nýjum flutningi hans. Ragnar Bjarnason er ótrúlega lífsseigur söngvari og líklega ræður þetta einstaklega létta og skemmtilega lundarfar þar miklu um. Maðurinn eldist með eindæmum vel og er lifandi sönnun þess að enginn er eldri en honum sjálfum finnst. Eins og gefur að skilja er samt talsverður munur á söng Ragga um þrítugt og svo yfir sjötugu. Þegar maður hlustar á "Vel sjóaður" fær maður á tilfinninguna að skörpustu hornin hafi rúnnast dálítið, skýrustu línurnar sljóvgast smávegis, harkan mýkst og mýktin linast - þið skiljið vonandi.

Það vildi þannig til að þegar Ragnar Bjarnason kom til að setja græjurnar sínar og Togga upp á ræðupall Aðalskoðunar að Grjóthálsi föstudaginn þrettánda janúar hafði diskurinn hans rúllað í spilara svarta hrossadráparans undanfarna daga. Ég var búinn að hlusta á "Föðurbæn sjómannsins" í nýju útgáfunni örugglega tuttugu sinnum og taldi mig hafa  uppgötvað falinn sannleik í textanum, nokkuð sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir áður. Þannig fannst mér Raggi segja í þeim hluta textans sem mæltur er af munni fram: "Já, kæri sonur / afi býr yfir hundrað hættum....."

Þessi greinilega viðvörun hefur alla tíð verið mér hulin - þ.e. þar til ég eignaðist diskinn "Vel sjóaður" og fór að hlusta á hann með vaxandi athygli. Annað var það í sama texta sem vakti athygli mína. Ég hef alltaf haldið að textinn væri svona almenns eðlis, að hver og einn sem tengdist sjó eða sjómennsku gæti heimfært hann upp á sig og sína. Nú hef ég skipt um skoðun, því það er dagsljóst að textinn er klárlega saminn með einn ákveðinn sjómann í huga. Allir kannast við textabrotið: " En ef þú sérð þá stjörnu / sem brosir blítt og bjart / þá brestur kyngi seiðsins / og myrkrið hverfur svart...."  Svo kemur þetta sem veldur mér heilabrotum: 
Þá er pabbi Eyma / að hugsa um drenginn sinn.....")

....
allavega heyri ég það þannig....

Í æsku minni vestur á Ísafirði þekkti ég tvo menn sem báðir hétu Eymundur. Annar þeirra, sá eldri var alltaf kallaður fullu nafni. Hinn var kallaður Eymi en ég hef enga vitnesku um hvort séra Árelíus hafi þekkt þann Eyma og finnst það frekar ólíklegt. Sæmundur, sonur séra Árelíusar var um árabil á Ísafirði, útgerðarstjóri og altmuligtmand í rækjunni. Trúlega hafa þeir verið á líku reki, hann og Eymi. Ég held samt að föðurbæn sjómannsins hafi verið samin löngu fyrir þann tíma og satt að segja held ég að sá Eymi sem ég man eftir vestra hafi ekkert tengst textagerð séra Árelíusar.

Ég á útgáfu lagsins "Föðurbæn sjómannsins" með Ragga Bjarna frá árinu 1967 og þar er þetta allt öðruvísi, ekkert minnst á hættulegan afa og Eymi sjómaður hvergi nærri. Kannski er skýringuna bara að finna í þeirri einföldu staðreynd að fjörutíu ár eða svo liðu milli útgáfanna tveggja og enginn syngur eins í fjörutíu ár. Mér dettur í hug, þó ég sé alls ókunnugur söngtækni, að þessi tilkoma afa og Eyma kunni að felast í útöndun - þ.e. að það fylgi því töluverður útblástur að syngja -H- og þegar menn eldast, öndunin grynnist og betur þarf að fara með það loft sem enn næst í með innöndun, sé eðlilegasta leiðin að skera niður loftnotkun í útöndun. Þannig hafi þessi sterku -h- hljóð í upphafi setninganna, sem vel hljómuðu í frumútgáfunni verið lögð undir hnífinn í áranna rás og útkoman sé sú útgáfa af "Föðurbæn sjómannsins" sem ég heyri í hvert skipti sem ég bregð diskinum "Vel sjóaður" í spilarann.

Það var nokkurn veginn þetta sem ég ætlaði að spyrja Ragga Bjarna um þarna rétt fyrir vígsluathöfnina á Grjóthálsinum föstudaginn þrettánda janúar en gaf mér ekki tíma til því ég vissi að Raggi hefði heldur ekki tíma til að svara - ef hann hefði á annað borð getað það fyrir hlátri......

.........og kannski eru allar þessar fabúleringar mínar tóm vitleysa og aðeins til þess fallnar að fólk hringi í mig með skammir.....

Þegar klukkan var rétt að detta í fimm, leit vinnusvæðið á efri myndunum svona út, þökk sé Aðalskoðunarkonunum sem stóðu hreingerningavaktina allan daginn og stjórnuðu aðgerðum:






..................................................................................................................

Suðurnesjamaðurinn
Emil Páll Jónsson heldur úti skipamyndasíðu og birtir þar stundum einstaka gullmola. Einn þeirra má finna nákvæmlega -HÉR-, en þetta er mynd af breska togaranum St. Chad, sem strandaði undir fjallinu Teistu, utan við Sléttu í Jökulfjörðum ( eða innanvert á Grænuhlíð, hvort sem menn vilja frekar hafa). Það má "gúggla" allar upplýsingar um þetta strand og kannski bæti ég einhverju við síðar.

...gott í bili.
Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 217
Flettingar í gær: 1205
Gestir í gær: 620
Samtals flettingar: 139373
Samtals gestir: 29414
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:13:26


Tenglar