Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Blog records: 2015 N/A Blog|Month_11

29.11.2015 08:54

Til Geira.


 Síðasta helgi var alger andstæða þeirrar yfirstandandi. Nú hafa snjórinn og frostið tekið völdin og leyst af hólmi rigninguna og þokuna sem þá var boðið uppá. Það var hins vegar beinlínis vegna rigningarinnar sem mér datt í hug um síðustu helgi að fara og heimsækja Geira. Geiri býr suður með sjó og það er alltaf gaman að heimsækja hann stutta stund öðru hverju. Hann býr við rysjótt veður en ég hef aldrei heyrt hann kvarta - eðli málsins samkvæmt getur hann það ekki. Hann hefur staðið jafn keikur hvernig sem á hann hefur blásið og hvorki bognað né brotnað undan álaginu, sem óneitanlega hefur á stundum verið gífurlegt, bæði vegna ágangs tvífætlinga og svo vegna náttúruaflanna sem geta verið afar óblíð þarna á Suðurnesjum.

Þegar rignir á snjólausa jörð að vetri má venjulega treysta því að ekki sé hálka. Hálkan er einn versti óvinur vegfarandans að mínu mati og þess vegna fagna ég hverjum hálkulausum vetrardegi. Mér er slétt sama um skammdegismyrkur og allt sem því fylgir, bara ef ekki skapast hálka. Í hálku er fólk að meiða sig, bæði gangandi, hjólandi og akandi......hálkan myndast við frost og því fleiri frostlausir vetrardagar, því minni saltaustur á götur og vegi. Það er líka gott að losna við saltið.

Eins og fyrr sagði rigndi um síðustu helgi og því var tilvalið að leyfa bláa bifhjólinu að sprikla aðeins á sunnudeginum. Ég setti gallann minn og hjálminn í bílinn og tók stefnuna á Sandgerði þar sem bláa hjólið er geymt - reyndar hjá Geira sem þar býr en það er allt önnur ella, eins og sagt er, enda þekkjum við þann Geira miklu betur sem General Bolt-on. Generállinn var mættur í athvarfið sitt og hjólið stóð frítt á gólfinu. Því var snarað út, ég snaraðist í gallann og og augnabliki síðar var athvarfið að baki og búið að setja kúrsinn á Hvalsnes. Það rigndi hóflega og blés mátulega en hitastigið var ekki hátt - það fann ég fljótlega á höndunum sem þrátt fyrir þokkalegar hlífar kólnuðu fljótt. Ég velti fyrir mér hvort það væru ellimörkin sem ég er alltaf að bíða eftir að finna og fann út að ef kaldar hendur væri það eina sem ég þyrfti að hafa áhyggjur af, verandi 58 ára gamall þá þyrfti ég litlu að kvíða. Þegar ég hugsaði "kvíða" var ég kominn suður að Stafnesi......

Það er gaman að aka þessa leið á mótorhjóli. Hún er hæfilega kræklótt til að maður hafi nóg að gera og hæfilega þröng til að halda manni stöðugt einbeittum. Venjulegir fólksbílar eiga erfitt með að mætast á þessum kafla og þegar venjulegur bíll mætir mótorhjóli eiga venjulegir bílstjórar það til að hugsa eitthvað á þann veg að fyrst aðeins sé mótorhjól á veginum megi bíllinn eiga hann allan því hjólið taki svo lítið pláss. Sá sem er á hjólinu veit að gagnvart bíl er hann alltaf minni máttar og verður því að vara sig........

Þennan sunnudagseftirmiðdag voru hins vegar nær engir bílar á ferð. Ein ljós sá ég á eftir mér en þau hurfu niður að Hvalsnesi og voru þar með úr sögunni. Ég ók veginn um Ósabotna neðan flugvallarins, ákaflega skemmtilega leið að fara í góðu veðri og jafnskemmtilega í regni og vindi á mótorhjóli. Hendurnar voru hins vegar farnar að kvarta dálítið enda hanskarnir eini hluti gallans sem var lélegur. Ég huggaði mig við að það er stutt til jóla.

Rétt áður en ég kom inn á veginn sem liggur frá Keflavík (Njarðvík) suður um Hafnir að Reykjanesvita kviknaði rauðgult ljós í mælaborði hjólsins. Á því var mynd af bensíndælu. Ég átti ekki von á þessu enda hafði ég ekki ekið svo mikið frá fyllingu, hélt ég. Ég fyllti hjólið  - fimmtán lítra - þegar ég keypti það og ók svo Nesjavallaleið inn að Hengli og um Hafravatn til baka. Næst ók ég alla leið á Nesjavelli og sömu leið til baka og því næst suður í Sandgerði þar sem tekið var á hús. Ekkert þess á milli og ég fór að velta fyrir mér hvurslags eiginlega eyðslukló þetta hjól væri! Mælaborðið er nefnilega digital - stafrænt - og ég hafði ekki nennt að grufla upp hvernig ætti að "trippa" á því. Rauða skellinaðran er með svona gammeldags hraðamæli og vegmæli með tölum sem rúlla og maður ýtir aðeins á takka til að núlla þær. Það finnst mér góður búnaður, enda gildir hér það sem alltaf gildir og KK gerði svo eftirminnileg skil í laginu um Æðruleysið - "Það einfalda er best"

