Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Nóvember

29.11.2013 21:36

Davíð frá Spáni.

Hún Bergrós Halla er í Versló, eins og áður hefur komið fram.  Síðastliðið vor var ákveðin skiptiheimsókn nema úr spænskum viðskiptaskóla og skyldi hún standa fyrstu daga septembermánaðar. Að mánuði liðnum skyldu svo íslensku verslingarnir endurgjalda heimsóknina. Í upphafi skólaárs nú í haust var gríðarlegur spenningur meðal þeirra þriðjaársnema sem áttu von á Spánverja í heimsókn, því spænsku nemarnir skyldu jú gista heima hjá þeim íslensku og síðan öfugt. Með góðum fyrirvara voru bæði nöfn og myndir komin á netið og margir unglinganna komnir í hálfgert "vinasamband" þegar leið að komu Spánverjanna. Sumir höfðu "pantað" sér gest, öðrum var úthlutað gestum af skipuleggjendum. Í hlut Bergrósar Höllu kom Davíð frá Barcelóna og eitthvað höfðu þau haft netsamband sín á milli er að heimsókn kom.  Stór hluti undirbúnings kom í hlut mömmunnar, Bergrós Halla býr jú enn í heimahúsum og Elín Huld sá um að allt yrði tilbúið þegar stóri dagurinn rynni upp.

Á fimmtudagssíðkvöldi þann 30. ágúst lenti svo hópurinn á Sandgerðisflugvelli og hver sótti sinn gest. Dagskrá heimsóknarinnar var nokkuð stíf, hófst snemma á föstudagsmorgni og stóð allan daginn. Þann sama dag lauk minni Ísafjarðarheimsókn og ég ók suður heiðar á sjúkrabílnum í blíðskaparveðri alla leið - þrátt fyrir hroðalega veðurspá! Þegar ég nálgaðist suðvesturhornið var ég símleiðis boðaður í gala-kvöldmat í Ástúninu og þáði að sjálfsögðu.

Ætlast var til að gestgjafar sæju um afþreyingu fyrir gesti sína laugardag og sunnudag. Við spænskan undirbúning fararinnar hafði legið fyrir listi yfir áhugaverða staði í seilingarfjarlægð frá Rvk-svæðinu og einnig utan þess. Innan seilingar voru hefðbundnir ferðamannastaðir, s.s. Þingvellir, Gullfoss og Geysir en einnig Reykjanesskaginn í heild.  Spænsku nemarnir áttu að merkja við þá staði sem þeir óskuðu helst að sjá og skoða.

Langflestir nemanna völdu Jökulsárlón sem óskastað og því var einn dagur heimsóknarinnar lagður undir ferð þangað.  Ekki var hægt að gera ráð fyrir að hver fjölskylda æki austur með "sinn" nema og því var ákveðið að leggja einn dag heimsóknarinnar undir rútuferð austur að lóninu. Fyrir utan Jökulsárlón höfðu nemarnir helst valið heðbundnu staðina, enda eru þeir líklega einhverjir best kynntu staðir á Íslandi, svona heilt yfir..

Við Bassi náðum ágætis nætursvefni eftir aksturinn suður og kvöldverðinn, og vorum snemma á fótum á gullfallegum laugardagsmorgni - eins og venjulega. Við hefðum hins vegar getað sagt okkur sjálfir að íslensku verslingarnir myndu vilja sýna þeim spænsku íslenskt "næturlíf" á föstudagskvöldinu og fram á nóttina. Þótt allrar reglu væri gætt sváfu þessi blessuð lömb því eðlilega fram undir laugardagshádegi. Það var ekki fyrr en undir miðjan dag sem ekið var af stað í austurátt beint upp að Geysi. Þar hittum við fyrir þónokkra krakka/foreldra í sömu erindum. Þeim spænsku þótti mikið til þess koma að sjá Strokk spýta úr sér og mynduðu allt í gríð og erg.  Frá Geysi var haldið að Gullfossi og þaðan til baka um Lyngdalsheiði til Þingvalla. Það var farið að halla degi þegar við lögðum af stað heim og nokkuð farið að kólna. Davíð hinn spænski var farinn að skjálfa úr kulda enda hitastigið í Katalóníu talsvert frábrugðið íslensku síðsumri. Hann mátti þó harka af sér því enn var talsverð dagskrá eftir hjá verslingunum og skyldi standa fram á rauða nótt.

