Mér fannst, svona í ljósi strembinnar vinnuviku, ég eiga skilið að fá smá upplyftingu. Veðrið var með besta móti, bjart, sólarglampi og hvíti liturinn sem yfir öllu lá, setti hreinleikasvip á útsýnið frá Lyngbrekkunni til Esjunnar og Akrafjalls. Ég bauð konunni í bíltúr eftir hádegið. Hún fussaði og sveiaði, sagðist hafa öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa og það hefði ég einnig. Auðvitað vissi ég það ofurvel, mér fannst bara að þegar maður á allt lífið framundan skipti einn bíltúr í blíðuveðri engu máli.
Það var því engin kona með í túrnum. Bassi átti hins vegar sitt fasta sæti afturí og sat þar sem fastast. Hugmyndin var að aka fyrir Hvalfjörðinn og ég ók upp Kjalarnes og um Tíðaskarð en við vegamótin að Miðdal langaði mig að aka þá leið enda fer ég hana alltof sjaldan. Það var snjór yfir öllu, allt frá föli uppí þæfingsfærð á stöku stað. Hrossadráparinn er ýmsu vanur og át skaflana með bestu lyst enda var þetta enginn Vestfjarðasnjór þó höfuðborgarbúum þætti eflaust kappnóg. Við ókum inn með Kiðafelli og Morastöðum - það má alveg nefna það ef einhver man eftir heiðgulri Hólmavíkurvél sem varð að umtalsefni fyrir nokkrum árum, að trillan Mori (sjá HÉR) sem ég eignaðist á Hólmavík um árið var smíðuð hér á Morastöðum og dró af þeim nafn sitt. Trillan sú var að endingu gefin Bátasafni Breiðafjarðar og stendur nú á Reykhólum. Næst komum við að býlinu Miðdal, og þarnæst að Elífsdal. Við sumarbýlið Bæ var nokkuð mikill snjór á veginum, ekki þó hamlandi fyrir ofurjeppa eins og þann svarta. Þaðan var stutt leið niður að þjóðveginum um Kjósina og leiðin lá fyrir hana. Þar sem sprænan Skorá þverar veginn er lítil brú, handan hennar eru mót vegarins fram að Meðalfellsvatni og við vegamótin var skilti sem auglýsti opnunartíma litla kaffihússins við vatnið. Það var tilvalið að fá sér kaffi og kökubita í Kaffi Kjós og ég beygði inná Meðalfellsveg. Meðfram vatninu standa sumarhús í einfaldri röð neðan vegar, mér fannst ég kannast við húsið hans Jóns Ásgeirs af myndum. Ofan vegar býr Bubbi Morthens í fallegu timburhúsi á frábærum útsýnisstað. Frá því er stuttur spölur að litla, vinalega kaffihúsinu Kaffi Kjós. Húsið stendur einnig á fallegum útsýnisstað ofan vegarins og þegar viðrar eins og í gær verður vart komist nær paradís en að sitja í ylnum innan við stóra gluggana með kakóbolla og kökubita og virða fyrir sér ísilagt vatnið og snyrtileg sumarhúsin á bökkum þess.
Það var nefnilega boðið uppá kakó í kaffihúsinu og ekki skemmdi fyrir að skammtur uppá einn stóran kakóbolla, jólakökusneið og rúllaða pönnuköku kostaði 750 krónur. Ég hef einhverntíma verið rukkaður um nær tvöfalda þá upphæð fyrir ámóta skammt á fjölsóttari ferðamannastöðum....
Þrátt fyrir að klukkan væri aðeins rétt um þrjú og þrátt fyrir blámann í loftinu var merkjanlega farið að bregða birtu þegar ég kom út úr kaffihúsinu. Eftir bíltúr gegnum sumarhúshverfið að býlinu Flekkudal og til baka var stefnan tekin fram Kjósina og ekið hjá býlinu Möðruvöllum að vegamótum nærri Vindáshlíð þar sem vegurinn sunnan Meðalfells tengist þeim sem liggur norðan fellsins framhjá Vindási, Reynivöllum og Valdastöðum að brúnni yfir Laxá í Kjós. Við vegamótin gafst val um að aka nyrðri leiðina hjá ofannefndum bæjum og til baka niður að Laxá eða fram sveitina hjá Írafelli (man einhver eftir Írafells-Móra? ) Hækingsdal, Fremra-Hálsi, Stíflisdal, Fellsenda og inná þjóðveginn um Mosfellsheiði. Sú leið var valin og dólað fram sveitina í fallandi birtu. Það var orðið dálítið skuggsýnt þegar við komum inná Mosfellsheiðina og tókum stefnu niður í Mosfellsdal.
Haustið 2008 ( sjá HÉR ) fórum við félagi minn á hrossadráparanum, rétt nýviðgerðum eftir alltof náin kynni af Skeiðahrossunum, upp að endurvarpsstöðinni á Skálafelli. Þá áðum við um stund við gamla KR- skíðaskálann sem reistur var 1956-9 og vígður það vor. ( sjá HÉR ) Þetta reisulega hús stóð þegar okkur bar að, lokað og læst enda aflagt sem skíðaskáli og lyfturnar í nágrenni þess ónýtar.