Ég hafði semsagt enga hugmynd um hversu marga kílómetra ég hafði lagt að baki frá því ég fyllti tankinn á bláa hjólinu og nennti ekki að reikna það út þarna á staðnum. Það skipti líka litlu máli - ljósið hafði talað og eftir því skyldi farið. Ég var nokkuð viss um að ljósið þekkti bensínbirgðirnar betur en ég. Í stað þess að beygja suður í Hafnir beygði ég í átt til Keflavíkur og nam ekki staðar fyrr en við Olísstöðina í Njarðvík. Þar fyllti ég á og þessi fimmtán lítra tankur hafði gleypt tólf komma þrjá lítra þegar yfir flaut. Þar með var ekkert að vanbúnaði og ég hélt af stað aftur upp á Reykjanesbraut og áleiðis suður með Höfnum.

Ég var ekki á leið suður í Hafnir og ók því framhjá. Ég var að fara að hitta Geira og hélt þessvegna áfram móti vaxandi vindi og regni. Leiðin suður Reykjanesið er alveg stórkostleg hjólaleið og eiginlega alveg eins og vegurinn frá Sandgerði að Stafnesi, bugðóttur og mishæðóttur en þó mun breiðari. Á góðum sumardegi kemur breiddin sér vel vegna mikillar túristaumferðar en nú var hvorugt. Það var síð-nóvember og hreint ekki gott veður. Það eina sem var raunverulega gott við þennan dag var hálkuleysið. Jú, og frelsið sem fylgir því að vera einn á hjóli úti í "óbyggðum", eða þannig. Það er ekki alveg hús við hús á leiðinni frá Höfnum suður að Reykjanesvirkjun og þegar túristarnir eru fjarri kemst maður nærri því að eiga heiminn aleinn......

Spottinn frá Reykjanesvirkjun niður að Reykjanesvita er ómalbikaður og í ofanálag bæði holóttur, blautur og forugur. Þetta var kaflinn sem við generállinn slepptum í haust þegar við ókum (eða hjóluðum)  þessa leið á krómhjólunum okkar. Krómhjól myndi aldrei bera þess bætur að vera ekið svona veg fram og til baka. Á bláa hjólinu er hins vegar ekkert króm að finna nema ef vera skyldi í spegli framljóssins. Þess vegna var það látið vaða á holurnar og forina á fullri ferð  - eða já, þeirri ferð sem hæfir slíkri færð - og hvergi slegið af fyrr en á klettabrúninni þar sem land mætir hafi sem nær óslitið alla leið til útlanda......




........og þar var sá eini og sanni Geiri:






Niðri á klöppunum stóð einn lítill bílaleigubíll og tveir túristar fetuðu varlega stíginn upp á  Valahnjúk. Þarna á ysta horni landsins var nefnilega hvorki regnúði né hægur vindur, heldur ósvikið Íslandsveður, hávaðarok og hellirigning. Viðstaðan hjá Geira varð því ekki löng, rétt aðeins myndatakan og svo var haldið af stað til baka með viðkomu við Gunnuhver. Að öðru leyti var ekin sama leið til baka en þótt viðstaðan á bláhorninu væri stutt náði veðrið fram hjá mér og æddi viðstöðulaust upp ilina á stígvélinu (sé tekið mið af lögun landshlutans á korti....). Ég ók - eða hjólaði - alla bakaleiðina í Reykjanesrokinu og rigningunni sem linnti ekki fyrr en við dyr athvarfsins hjá Geira hinum í Sandgerði. Þar var sú leðja af vitaveginum sem ekki skolaðist af í náttúrlegum háþrýstiþvotti heimferðarinnar, þvegin af með garðslöngu og hjólið tekið á hús að nýju.

.....og af þessum pistli má marka að lengd ferðasögu þarf ekki endilega að vera í samræmi við lengd ferðarinnar sem um er fjallað.......

Endum með einni bátamynd frá Hauki á Dalvík:



Þetta er hún Sturla - eða hann Sturla, eftir því hvað menn vilja hafa því Sturla er, muni ég rétt eina karlmannsnafnið sem beygist eins og kvenmannsnafn og er því - "Sturlu" í öllum föllum nema nefnifalli. Til að allt sé rétt þá skrifa ég að myndin sé af Sturlu og sé tekin á Siglufirði - jafnvel þótt ég myndi sjálfur vilja segja " í Siglufirði". Förum ekki nánar út í það, gæti bara misskilist, eins og Kr. Ól. sagði.