Það var ekki fyrr en heim kom sem við foreldrar og fararstjórar áttuðum okkur á því að við höfðum ekki tekið eina einustu mynd í dagsferðinni! Við lofuðum sjálfum okkur að standa okkur betur daginn eftir, á sunnudeginum. Þá höfðum við ákveðið að renna á Reykjanesið og sýna Davíð m.a. Krýsuvík, Strandarkirkju og Raufarhólshelli.  Bláa lónið var inni á sameiginlegri ferðaáætlun hópsins og skyldi heimsótt í vikunni.

Svo rann sunnudagurinn upp. Veðrið, sem hafði leikið við okkur daginn áður hafði algerlega snúist við og nú var þoka með húðarrigningu á köflum. Eftir að hafa ræst ungmennin undir hádegið og haldið fund um málið var ákveðið að setja undir sig hausinn að víkingasið og æða út í votviðrið. Fyrsti viðkomustaður okkar var Kleifarvatn, þar sem ekið var niður að vatni og skoðaðar móbergsmyndir, bæði manngerðar og náttúrlegar. Á meðan rigndi svo ofboðslega að ég er sannfærður um að ef bíllinn hefði verið s.s. hundrað metrum lengra í burtu hefðum við hreinlega orðið úti á göngunni!

Þá var það Seltún. Ég þuldi upp söguna um hverinn sem sprakk og sýndi Davíð ummerkin, þ.e. þau sem enn sjást. Ég er ekki viss um að hann hafi haft mikinn áhuga fyrir leirslettunum, áhuginn snerist meira um að lifa veðráttuna af......


Vestfirskir víkingar þurftu hins vegar hvorki úlpu né húfu enda kallast það ekkert veður sem ekki fylgir snjókoma.....



Bergrós Halla var hins vegar aðeins tæpra fjögurra ára þegar hún flutti af Vestfjörðunum og vill gjarnan álíta svona veður "skítaveður":



Ég veit ekki hvort myndavélin hans Davíðs komst heil úr hildarleiknum, en blaut var hún orðin. Eftir þessa heimsókn í Seltún bætti heldur í veðrið og frekari myndatökur lögðust af. Ferðin hélt hins vegar áfram þótt lítið sæist út, bæði vegna þoku og eins vegna móðu á bílrúðunum. Við skoðuðum leifarnar af Krýsuvíkurkirkju og upplýsingaskilti um hana, renndum svo austur í Selvog, meðfram Hlíðarvatni og að Strandarkirkju. Eftir stutta skoðun þar var haldið að T-bæ, litla veitingahúsinu í Selvogi. Þar var að ljúka skírnarveislu í hliðarsal en samt var kaffisalan opin almenningi. Í afgreiðslunni voru tvær fullorðnar konur og við tókum spjall yfir kaffi og kökusneið. Einhvern veginn barst Ísafjörður í tal og uppruninn þar. Önnur konan sagðist þá vera að vestan og hefði m.a.s. alist upp á Ísafirði - hefði búið í Aðalstræti átta. Ég fór að telja upp þá sem ég mundi eftir í "hennar" enda hússins, Bjarna sem þar bjó, Binna Bjarna, son hans sem líklega býr enn fyrir vestan og Jónu Bjarna. "Ég er Jóna Bjarna" sagði þá konan og skemmti sér vel yfir mínum viðbrögðum, því sú Jóna Bjarna sem ég mundi eftir var gjörólík konunni sem ég var að tala við - enda trúlega þrjátíu ár liðin frá því ég sá henni síðast bregða fyrir!

