Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Blogghistorik: 2014 N/A Blog|Month_11

29.11.2014 09:19

Ég beygi mig.


Ég hef stundum verið kallaður þverhaus. Það getur svo sem vel verið, ekki ætla ég að gerast dómari í eigin sök. Þessi ætlaða þvermóðska hefur samt stundum komið sér vel, og eins hefur hún komið sér illa. Þess er kannski skemmst að minnast að ég gaf upp á bátinn ágætt starf vegna þess að þar var ætlast til að menn dönsuðu línudans í kringum stífar reglur sem giltu um starfið. Þess háttar línudans var - og er - mér ekki að skapi og því fór sem fór.

Síðan eru liðin nær tvö ár og þessi ár hef ég notað ágætlega - allavega að eigin mati. Aðstæðurnar hafa leyft mér að leita í rólegheitum að góðu starfi og líklega er það nú í augsýn. Það var það sem ég átti við þegar ég nefndi væntanlegar breytingar í örpistli á dögunum. Þessi tæpu tvö ár hafa liðið hratt og margt hefur verið brasað. Veturinn finnst mér alltaf vera að styttast - átta stiga hiti í nóvemberlok undirstrikar það að einhverju leyti - en það er ákveðinn galli að sumarið virðist gera það líka. Í það minnsta kem ég sjaldan í verk því sem ég hef ætlað mér að koma í verk yfir sumarið. Ég hef annars um langt árabil haft eina meginreglu. Raunar hef ég margar meginreglur en þessi er ein þeirra sem mér finnst geta átt við um alla sem stefna á að ferðast yfir sumarið. Hún er einföld: Allt sem á að brúka til sumarferða þarf að vera tilbúið ekki síðar en um miðjan apríl. Það sem þá verður eftir skal bíða til hausts.

Þannig er nú það. Þessa reglu setti ég mér þegar ég var vor eftir vor að undirbúa ferðabúnað komandi sumars og réðist gjarnan í stórframkvæmdir í sumarbyrjun sem svo ollu því að ekki varð komist af stað fyrr en miðsumars eða síðar. Vestur á Ísafirði þekkti ég bátseiganda sem aldrei byrjaði á viðhaldsverkefnum fyrr en aðrir fóru að setja á flot. Það stóðst svo á endum að þegar þessu viðhaldi lauk og hann var tilbúinn á flot var sumrinu einnig að ljúka og fyrstu menn að taka báta á land. Til að falla ekki í sömu gryfju setti ég mér þessa einföldu reglu og hef reynt að fylgja henni sem best. 


......og nú er ég á leið út fyrir efnið sem ætlað var í upphafi. Kannski þó ekki. Þannig er að þegar ég flutti hingað í Höfðaborg í mars 2012 kom til tals að setja upp bílalyftu í föndurplássinu. Þar er kannski ekki vítt til veggja en lofthæðin er næg. Fjölskyldan er bílamörg og viðhald flotans situr að mestu á mínum herðum. Því mátti þetta kannski teljast eðlilegt skref. Þó sá ég strax talsverðan annmarka á framkvæmdinni: Með því að setja lyftu í plássið taldi ég þrengjast um of fyrir Stakkanesið, ef taka skyldi það á hús. Eins taldi ég að nær ómögulegt yrði að taka litla Isuzu-vörubílinn minn inn á gólf ef lyfta væri þar að þvælast fyrir. Ég mat semsagt óhagræðið meira en hagræðið og lyftumálinu var sópað út af borðinu. Hingað inn kæmi ekki lyfta!

Síðan eru liðin nær þrjú ár og Stakkanesið hefur aldrei komið inn fyrir dyr, enda ekki átt þangað neitt erindi. Litli vörubíllinn stendur hér utandyra og hefur öðru hverju verið settur inn til dundurs en hann er ekki plássfrekur og tekur alls ekki upp allt rýmið. Reyndin hefur orðið sú að allt viðhald á fjölskyldubílaflotanum hef ég framkvæmt ýmist liggjandi á hnjánum eða á bakinu. Þetta er lýjandi til lengdar þó vel megi þola það skipti og skipti en undanfarna mánuði hef ég hreinlega verið meira láréttur en lóðréttur og nú er mál að linni. Ég hef nefnilega tekið eftir því að ég virðist vera hættur að yngjast og þótt ég hafi hingað til verið nokkuð góður í skrokknum og þolað sitt af hverju er kannski ekki ástæða til að eyðileggja það sem eftir er vegna hreinnar þrjósku.....

