Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Blogghistorik: 2015 Mer >>

30.06.2015 08:39

Júnílok.


Hann er búinn, hann júní og fleiri skemmtilegir hlutir verða ekki gerðir í þeim mánuði. Eitt og annað hefur verið afrekað, ég hef td. átt afmæli (sem er auðvitað ekki afrek í sjálfu sér heldur óumflýjanlegur hlutur - því miður), skroppið mörgum sinnum í Hólminn og farið skemmtilegar siglingar, og m.a.s. náð að skreppa til Vestmannaeyja og eiga þar frábæran dag í góðum félagsskap.

Síðasta helgi er á pari við það allra skemmtilegasta. Ég nefndi hér rétt neðar að kajakinn skyldi með öllum ráðum inn í ferðabílinn og flytjast upp í Hólm, jafnvel þótt hann þyrfti að liggja í rúminu. Til að gera langa sögu stutta þá flutti ég kajakinn upp í Hólm í rúminu í ferðabílnum - það var nákvæmlega þannig. Elín Huld var með í för og bar baggana með mér, sem betur fór.

Við komum uppeftir seint á föstudagskvöld enda var seint lagt af stað að sunnan vegna anna. Lögðum á tjaldsvæðinu, snöruðum kajaknum úr rúminu og útfyrir bíl og steinsváfum fram eftir laugardagsmorgni í einmunablíðu. Eftir morgunverð og annað umstang var kajakinn aftur lagður til hvílu og rennt niður að höfn, þar sem Stakkanesið vaggaði við bryggju. Þar um borð var allt í lukkunnar velstandi eftir tveggja vikna kyrrstöðu. Kajakinn var svo borinn niður á bryggju og ég gallaði mig í hlífðarbuxur og gömlu, góðu svarthvítu gúmmískóna. Myndavélin var sett í hólf, björgunarvestinu smellt og þá var ekkert að vanbúnaði. 




Utan við höfnina var nær sléttur sjór, aðeins örlitlar gárur og það var gaman að róa út í Stakksey, þar sem hvalrekinn var á dögunum og áðurnefnt bátsflak hafði sést á myndum. Það var sýnu meiri ylgja utan við eyna svo ég réri suður fyrir hana og inn á sundið milli Landeyjar og Stakkseyjar. Bátsflakið lá í litlum vogi suðvestanvert í Stakksey og þar var sjórinn spegilsléttur. 










Fyrir vogsbotni var malarfjara á stuttum kafla, annars var leir. Ég renndi kajaknum upp í malarfjöruna og gekk á land með myndavélina.





Það er lítið eftir af þessum bát. Ég giskaði á að hann hefði verið sirka 15 - 17 tonn og ekki er annað að sjá en honum hafi verið rennt þarna upp vélarlausum. Ég sá heldur engar leifar af stýrishúsi. Það eru dæmi um að bátar sem lagt hefur verið við legufæri hafi slitnað upp og rekið inn um eyjar og upp í þær en þessi lá þannig að honum hlýtur að hafa verið ráðið þarna í fjöruna. Hver tilgangurinn var með því að setja aflagðan bát upp í óbyggða eyju veit ég ekki, því hvorki hefur efnið átt að nýtast til girðinga eða eldiviðar. Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir allmörgum árum hafði þetta flak verið mun sýnilegra af Reitaveginum í Stykkishólmi. Þá hafði skuturinn staðið hærra og meira borið á honum. Á fáum árum hefur flakið hrunið svo saman að það er vart sýnilegt úr bænum.




Sundurryðgaðir og samanfallnir olíutankar lágu innan um spýtnabrakið:





...og olíueldavélin úr lúkarnum lá þarna í brotum. Ekki ornar hún neinum lengur...





Í myndbandinu sem finnanlegt er í síðuhausnum undir samnefndum kafla tók ég skýrt fram að á á línuspilinu stæði "A.Bjerrum - Frederikshamn"  með "M-i". Það er ekki rétt og sást við betri skoðun að "V"-ið í nafninu er á hvolfi. Það stendur því "Frederikshavn" á spilinu eins og lætur nærri en ég leiðrétti ekki myndbandið og því stendur villan.