Þannig var nú það. Við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum þessar indælu konur í T-bæ. Okkar leið lá til Þorlákshafnar og veðrið var orðið þannig að vart var hundi út sigandi. 


Við snerum á þessu útsýnisplani sem gert hefur verið niðri við vitann á Hafnarnesi. Ég reyndi að segja Davíð frá "dólossunum" steinsteyptu sem notaðir voru í eina tíð til að gera hafnargarðinn í Þorlákshöfn en er ekki viss um að hann hafi skilið mig - eða kannski þóttu honum þessi steyptu "tvö-T" -stykki bara ekkert merkileg. 

Við höfðum talað um að reyna að líta á Raufarhólshelli í heimleiðinni en veðrið kom í veg fyrir langa göngu þar. Grjótið í hellinum var flughált og eftir svo sem 3-400 metra var ákveðið að snúa við og reyna frekar að komast heil heim. Það tókst og eftir alfataskipti hélt stíf dagskrá unglinganna áfram.

Á mánudagsmorgni tóku skipuleggjendur heimsóknarinnar í Versló við taumnum og sáu með prýði um sinn þátt. Það kom svo í minn hlut að aka Davíð út í Leifsstöð á fimmtudeginum. Þar með lauk vikulangri, velheppnaðri heimsókn spænsku verslinganna (ef frá er talið sunnudagsveðrið) og fyrir lá undirbúningur þeirra íslensku sem endurgjalda skyldu heimsóknina að tæpum mánuði liðnum. Sú ferð tókst líka með miklum ágætum en ég sem foreldri hafði fátt af henni að segja.


......ég veit bara að það var sól á Spáni.......alla dagana!



.............................

23.11.2013 21:29

Afmælissigling.


Eðalhundurinn Edilon Bassi Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff varð heilla átta ára í gær, 22. nóv. Hann komst í mína eigu tæplega tveggja ára og þessi rúm sex sem liðin eru síðan hefur afar sjaldan verið langt á milli okkar.  Í tilefni dagsins færði Elín Huld (sem á þónokkurn heiður af uppeldi Bassa og umhirðu) honum kórónu sem búin var til á leikskólanum Efstahjalla í Kópavogi.  Bassi var ekki par sáttur við að láta mynda sig með kórónuna og þurfti utanaðkomandi aðstoð svo sæmilega tækist til. Hann fékk svo ekta afmæliskvöldverð, nefnilega sælkerakjötbollur, og  súkkulaðikex í eftirmat.

Því miður þurfti Bassi svo að eyða fyrri hluta afmæliskvöldsins einn, því við EH vorum á leið í Hörpuna að horfa (og hlusta) á Verslóvælið.  Söngfuglinn og Verslódaman  Bergrós Halla  var nefnilega meðal flytjenda og stóð sig með prýði eins og búast mátti við.

Efsta myndin hér að neðan er tekin af þeim Bergrós Höllu og Bassa í slökun heima í Höfðaborg. Þær neðri eru svo teknar í gær, á sjálfan afmælisdaginn:





Í dag var svo allt annar dagur. Það er laugardagur ( reyndar er honum farið að halla verulega) og veðrið hefur leikið við fólk hér í borgarlandinu. Ég hafði beðið talsverðan tíma eftir veðri til að hreyfa Stakkanesið og nú gafst ágætt tækifæri. Það var reyndar frekar kalt þrátt fyrir sólskinið, mælirinn sýndi mínus fjórar í birtingu en eina og hálfa um hádegið. Þegar Stakkanesið var sett í gang kom í ljós að vélin skilaði ekki kælisjónum frá sér. Það hafði semsagt krapað í lögninni og tók nokkur augnablik að hreinsa hana út. Að því loknu voru landfestar leystar og siglt út sundið í átt að Viðey. Þetta átti nefnilega ekki að vera löng sjóferð því upp á þessa helgi ber einnig síðustu Formúlukeppni ársins og henni sleppir maður ekki!