Austur í Kína eru menn að smíða ýmislegt dót sem þeir svo selja Vesturlandabúum á verði sem yfirleitt er talsvert undir verði vestlenskrar framleiðslu. Þar á meðal eru bílalyftur. Ég gerði nokkrar athuganir og komst að því að verð á svona lyftuapparötum er gríðarlega mismunandi og þótt fleiri en einn aðili selji lyftur frá Kína getur verðmunur hlaupið á vænni þriggja stafa tölu. Þar ráða líklega álagning og flutningsmáti mestu. Svo virðist hérlendis ekki endilega vera neinn afgerandi verðmunur á evrópskum og amerískum vörumerkjum og þeim kínversku. Það er annars dálítið eftirtektarvert að munur á kínverskri lyftu með lyftigetu upp á tvö komma fimm tonn, þrjú tonn eða fjögur tonn virðist aðallega vera límmiðinn!

Vestur á Reykjanesi - n.t.t. í Njarðvík - voru ungir menn að selja fjögurra ára kínverska DRAGON TOOLS bílalyftu. Ég fór og skoðaði gripinn og ákvað í framhaldinu að kaupa. Í gær, föstudag, fór ég svo vestureftir með stóra kerru aftan í "nýja" fyrrum bílaleigu-Grand Vitara jeppanum sem enginn getur nefnt litinn á og sótti lyftuna. Ég losaði hana sjálfur af festingum og fékk tvo náunga sem litu út eins og opnufyrirsætur í Criminal-Weekly til að hjálpa mér að setja hana á kerruna. Það var ákaflega skemmtilegt að heyra tvo austantjaldsbúa tala saman á bjagaðri ensku - ég hafði í einfeldni minni haldið að austantjaldsmál væru nægilega skyld til að menn gætu nokkurn veginn talað saman. Svona er maður nú einfaldur því auðvitað er langt á milli Litháen, Póllands og Króatíu. M.a.s. Andri á Færeyjaflandri bjargar sér á ensku þar í landi...


 (Slóð á auglýsingu lyftuframleiðandans er HÉR)


Þessir tveir voru annars almennilegustu strákar og við unnum vel saman svo verkið gekk eins og smurt. Viðstaðan var því stutt og rúmum hálftíma eftir komu var ég á heimleið með lyftu á kerru í eftirdragi. Það var hávaðarok á Reykjanessbrautinni en Grandinn stóð sig fínt og sýndi sig draga miklu betur en sá gamli rauði enda með stærri vél og fleiri hestöfl. Rokið fylgdi mér til Reykjavíkur að viðbættri ausandi rigningu. Ækið var dálítið afturþungt og lyfti í jeppann að aftanverðu. Það var ekki viðlit að losa aftanúr við þær aðstæður, lyftan yrði að fara af kerrunni áður en hægt væri að losa kerruna úr bílnum. Vandamálið var hins vegar að engar aukahendur voru tiltækar og þó ég gæti bakkað kerrunni inn í húsið komst ég ekki nógu innarlega til að geta lokað. Rokið og rigningin stóðu upp á hálfopnar dyrnar og bíllinn í þeim miðjum. Leiðin til lausnar var að losa lyftuarmana af stólpunum. Armarnir eru þungir en frekar fljótteknir af og lyftustólparnir voru mun viðráðanlegri eftir að þeir voru frá. Það stóðst á endum að þegar lyftustólparnir færðust úr láréttri stöðu á kerrunni í lóðrétta stöðu á gólfinu birtist sonurinn í dyrunum, heimkominn úr skóla kvöldsins!