Ofar í fjörunni liggja hlutar af rekkverki ásamt öðru járnavirki:




Eftir upplýsingum sem ég aflaði mér heimkominn hét þessi bátur upphaflega Tjaldur VE 225 og var smíðaður í Eyjum 1919. Frekari upplýsingar er að finna á netsíðu Tryggva Sigurðssonar "Flakaþefs" í Eyjum, "Bátar og skip" og vísast til þeirra upplýsinga HÉR.  Myndin að neðan er fengin að láni úr ritverki Jóns heitins Björnssonar," Íslensk skip" 4bnd. bls. 149.




Í Stakksey er mikið fuglalíf og þegar ég kíkti upp á grasbakkann ofan fjörunnar flaug óðara æðarkolla af hreiðri. Ekki vildi ég raska ró fuglanna frekar og lét því duga að ganga fjöruna aftur að kajaknum. Ýtti á flot og réri af stað en ákvað að þar sem ekki var meiri ylgja en raun bar vitni væri gaman að róa umhverfis eyjuna. 



Stakksey er ekki stór og róðurinn ekki langur en ég er óreyndur kajakræðari og hafði endalaust gaman af siglingunni. Myndin að neðan er tekin ofan (norðan) Stakkseyjar og sér næst til Súgandiseyjar en innar til Hvítabjarnareyjar og Skoreyja.



Allsstaðar er fugl, bæði æðarfugl, tjaldur og mávar.......





Svo var skipið tekið á land og gengið frá farangri:



Eftir róðurinn var tilvalið að skella sér í heita pottinn í sundlauginni. Yngri dóttirin hafði boðað komu sína í Hólminn og ætlaði að dvelja næturlangt. Við höfðum áætlaðan ferðatíma hennar og það stóðst á endum að þegar við gengum út úr sundlauginni var hún að renna framhjá Helgafelli. Augnabliki síðar var hún með okkur. 

Þegar leið að kvöldi var ákveðið að renna út með Nesi allt til Hellissands. Úti í Grundarfirði lá þetta myndarskip og lá straumur farþega milli þess og lands. Skipinu svipaði nokkuð til ólánsskipsins Costa Concordia enda með sama fornafn og frá sama útgerðarfélagi í Genúa á Ítalíu. 



Við ókum til Hellissands og litum þar á þéttskipað tjaldsvæðið og tókum nokkra hringi í bænum. Héldum því næst til baka inn að Rifi þar sem við hittum skrautfugla sem sýnt höfðu áhuga á að kaupa sjúkrabílinn. Lítið kom út úr þeim viðræðum en fuglarnir voru skemmtilegir engu að síður. Þegar hungur fór svo að sverfa að settum við okkur niður á kambi Sveinsstaðafjöru og grilluðum síðbúinn kvöldmat. 

Flakið hér að neðan mun vera af Bervík SH 43 sem fórst undan Rifi fyrir réttum þrjátíu árum. Í Sjómannadagsblaði Snæfellsbæjar 2015 er þessa atburðar minnst nokkuð ýtarlega í myndum og máli. Báturinn náðist upp enda á grunnu vatni og flakið var dregið inn í Sveinsstaðafjöru. 










Myndin hér að neðan er einnig fengin að láni úr riti Jóns Björnssonar frá Bólstaðarhlíð í Vestmannaeyjum, Íslensk skip" 2.bnd.bls.46. Þar kemur fram að vélbáturinn Bervík SH 43 var Ísafjarðarsmíði frá árinu 1954 fyrir Súgfirðinga og hét upphaflega Friðbert Guðmundsson ÍS 400:



Það leið á kvöldið og eftir steikina var dólað áleiðis inn í Hólm. Dóttirin átti von á vini sínum úr Reykjavík undir miðnættið og allt gekk það eftir. 



