Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Blogghistorik: 2013 N/A Blog|Month_12

31.12.2013 16:08

Stórmót framundan!


 Auðvitað eru öll áramót jafnstór, þannig séð. Þau sem standa á heilum tug - að ekki sé talað um heilt hundrað, eins og gerðist fyrir örstuttu -  eru kannski flottari í tölulegu tilliti en það gildir svo sem einu. Öll ár eru merkileg fyrir einhverra hluta sakir og ungi maðurinn á myndinni hér neðar átti ekki mörg ár að baki þegar myndin var tekin, líklega aðeins fjögur eða fimm. Sá eldri -svo nam rétt rúmum  63 árum - átti sömuleiðis langa leið ófarna og margt óreynt áður en yfir lauk. Myndin er tekin á gamlárskvöld ´87 eða ´88 (á ekki ártalið en er nokkuð viss um daginn) á flötinni innan við litla húsið okkar Elínar Huldar að Króki eitt á Ísafirði.



....og það er snjór. Það má kannski birta aðra úr safninu, sem líka sýnir snjó á gamlárskvöld. Hún er tekin líklega ´74 eða 75  utan við foreldrahús að Urðarvegi 4 á Ísafirði.  Á henni er "týndi" ættliðurinn, (ættlerinn) þ.e. sá sem vantar á efri myndina. Við hlið myndefnisins er kústskaft með ánegldu einhvers konar eldflauga-snúningsapparati. Pabbi var nefnilega alla tíð óskaplega hrifinn af flugeldadóti sem snerist og spann. Það var svo undir hælinn lagt hvort það virkaði!
Einnig má sjá á myndinni Fiat 125 Berlina, bíl sem Úlfar Önundarson frístundaskipasmiður á Flateyri átti og var vistaður hjá mér þessa hátíðardaga meðan Úlli dvaldi hjá fjölskyldunni á Flateyri - en þangað var engum fært nema fuglinum fljúgandi og svo snjóbílnum þeirra Önfirðinga. Svo sér í pallröndina á bláa MAN vörubílnum hans pabba.......



Þannig var nú það. Af því að nú er alveg að detta í áramót og ég á eftir að hafa mig til (eða gera mig til eins og dæturnar orða það) fyrir matarboð á eftir, ætla ég að hnýta einni -og aðeins einni - mynd aftanvið. Hún sýnir að það gat snjóað víðar en á Ísafirði. Myndin er tekin um 1955 í Aðalvík vestra, af veginum sem lá frá birgðastöð bandaríska hersins og Ísl. aðalverktaka á Látrum og upp að radarstöðinni á Skorum (Straumnesfjalli). Horft er vestur yfir víkina að Sæbóli og ég held mér sé óhætt að segja að svona logn og sjóleysa hafi frekar verið viðburður en regla að vetri til:




 Óska öllum gleðilegra áramóta og þakka enn og aftur fyrir innlitin og lesturinn á árinu sem er að líða.
...........................

27.12.2013 10:50

Þrjúhundruðog fimm þúsund......og einn!


Ég átti í dálitlum vangaveltum við hann Tryggva Sig. í Eyjum í gær vegna skipsflaka við Snæfellsnes. Í framhaldinu var ég að grúska í myndum sem teknar voru sl. sumar á þeim slóðum. Mér fannst vanta myndir í skrána, myndir sem ég mundi eftir að hafa tekið en fann ekki þar sem þær áttu að vera. Eftir nokkra kaffibolla og smákökur datt ég svo niður á myndirnar þar sem þær áttu ekki að vera. 

Hér rétt neðar á síðunni er færslan um kílómetrateljarana. Þar var þessu (kannski) undarlega áhugamáli lýst með nokkrum orðum en ég vissi að það vantaði myndir inní færsluna, myndir sem áttu að vera þar. Ókei, nú klárast dæmið þó allavega:

Þegar ég eignaðist sjúkrabílinn frá Selfossi hafði hann þjónað eigendum sínum dyggilega í rúman áratug. Sl. vor breyttist hann svo úr sjúkrabíl í ferðabíl en hélt þó útlitinu að mestu. Ég sagði frá furðusvipnum sem kom á litlu stúlkuna á Seljanesi við Berufjörð í sumar þegar við renndum heim á hlað, ég skrúfaði niður gluggann og spurði hvort ekki væri örugglega allt í lagi með alla á þessum bæ og hvort nokkurn þyrfti að flytja á spítala. Sumir  komu til okkar gagngert í þeim tilgangi að spyrja hvort bíllinn væri ekki ekinn hálfa leið til helvítis og til baka. Jú, víst var hann kominn yfir ábyrgðartímann og aksturinn en það skipti svo sem ekki öllu máli. Þeir fengu yfirleitt sama svarið: "Topp viðhald og ástand, einn eigandi og alltaf geymdur inni" Geri aðrir betur!

Auðvitað gaf maður teljaranum í hraðamælinum auga. Tölurnar á honum voru mér ekki kunnuglegar, ég hef aldrei átt bíl með svona marga kílómetra að baki og maður fékk hálfgerðan sting þegar hvert nýtt hundrað bættist við. Svo kom auðvitað að því að teljarinn fór að sýna skemmtilegar tölur en því miður fóru flestar framhjá mér í byrjun. Svo var það í Snæfellsnesstúrnum að áliðnum júlí að hillti undir heila "þúsundveltu"  Ég hafði því augun hjá mér til að missa ekki af viðburðinum. 

Það var miðvikudagskvöld 24.júlí og við vorum að koma úr gönguferð um Beruvík. Klukkan var farin að nálgast ellefu, það var farið að bregða birtu enda talsvert þungbúið. Áfangastaðurinn var nýja tjaldsvæðið við Hellissand og sjúkrabíllinn malaði áfram á níutíu framhjá rústum eyðibýlsins Saxhóls. Ég leit á rústirnar út um bílstjóragluggann, svo á kílómetrateljarann af rælni og þá stóð helvítið í 305000 !!

Vegurinn var mjór, enginn útskot og rétt á eftir mér voru tvenn bílljós. Þessir örfáu tugir metra sem ég þurfti til að koma mér út í blákant og gefa "eftirförinni" merki um framhjáakstur dugðu til að teljarinn rúllaði um einn og sýndi nú 305001. Helvítis djöfull!

Eftirfararnir skutust framhjá og vegurinn fyrir aftan varð auður á ný. Ég tók myndavélina úr hulstrinu, mundaði hana á mælinn, setti í bakk og bakkaði nokkrar bíllengdir með annað augað í speglinum en hitt á teljaranum. 

Það var þá sem ég kynntist því hvers konar vítisvél tölvutengdur digital-kílómetrateljari getur verið. Í stað þes að vinda ofan af sér eins og mér hefði fundist eðlilegt tryggði bölvaður sig í sessi með sína 305001. Hann hélt semsé áfram að telja upp þótt ég bakkaði!


Ég gat ekkert annað gert en að mynda mælinn í þeirri stöðu og vonast til að standa mig betur næst. Eins og sjá má er bíllinn í bakkgír þegar myndin er tekin og vélin malar lausagang. Það þarf ekki að kvarta undan olíuþrýstingi á 7,3 lítra International sleggjunni þó búið sé að snúa henni á fjórða hundrað þúsund kílómetra - og ekki alltaf á gönguhraða!

Þá er ég semsagt búinn að koma þessu frá mér og get hafist handa við að skrásetja síðustu ferð sumarsins á sjúkrabílnum. Sú var farin í septemberlok og er helst af henni að segja  - og veðrinu - að ekki urðu mannskaðar á landinu og mun þó víða hafa staðið tæpt.........



24.12.2013 11:10

Hann er að bresta á með jól! ( og lítil saga af krukku)


Það koma líka jól í Höfðaborg. Eðlilega eru þau í einfaldari kantinum því við erum aðeins tveir í heimili,ég og Bassi. Áróra hefur lítið sést undanfarna mánuði vegna anna við vinnu og fleira skemmtilegt svo það hefur verið rólegt hjá okkur tveimur. Ekki svo að skilja að það fylgi einhver hamagangur henni Áróru - öðru nær, hún er ennþá sama rólegheitabarnið og síðustu tuttuguogtvö árin.  