Sturla hét upphaflega Senior og var smíðaður í Noregi 1967. Í vélasalinn var sett ellefu hundruð hestafla MAK sem er þar enn en hefur hlaupið dálítið í tímans rás og er nú ekki nema rétt rúm þúsund hestöfl. Upphaflega hefur Senior trúlega verið nótaveiðiskip og keypt þannig hingað til lands árið 1972 en er yfirbyggt 1974. Á sax.is kemur fram dálítið skemmtileg tenging, en þar er skipið sagt smíðað á Karmöy í Noregi. Símon heitinn Olsen, sem var upphafsmaður rækjuveiða vestur við Djúp - og raunar á Íslandi, fari ég rétt með, var Norðmaður, fæddur á Karmöy og gaf bátnum sínum vestra það nafn. Báturinn Karmöy var reyndar líka smíðaður í Noregi, í Fana, sem nú er hluti Bergen. Hann var smíðaður fyrir Gunnar heitinn Friðriksson sem kunnastur er af Vélasölunni og störfum fyrir SVFÍ. Gunnar var þá kornungur maður vestur í Aðalvík. Vél þessa nýja báts bilaði illa í reynslusiglingunni fyrir vestan og í framhaldinu var hann seldur Símoni Olsen sem gaf honum eins og fyrr segir, nafnið Karmöy. Karmöy varð þannig fyrsti rækjuveiðibáturinn á Íslandi. 

Nú er ég hreinlega kominn út á tún! Samt þykir mér ekki ólíklegt að Senior frá Karmöy, seinna Guðmundur frá Íslandi hafi einhvern tíma stundað rækjuveiðar fyrir vestan, þó ég muni það ekki. Mig minnir að hann hafi verið í hópi fjölmargra úthafsrækjuveiðiskipa sem höfðu mislanga viðdvöl á Ísafirði áður fyrr en þori ekki að sverja það. Allt um það fer Guðmundur til Vestmannaeyja 1983 og er þar sem uppsjávarveiðiskip allt til ársins 2004 - með einu grænlensku úthlaupi þó - að Þorbjörn hf. í Grindavík kaupir skipið og breytir því í línuveiðiskip. 

Skipið er yfir 50 metra langt en var upphaflega mun styttra. Það var, ef rétt er með farið, lengt úti í Noregi tveimur árum áður en það var keypt hingað til lands. Á síðu Markúsar Karls Valssonar heitins - eða "HÉR" - má t.d. finna fínar upplýsingar um skipið.

Sturla GK 12 er fallegt skip og hefur gegnum árin alltaf litið vel út, bæði sem Guðmundur og sem Sturla hjá Þorbirni hf. Makkinn er að verða fimmtugur og á eflaust náðugri daga nú á línunni en oft áður. Myndin frá Siglufirði er fín og Haukur fær allar þakkir fyrir hana.

Gott í bili.



................................



 

22.11.2015 09:52

Risastór dagur!


 Það er tuttugasti og annar nóvember í dag og þann dag er alltaf haldið upp á afmæli. Í dag er tilefnið tvöfalt: Afaskottið Emma Karen er tveggja mánaða og eðalhundurinn Edilon Bassi Eyjólfsson (eða Elínarson, eftir því hvernig vindurinn blæs...) Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff Sandhaug (Sóðalöpp) er hvorki meira né minna en tíu ára í dag!

Fyrir mörgum árum var sagt að hundur sem fengi jafnoft að bragða á kökum, kexi og sælgæti yrði aldrei langlífur. Ekki veit ég við hvað fólk var þá að miða. Kannski einhverja rolluhunda, ég veit það ekki. Hitt veit ég að þrátt fyrir allt óhófið er Bassi jafn fráneygur og fyrr, heyrnin er eins og í hálfsárs hvolpi og hann er sami þindalausi hlauparinn eins og hann var þegar ég fékk hann. Ég hef haldið því fram, án þess að vera neinn sérfræðingur um hunda almennt, að öll þessi miklu hlaup á Bassa hljóti að koma heilsunni til góða. Það er hvergi að sjá nein ellimörk á honum, sama hvernig leitað er. Þetta vita þeir sem hafa umgengist hann nær daglega frá upphafi. Svo hefur Bassi auðvitað verið alinn á gæða - hundafóðri og fátt til sparað í þeim efnum. Allt hefur þetta hjálpað til að halda honum síungum....









Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra að sinni. Morguninn fer í að járnsmíða pall undir þrjár þvottavélar í sameiginlegu þvottahúsi blokkarinnar að Hraunbæ 30. Þá geta þær loks farið að þvo þvottinn sinn, mæðgurnar Elín Huld og Bergrós Halla. Að því loknu er ætlunin að skreppa suður í Sandgerði og renna á bláa hjólinu suður að Reykjanessvita - þ.e.a.s. ef leiðin er hálkulaus. 

Síðan verður afmæliskaffi með kökum!

.......................................................................

17.11.2015 08:13

Vika fjörutíu og sjö.


Upp er runnin vika 47 og líður hratt á hana, kominn þriðjudagur. Síðastliðinn laugardag var haldin nafnaveisla afaskottsins sem hingað til hefur aðeins heitið lilla. Foreldrarnir hafa í þeim málum ákveðna sannfæringu og samkvæmt þeirri sannfæringu (sem er jú ákveðin trú, þannig séð...) var þeirri litlu gefið nafn að borgaralegum sið. Eftir athöfnina, sem var hátíðleg eins og slíkar eiga að vera, heitir lilla Emma Karen. Nafnið er í hvoruga ættina sótt, frekar þá til vina ef eitthvað.



