Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Blog records: 2012 N/A Blog|Month_3

31.03.2012 08:26

Er sumarið kom yfir sæinn.........

Þetta fallega lag hans Sigfúsar hefur verið dálítið hugstætt undanfarið. Sumarkoman þarf nefnilega alls ekki að vera bundin ákveðnum degi eða veðrabreytingum. Sumarkoman getur verið huglæg, hún getur t.d. skapast af aðstæðum hvers og eins, jafnvel ákveðnu hugarástandi. .....

.......og mér sýnist vera stutt í að "sólskin ljómi um bæinn"

Nóg um það. Stórútgerðarmaðurinn Sverrir Guðmundsson leit inn í gærkvöldi og sagði sögur af stórþorskagengd út af Reykjavík. Við Sverrir eigum það sameiginlegt, ásamt mörgu öðru, að hafa hvorugur meira en meðalarmlengd. Þegar Sverrir breiddi út faðminn til að lýsa stærð þorskanna sem hobbyveiðimenn í Snarfara voru að bera á land þá hefði hann helst þurft að hafa ekki minna en svona venjulegt sautjándajúnífánaprik í hvorri hönd. Allavega bognuðu handleggirnir aftur á bak í viðleitninni við að sýna þessar risaskepnur sem mættar voru á Hraunið til þess eins að láta drepa sig.

Sverrir er kurteis og lét vera að ympra á því sem hann raunverulega vildi, þ.e. Stakkanesið á flot í einum hvínandi djöfulsins hvelli, upp með rúllurnar og fulla ferð út á mið!  Ég get ekkert neitað því að svona sögur kveikja í manni löngun til að sjósetja en það sem togar á móti er drjúgur listi aðkallandi verkefna við flutningana. Ég á enn eftir að lagfæra talsvert í kringum mig til að geta flutt það sem þarf að flytja af Brekkunni hingað uppeftir. Svo er bílskúrinn sér kapítuli og ekki auðflutt úr honum. Kannski man einhver gamall Ísfirðingur eftir skúrnum hans Jóns Valdimarssonar niðri á höfn. Bílskúrinn á Brekkunni er ekki ólíkur að innanverðu.

Það er laugardagsmorgunn, síðasti dagur marsmánaðar og kl. 10 liggur leiðin suður í Hafnarfjörð til að skoða trillu með manni sem langar mikið í trillu.

Ekki þó Sverri...........




25.03.2012 07:46

Eilífðin endasleppa!

Þannig fór nú það - og ég sem ætlaði að búa á Lyngbrekkunni til eilífðar, hafði margoft gefið það út og lýst yfir.

Ekki fer allt eins og ætlað er og þessi eilífð hefur nú runnið sitt skeið á enda. Við Elín Huld höfum (loks) slitið samvistir eftir þrjátíu ára sambúð. Sambúð sem hefur verið teygð alltof, alltof lengi og hefði í raun átt að ljúka fyrir tuttuguogsexoghálfu ári. Það er hins vegar önnur saga.

Lyngbrekkan hefur verið seld ákaflega fallegum, ungum litháiskum hjónum með góða nærveru. Vonandi tekst þeim að skapa sér þar gott heimili, staðurinn er einstaklega góður og nágrannarnir gulls ígildi.

Við Edilon Bassi Breiðfjörð höfum hreiðrað um okkur á afviknum stað á höfuðborgarsvæðinu. Almennt er búseta ekki viðurkennd á sambærilegum stöðum en við - allavega ég - eigum lögheimili annars staðar. Með því þurfti ég raunar að rjúfa loforð sem ég hafði gefið fyrir löngu, þ.e. að flytja aldrei til Reykjavíkur. Svona geta umskiptin orðið snögg, þegar loks er ákveðið að vinda sér í þau.....

Hér í hreiðrinu höfum við ágætt vinnupláss með nægri lofthæð til að rúma bæði ferðadrekann með himinháa toppnum og Stakkanesið með rá og reiða (að vísu niðurfelldum reiða!). Auk þess höfum við íverupláss þar sem mestum hluta frítímans er eytt. Það er hlýtt og notalegt hjá okkur, við höfum allt til alls og ef frá er talin dálítil eftirsjá eftir börnunum, sem sjást því miður allt of sjaldan, er lífið hreint stórkostlegt.