Fyrir einhverju síðan - það hleypur á árum - var ákveðið að þegar Bergrós Halla útskrifaðist úr grunnskóla (af því nú "útskrifast" börn úr grunnskóla og þurfa helst að fara utanlandsferð í kjölfarið). Þetta var hvorki hugmynd né ákvörðun okkar foreldranna, við fylgdum aðeins straumnum og stefnunni sem mótuð hafði verið af börnum og foreldrum í Hjallaskóla. Þegar einhver ferðast til útlanda þá þarf eðlilega farareyri og hann var svo sem ekkert stórvandamál. Ég fékk samt söfnunarhugmynd, innblásna frá gömlum vini á Ísafirði sem safnaði sér fyrir rándýru reiðhjóli á þennan hátt - ég fékk mér gamla, risastóra rauðkálskrukku sem til var á háaloftinu sem erfðagóss frá tengdamömmu. Á krukkulokið gerði ég rifu, límdi það svo fast aftur með límbandi (sem ég gaf það hátíðlega nafn "innsigli") og hóf að safna öllu klinki sem til féll í krukkuna. Söfnunin gekk hægt því eins og flestir notaði ég mest kort í viðskiptum og það var sáralítið um lausa peninga. Eitthvað rataði þó í krukkuna en þegar kom að útskrift og utanlandsferð var það engan veginn nóg svo krukkan fékk að standa ósnert, farareyririnn var greiddur rafrænt eins og hjá öðrum.

Þegar ég flutti svo í Höfðaborg fluttist krukkan auðvitað með og þar sem í mér býr eðlislæg ótrú á plastpeningum hneigðist ég æ meira - eftir að ég var orðinn einráður - til notkunar á lausu fé. Þar með hækkaði hratt í krukkunni, fyrr en varði var hún orðin full og búið að byggja við, þ.e. taka í notkun aðra, þó öllu minni. Hér neðar á síðunni sagði ég frá ferð Bergrósar Höllu til Spánar í septemberlok sl. Mér þótti tilvalið, í ljósi þess hvernig til krukkunnar var stofnað í upphafi, að hún fengi innihald hennar sem farareyri til Spánarfararinnar. Svo varð og það munaði sannarlega um innihaldið.

(Ég hef raunar sagt frá þessu áður en það er í góðu lagi.)

Þannig atvikaðist það að undir lok september stóð krukkan góða tóm á eldhúsborðinu. Mér fannst tilvalið að safna í hana fyrir jólagjöfum og hófst handa með þriggja mánaða fyrirvara! Ég er passasamur á klink og allt sem til féll rann samviskusamlega í krukkuna - ég segi allt en undanskil þó krónupeninga. Krónupeningar eru verðlausir miðað við þyngd og fyrirferð en eru hinsvegar ágætir í skífur. Þeim er því safnað í sérstaka krukku í bílskúrnum og eru svo gripnir og gataðir þegar þannig stendur á. Sem dæmi má nefna að ein átta millimetra rústfrí brettaskífa kostar átta krónur í BYKO og má nærri geta hvort ég er ekki ágætlega settur með krónurnar því gatið í miðjunni kostar mig ekkert nema föndrið. Ég má því segja með sanni að ég eigi ekki krónu með gati nema þegar ég þarf.....

En semsagt, ég safnaði stíft í krukkuna og þegar dró að jólum og gjafainnkaup stóðu fyrir dyrum settumst við Bassi niður við eldhúsborðið, tæmdum krukkuna í bakka og flokkuðum innihaldið:






Eins og sjá má er töluvert af "gullpeningum" í safninu og ég sá í hendi mér (og vissi raunar af fyrri viðskiptum við krukkuna) að innihaldið myndi nema allnokkurri fjárhæð. Það kom enda á daginn og við Bassi vorum bara þónokkuð hróðugir þegar við settum klinkið aftur í krukkuna og fengum okkur smákökur úr boxinu bak við sérvíettustandinn! Síðan var marserað í Landsbankann í Mjódd en svona fyrir siðasakir hafði ég krukkuna í nettum bréfpoka merktum einhverri tískuverslun. Í bankanum tók ég númer hjá gjaldkera og beið af mér eina fimmtán viðskiptavini áður en kom að mér. Allan tímann sat ég með fargið í fanginu og ekki yrði ég hissa þótt einhver hefði haft vakandi auga á grunsamlegum manni með eitthvað blýþungt í poka. Að síðustu kom að mér og ég ætla ekki að lýsa furðusvipnum á gjaldkeranum (eða gjaldkerunni) þegar ég spurði hvort hún væri handsterk og rétti svo krukkuna yfir glerið á stúkunni!  Því miður var þetta fullorðin kona og lífsreynd, ég hafði vonast eftir að hitta á eitthvert gjaldkeratrippi sem væntanlega hefði verið slegið illa út af laginu. Fullorðna konan benti mér - með örlitlu brosi sem var ótrúlega vel stjórnað - á talningarvél í einu horni útibúsins. Ég var þarna að tæma krukkuna sjálfur í fyrsta skipti og vissi ekkert hvernig svona hlutir gengju fyrir sig - fimmtán kúnna biðin hafði þá eftir allt verið óþörf! Ég klóraði mig fram úr talningarvélinni og lagði niðurstöðuna, að frádregnum 150 krónum sem vélin vildi ekki meðtaka, inn á reikning. Innihald krukkunnar reyndist rétt tæpar þrjátíuogfimm þúsund krónur og það er ekki slæm búbót í jólagjafainnkaupum!

Í gærmorgun, á Þorláksmessu var nokkrum utanhúss-jólaerindum ólokið. Í þau var gengið og er kom fram á miðjan dag, síðasta erindinu lauk og við vorum á heimleið sagð ég við Bassa: "Jæja Bassi minn. Nú er allt klárt til jólanna, nú getum við farið heim og þurfum ekki út úr húsi fyrr en annað kvöld"

.............og þannig hefur það verið. Það er aðfangadagshádegi, veðrið er þolanlegt þrátt fyrir spár, hér er sæmilega bjart, úrkomulaust en vindstrekkingur nokkur. Bassi hefur ekki nennt út í morgun enda tók hann hálfsannarstíma gönguferð í gærkvöldi. Eftir slíkt ráp er hann latur og vill helst liggja í körfunni sinni við ofninn. Við eigum ófrágenginn rauðan Vitarajeppa hér niðri og óinnpakkaðar jólagjafir. Hvorttveggja þarf að vinnast í dag. Ekki seinna vænna að hefjast handa! 
Aðeins eitt enn:

--------------------------------------------------------------------------------------------------

Á fyrsta degi desembermánaðar var Stakkanesið tekið á land. Svo lengi frameftir hefur það aldrei verið á floti og Viðeyjarsiglingin, sem var sú síðasta þetta árið toppaði haustið að fullu. Eftir þá ferð gerði varla almennilegan dag og það var ákveðinn léttir að koma bátnum í naust og ganga frá honum til vetrarins. Einhvern tíma í haust þegar kvöld voru orðin dimm setti ég slönguseríu á stög mastranna og sigldi með hana minnst einu sinni um Sundin. Ég hugsa að það hafi verið sjón úr landi að sjá siglandi bát skreyttan eins og hvalaskoðunarskip en að stærð til eins og björgunarbát þeirra! 
Það var svo á hörðu frostkvöldi fyrir nokkru síðan að ég tók með mér framlengingarsnúru að bátnum, fann mér rafmagnstengil í nálægum geymslugám og stakk seríunni í samband. Dró svo upp myndavélina og tók nokkrar myndir til að nota við nákvæmlega þetta tækifæri - jólakveðju okkar Bassa úr Höfðaborg. Vegna frostsins urðu myndirnar dálítið einkennilegar, líkt og á þeim sé móða. Ég get ekki gert að því, svona varð þetta bara og betra tækifæri gafst ekki. Stb. síðan á Stakkanesinu virðist nudduð. Hún er það alls ekki, þetta er aðeins einhverskonar ljósbrot vegna frostsins. Sama gildir um gluggana - þeir eru ekki hélaðir:







Við svo búið viljum við Bassi óska öllum sem lesa sig alla leið hingað niður, gleðilegrar jólahátíðar og þökkum lesturinn og kveðjurnar á árinu. Við sendum sérstakar kveðjur vestur á Ísafjörð, þar sem leiðindaveður spillir færð og rafmagnið flöktir. Fátt í þeim efnum kemur þó Ísfirðingum á óvart og þar á bæ ganga jólin sinn vanagang sama hvað á dynur - enda koma jólin innanfrá!