Mér fannst tilvalið að renna Skálafellsafleggjarann og nota síðustu geisla dagsbirtunnar til að kíkja á skíðasvæðið. Satt að segja hélt ég að Skálafell væri núorðið aflagt sem skíðasvæði vegna uppbyggingar í Bláfjöllum. Ekki virtist það þó vera því enn virðast öll mannvirki þar starfhæf og a.m.k. undir einni lyftu var nægur snjór til starfrækslu. Það voru hins vegar engir skíðamenn á svæðinu, heldur aðeins tveir jeppar sem spóluðu þvers og kruss neðarlega í brekkunum. Mér datt í hug að aka vegstubbinn sem liggur í átt að gamla KR- skálanum sem stendur nokkuð afsíðis frá núverandi skíðasvæði. Mig langaði að sjá hvort þar væri allt með sömu ummerkjum og haustið 2008.
Það má kannski orða það svo að nú sé hún Snorrabúð stekkur......vissulega var skálinn aflagður 2008 og þó einhverju fyrr. Það haust var hann þó lokaður veðri og vindum og þokkalega heillegur að sjá. Nú var annað uppi á teningnum. Óþjóðalýður hefur riðið húsum, hver einasta rúða er brotin, hurðir eru brotnar, í stuttu máli er eiginlega allt eyðilagt sem hægt er að eyðileggja.
Ég fetaði mig inn um brotnar dyr og lýsti mér leið með símanum. Svö rökkvað var orðið að ég átti erfitt með að greina skil innanhúss í því litla ljósi sem síminn gaf. Myndavélin var í vasanum og flassblossarnir lýstu eitt augnablik upp það sem fyrir augu bar:
Einhvern tíma hefur hér verið aðalanddyri hússins og frá forstofu gengið upp nokkar tröppur í skála. Allt er brotið og bramlað og snjórinn á greiða leið inn.
Hér hefur verið hið veglegasta eldhús og eflaust hafa verið reiddar fram vel þegnar veitingar handa lúnum skíðamönnum. Sú tíð er liðin...
Hér að ofan er staðið í miðju skálans ofan við tröppur aðalinngangsins og horft í átt til fjalls. Opið í baksýn er ekki dyraop heldur gluggi sem sagað hefur verið niðurúr í einhverjum tilgangi. Ílanga opið til hægri er úr eldhúsinu, og um það hafa krásirnar verið réttar þeim þurfandi.
Á gólfinu lá þetta skilti. Í myrkrinu varð ekki lesið á það en myndavélin afhjúpaði letrið.
Þessi torkennilega persóna sem birtist á myndinni þegar heim var komið og myndavélin var tengd við tölvu, sást ekki berum augum í myrkrinu. Eflaust er þarna á ferð einhver fyrrum skálabúi sem heldur tryggð við staðinn þrátt fyrir niðurlægingu og eyðileggingu.
Loftklæðingin virtist ekki hafa verið af verri endanum, mér sýndist þetta vera einhvers konar harðviðarlistar eða -panill. Ljósið er enn á sínum stað en Sogsvirkjun miðlar því ekki lengur neinu rafmagni. Það lýsir aldrei meira.........
Þarna hefur verið myndarlegasta hreinlætisaðstaða. Veggurinn er ekki svartur af sóti, eins og virðast mætti við fyrstu sýn, heldur rakamyglu.
Í norðausturhorni hússins er þetta herbergi, nokkuð stórt miðað við aðrar vistarverur. Líklega hefur þarna verið aðstaða þess eða þeirra sem unnu við skálann, og þá kannski líka norðurherbergið þar sem sagað hafði verið niður úr glugganum. Í því herbergi var koja og símatengill, sá eini sem ég sá í húsinu.
........................
Upp á efri hæð hússins lá snúinn stigi. Ég fetaði mig upp hann og þar kvað við nokkuð annan tón en niðri. Á neðri hæð voru viðarlitir allsráðandi, en blossar myndavélarinnar afhjúpuðu allt annað litaval á efri hæðinni. Þar hefur eingöngu verið svefnpláss, stórir rúmbálkar fyrir dýnur á tveimur hæðum taka mest af gólfplássinu :
Mér fannst ömurlegt að sjá hvernig farið hefur verið með þetta veglega hús, sem eflaust hefur veitt mörgum ánægju gegnum tíðina. Ég veit ekki hvenær notkun þess var hætt, en ég veit eins og áður segir, að haustið 2008 var það lokað, allar rúður heilar og dyr læstar. Einhvern tíma á þessum þremur árum hafa krumpaðar sálir átt leið þarna um og fundið sér fróun og afþreyingu í eyðileggingu húss sem ötulir menn eitt sinn strituðu við að byggja sjálfum sér og öðrum til heilbrigðrar gleði og ánægju. Eyðileggingarárátta er undarleg tilhneiging og ill- eða óskiljanleg öðrum en þeim sem hafa hana til að bera - ef þeir þá skilja nokkurn skapaðan hlut.....
Það var komið að því að yfirgefa þennan sorglega stað. Í myrkrinu sem nú mátti heita skollið á myndaði ég bakhlið hússins, þar sem sagað hefur verið niður úr glugga. Kannski voru menn á sínum tíma byrjaðir endurbætur og breytingar á húsinu - steinullareinangrun í opnum útveggjum gat bent til þess - en kannski hafði opið einungis verið sagað til að koma þungum og fyrirferðarmiklum hlutum út úr húsinu. Píanóinu??
Jepparnir tveir voru enn spólandi neðst í skíðabrekkunum þegar við renndum hjá. Vonandi fengu ökumenn þeirra og eigendur sína ánægju út úr þessum fallega en fallandi degi.