Það var svo ætlunin að taka sunnudaginn snemma og sigla með parið á Stakkanesinu eitthvert út um eyjar. Um nóttina gerði hins vegar spænurok sem lítt slotaði með morgninum. Framan af var því dagurinn tekinn rólega, m.a. í sundlauginni en þegar á leið var þó ákveðið að reyna siglingu. Við fórum aðeins þrjú, Elín Huld ákvað að verða eftir í landi. Unglingarnir gölluðu sig upp og svo var lagt af stað. Höfnin var lygn en utan við Súgandisey tók við þung alda svo gaf á Stakkanesið. Það stefndi í að parið yrði gegnblautt á augnabliki svo snarlega var snúið undan og stefnan tekin inn Landeyjasund. Harða-aðfall var og rétt um hálffallið svo sundið flaut þokkalega. Stakkanesið ristir um 60cm tómt og dýptarmælirinn sýndi 1,1mtr í sundinu þar sem grynnst var, sem þýddi þá góðan hálfan annan metra. Við sigldum inn að flakinu af Ingólfi gamla sem liggur í Landey og flestir þekkja, og þaðan inn að Bænhúshólma. Við hann var snúið og haldið sömu leið til baka. Þessi sigling tók ekki langan tíma, kannski hálftíma eða svo en á þeim tíma hafði bætt svo í sjó að þegar norður úr Landeyjasundi kom mætti okkur kröpp vindbára svo gaf á. Unglingarnir skriðu því fram í lúkar í skjól og Stakkanesið seig í stefnið. Ekki minnkaði ágjöfin við það enda mátti þá sigla fulla ferð þegar mannkapurinn var kominn í skjól. Eftir á saknaði ég þess að hafa ekki látið myndavélina taka upp myndband út um framgluggana. Það hefði ekki verið leiðinlegt því fram að horfa var útsýnið ekki ósvipað ÞESSU HÉR þótt stærðarhlutföllin séu að vísu önnur!

Þetta var mesti veltingur sem ég hef lent í á Stakkanesinu frá því skriðbrettið var sett aftan á bátinn í fyrrasumar. Ég var búinn að sigla honum í krappri báru úti á Viðeyjarflaki hér syðra án brettisins og hann valt eins og tunna auk þess að vera mjög erfiður á lensi. Munurinn er mikill því auk þess að vera stöðugri á hlið og á ská bæði undan og á móti er báturinn talsvert rásfastari á lensi - það þurfti ekki lengri siglingu en þetta til að finna muninn. Það er ekkert flot í brettinu og sjór ofan á það á lensi virðist halda bátnum frekar niðri en að lyfta honum upp. Ég hef ekki sérstaka þekkingu á þessum hlutum, aðeins tilfinninguna og samanburðinn við það sem áður var, og mér virðist útkoman vera að öllu leyti til bóta....

Ætlunin var að taka Stakkanesið á land í helgarlok en vegna veðurs var slíkt ómögulegt. Báturinn var því bundinn við bryggju að nýju, kajakinn settur aftur upp í rúmið í sjúkrabílnum og sigið af stað suður á bóginn. Sunnan Borgarness var ekið á fljótandi malbikskafla (í bókstaflegri merkingu) og frá Hafnarfjalli var samfelld bílalest allt til Reykjavíkur. Það skipti okkur engu máli því tíminn var nægur og við renndum í hlað í Höfðaborg rétt uppúr miðju kvöldi.

...................................

26.06.2015 18:50

Föstudagur tuttugastiogsexti júní...


 ...og sumarið er í heimsókn. Hversu stuttri veit maður ekki en það má alltaf vona. Ég á nefnilega aðeins eftir að vinna eina viku áður en sumarfrí hefst. Þá tekur við tveggja vikna frí, síðan vinn ég tvær vikur fram að verslunarmannahelgi og síðan er vikufrí eftir hana. Verslunarmannahelgin og vikan eftir eru fráteknar fyrir Hólminn enda á ég félagsbústaðinn þá daga. Ef einhver sem les verður í Hólminum um verslunarmannahelgi og dagana á eftir og hefur áhuga á siglingu með Stakkanesinu er bara að láta vita af sér. Mig grunar að ef vel viðrar muni (aðal)vélin ekki kólna þessa daga.

Það er hins vegar enn langt í verslóhelgina og nú akkúrat í þessu er helgi - svona "löng" helgi hjá mér - að ganga í garð. Það þýðir að eftir nokkrar mínútur verður ferðabíllinn ræstur og þeyst af stað. Ákvörðunarstaður er Stykkishólmur og ætti fáum að koma á óvart. Stakkanesið hefur nú legið eftirlitslítið við bryggju í tvær vikur og kominn tími á sinnu. Svo er það þetta með bátsflakið í Stakksey, ef hægt er að komast að því og skoða. (sjá neðsta innleggið við síðustu færslu)

Ég er ekki viss um að ég geti lent Stakkanesinu í eynni því fjaran er grýtt, reyndar eru klappir og stórgrýti allan hringinn. Þess vegna ætla ég að gera tilraun á eftir, áður en ég legg af stað - ég ætla að reyna að troða kajaknum inn í bílinn. Það er raunar ekkert að reyna - ég skal koma bátnum fyrir þótt ég þurfi að stinga honum upp í rúm!