...............alveg eins og hér í Höfðaborg.........

GLEÐILEG JÓLemoticon

..................................................

16.12.2013 16:02

Að gleðjast yfir litlu.


Einu sinni var til máltæki sem sagði, ef ég man rétt: "Lítið er ungs manns gaman" og mátti útleggjast þannig að lítið þyrfti til að skemmta börnum.  Ég er hvorki barn né ungur maður, svona þannig séð. Samt bý ég enn að þeim eiginleika barnsins að geta glaðst yfir litlu. Eitt af því sem ég hef gaman af er að fylgjast með kílómetrateljurum bíla og leita uppi skemmtilegar talnaraðir. Þegar ég svo finn skemmtilega röð eða veit að von er á henni tek ég gjarnan upp símann eða myndavélina og smelli mynd af mælinum/teljaranum. Oft hef ég ætlað að vaka yfir skemmtilegri talnaröð en svo steingleymt og misst af, en líklega jafnoft náð að mynda aðrar í staðinn - stundum er nefnilega eins og hnippt sé í mig þegar upp rennur flott röð. Þannig var það einmitt nú á dögunum þegar ég sat í bílnum á rauðu ljósi á Kringlumýrarbrautinni. Mér varð litið á teljarann og hann sýndi nákvæmlega 189.000 km. Til allrar hamingju var síminn innan seilingar (en ekki kolfastur í helvítis buxnavasanum eins og venjulega) og ég náði fínni mynd.

Ég man ekki alveg hvenær þessi árátta hófst. Kannski hefur hún alltaf verið til staðar en myndavélar ekki jafn handhægar og á síðustu árum. Allavega var Hrossadráparinn (hvurs nafn hefur þegar verið útskýrt) keyrður 122 þúsund kílómetra þegar ég eignaðist hann en fyrsta mynd af mælinum er tekin þegar hann rúllaði í 160.000:


Svo virðist hafa runnið rúmir fimmtán þúsund kílómetrar fram að næstu:


Eins og sjá má logar "Check engine" ljósið. Það er vegna þess að einu sinni tók ég tengi úr sambandi með vélina í gangi og ljósið kom samstundis. Þegar ég svo greip nýju bilanagreiningatölvuna sem keypt var í Toppi og átti að geta lesið nær alla bíla kom á daginn að meðal þeirra sárafáu sem hún las ekki var Suzuki. Ég varð fúll og hef leyft ljósinu að skína síðan. Það var hins vegar ekki nema sirka ein ferð til Ísafjarðar þar til næsta mynd var tekin: 


Aftur líða u.þ.b. fimmtán þúsund kílómetrar milli mynda en svo gerast þær öllu þéttari. Fimmtán þúsund kílómetrar voru annars fljótir að rúlla á Hrossadráparanum þegar mest var :


....og áfram er haldið:



Svo fer að verða gaman að þessu. Næstu myndir eru teknar á vegarkafla í Grímsnesinu, rétt sunnan við Stóru-Borg:

 


Nú er farið að vaka yfir mælinum og nánast ekið með myndavélina í hendinni:


....og "tripteljarinn" eltir eins og hundur í bandi! Enn rúlla kílómetrar inn á mælinn:



Það er ekki einu sinni stoppað til að taka sumar myndirnar, aðeins rétt hægt á!




Það er vel merkjanlegt fallið á bensínmælinum þessa fimmtíu kílómetra. Skyldi hafa veið vetur, kuldi og snjór?



Þessi finnst mér sérstaklega flott:


....og svo áfram:



Þarna missum við sjónar af Hrossadráparanum. Ég hef nefnilega lítið af honum séð síðan um verslunarmannahelgi. Sonurinn eignaðist nefnilega annan samskonar sem þurfti smá hjálpar við. Sá er sömu tegundar, sama árgerð og eins að öllu leyti nema liturinn, sem er rauður. Það skiptir því litlu máli hvor bíllinn er, hann keypti rauðan en ekur svörtum, ég á svartan og ek rauðum - þetta ástand varir þar til ég verð ánægður með þann rauða og skipti aftur við drenginn. Að sjálfsögðu er myndavélin við hendina í þeim rauða:


Og þá er það myndin sem minnst var á hér efst, sú sem tekin var á rauðu ljósi á Kringlumýrarbrautinni fyrir nokkrum dögum:


Fyrir ekki svo löngu þurfti ég að hjálpa aðeins upp á "The blue streak", nafn sem stundum er notað á bláa kappakstursbílinn hennar Elínar. Nú er Bergrós Halla komin með bílpróf svo þær eru tvær um að halda bílnum liðugum. Þessi fagurblái Suzuki Ignis var keyrður 15.600 km. þegar við eignuðumst hann í apríl ´05. Þeir tímar eru löngu liðnir:


Fyrir stuttu eignaðist ég Nissan Micra fyrir hálfgerðan misskilning. Hann hefur lítið verið notaður, enda ekur maður bara einum bíl í einu og Vitaran er miklu meiri bíll. Ekki hafði Micran þó langt farið þegar þessi skemmtilega tala rúllaði upp á teljarann:


Að síðustu læt ég fylgja tvær myndir sem líklega hafa verið teknar í skoðunarstöðinni í Skeifunni. Tilfellin sjálf man ég ekki en tölurnar eru flottar:



Hugsið ykkur hvað lífið væri litlaust ef allir hefðu sömu áhugamálin!!

..................

12.12.2013 09:51

Dularfulla flöskuskeytið.



Stakkanesið hefur farið sína síðustu sjóferð þetta haustið. Henni hefur þegar verið lýst í myndum og löngu máli þó stutt væri farið, eða aðeins út í Viðey í gönguferð. Ég ætla hins vegar að lýsa smáatviki sem kom fyrir í næstsíðustu sjóferðinni.

 

Kannski var það ekkert smáatvik. Ég er ekki viss, kannski var um sögulegan viðburð að ræða og ég er heldur ekki viss um að ég sé hæfur til að meta hvort svo sé. Þess vegna verð ég að leggja málið í dóm.

 

Þannig var að Stakkanesinu var stefnt til fiskjar upp við Lundey á Kollafirði nú í nóvember. Í áhöfn vorum við tveir, ég og Edilon Bassi Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof.  Ekki var aflinn mikill, einn marhnútur álpaðist á öngul þegar svo grunnt var orðið á Lundeyjarrifinu að sá til botns. Ekki þótti áhöfninni fengur í aflanum svo mansanum var sleppt í sjóinn að nýju. Nokkrum sinnum var kippt og rennt á nýjum stöðum en allt kom fyrir ekki og þegar allt súkkulaðikexið var búið var farið að huga að heimferð. Af því veðrið var gott tókum við stóran sveig á siglingunni og renndum meðal annars inn á víkina fallegu norðan við Eiðið í Viðey. Þessi vík er svona uppáhaldsstaður hjá okkur Bassa, við höfum þónokkuð oft lagst þarna við akkeri og tekið kríublund ef letin hefur sótt á okkur.

 

Við létum reka á víkinni og renndum einu sinni með veiðistöng - þarna er of grunnt fyrir handfærarúllur. Ekki urðum við varir við fisk frekar en áður, en þegar við vorum rétt lagðir af stað heimleiðis að nýju, sá ég eitthvað torkennilegt í sjóskorpunni. Það reyndist vera brúnleit bjórflaska, án miða en með hálfrekinn korktappa í stútnum. Þeir sem henda bjórflösku í sjóinn hafa venjulega ekki fyrir því að reka korktappa í hana áður og því datt mér í hug að athuga flöskuna betur. Stakkanesinu var lagt að og flaskan fiskuð um borð. Í henni reyndist vera pappírsblað, hálfrakt og lyktandi af bjór. Blaðið var sett í þurrk þegar heim kom, síðan skannað inn á tölvu og leit svona út eftir meðhöndlunina:





Ég held að textinn sé þokkalega skýr en skal samt endurrita hann til vonar og vara. Á blaðinu stendur:

S.O.S. 15 júlí 1943. Halló, ég heiti Njálgur og ég er hér á eyðieyju langt úti á hafi suður af Íslandi. Ég hef borðað íkorna hér og ekkert annað, þeir eru ógeðslegir á bragðið. Komið fljótt, ég held að eldfjallið sé að fara að gjósa. Njálgur Rassmusen 34 ára.