Mér skilst nefnilega að Karenarnafnið hafi jafnvel verið löngu ákveðið en Emmunafnið sé afleiðing af miklu áhorfi á þættina um "Friends", en þar mun vera til kríli með því nafni. Svo er ekki að neita hinu að þegar að því kemur að Emma Karen leggi heiminn að fótum sér (eða það sem eftir verður af honum eftir svosem tuttugu ár...) þá er vissulega til bóta að heita jafn alþjóðlegu nafni!

Laugardagurinn var að mestu lagður undir athöfnina og veisluna en kvöldinu eytt í slökun heima í Höfðaborg. Snemma á sunnudagsmorgun réðumst við General Bolt-on í Sandgerði nefnilega í stórleiðangur upp í Melahverfi (Melahverfi er íbúðahverfið rétt við nyrðri Hvalfjarðarvegamótin) með kerru í eftirdragi til að sækja dót. Okkur generálnum finnst alltaf gaman að spá í dót og ekki er verra þegar sá sem á dótið reynist vera fyrrum verkstæðisformaður hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Þegar svoleiðis hittingur á sér stað er sest yfir kaffi og meððí og rifjuð upp gömul kynni af mönnum og málefnum, spurt frétta og spáð í fortíð og framtíð. Þetta gerðum við allt saman auk þess að skoða dót sem við - að breyttu eignarhaldi -  höfðum svo á brott með okkur alla leið suður í Sandgerði. Í Sandgerði fengum við aukahendur til að taka dótið af kerrunni og þá var aðeins eftir að koma sér til baka til Höfðaborgar. Að loknum leiðangri var dagurinn eiginlega úti og fundi var slitið. Enn lifði þó nokkuð kvölds og eftir misheppnaðan ísrúnt í Grafarvog ( þar sem varla reyndist almennilegan ís að fá...) var haldið upp í Mosó og málið leyst þar. Á heimleiðinni einsetti ég mér að finna þrjú aðventuljós í gluggum. Um daginn var ég ákveðinn í að finna a.m.k. eitt slíkt og tókst það eftir litla leit. Það er nefnilega alveg merkilegt hvað Íslendingar, sem almennt þekkja þessar sjö ljósa stikur úr gyðingasið sem "aðventuljós", eru gjarnir á að þjófstarta aðventunni með því að setja ljósin út í glugga löngu áður en hún hefst. Ég renndi gegnum örlítinn hluta Grafarvogshverfis og þaðan yfir í Grafarholtið. Ekki tók langan tíma að finna þrjú logandi ljós, auk eins sem var slökkt á. 

Í gærkvöldi þurftum við tveir vinnufélagar að skjótast upp á Hellisheiði til að bjarga biluðum snigli á austurleið. Það tókst von bráðar og snigillinn hélt sína leið til Reyðarfjarðar með aftanívagn og allt. Við gátum hins vegar illa snúið við á heiðinni vegna víravirkis Vegagerðarinnar, en "snilldarverk" þess apparats á heiðinni munu verða talsvert í fréttum í vetur og það verða ekki alltaf góðar fréttir. Þetta er mín spá.......

Allt um það gátum við illa snúið og ákváðum því að aka austur í Hveragerði og snúa þar um hringtorgið á Suðurlandsveginum, einn frægasta flöskuháls svæðisins. Í Hveragerði blasti við a.m.k. eitt full-jólaskreytt einbýlishús með marglitum seríum á girðingu, trjám, þakskeggi og gluggum.

Ég held áfram að birta skipamyndir sem ég fékk sendar frá Dalvík, eins og áður kom fram. Hér er það Daníel SI.152 á Siglufirði:



Daníel SI 152 er löngu hættur að fara á sjó, eins og sjá má á myndinni. Þegar ég kom fyrst til Siglufjarðar eftir langt hlé - það mun hafa verið haustið 2000 - þá man ég ekki betur en Daníel SI hafi verið þarna í slippnum. Hann hét upphaflega Guðmundur Þórðarson, bar einkennisstafina GK 75 og skipaskrárnúmer 482 eins og enn má sjá. Smíðaður í Hafnarfirði 1943 fyrir Garðsmenn, rúm 50 tonn og knúinn 120 ha. Lister. Þrettán árum síðar er sett í hann 280 ha. MWM sem endist fimmtán ár, þá Kelvin-Dorman sem ekki virðist hafa lifað nema árið því skv. skráningu er sett í hann Cumminsvél ári síðar, eða 1972. Ekki kemur fram hvenær þetta stýrishús er sett á bátinn en trúlega er það ekki upprunalegt - 1943 voru menn ekki mikið í að smíða ályfirbyggingar. Daníel SI 152 er líklega búinn að standa þarna í slippnum eitthvað á þriðja áratug og enn er ekkert fararsnið á honum.

Sá næsti er öllu stærri, smíðaður í Þýzkalandi 1959 eftir íslenskri teikningu og einn margra systurskipa. Þetta er Björgúlfur EA 312, smíðaður fyrir Útgerðarfélag Dalvíkinga.