Svo nú stendur hér niðri á gólfi tveggja stólpa bílalyfta ættuð frá Kína, skærgul og lýsandi tákn þess að ég hef ákveðið að slaka á þrjóskunni, beygja mig - og hætta að beygja mig.......hér eftir vinn ég uppréttur.


 

22.11.2014 09:13

Hann á afmæli í dag......


Bassi á afmæli í dag!   (þ.e. laugardaginn 22.11.)

Af því tilefni langar mig að birta nokkrar myndir úr ævi hans, eftir að ég tók hann að mér tæplega tveggja ára gamlan. 

Um aðdragandann mætti hafa mörg orð en af því að gamla Blog-central kerfið er opið þessa dagana ætla ég að setja beinan hlekk HÉR og þá má lesa það sem þá var skrifað í tilfinningu augnabliksins.

Hann hefur alla tíð átt góðu að fagna hjá fyrri "foreldrum" sem hafa tekið hann í heimsókn hvenær sem á hefur þurft að halda. Fyrsta myndin er jafnframt sú fyrsta sem ég tók af honum, í september 2007. Þarna er hann í fangi fyrri "mömmu" sinnar í Hafnarfirði:





...og hér á sama stað í fangi Bergrósar Höllu:





Hér er Bassi kominn heim á Lyngbrekkuna. Ég pantaði klippingu fyrir hann strax eftir að hann kom "heim" því hann var ótrúlega fljótur að safna sandi í feldinn og hátt í sólarhring að þorna eftir hvert bað. Á sama tíma stóðu yfir hundasýningar hjá ræktendafélögum og nær ómögulegt var að fá tíma fyrir klippingu. Hann varð því að bíða einar tvær vikur eftir sinni snyrtingu.





...en loks kom að henni og þá sá ég hundinn minn í fyrsta sinn:








Feldurinn óx svo hratt að það varð að snyrta Bassa á minnst tveggja og hálfs mánaðar fresti. Þarna er hann búinn að fá svona "eighties" klippingu hjá ágætu fólki sem rak Voffaborg í Víðidal. Hjá þeim fékk hann alltaf skraut í eyrað eftir hverja klippingu. Sjáið bara hvíta fiðrildið:





Myndin hér að neðan er tekin eftir "slysið" í Garðahrauninu á gömlu járnbrautarslóðinni. Þar fékk Bassi að hlaupa laus og í einhverri hamagangsrispunni reif hann kló. Ég tók eftir því að hann hlífði afturfæti og blóð draup úr sári. Við fórum beint á spítalann í Víðidal þar sem gert var að sárinu:





Hér erum við "feðgar" í húsbóndastólnum á Brekkunni á fjögurra ára afmælisdegi Bassa:





Í sveitinni: Myndin er tekin uppi á Mýrum og þarna er Bassi í félagsskap Gosa frá Sandgerði:





Sjóhundur: Bassi slakar á um borð í Stakkanesinu á leið um Sundin við Reykjavík





Í enn meiri slökun í yfirmanna (og yfirhunda) -messanum í Stakkanesinu:





Skyggnst um eftir leifum Víkartinds austur á Háfsfjöru:




Að Hvammi í Dölum með Elínu Huld :




Heima í Höfðaborg að hjálpa til við þá nýkeyptan sjúkrabíl





Að kanna gamalt eyðibýli að Bergsstöðum  í Svartárdal:





Með "mömmu" í skítakulda við Hvítserk nú síðsumars:





Í Sílakoti í Skötufirði hjá Dúdda og Þórdísi:





Uppi undir Snæfellsjökli með Breiðuvík, Stapafell og Hellna í baksýn:




Að síðustu langar mig að sýna myndir sem teknar voru í afmælisveislunni í Höfðaborg. Á þeirri fyrstu er Bassi í fangi "pabba" síns, sem er frekar óhreinn enda á kafi í óhreinlegum áhugamálum:



 Afmælisbörn fá svo auðvitað afmælispakka:



.......og afmælisköku, sem mæðgurnar Elín Huld og Bergrós Halla færðu Bassa. Á kökunni loga níu kerti. Svo sjást líka á myndinni sparidiskarnir sem hún mamma mín blessuð málaði á:




Að síðustu má ég til að setja inn eina svona listræna mynd, sem Bergrós Halla tók við Kleifarvatn fyrir einhverju síðan. Kannski hefði hún átt að vera efst? Þetta er allavega afar fín mynd:




Eins og sést á upphafinu byrjaði ég að vinna þennan pistil í gærmorgun. Vegna anna tókst ekki að ljúka honum fyrr en í dag, sunnudag. Það á svo sem engu að breyta......