"Mamma" hans Bassa hafði beðið um að fá að fara með ef farið yrði og var auðsótt. Hún kom með nesti og eftir að við höfðum bundið Stakkanesið við bryggju í Viðey og gengið yfir þvera eyjuna (tvennt gekk, einn hljóp) var sest niður á fallegum útsýnisstað og nestið tekið upp:


Fyrir ofan er horft frá norðurströnd Viðeyjar inn til Mosfells (í myndjaðri vinstra megin), Helgafells, Grímmannsfells, Lágafells, Reykjafells og Úlfarsfells - séð frá vinstri til hægri. Næst til vinstri sér á sinuna í Geldinganesi.

Fyrir neðan er  horft yfir Kollafjörðinn til Lundeyjar á miðju sundi. Kjalarnesbyggðir í baksýn: 


Að neðan er enn horft yfir spegilsléttan sjóinn, yfir Brautarholt á Kjalarnesi til Akrafjalls:


Nestið var svo sem ekki flókið, kókómjólk og ostaslaufur. Það er samt alveg ótrúlegt hvað hundur - næstum ósköp venjulegur hundur - getur verið sólginn í ostaslaufur!





........og svo leið dagurinn, áður en varði var kominn tími til að rölta til báts og sigla heim. Við sáum til nokkurra siglara sem höfðu gripið tækifærið og "hreinsað botninn" í veðurblíðunni. Mér sýnist að alla næstu viku sé spáð hlýindum en nokkrum vindi og í ljósi þess að dagurinn er nánast enginn orðinn og fyrr eða síðar koma vetrarstormarnir, er líklegt að dagar Stakkanessins á floti þetta árið séu senn taldir.

Lagfæringum á Isuzu- vörubílnum sem ætlað er að bera Stakkanesið milli landshluta í framtíðinni miðar hægt en örugglega áfram. Nú fyrir nokkrum dögum kom svo upp glæný staða í þeim málum sem mun líklega auðvelda mér þessa flutninga um allan helming ef af verður - og það er nokkuð gulltryggt að af því verður. Mér bauðst nefnilega kerra að láni, sem er svo stór að hún rúmar auðveldlega Stakkanesið í  bátavagninum sínum - rétt eins og Isuzu er ætlað að gera. Kerran ber fjögur tonn, sem er talsvert meiri burðargeta en vörubíllinn hefur, og það sem meira er: sjúkrabílinn, með öll sín hestöfl ætti ekki að muna mikið um að renna í Hólminn og jafnvel lengra með ækið í eftirdragi. 

Í mínum huga er því eiginlega nærri komið vor - eða þannig..........


..........................................

12.11.2013 08:01

Einu sinni var.....


Mér finnst ég ekkert sérstaklega gamall - allavega ekki í anda, eða þannig. 

Samt finnst mér vera liðin svona þúsund ár síðan ég ók af Breiðadalsheiði (já, eða ofanverðum Dagverðardal eftir því hvernig á er litið) yfir hálsinn að Nónvatni. Það eru raunar komin nokkur ár því þetta var sumarið ´89. Ég gæti átt í fórum mínum ljósmynd af þessu ferðalagi og ef ég finn hana birtist hún hér neðar. 

..................................................................................

Atvikin högðu því svo að ég skrapp til Ísafjarðar í ágústmánuði sl. Tilgangurinn var svona nokkurs konar vinaheimsókn, þar sem rifjuð voru upp gömul kynni og stofnað til nýrra. Farartækið var sjúkrabíllinn sem nokkrum sinnum hefur verið nefndur áður og heimsóknin spannaði tvær helgar. Fyrri helgina var mikið ekið enda var þá löngu burtfluttur félagi minn með í för. Sá hafði ekki komið til Ísafjarðar í áraraðir og greip tækifærið þegar bæði gisting og bíltúr voru í boði. Veðrið þessa helgi var ekki upp á marga fiska en við tókum laugardaginn snemma og ókum um göngin vestur til Þingeyrar, á köflum í ausandi rigningu og alla leið með þokuna hangandi í útvarpsloftnetinu. Gegnum þorpið héldum við út í Haukadal og áfram út í Keldudal. Það er gaman að koma út í Keldudal í góðu veðri því bæði er dalurinn fallegur, útsýnið magnað og leiðin áhugaverð svo ekki sé meira sagt. Þennan dag var Keldudalurinn jafn fallegur og aðra, en útsýnið var frekar lítið og vegurinn svaðblautur. Myndavélin var með í för en ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eina einustu mynd - fannst það hreinlega ekki vera fyrirhafnarinnar virði, sem er auðvitað tótal kjaftæði því í svona eftiráfrásögn hafa myndir heilmikið gildi, þó ekki væri nema fyrir það eitt að sýna veðrið eins og það var. 