Dalvíkingar fengu tvö samskonar skip, Björgúlf og Björgvin, sem kom ári fyrr. Báðir höfðu samskonar vél, 800 ha. MWM og báðir hafa eflaust átt að geta borið mikið af síld, þótt þeir væru byggðir fyrir síðutog. Báðir voru seldir burt frá Dalvík á svipuðum tíma, Björgúlfur suður til Grindavíkur en Björgvin vestur til Suðureyrar. Saga Björgúlfs í Grindavík varð endaslepp, hálfu öðru ári eftir komu þangað sökk hann undan suðurströndinni, þá undir nafninu Járngerður GK. Skipið var á austurleið með loðnufarm sem ekki var svo stór að hefði átt að valda skaða en talið var að uppstilling í lest hefði gefið sig og farmurinn leitað út í stb. síðuna í mjög slæmu veðri og þungum sjó. Annars var haft á orði um þessa tappatogara að þeir hefðu verið mun burðarminni en ætla mætti af eigin stærð. Það er hins vegar önnur saga.

Um Björgvin EA, sem lifði mun lengra lífi og endaði í brotajárni inn við Skarfaklett í Rvk. sem Árfari SH, ætla ég ekki að hafa mörg orð, utan þau sem ég viðhafði í "kommenti" undir mynd á skipasíðu Þorgeirs Baldurssonar árið 2008:

Var á ferðinni þarna ´93 eða ´94 ( innsk: Í Rifi á Snæfellsnesi) og þá lá Árfarinn svona á fjörukambinum. Mikið fannst mér skelfilegt að sjá skip sem búið var að gera allt þetta við, bæði ný brú og dekkyfirbygging, liggja svona í reiðileysi. Svo fór ég að velta fyrir mér hvaða skip þetta hefði verið áður og það rifjaðist upp að þetta hefði verið Björgvin Már GK. Þar með hvarf söknuðurinn því Björgvin Már var eitt af þessum guðsvoluðu hræjum sem send voru vestur á úthafsrækju forðum þegar það ævintýri var í uppsiglingu. Ég held að botninum í þessum grátlega flota sem "gerður var út" frá Ísafirði hafi verið náð þegar þeir lágu allir bilaðir í höfn, Björgvin Már, Búrfellið og Vatnsnesið (KE) Ég set "gerðir út" í gæsalappir því ég held að þessir bátar hafi legið meira við bryggju en verið á veiðum. Man eftir einu tilfelli þar sem spilöxullinn brotnaði í Björgvin Má. Þá lágu og ryðguðu við bryggju á Patró leifarnar af Jóni Þórðarsyni en í honum var samskonar spil. Það var siglt suðureftir á Björgvini Má með smiðjugengi úr Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði, og þeir börðu sig inn úr ryðinu á spilinu í Jóni Þórðar, sem um árabil hafði aðeins verið á línu, til að ná því sundur. Það tókst með harðfylgi og nauðsynlegum varahlutum var náð. Þessarar ferðar var lengi minnst af smiðjumönnum.

Til frekari upplýsingar set ég beina tengingu á pistil Þorgeirs Baldurssonar HÉR.


Þriðja skipið í þessum þætti er Keilir SI 145. Fallegur eikarbátur í góðri hirðu að sjá.


Keilir hét upphaflega Kristbjörg og bar einkennisstafina ÞH-44. Stykkishólmssmíði ( eins og þeir vita sem lesa þykir mér flest gott í Hólminum....) frá 1975, fjörutíu og fimm tonn og knúin 360 ha. Caterpillar. Báturinn var smíðaður fyrir Korra hf. á Húsavík og ekki ótrúlegt að Hafþór Hreiðarsson skipagúrú þar í bæ hafi til hans einhverjar taugar.... sjá HÉR.

 ....og af því talað er um Kristbjörgu ÞH 44 er ekki úr vegi að enda syrpuna á rauðu stálskipi sem ekki hefur alltaf verið rautt. Það var allavega grænt þegar það var forðum á Flateyri og hét Sóley ÍS. Það er hins vegar rautt á myndinni hér að neðan, sem Haukur Valdimarsson á Dalvík sendi mér ásamt öðrum hér að ofan:


 Sóley ÍS var smíðuð í Noregi árið 1966 fyrir Hjallanes hf á Flateyri. Upphaflega með 600 ha. Wichmann sem seinna vék fyrir 870 ha Ölfu. Alfan er enn hjarta skipsins, orðin 33 ára gömul. Það sem er aðallega skemmtilegt við myndirnar tvær frá Hauki - af Keili SI og Röst SK er ekki bara nálægðin, annar á Sauðárkróki og hinn á Siglufirði - heldur það að báðir hafa heitið Kristbjörg og borið einkennið ÞH-44. Sjá HÉR.

Upphaf pistilsins er skrifað á þriðjudegi, eins og fram kemur efst en honum lýkur hér með kl. 15.30 á föstudegi. Tíminn er ekki alltaf mikill til að grúska og skrifa.....

...........................................................................................

08.11.2015 08:39

Sunnudagur áttundi nóvember.