Til hamingju með afmælið, kiðlingur minn...........


......................................

17.11.2014 12:55

Nú er hann dauður, hann Rauður!


Sunnudagurinn 16. nóvember (sem var bara í gær) gæti komist í annála vegna einstakrar veðurblíðu. Við Edilon Bassi Breiðfjörð Eyjólfs- og Elínarson Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp lögðum land undir hjól um tíuleytið í gærmorgun og höfðum kerru með bílvél og þvottavél í eftirdragi. Förinni var heitið austur fyrir fjall og skyldi verða síðasta ferð þess rauða - hann hefur átt misjöfnu atlæti að fagna gegnum árin og þrátt fyrir talsverða viðleitni hefur ekki tekist að bjarga honum eins og til stóð þegar ég eignaðist hann. Hann var þá mjög illa farinn og ógangfær úti í vegarkanti uppi í Grafarholti, þar sem ungir menn höfðu misþyrmt honum illa í torfærum. Það tókst að blása í hann lífi en hann hefur aldrei náð eðlilegum styrk - var hrjáður af þeim leiða kvilla sem skoðunarmenn kalla "styrkleikamissi", svo víðtækum að ekki varð fyrir komist nema með óheyrilegri vinnu. Rauður hefur samt þjónað mér frábærlega vel undanfarna fimmtán mánuði en nú var mál að linnti og hann fengi hvíld. 

Ferðin austur var átakalaus og við áðum á a.m.k. tveimur stöðum til að taka myndir af ótrúlegri veðurblíðunni. Það sama gerðu fjölmargir útlendingar á bílaleigubílum en sá hópur virðist enn allfjölmennur þrátt fyrir árstímann og það sem honum fylgir, kulda og birtuskort. Það var kannski ekki hlýtt í gær en alls ekki kalt heldur, og engin hörgull var á birtunni enda skein sólin á Suðurlandið. Við stoppuðum fyrst í útskoti rétt ofan þjónustumiðstöðvarinnar á Þingvöllum:



Þótt Rauður sé þarna enn ekki dauður er hann hálf-snauður því varahjólið er horfið ásamt festingu og fallegu álfelgurnar hafa fengið nýtt hlutverk. Í stað þeirra komu ryðgaðar stálfelgur með dekkjum sem hefðu fengið bæði Yul Brynner og Kojak til að roðna af öfund. Það sem ekki sést er að í innréttinguna og mælaborðið vantar u.þ.b. helming því svarti Hrossadráparinn þurfti á varahlutum að halda. Þar sem miðstöðin átti að vera var aðeins stórt gat sem kalt loft blés inn um, svo kalt að Bassi hélst ekki við í framsætinu en færði sig afturí og hristi þar í sig yl eftir getu.

Aftur stoppuðum við á brúnunum ofan Laugarvatns til að mynda og virða fyrir okkur fegurð heimsins:



Þegar myndin hér að ofan var tekin var sólin smám saman að stíga upp undir skýjahuluna en meðan hún skein milli lands og skýja var litadýrðin hreint ólýsanleg. Í fjarska sáust gufubólstrar frá hitaveitunni að Syðri-Reykjum stíga lóðrétt til lofts. Ég reyndi að mynda þá en myndirnar urðu óskýrar. Við héldum áfram........

Á hlaðinu að Apavatni stóðu tveir gljáandi Fergusynir þeirra Magnúsanna Grímssonar og Jónssonar og inni í fyrrum fjósi en nú vélageymslu stóð þriðji bróðirinn búinn ámoksturstækjum.