Ég fór fyrst út í Keldudal fyrir u.þ.b. tuttugu árum, skrifaði frásögn um ferðina fyrir sex, sjö árum og þá með myndum. Ef ég finn þá frásögn hlekkja ég á hana -HÉR-

Það dró aðeins úr rigningunni er leið á daginn og þokunni létti heldur. Þegar við snerum til baka kom upp sú hugmynd að heimsækja sundlaugina á Þingeyri. Það var semsagt laugardagseftirmiðdegi, dumbungsveður og gjóla, akkúrat svona veður sem fær fólk til að skella sér í flotta innisundlaug með potti og öllu - en hvar var þá allt fólkið? Jú, í sundlauginni voru tvö stelpuskott að afgreiða og auk okkar komu tveir menn, trúlega feðgar og sátu skamman tíma í pottinum. Það var nú öll aðsóknin að þessu fyrirmyndarmannvirki. Við höfum líklega dvalið hátt í klukkutíma í laug og potti og vorum, eins og fyrr segir nær einir á svæðinu. Eftir sundlaugarferðina var haldin pylsuveisla í enneinnsjoppunni, sem okkur var sagt vera eina matvöruverslun bæjarins. Ég vísa aftur til fyrstu línu pistilsins en mér finnst ár og dagur síðan ég gekk um stórverslun Kaupfélags Dýrfirðinga sem þá var og hét, skoðaði bækur í bókabúðinni og dót í dótabúðinni. Í fyrrasumar var ég á Þingeyri í sirka klukkutíma og fékk þá kaffi og vöfflu í Simbahöllinni. Þar var líka einu sinni verslun...........

Full ferð á sjúkrabílnum til baka um Dýrafjarðarbrú, yfir Gemlufallsheiði á krúskontról með stillt á 95 og það dró ekki niður í dísilsleggjunni á uppleiðinni. Renningur út á Flateyri þar sem enn býr fólk á seiglunni einni saman. Þar lá stærsti bátur byggðarlagsins ónýtur á sjávarbotni við bryggjukantinn. Mér datt í hug myndir sem maður sér á netinu af yfirgefnum veiðistöðvum á Suðurskautslandinu, hálfsokkin skip, hálfhrunin hús, tómar götur........

Bjössi Drengs var hins vegar sprellifandi heima í Breiðadal og hann átti ágætis kaffi.

Um kvöldið var stórveisla hjá okkur félögum í Tjöruhúsinu, sjávarréttahlaðborð að hætti Magga Hauks. Bregst aldrei.

Svo var allt í einu kominn sunnudagur og félaginn á suðurleið aftur. Við ókum hvor sínum bíl inn í Súðavík og litum þar inn hjá vinafólki - sem skömmu síðar flutti af staðnum með allt sitt. Við áttum þó enga sök þar á, hana eiga aðrir....