Það líður hratt á nýbyrjaðan mánuð og kominn áttundi dagur af þrjátíu. Í gærkvöldi sá ég fyrstu jólaseríuna í glugga uppi í Hraunbæ og það má búast við því að þeim fjölgi hratt úr þessu því margir vilja stytta skammdegið með jólaljósum. Fram til þessa hefur enginn vetur verið hér á suðvesturhorninu, aðeins rigning og aftur rigning. Rigningin hefur þá augljósu kosti að henni fylgir ekki hálka - hálka veldur slysum bæði á akandi og gangandi vegfarendum og í mínum augum er fátt jafn illa séð og hálka. Sá böggull fylgir þó rigningarskammrifinu að loft er þungbúið og blautt malbik gleypir bílljós. Fyrir vikið er veröldin dekkri og þyngslalegri, skammdegið meira og því grípa margir til jólaljósanna fyrr en ætla mætti. Á sömu forsendum hafa margir tilhneigingu til að láta jólaljósin loga út janúar. 

Mér finnst það bara allt í lagi........

Um daginn nefndi ég óbirtar myndir frá Hauki Valdimarssyni á Dalvík. Nú er gott tækifæri og hér kemur sú fyrsta:



Þetta er, eins og sjá má, Margrét SU 4. Skipaskrárnúmerið er 1153 og miðað við skráninguna hefur Margrét ratað til átthaganna á ný. Hún var smíðuð á Seyðisfirði árið 1971 sem Sæþór SU 175, skráð á Eskifirði og var knúin 125 ha. Perkinsvél. Eitthvað varð til þess að Perkinsvélin vék aðeins fimm ára gömul fyrir dálítið stærri VolvoPentu. Maður hefði haldið að Perkins væri endingarbetri vél en svona Volvo-þeytispjald en menn skipta ekki um vél að gamni sínu og hvergi hef ég séð neina sönnun þess að Perkinsvélin hafi verið sett ný í bátinn. Hins vegar eru dæmi um að menn hafi sett góðar, notaðar vélar í nýja báta. Árið 1971 voru menn lítið farnir að smíða stýrishús úr áli á þessa litlu báta og Sæþór SU 175 fékk ljómandi laglegt stýrishús úr trjáviði. Á mynd í skipaskrá ársins 2008 heitir báturinn Búi EA 100, er gerður út frá Dalvík - heimabæ Hauks Valdimarssonar - og er ljómandi snyrtilegur að sjá. Eftir það hefur báturinn heitið Gói ÞH, Viktor EA og Margrét KÓ. Undir síðastnefndu skráningunni sá ég hann eitt sinn sigla út úr Hafnarfjarðarhöfn og þá var greinilegt að eitthvað meira en lítið hrjáði VolvoPentuna frá 1976 því reykjarkófið var slíkt að vart sást í sjálfan bátinn. Kannski var það líka til bóta að lítið sæist í hann því þá var komið á hann þetta nýmóðins álhús sem satt að segja minnir meira á vitabygginguna á Látrabjargi en stýrishús á laglegum eikarbáti. Líkt og fallegir hjólkoppar geta híft bíldruslu upp í áliti og verðmæti geta lagleg stýrishús gert svipað fyrir báta. Svo getur þetta snúist algerlega við og það finnst mér eiga við um Margréti SU 4. Snyrtileg umgengni og hirða ásamt ryðfríu rekkverki og fleiru smálegu bjarga þó miklu. Við skulum því bara segja að Margrét SU 4 sé flottur bátur og eigandanum til sóma.


(....en af því ég er að nefna "nýmóðins" stýrishús þá má ég til með að nefna Þorkel Björn NK, sem raunar leit sitt skapadægur suður í Þorlákshöfn ekki alls fyrir löngu, og svo "Dísirnar" tvær sem lengi voru í Bolungarvík, þær Sædísi og Bryndísi. Á Þorkel Björn, sem var laglegasti bátur áður var settur einhver allra ljótasti kofi sem ég hef séð á bát í langan tíma og svo var skitið yfir skömmina með enn ljótari hvalbak. Báðar Dísirnar fengu í áranna rás ný stýrishús en meðan húsið á Bryndísi var bara þokkalega laglegt og fór bátnum ágætlega var húsið á Sædísi hreinlega hryllilega ljótt. Sædís er nú, eins og menn vita safngripur á Ísafirði og hefur fengið stýrishús sem er eftirmynd þess upphaflega en Bryndísi sá ég síðast húslausa uppi á Hlíðarenda ofan Akureyrar og þar áður niðri í slipp. Af tillitssemi við aðstandendur sleppi ég því svo viljandi að minnast á Fram ÞH.62 ) 

Hér kemur svo líka mynd af Frosta ÞH. 229. Hann var smíðaður árið 2001 í Kína fyrir Bjössa Jóakims úr Hnífsdal og hét þá Björn RE. Síðan eignaðist þyrlu-Mangi skipið og gerði út sem Smáey VE 144. Nú er það semsagt komið norður til Grenivíkur og heitir Frosti.