 Sá kom sér vel þegar kom að því að tæma kerruna, á henni var nefnilega bílvél sem illa hæfði aumu baki að bera til geymslu. Það var hins vegar engin miskunn hjá Magnúsi bónda þegar bera skyldi þvottavélina til húss. Traktor með ámoksturstækjum gengur ekki inn í þvottahúsið að Apavatni þótt nettur sé og þá var mannaflið eitt eftir. Allt gekk snurðulaust og næst var að reyta númeraplöturnar af Rauð ásamt ýmsu smálegu sem skyldi til baka. Rauður verður svo geymdur að Apavatni um óákveðinn tíma en ætlunin er að eiga hann helst þann tíma sem svarti Hrossadráparinn er á lífi og í notkun, enda eru þeir nákvæmlega eins og varahlutir í þessa bíla hættir að liggja á lausu.

 Ég hafði loforð fyrir "sækingu" eða þannig, því Elín Huld ætlaði að sækja mig á litlum, bláum bíl. Það er klukkutíma akstur frá Rvk. að Apavatni og mig var eiginlega farið að lengja eftir EH þegar hún hringdi frá Þrastalundi og var ekki alveg viss um leiðina. Hún hafði valið Hellisheiðina og kom því upp Biskupstungnabraut. EH þekkir leiðina að Laugarvatni um Mosfells-  og Lyngdalsheiðar ágætlega en eystri leiðina síður og það útheimti nokkra ferðalýsingu að beina henni á rétta braut. Eftir það gekk allt snurðulaust.

Er þá komið að þætti Edilons B. Breiðfjörð o.s.frv. Þann 22. nóvember nk. verður Bassi níu ára - það er nú bara á laugardaginn, hafi ég litið rétt á dagatalið. Mér hefur alltaf verið sagt að hundar sem éti sykur og sætindi tapi heilsunni fyrir aldur fram. Nú er ég að hugsa um að skrifa bók. Það yrði mjög fróðleg bók um það hversu mikið gott hann Bassi minn hefur haft af öllu því kexi og súkkulaði sem hann hefur innbyrt um ævina - að ég tali ekki um pitsurnar! Þegar ég fékk Bassa var hann tæplega tveggja ára og þvílíkur hlaupagarpur hafði ekki sést fyrr! Hann gat hlaupið eins og þindarlaus langtímunum saman, það sýndi sig best þegar ég missti hann í eltingaleik við kindur í Skálafellinu forðum.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið kex og súkkulaði verið innbyrt, og - það er satt að segja orðið nokkuð langt síðan ég hef séð Bassa hlaupa jafn ofboðslega eins og austur við Apavatn á sunnudaginn. Þar eru endalaus tún og sléttlendi, ekkert hraun, ekkert grjót, aðeins grasvellir. Ég er hreint ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma séð hundinn hlaupa jafn ofboðslega hratt og langt svona lengi í einu. Í hálfan annan tíma slakaði hann ekki á heldur hljóp, ýmist á fullu og rúmlega það eða með sínum eðlilega hlaupastíl.  Bassi kann nefnilega ekki vel að ganga - hann vill miklu frekar hlaupa spöl og stoppa svo og bíða en ganga á jöfnum hraða. Eina leiðin til að fá hann til að fylgja sér er að hafa hann í taumi. Á Apavatni voru allir heimsins taumar víðs fjarri og frelsið algert. Hvað var þá annað að gera en njóta þess í botn? Svo þegar þessum níutíu mínútum lauk og bíllinn kom að sækja okkur hélt ég að nú yrði Bassi hvíldinni feginn og myndi liggja sem dauður það sem eftir lifði dags. Ekki var það nú aldeilis. Okkur lá ekkert á heim svo það var stoppað á nokkrum stöðum og alltaf var sami hamagangurinn!

.......og nú má einhver reyna að segja mér einu sinni enn hveru slæmt hann Bassi minn hefur af því að borða súkkulaði og kex. Hundur sem væri farinn að tapa sjón gæti nefnilega ekki hlaupið á hundraðinu milli hjólanna á dráttarvélunum, milli girðingarstaura eða hreinlega milli fótanna á eigandanum, sem er alveg uppáhalds.....