Það hlýtur að vera hægt að lenda kajak í Stakksey......


21.06.2015 08:57

Sumarsólstöður.


Það er sunnudagur tuttugasti og fyrsti júni, sumarsólstöður og ég ætla að skreppa til Vestmannaeyja á eftir. Veðrið er flott og hefur raunar verið það undanfarna daga. Ég þurfti að skjótast aðeins austur í Holta- og Landssveit í í gærdag og þá fæddist hugmyndin. Svo þurfti ég að skjótast aðeins austur í Ölfus í gærkvöldi og þaðan upp í Kjós. Það er því tilvalið að skjótast til Eyja í dag og toppa helgina þar. Ég þarf nefnilega að hitta þar mann sem stundum er kallaður flakaþefur, og heyra aðeins í honum varðandi bátsflakið í Hrappsey.

 

Farinn austur.......

15.06.2015 10:04

Bara stutt....


 

....að þessu sinni enda er sumar í dag fram til kl.18 eða þar um bil og því um að gera að nota tímann. Góður maður sem ég þekki vonaðist til að í ár félli sumarið á helgi af því í fyrra hefði það borið upp á miðvikudag. Kannski verðum við heppin...

Stakkanesið var notað nýliðna helgi. Veðrið í Hólminum var óvenju gott, aðeins u.þ.b. þrír metrar á sekúndu, sem bæjarmenn kalla staðarlogn. Þegar við bættist skýlaus himinn gat útkoman ekki orðið önnur en sjóveður. 



Það var raunar siglt stutt á laugardeginum, aðeins inn að Skákarey og áð þar við bryggjuleifar úti í sjó. 



Á fyrstu myndinni sér til lands í Seley og stuðlabergshellirinn (sjá kort) sem er fastur áfangastaður í siglingum með túrista, sést við sjávarmál fyrir miðri mynd:


Horft til lands í Skákarey:



 Við höfðum ætlað okkur að sigla inn Stapastraum og skoða magnað stuðlabergshrunið í Stöpunum en vorum fullsnemma á ferðinni á aðfalli og straumurinn var enn of harður til að leggjandi væri í hann.


 Því tókum við nestispásu við bryggjuleifarnar í Skákarey eins og fyrr segir en héldum svo til baka og lögðumst í heita pottinn í sundlauginni.


 



Á sunnudaginn (í gær) lögðum við frá bryggju rétt eftir hádegi áleiðis upp að Hrappsey. Vindurinn var heldur hægari og heiðríkjan sú sama og daginn áður. Við vorum sléttar fjörutíu mínútur að sigla frá bryggju inn að Hvítabjarnarey og þaðan þvert yfir Hvammsfjörðinn að Hesthöfða við Hrappsey. 



Myndin hér næst að neðan er raunar tekin norðan við Hesthöfða, við eina af mörgum eyjum sem bera nafnið Seley. Á myndinni blasir við varðan sem á kortinu er nefnd "leiðarmerki":



Insiglingin inn á voginn við bæjarhús í Hrappsey er þröngt sund milli heimaeyjarinnar og Dagmálaeyjar. Við vorum á hálf-aðföllnu og í sundinu var tveggja metra meðaldýpi. Inni á voginum var lagst við akkeri og tekið til nestisins.

 







Mig vantar upplýsingar um hvaða bátur þetta er, sem þarna ber beinin. Þetta gæti  verið 30-40 tonna bátur en þar sem við fórum ekki í land gat ég ekki athugað flakið betur.


Húsakosturinn í Hrappsey má muna sinn fífil fegurri. Þessi skúr í forgrunni hefur verið byggður á bakkanum neðan við gamla íbúðarhúsið, sem er að sjá ónýtt með öllu. Skúrinn er að sjá á sömu leið.......


Einhvern tíma hafa útihúsin verið lagfærð eitthvað, ef marka má gaflinn, en sú lagfæring er að litlu orðin:






Frá Hrappsey var svo haldið að Purkey og skoðaðar stórkostlegar stuðlabergsmyndanir í Suðurstakki við leiðina inn á Íravog. Við sigldum alveg inn á voginn og snerum á honum þegar dýptarmælirinn flautaði á metra! Það þurfti raunar ekki mæli til að sjá dýpið því sjórinn var alveg kristaltær.