Ég þekki lítið til þessa skips og enn minna til annars Grenivíkurskips, Varðar ÞH. Mér er ómögulegt að muna hvort skipið ég sá vestur á Ísafirði fyrir örfáum árum. Það var að leggja frá Sundahöfninni eftir löndun, þurfti að taka snúning á gönguhraða og ég man að ég hugsaði um það hvort einhvern tíma væri elduð súpa þar um borð, svo svakalega lagðist skipið í lítilli beygju á engri ferð. Það hélt svo áfram að rúlla eins og tunna út eftir Sundunum.....

Þriðja skipið í þessarri myndasyrpu H.V. er Blængur NK. Eins og kunnugt er er þetta gamli Freri og þar áður Ingólfur Arnarson. Skipið var smíðað 1973 á Spáni fyrir B.Ú.R. og er lifandi sönnun þess að Spánverjar smíða betri skip en bíla:



Ögurvík átti þetta skip frá 1985 og lagði í það mikla peninga fyrir fimmtán árum eða svo. Þá var það lengt, hækkað og MANíunum tveimur skipt út fyrir eina Wärtsilä uppá 5000 hestöfl. Maður hélt að Freri væri orðinn hálfónýtur af viðhaldsleysi eftir að þrengja fór að hjá Ögurvík. Ekki virðist það þó vera því varla færi Síldarvinnslan að draga ónýtt skip á sjó með tilheyrandi kostnaði og það er seigt í þessum þúsund tonna Spánverjum. Þótt rúm fjörutíu skrokkár séu u.þ.b. tvöfaldur líftími margra nýsköpunartogaranna þá eru eins og fyrr segir "ekki nema" fimmtán ár á aðalvél og eflaust mörgu fleiru sem skipt var um um sama leyti. Allt um það, skipið er flott og skilar vonandi sínu.

Hér syðra rignir með köflum og hitinn er þrjár til fimm gráður eftir því á hvaða mæli er litið. Pistillinn er skrifaður í tveimur hlutum og milli þeirra skaust ég á bláa bifhjólinu suður í Sandgerði þar sem það mun hafa hávetrardvöl. Það rigndi hressilega á leiðinni en góður hlífðarfatnaður skýldi gegn allri bleytu. Ég átti svo víst bílfar í bæinn aftur og það var notalegt að koma í hús í Höfðaborg.

Gott í bili.
....................................................................................................

02.11.2015 08:36

Mánaðamót.


Mánaðamót hér í Höfðaborg teljast alla jafna ekki merkileg tímamót og nýliðin mót voru ákaflega hefðbundin. Maður þarf jú að gera það sama og aðrir, borga reikninga í heimabankanum, fletta yfir síðu á skipamyndadagatalinu frá honum Hafþóri á Húsavík og kannski einhver smáatriði til viðbótar. Að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang og hér heima eru laugardagar og sunnudagar líka vinnudagar svo lengi sem einhver verkefni liggja fyrir. Yfirleitt er enginn hörgull á þeim.......

Veðrið á laugardaginn var hins vegar með slíkum eindæmum að ekki varð unað innandyra við verk heldur kallaði sólskinið og lognið mann bókstaflega út fyrir dyrnar og togaði áfram út fyrir bæjarmörkin. Heiðurshundurinn Edilon Bassi, sem yfirleitt er fastur ferðafélagi þegar land er lagt undir hjól var í þetta sinn skilinn eftir heima því farartækið rúmar ekki ferfætling. Eins og áður var fram komið er rauða skellinaðran lögst í vetrarhíði - og m.a.s. dreifð um stórt svæði - en bláa bifhjólið fær ekki sína vetrarhvíld strax. Laugardagurinn var tilvalinn hjóladagur enda sáust nokkur slík á ferðinni strax um morguninn. Það var þó ekki fyrr en nokkuð var liðið á daginn að því bláa var beitt á bikið og haldið af stað upp á Suðurlandsveg, inná Hafravatnsafleggjarann og þaðan áfram Nesjavallaveginn. Sólin var eilítið farin að síga enda er viðveran á himinhvolfinu stutt á þessum árstíma, og þótt fallegir geislarnir væru kærkomin tilbreyting frá gráma liðinna vikna var ylurinn frá þeim hálf máttleysislegur. Nesjavallavegurinn hafði náð að þorna þar sem hann liggur yfir Mosfellsheiðarflákana en strax og upp í hæðir og dalverpi Hengilsins kom var vegurinn rakur og kuldinn niðri við jörð myndaði varasaman glerung á stöku stað. Ofan við Nesjavallavirkjun er stórt útsýnissvæði með trépalli. Við gatnamót þessa svæðis stoppaði ég og myndaði með símanum út yfir Þingvallavatn meðan ég fylgdist með vegmóðum hjólreiðamanni klífa brekkurnar í svo lágum gír að fæturnir gengu eins og vængir á flugu.......