Á myndinni hér að neðan mótar fyrir steingráum hundi á hlaupum. Það var vonlaust að taka kyrrmynd:





Það var komið fram yfir hádegi þegar ég var sóttur að Apavatni og leiðin lá upp á Laugarvatn í hádegismat og sund. Þegar til átti að taka var verslun Samkaupa lokuð vegna vörutalningar "frá klukkan 11 og fram eftir degi" eins og stóð á miða við dyrnar. Nokkrir túristar stóðu forviða við læstar dyrnar og horfðu skilningsvana á starfsfólk á vappi innandyra. Næsta hús við Samkaup er pizzastaður en í gluggum hans voru miðar með áletruninni "We are closed". Niðri við vatnið er veitingastaðurinn Lindin og þangað tókum við stefnuna. Staðurinn er fínn og inni var talsvert af fólki sem allt var útlenskumælandi. Við fengum ágætt að borða á þokkalegu verði og þegar við kvöddum vertinn máttum við til að spyrja um gullfallegan LandRover sem stendur við bílastæði veitingahússins og er skreyttur auglýsingum frá því. Sögu bílsins fengum við á færibandi, allt frá því hann fannst hálfgrafinn í jörð á sveitabæ austur á Jökuldal þar til hann var fulluppgerður með nostri og klappi - það hefur nefnilega ekki verið kastað höndunum til þess verks.








Við svo búið tókum við stefnuna á sundlaugina. Dyrnar voru opnar en inni var kona sem sagði alltaf lokað á sunnudögum. Hins vegar væri opið í nýju lauginni að Borg í Grímsnesi. Þangað komum við um hálfþrjúleytið og sátum í heita pottinum næsta hálftímann eða svo, þegar annir kölluðu okkur aftur til Reykjavíkur.

Um kvöldið var svo farið í IKEA í jólahangikjöt og þaðan í kaffi í heimahús í Garðabæ. Þegar ég fór þaðan tafðist ég örlítið við opinn bíl og Bassi greip tækifærið og fór í könnunarferð um nágrennið. Dökkgrár hundur er fljótur að hverfa í myrkrið og hann svaraði ekki kalli - hann gerir það reyndar ekki alltaf ef eitthvað skemmtilegra er í boði og þarf stundum að hvessa sig við hann ef hann á gegna. Þegar köllin dugðu ekki var brugðið á ráð sem aldrei bregst - ég setti bílinn í gang og lét hann mala augnablik. Á nokkrum sekúndum var Bassi kominn á sinn stað í aftursætinu! Hann sleppir nefnilega ekki bílferð ef hún er í boði.....

Kexið og súkkulaðið hafa nefnilega ekki haft nein áhrif á heyrnina heldur.....


--------------------









15.11.2014 12:47

Bakið...


....er að pirra mig. Fékk eitthvert andskotans vöðvatak um daginn og á erfitt með að sitja við tölvuna, þrátt fyrir að hafa endurnýjað stólinn fyrir stuttu - kannski er bakverkurinn bara vegna hans?

 

Það er ekki sama hvort litið er til hægri eða vinstri. Á aðra höndina gengur flest sinn vanagang í Höfðaborg. Ég fékk þó sjónvarpstengingu um daginn um leið og ég fékk fasta netttengingu og hef komist að því að sjónvarp er ekki alltaf til góðs. Það er raunar nokkuð síðan ég keypti tækið sjálft en þá sjaldan það hefur verið notað hefur það verið tengt öðrum tækjum en loftnetsbúnaði. Ég hef haft það fínt undanfarin tvö og hálft ár án sjónvarps og fastrar nettengingar ( hef bara notað netpung) og hafi ég þurft að eyða dag- eða kvöldstund hafa bókahillurnar séð mér fyrir afþreyingu. Þess vegna er ég ekki viss um gagnsemi sjónvarpsins. Ég fékk nefnilega frían prufupakka með sjötíu stöðvum og þá rifjaðist upp gamall og gleymdur áhugi á boxi......og nú ligg ég a.m.k. klukkutíma á hverju kvöldi og horfi á box - ýmist kikkbox eða "skó"box - á einhverri stöðinni. Á meðan rykfalla bækurnar. Ég viðurkenni veikleikann fúslega en ræð ekki við hann......að sinni. 