 











Frá Purkey héldum við að Klakkeyjum - eða Dímonarklökkum - og renndum gegnum straumhart sund inn á Dímonarvog - já, eða Dímunarvog, eftir því hvar er lesið. Stakkanesið stýrir hálfilla í hörðum straum en hefur þó stórbatnað eftir að skriðbrettið var sett á það í fyrrahaust. Það var hálfgerð "fylleríisstýring" gegnum straumiðuna inn á voginn en þar inni var klár lygna.



 







Við mynduðum klakkana í bak og fyrir, kannski má segja að af voginum höfum við myndað þá í bak en við færðum okkur svo út af voginum og vestur fyrir, þar sem við mynduðum í "fyrir".

 







Frá Klakkeyjum var siglt fulla ferð (full ferð á Stakkanesinu getur verið allt frá 4,8 mílum til 7 mílna eftir straum en þarna var harða aðfall og straumsúgur milli hólma svo hraðinn var að meðaltali 5,5 mílur) með stefnu 276 gráður vestur fyrir Skörðu og nálæg sker en síðan stefnt beint á Þórishólma. Áður en að honum kom var tekin stefna austur fyrir Húsaflögur, sem eru sker innan við hólmann, og siglt gegnum geysiharða straumröst í áttina að Byrgiskletti innan við Hvítabjarnarey. 

Ég sagði frá því um daginn að við hefðum litið á toppskarfa í klettinum á hvítasunnusiglingunni og nú langaði okkur að sjá hvernig hreiðurgerðin hefði lánast. Ekki var annað að sjá en allt væri í standi þótt á köflum væri erfitt að koma auga á skarfinn, svo samlitur sem hann var klöppunum. Þarna við Byrgisklett var kúplað frá og rekið reyndist vera 1,2 sjm. á GPS. Líklega hefði hraðinn aukist ef við hefðum látið reka lengur......


 








Frá Byrgiskletti lá leiðin út í Hólm, með stuttri viðkomu við Hvítabjarnarey þar sem Edilon Bassi hafði veður af kindum. Honum þótti leitt að mega ekki hlaupa upp á eyju og reka dálítið, svo leitt að hann hékk gólandi á borðstokknum meðan eyjan fjarlægðist.

 

En fyrst ekki fékkst leyfi til að heilsa upp á kindurnar var ekki annað í stöðunni en að setja upp hundshaus og láta duga að horfa löngunaraugum upp á eyju:


Það hafði verið ætlunin að taka Stakkanesið á land áður en haldið væri suður að nýju en þrátt fyrir afar vandaðan undirbúning (að mínu mati....) varð dráttarkrókurinn á ferðabílnum eftir fyrir sunnan. Þetta er prófíltengi með dálítið sérstöku sniði og ekki dugði að fá lánað hjá öðrum þó nóg væri af prófíltengjum í Hólminum. Því var bátnum lagt í bryggju og bundið vel. Það eru nefnilega tvær vikur í næstu ferð í Hólminn - nema sautjándi júní verði nýttur til að renna uppeftir og taka á land. Það ætti ekki að vera stórmál, tveggja tíma akstur hvora leið og landtakan klukkutíma vinna.

 

Eftir það er allt óvíst. Þegar þetta er skrifað eru enn líkur á verkfalli þann 22. nk. og ef til þess kemur er sjálfsagt að nota tímann til að leika sér. Ferðabíllinn, athvarfið mitt í sumar var auglýstur til sölu á dögunum og á þeim hlutum er talsverð hreyfing. Ég gæti því allt eins selt ofan af mér á miðju sumri og orðið athvarfslaus uppfrá. Lúkarinn í Stakkanesinu er jú brúklegur í neyð en hann er engin hótelsvíta.........

 

Svo er tveggja vikna sumarfrí skráð í júlíbyrjun og í hvað þær vikur verða nýttar ræðst eðlilega af ferðabílnum - eða sölu á honum. 

Það þarf að koma fram að Elín Huld tók flestar myndanna, enda er hún mun betri myndasmiður en ég eins og áður hefur komið fram.....

 

Gott í bili.....


05.06.2015 22:00

Það er föstudagur fyrir sjómannadag.....



...........og ég er enn einu sinni að leggja af stað í Hólminn. Í þetta sinn á ferðadrekanum/Færeyjafaranum. Það gæti þýtt að nú sé sumarið loksins komið.....