Því er samt ekki að leyna að þessar sveiflur hafa tekið sinn toll, bæði af naumum tíma og fjármunum. Það hefur verið óhemju dýrt að bæði selja og kaupa, að viðbættum öllum kostnaðinum við að koma plássinu í nothæft stand. Önnur verkefni, sem búið var að setja á forgangslista fyrir sumarið hafa þvi verið ísuð að sinni og ISUZU vörubíllinn sem keyptur var undir Stakkanesið er enn ósnertur. Það er þó bót í máli að hann svífur inn í vinnuplássið og það er ekki lítill kostur að eiga húsnæði sem rúmar bæði bát og vörubíl (þó varla í einu).

Við Bassi erum kátir. Við endum hvern vinnudag (og frídagana raunar líka) á því að heimsækja heita potta í einhverri sundlaug höfuðborgarsvæðisins enda eigum við ( allavega ég) kort í þær flestar. Milli vinnu á skoðunarstöðinni og pottferðanna er svo unnið í að koma öllu fyrir, bæði búslóð og verkfærum. Ég get bætt því við að Fríða systir hefur verið betri en enginn þegar kemur að IKEA ferðum og vali á bráðnauðsynlegum hlutum til búsins!

Ferðadrekinn var heimsóttur í gær austur í Grímsnes. Ekki var ég alveg nógu ánægður með stöðuna, mikill raki var í húsinu og það mátti sjá örla á myglublettum á hlutum í bílnum. Samt voru rifur á báðum hliðarrúðum og topplúgan opin til hálfs. Ég vona svo sannarlega að það fari að þorna upp úti við og hlýna í veðri, því það verður  handleggur að þrífa bílinn eftir þennan veturinn. Ég hef geymt bíla þarna frá hausti 2003 og aldrei séð ástandið svona eins og það var á Arnarnesinu í gær. Það voru annars búsáhöld sem sótt voru í bílinn, hluti þess sem gamli maðurinn pabbi lét eftir sig og gert var upp í fyrrahaust. Þá tók ég þessa hluti suður og ætlaði þá væntanlegum búskap sonarins og tengdadóttur. Ekki átti ég þá von á að hálfu ári seinna yrði mér sjálfum brýn þörf á þeim, þó kannski hafi ýmislegt í kringumstæðunum bent ákveðið í þessa átt.

Það virðist ekki vera hægt að setja inn myndir í kerfinu, annars hefði ég sýnt myndir af slotinu eins og það leit út við afhendingu. Ég keypti plássið með flestum þeim húsgögnum sem nauðsynleg eru, s.s. sófasetti og -borði, eldhúsborði og stólum, ísskáp, skrifborði, sjónvarpi, kommóðu og risastóru rúmi (sem raunar fór beint í Sorpu)

Það er komið fram yfir jafndægur, dagurinn hefur sigrað kapphlaupið við nóttina og páskarnir eru á næsta leiti. Stakkanesið er sjóklárt með kannski tveggja, þriggja tíma fyrirvara og það er aldrei að vita nema því verði fleytt fyrir páska...

.......ef spáin lofar góðu!


 

 


 

07.03.2012 18:40

Allt gott.....

Ég sé að undanfarinn sólarhring hafa fimmtán manns heimsótt síðuna mína. Mér þykir vænt um að einhverjir skuli halda tryggð við hana (og mig) þó lítið sé fært inn þessa dagana. Fyrir því er ástæða sem tilgreind verður fljótlega. Öll áhugamál liggja í salti meðan unnið er úr öðrum og meira aðkallandi hlutum. Finnist einhverjum skrifað í vefréttastíl verður svo að vera - ég er nefnilega ekki alveg viss um hvernig framhaldið verður. Öll áform komandi sumars eru í uppnámi og fátt vitað um framvinduna. Kannski er rétt að taka fram að ekki er um veikindi að ræða - amk. ekki svo vitað sé.

........það eina sem dagsljóst er, er að Stakkanesið siglir aftur innan skamms.........

  • 1
Today's page views: 124
Today's unique visitors: 47
Yesterday's page views: 122
Yesterday's unique visitors: 55
Total page views: 64509
Total unique visitors: 16756
Updated numbers: 26.4.2024 18:49:10


Links