 

Á hina höndina eru ýmsar breytingar í farvatninu - ég segi ekki sviptingar en breytingar samt. Ef af verður breytist eitt og annað hjá okkur Bassa. Þó ekki búsetan, við erum sammála um að halda okkur hér í Höfðaborg eins lengi og mögulegt er enda kunnum við afskaplega vel við okkur. Hér er allt í haginn, veðrið er betra en annarsstaðar í bænum, aðgengið er frábært og nágrannarnir einstakt fólk. Við Bassi erum svo sem tilbúnir til að fara hvert á land sem er, en tímabundið þó því hér eigum við allt okkar þó smátt sé.

 

.......og nú verð ég að standa upp og hreyfa mig dálítið!

08.11.2014 08:30

Eins dauði er annars jeppi.


Í upphafi síðasta pistils nefndi ég kvalræði rauða Vitara-jeppakvikindisins sem á dögunum dró þunga kerru móti norðanroki upp í Stykkishólm. Það var tvímennt í bílnum á uppeftirleiðinni og margt var skrafað, m.a. um það hversu mikill munur hefði verið á að draga kerru á dökkgrænu Kanada-Vitörunni sem ég eitt sinn átti og notaði drjúgt.



Á dögunum var sagt frá því í fréttum að bílaleiga á höfuðborgarsvæðinu hefði verið lýst gjaldþrota. Þessi leiga hafði áður komist í fréttir vegna tryggingamála og fleiri álíka vandamála og því kom gjaldþrotafréttin kannski ekki svo mjög á óvart. Það er þó alltaf frekar leiðinlegt að heyra af slíkum erfiðleikum því margt býr að baki og afleiðingar margvíslegar.

Úr búi bílaleigunnar var auglýstur fjöldi vagna í mismunandi ástandi, flestir af eldri gerðum og mikið eknir. Ég frétti af útsölunni gegnum annan sem var í vígahug og hugðist gerast stórtækur í innkaupum. Þessi bílaleiga hafði m.a. átt talsverðan flota af Grand-Vitara jeppum af eldri árgerðum en ég vissi að margir þeirra höfðu verið í ágætu standi enda sterkir vagnar. Nokkuð hafði kvarnast úr þessum flota eins og gengur en þó var eitthvað eftir. Ég kannaði málið og var bent á ógangfæran bíl sem stæði við verkstæði niður í bæ og fengist fyrir rúmlega eyðingarverð. Lyklana fékk ég að kvöldi og mátti skoða að vild. Þær upplýsingar fylgdu að bíllinn væri "eitthvað undarlegur" og gæti allt eins verið með ónýta vél.

Það var myrkur þegar ég fór að skoða vagninn, kannski eins gott því varla sá í lit á honum fyrir skít. Hann hafði greinilega verið nýkominn úr leigu þegar skellt var í lás. Ég prófaði að starta og um leið fæddist hugmynd um hvað væri að - það áttu ekki að vera nein geimvísindi fyrir bifvélavirkja að koma þessum bíl í gang. Klukkan átta morguninn eftir var ég mættur á þröskuld fyrirtækis í bænum til að sannreyna þessa tilgátu. Hún reyndist rétt. Næsta skref var því að ganga frá kaupum á vagninum meðan allt væri kórrétt og hann væri enn ógangfær. Það gekk snurðulaust og skráningarbeiðnin gekk sína leið. 

Við félagar drógum svo bílinn upp í umboð og skildum hann eftir í höndum þess, þar sem framkvæma þurfti smá viðvik. Að tveimur tímum liðnum sótti ég bílinn, setti í gang og ók honum stutta leið  til fyrrum félaga minna á skoðunarstöðinni í Skeifunni. Þar var vagninn tekinn "fyrir nesið" og sýndist í lygilega góðu standi miðað við akstur (sem er þónokkur)  og fyrri störf. Úr skoðunarstöðinni var hann drifinn heim í Höfðaborg og settur í stórþvott og bón. Eftir það var hann nær óþekkjanlegur. Það má nú sjá á honum lit, en fólk er ekki sammála um hvernig sá litur er - í skráningarskírteini er hann sagður gulur en mér finnst hann vera grænn. Enn á ég enga mynd en hún kemur eflaust fljótlega.