Uppfært á sunnudagskvöldi: Nei, sumarið er ekki komið - a.m.k. ekki í Hólminum. Laugardagurinn var svo nístingskaldur að ég gafst upp á að horfa á útihátíðahöldin,  skreið inn í ferðadrekann og dró uppfyrir haus. Svaf í tvo tíma á miðju hafnarsvæðinu meðan heimamenn skemmtu sér í bland við þéttdúðaða útlendinga. Það blés fullmikið fyrir skemmtisiglingu auk þess sem kuldinn drap allan áhuga. Eyddi síðdeginu og kvöldinu á dóli út með nesi, allt til Hellissands. Kvöldmaturinn var einhver besta pitsa sem ég hef fengið lengi, í Shellskálanum í Ólafsvík. Sunnudagurinn - þ.e. dagurinn í dag - var heldur hlýrri en í staðinn buðust rigningarskúrir og vindbelgingur. Yfir Hvammsfirðinum lá þokusúldarbakki svo Stakkanesið var ekki hreyft í dag heldur. Við yfirgáfum Hólminn uppúr hádegi og renndum í Borgarnes þar sem sundlaugin var heimsótt. Ekki var það nefnt í miðasölunni að tveir pottanna væru úr leik vegna viðhalds. Afleiðingarnar voru pottseta í þeim tveggja "eftirlifandi" potta sem lífvænlegt var í vegna hita og tilfinningin sem fylgir því að sitja fastur í örtröð! Í ofanálag var hluti sturtanna bilaður. Þessi frábæri sundstaður í Borgarnesi má muna sinn fífil fegurri því þótt allir hlutir þurfi viðhald er ómögulegt að koma auga á hvers vegna farið er í slíkt viðhald þegar háannatími fer í hönd.

Næstu helgi, 12.-14.júní verður þrátt fyrir allt eytt í Hólminum að meira eða minna leyti því þá er ætlunin að taka Stakkanesið á land. Svo ráða aðstæðurnar því hvort um leið verður vetrarbúið að nýju, ef ekki horfir til verulegra breytinga er allt útlit fyrir að svo verði. Stakkanesið er nefnilega skemmtibátur en ekki ísbrjótur......

02.06.2015 08:20

Annar dagur júnímánaðar....



..............og ég fékk fallega kveðju í sms nú rétt áðan.

 

Hann blés byrlega í Hólminum um helgina. Skútueigendur hefðu eflaust glaðst mjög yfir vindinum en bæði er það að það eru engar skútur í Hólminum og svo er Stórskipið Stakkanes - sem siglingavonir voru bundnar við - ekki besta fleytan til að sigla í sterkum vindi. Stakkanesinu er sama um haugasjó - það flýtur eins og korktappi, er borðhátt og kastar öllum sjó frá sér. Þessir sömu eiginleikar vinna svo gegn því í sterkum vindi því báturinn er aðeins um 1400 kg að mér viðbættum og fýkur því eins og fjöður. Hann fær gjarnan töluverða slagsíðu undan vindhviðum og þar gæti komið að borðhæðin dygði ekki......

Annars var helgin afar róleg. Ég var einn á ferð, enginn Bassi (enda má hann ekki dvelja í leiguhúsi stéttarfélagsins, ég er einn þeirra sem virði slíkar reglur) og engan rak uppeftir í heimsókn. Vinnu lauk um fjögurleytið á föstudag og klukkan fimm var ég lagður af stað í Hólminn. Eftir Bónusinnkaup, sjónvarpsveður og fleira var lagst í heita pottinn í sundlauginni og legið þar til loka kl. 22. Þá var aðeins litið á Stakkanesið sem lá við bryggju en síðan skriðið í ból. Á laugardagsmorguninn var svo lagst yfir "aðalvélina" eins og áður var komið fram og skipt um allt sem skipta átti um. Það var skipt tvisvar um olíu á vél, einu sinni á gír, kælikerfið skolað út og skipt um frostlög, skipt um hráolíusíur og sjódæluhjól og loks var sinkið tekið úr vélinni og skoðað. Svo var smurt í stefnisrör og hert á tengjum og vélarfestingum. Að þessu loknu var Stakkanesið klárt í allt. Enn lifði hálftími af sundlaugaropnun svo ég rauk heim, sótti sundfötin og lagðist í bleyti þennan hálftíma. Á tímabilinu frá klukkan fimm til tíu um kvöldið giska ég á að ég hafi svona hundrað sinnum litið yfir Hvammsfjörðinn og velt fyrir mér hvort ég ætti að leysa frá bryggju og taka siglingu inn um eyjar. Það var talsverður vindstrekkingur, ekki þó beinlínis til ama en sjónvarpsveðurspáin hafði lofað svo flottu veðri á sunnudeginum að ég ákvað að bíða og nýta hann frekar. Spáin hljóðaði upp á sólskin og bjartviðri ásamt hlýindum. Að vísu voru engar vindatölur birtar fyrir Snæfellsnesið, hann spáði hægum vindi fyrir suðvesturhornið en stífum á Vestfjörðum. Ég áleit því að við í Hólminum hlytum að njóta bilsins og fá þokkalega golu en varla meira.