 

Þannig var nú það. Eins og ég segi er ég ekki dómbær á gildi bréfsins. Mér þykir nafn mannsins dularfullt - jafnvel ógeðfellt, en hvað veit ég svo sem um mannanöfn. Norður á Hornströndum var eitt sinn maður að nafni Helvetíus og hefur eflaust þegið það nafn frá foreldrum. Svo er eftirnafnið Rasmussen alþekkt en röð -ess- anna er þá semsagt öðruvísi. Enn eitt þykir mér eftirtektarvert við bréfið, nefnilega hvað Njálgur Rassmusen hefur haft kvenlega og netta rithönd. Svo má spyrja sig hvort hann hafi e.t.v. haft pappír og ritföng ásamt bjór á eyðieyjunni. Ég hef velt því fyrir mér hvort Njálgur Rassmusen hafi kannski verið á skipi - farþegi eða skipverji - og hreinlega verið settur í land á eyðieyju með brýnustu nauðsynjar vegna einhvers leiðindamáls sem upp hafi komið um borð. Maður með þetta nafn er líklegur skotspónn æringja af ýmsu tagi og hin kvenlega rithönd hefur þá ekki bætt um. Kannski hefur N.R. verið úlfur í sauðargæru meðal skipsmanna, sem trúlega hafa verið eingöngu karlmenn, mögulega verið kvenmaður í karlmannsklæðum og kennt sig þessu undarlega nafni af sjálfsdáðum.

 

Enn má láta sér detta í hug, sé tekið mið af dagsetningu bréfsins þann 15. júlí 1943, að N.R. hafi lent í hremmingum af hernaðarvöldum, enda heimsstyrjöldin sem  af bjartsýni og trú á batnandi mannkyn hefur hér á Íslandi verið kölluð "hin síðari" þá í algleymingi. Hafi svo verið má láta sér detta í hug ýmsar ástæður þess að vesalings maðurinn lenti á eyðieyju með bréfsefni, skriffæri og bjórflösku, án þess ég leyfi mér frekari fabúleringar í þá veru. Af einföldum útreikningi má giska á að  N.R. muni hafa verið fæddur árið 1909 eða þar um bil. Hann hefur því verið rétt þrítugur þegar styrjöld skall á og hafi hann verið í her einhvers lands má vel giska á að hann hafi verið kominn í einhverja yfirmannsstöðu árið 1943. Það má vel gefa sér að þegar bréfið er skrifað hafi N.R ekki verið svo ýkja lengi á eyðieyjunni því hann segist eingöngu hafa lifað á íkornum og þeir séu ógeðslegir. Enginn lifir á íkornum einum saman - allavega ekki til lengdar - og ég vona svo sannarlega að N.R. hafi verið bjargað sem fyrst af eyjunni. Ef ekki, má reikna með tvennu: Annarsvegar hafi N.R. hreinlega vanist íkornafæðinu því eins og máltækið segir má svo illu venjast að gott þyki. Hinu má svo allt eins reikna með (og þá minni ég á að stærð eyjunnar og umfang er óþekkt) að þó íkornar fjölgi sér hratt þurfi 34 ára karlmaður (hafi svo verið) allnokkuð að borða og því hafi stofninn hreinlega komist í útrýmingarhættu.

 

Svo er algerlega óþekkt hvaða áhrif gosið í eldfjallinu, hafi það á annað borð gosið, hefur haft á íkornastofninn.

 

Ég hef ekki önnur ráð en leita á náðir þeirra sem kunna að lesa þetta pistilkorn mitt, ef einhver kynni betur að skýra þetta dularfulla flöskuskeyti sem fannt á Kollafirði norðan Viðeyjar fyrri hluta nóvembermánaðar 2013.

 

Að svo mæltu legg ég málið í dóm.


  • 1
Antal sidvisningar idag: 98
Antal unika besökare idag: 13
Antal sidvisningar igår: 274
Antal unika besökare igår: 13
Totalt antal sidvisningar: 62741
Antal unika besökare totalt: 16432
Uppdaterat antal: 16.4.2024 17:33:51


Länkar