...og nú er allt útlit fyrir að sá rauði, sem þjónað hefur mér dyggilega talsvert á annað ár meðan sonurinn hefur haft gamla svarta Hrossadráparann til afnota, hafi farið sína síðustu ferð kvalinn af roki og kerrudrætti. 



Hann verður fljótlega settur í hvíld og trúlega verður það langa hvíldin - þ.e.a.s. ef "nýja" Grand-Vitaran stendur undir væntingum. Þótt sá rauði líti vel út á mynd er hann orðinn talsvert tærður og slitinn. Frá upphafi lá fyrir að hann þyrfti mikla aðhlynningu sem hefur gengið hægar en ætlað var. Grand-Vitaran þarf svosem talsvert klapp líka. Það er hins vegar meira vit í að klappa þeim sem meira getur og gefur.................



04.11.2014 09:23

Þriðjudagsmorgunn.


 .... fjórði nóvember og ég er kominn úr Hólminum. Kom reyndar síðla dags í gær, í ágætu veðri sem var tilbreyting frá því hávaðaroki sem ríkt hefur á Nesinu síðan fyrir helgi. Hann blés kröftuglega af norðri á föstudaginn þegar ég keyrði uppeftir með kerruna "fulla af drasli" og ég hef aldrei fundið jeppakvikindið jafnkvalið né séð aðra eins bensíneyðslu! 

Laugardagurinn var tekinn snemma og strax í birtingu var ráðist á vagninn undir Stakkanesinu og hjólabúnaðurinn fjarlægður. Vörubrettum og plönkum raðað undir í staðinn svo nú er allt mun stöðugra en áður. Svo voru það tunnurnar sem nota átti sem akkeri. Úti í Skipavík var ekkert vatn að fá og allar slöngur höfðu verið fjarlægðar af bílaþvottaplani bensínstöðvarinnar. Eini staðurinn sem vatn var að finna á, var bátahöfnin. Þangað fór ég með tunnurnar og fyllti á þær. Ég hef svo sem handfjatlað fullar tunnur áður en það var helvítis puð að troða 200 kg. tunnu milli Stakkanessins og Farsæls litla hans Gulla. Svo var bundið utan um allt heila galleríið og súrrað eins og hægt var. Ég er sannfærður um að þótt í vetur geri einhverja verstu fellibylji í manna minnum muni  Stórskipið Stakkanesið ekki haggast......







Það er annars ágætt að hafa svona lítinn bát eins og Farsæl við hliðina því þá virkar stórskipið enn stærra. Þar við hliðina er svo Fleygur Sturlu frá Öxney.



Það þarf greinilega eitthvað að hugga þennan hluta vagnsins næsta vor því ekki má nýyfirfarinn og endurnýjaður hjólabúnaðurinn hrynja af vegna ryðs í festingum. Það er eins gott að allt haldi - það stefnir nefnilega í stórátök næsta sumar, þegar til stendur að draga Stakkanesið vestur í Djúp. Nú fer hins vegar vetur í hönd og enginn veit hvernig allt kemur undan honum. Fátt er þó framkvæmt án undirbúnings og þegar einu lýkur hefst annað - nú hefst semsagt undirbúningur þess að flytja Stakkanesið vestur í Djúp og að nokkrum dögum liðnum aftur til baka í Hólminn.

Svo er bara að krossa fingur og vona að allt gangi nú eftir......
....................................................

  • 1
Antal sidvisningar idag: 68
Antal unika besökare idag: 22
Antal sidvisningar igår: 360
Antal unika besökare igår: 62
Totalt antal sidvisningar: 64239
Antal unika besökare totalt: 16641
Uppdaterat antal: 24.4.2024 17:10:24


Länkar