Það brást! Á sunnudagsmorguninn var Hvammsfjörðurinn hvítur yfir að líta og þurfti að sigla krappan hliðarvind og -sjó til að komast í þokkalegt skjól inn við Fagurey og Seley. Annarsstaðar var ekki um skjól að ræða. Veðrið var að öðru leyti frábært, bara þetta helvítis rok alltaf......

Það var því ekki um annað að velja en verja deginum heimavið í rólegheitum. Ég hefði svo sem getað pakkað mínu og ekið suður en ég átti einu verki ólokið og það verk varð að vinnast á mánudeginum. Eitt horn bátavagnsins var að bresta og ég hafði komið með styrkingu í það að sunnan. Til að geta lagað vagninn þurfti ég að komast í rafsuðu og slíkt var ekki í boði fyrr en á mánudagsmorgni. Sunnudagurinn fór því að mestu í bið eftir mánudegi, sundlaugin var heimsótt og þessutan tók ég tveggja tíma "kríu" í lúkarnum á Stakkanesinu þar sem það rykkti í taumana við bryggju. Kvöldinu lauk svo með bíltúr út í Ólafsvík og bryggjurúnti þar.

Klukkan rúmlega átta á mánudagsmorgni - þ.e. í gær - var ég mættur á verkstæðið Smur og Dekk og falaðist eftir rafsuðu að láni. Það var auðsótt og tók tíu mínútur að sjóða styrkinguna í vagninn. Ekki vildu þeir drengir rukka neitt fyrir greiðann svo ég skrapp í bakaríið og fyllti einn poka af kaffibrauði. Þar með urðu þeir af bitanum, starfsmenn áhaldahússins í hinum endanum. Ég hafði nefnilega byrjað á því að fala rafsuðu af þeim en uppskar aðeins urr um að "....það væri verkstæði í hinum endanum". Misjafnt er viðmót manna...........

Vagninn fór svo aftur á sinn stað og viðgerðin var grunnmáluð og snyrt. Þá var næst að kíkja í kaffi til þeirra hjóna Gulla og Löllu, sem alltaf er fastur punktur í öllum Hólmsferðum. Næst var það hafnarvörðurinn, indælisnáungi við að eiga og loks skilafrágangur á leiguhúsinu. Þetta hús er eiginlega orðið mitt annað heimili, mér reiknast svo til að á þessu ári (2015) eigi ég alls sjö bókanir á því, ýmist helgar eða vikur og skal því bætt við að árið er ekki hálfnað svo allt útlit er fyrir að ég eigi eftir að fjölga þessum bókunum er líður að hausti. 

Klukkan var ellefu fimmtán þegar ég kvaddi Stykkishólm að þessu sinni og renndi suður á við. Ferðin tók hefðbundna tvo tíma, heima tóku við snúningar og síðan kallaði vinnan klukkan fjögur. Þegar ég stimplaði mig út tvær mínútur yfir tólf á miðnætti söng stimpilklukkan: " Útstimplun hefur verið skráð. Bless og til hamingju með afmælið"

Þá var nefnilega kominn annar júní.......

Nú er komið að því að setja sjúkrabílinn á númer, því húsið í Hólminum er aðeins leigt til heillar viku í júní, júlí og ágúst. Næst á ég bókað um verslunarmannahelgi og viku þar á eftir. Þær helgar sem ég dvel í Hólminum fram að því dvel ég í bílnum. 

Það ætti ekki að væsa um neinn þar.......



  • 1
Antal sidvisningar idag: 319
Antal unika besökare idag: 60
Antal sidvisningar igår: 77
Antal unika besökare igår: 7
Totalt antal sidvisningar: 64130
Antal unika besökare totalt: 16617
Uppdaterat antal: 23.4.2024 18:57:31


Länkar