Gufustrókurinn frá Nesjavöllum gefur góða hugmynd um vindafarið:



Sólin hafði ekki náð að skína á þetta svæði nema örstutt um hádaginn og þegar hún seig niður fyrir hátinda Hengilsins og gaf sig alla í Mosfellsheiðina tók kuldinn aftur völdin við Nesjavelli. Vegurinn niður brekkurnar var því verulega sleipur á köflum og það sem helst varð þessum hjólreiðakappa til hjálpar á uppleiðinni var að malbikið þarna er frekar gróft. Á mótorhjóli varð ekki farið nema fetið niður og þegar þangað kom var vegurinn lítið skárri - rakur og farin að myndast á honum frostskán. Það var því ekki farið lengra en að Nesjavöllum, þótt vilji hafi staðið til að aka upp með vatninu vestanverðu og Mosfellsheiðina undir Skálafelli heim. Kuldinn beit dálítið í hnén, ég hefði mátt vera betur búinn til fótanna. Auk þess hefði ég ekið vestan vatns í skugga og hálkuhættu og þegar ég hefði komið upp á Mosfellsheiði hefði sólin verið sest. Besti kosturinn var því að aka sömu leið til baka. Ég náði brekkuklifraranum á reiðhjólinu norðan til í Hengilsdölum og þegar ég kom vestur fyrir dalina inná heiðarflákann mætti ég öðrum hjólamanni sem var á leið til Nesjavalla. Sá hefur vonandi verið á negldu!

(Hér verður eiginlega að koma fram, þeim til skýringar sem ekki eru staðkunnugir að allur heiðarflákinn milli Mosfellsdals og Hengils er á mínum kortum nefndur Mosfellsheiði. Heiðin rennur norður að Þingvallavatni og suður að Sandskeiði / Lækjarbotnum. Þess vegna liggja bæði Þingvallaleiðin um Mosfellsdal (upp hjá Gljúfrasteini) og Nesjavallaleiðin um Mosfellsheiði, þótt talsvert landsvæði liggi milli veganna)

Það var örlítið farið að bregða birtu þegar ég renndi í hlað í Höfðaborg, tók hjólið á hús og kom mér inn í ylinn.......

Veðurblíðan undanfarna daga hefur eflaust létt mörgum verkin. Kvöldvaktirnar í vinnunni hafa alla jafna verið frekar rólegar, nýttar til viðhaldsverka og annars sem fyrir liggur en síður til stórátaka nema mikið liggi við. Á mánudagskvöld þurfti að stíga út úr þægindarammanum þegar annar hjólakraninn á Sundahöfninni bilaði. Kranarnir eru tveir, því þegar Eimskip á Reyðarfirði fékk nýjan krana í sumar var sá gamli fluttur til Reykjavíkur þar sem hann skyldi þjóna meðan stóri brautarkraninn, Jakinn, fengi stórviðgerð. Allt hefur það gengið eftir stórslysalaust og meðan Jakinn hefur staðið úti í horni hafa hjólakranarnir tveir runnið fram og aftur eftir höfninni án þess að þurfa að beygja. Nú er Jakinn aftur kominn í gagnið og Reyðfirðingurinn "Jarlinn" út á ytri hafnarendann í biðstöðu. Þar með er aftur kominn upp sú staða að sá hjólakraninn sem "á heima" á Sundahöfninni, Jötunn er hann nefndur, þarf öðru hverju að krækja út fyrir Jakann. Jakinn er margfalt afkastameiri en hjólakranarnir og er því aðalkraninn við losun og lestun skipa. Hann rennur fram og aftur á beinu spori en Jötunn vinnur svo þeim megin við hann sem henta þykir. Þessum tilfærslum Jötuns, sem er trúlega kringum fjögur hundruð tonn að þyngd með öllu, fylgja gríðarleg átök og síðdegis á mánudag þegar verið var að krækja fyrir Jakann  brotnaði einn af vökvatjökkunum sem beygja ferlíkinu.  Á hvorri hlið eru sjö hjólapör og á hverju pari er beygjubúnaður. Allt er þetta í yfirstærð og það tók okkur allt kvöldið fram yfir miðnætti að skipta um búnaðinn. Trúlega hefur hátt í helmingur tímans farið í að ná tilheyrandi hjólapari af og setja á aftur. Í gærkvöldi voru svo aftur brettar upp ermar þegar skipt var um öll fjögur framhjól stóra bómulyftarans í Hafnarfirði. Hafnfirðingarnir fengu "nýjan" bómulyftara á dögunum og sá sem fyrir var var sendur vestur á Ísafjörð. Þangað fórum við svo tveir félagar til að setja hann saman og á það er minnst hér neðar. Hafnfirðingarnir fengu "nýja" lyftarann hins vegar á ónýtum dekkjum þar sem ný voru ekki komin til landsins. Nú í gærkvöldi var allt orðið klárt til skiptanna og ákveðið að nota þessa einmuna veðurblíðu til verksins. Það tók fjóra menn alls fimm klukkustundir að skipta um öll fjögur framdekkin og var hvergi slakað á nema rétt til að gleypa í sig pizzur í kvöldmat!

Það er víðar fjör en í Eyjum.........



........................................................................................................................................

  • 1
Today's page views: 75
Today's unique visitors: 3
Yesterday's page views: 56
Yesterday's unique visitors: 7
Total page views: 59162
Total unique visitors: 15662
Updated numbers: 28.3.2024 16:21:46


Links