Í Súðavík skildu leiðir og félaginn ók suður á við. Ég sneri til baka og tók eftir því við Arnarnesið að veðrið hafði heldur en ekki breytt um svip frá deginum áður - það hafði birt til fjalla, blámi sást í lofti og ég sá í hendi mér að nú myndi gott útsýni af Bolafjallinu. Félaginn hefði haft gaman af því að fara þangað upp en sá möguleiki var ekki lengur fyrir hendi. Eftir stutt stopp við Arnarnesið og enn styttri samráðsfund með Bassa þar sem boðið var upp á veitingar í kexformi, var afráðið að skella sér á Bolafjallið. Veðrið hélt áfram að lagast og þegar út í Bolunarvík kom var komin þessi dæmigerða vestfirska blíða að frádregnum nokkrum vindsperringi sem þó gætti ekki að ráði fyrr en uppi á Bolafjallinu sjálfu. Við Bassi röltum dálítið um brúnina, kíktum niður þar sem það var hægt og skoðuðum yfir Djúp í kíki ( ekki þó Bassi). Blæstrinum þarna á fjallinu fylgdi nokkuð kul og kulinu fylgdi letikast. Ég sneri til bíls, upp í ból og undir teppi, greip bók og las í góðan hálftíma meðan Bassi hljóp langar leiðir út og inneftir fjallinu - trúlega í leit að kindum til að reka. Að endingu var lesturinn truflaður af háværu gelti. Þegar ég leit út stóð Bassi þar og gelti að blásaklausum útlendingum á fjallaferðabíl, sem höfðu komið á fjallið án þess ég yrði var við. Útlendingarnir höfðu raunar þegar séð sakleysissvipinn á "óargadýrinu" og hlógu góðlátlega að hamaganginum. Ég fór út, bað afsökunar á "úttlensku" og fjarlægði hávaðasegginn. Okkar tími var liðinn og við héldum í rólegheitum niður af fjallinu og beint í heita pottinn í sundlaug Bolunarvíkur. Eftir hátt í klukkutíma dvöl þar meðal kunningja var enn haldið af stað og nú til Ísafjarðar. Þegar þangað kom áttaði ég mig á að ég hafði svo sem ekkert sérstakt að gera annað en að eyða deginum svo mér datt í hug að athuga hversu langt væri enn hægt að aka upp Dagverðardalinn. Um hann lá jú þjóðbraut vestur til Súgandafjarðar og Önundarfjarðar fyrir gerð Vestfjarðagangna en eftir það vissi ég það eitt að Skotfélagið hafði fengið úthlutað svæði ofarlega á dalnum og þangað myndi bílfært. Dagverðardalurinn var alla tíð malarvegur, lengst af erfiður í viðhaldi vegna halla og vatnsrennslis. Það mátti því búast við að sá kafli hans sem lítt eða ekkert er ekinn lengur væri orðinn afar lélegur.  

Það kom í ljós að upp að skotæfingasvæðinu var vegurinn var mjög þokkalegur en þar fyrir ofan var hann aðeins grófur ruddi, enda mestallt yfirborðsefni þvegið úr honum og grjótið eitt eftir. Það glamraði í bollum og könnum í hillum sjúkrabílsins þegar fetað var yfir grjótið en samt var haldið ofar því ég hafði fundið mér nýtt markmið, nefnilega að skoða hvernig vegurinn væri yfir hálsinn - Engidalsfjöllin - og að Nónvatni. Afleggjarinn að Nónvatni er aðeins ógreinilegur slóði sem liggur af hinum gamla aðalvegi um Breiðadalsheiði rétt við vegamót Botnsheiðar og í gagnstæða átt. Hann var þó nokkuð auðfundinn og sjúkrabílnum var beitt á hann.

Ekki hafði ég ekið langt þegar á mig fóru að renna tvær grímur. Vegurinn var (eins og ég vissi) afar grófur og grýttur enda lagður sem leið lá yfir klappir og holt. Sjúkrabíllinn, þó fjórhjóladrifnn væri, var augljóslega ekki hentugasta farartækið í svona ferðalag þar sem allt lauslegt var í hættu. M.a.s. Bassi var hálfhræddur við hristinginn og lætin, og kom sér fyrir í farþegasætinu við hlið mér. Það var skárra en að liggja á gólfinu. Eftir u.þ.b. kílómetra ákvað ég að snúa við og geyma Nónvatnið til betri tíma. Ákvörðuninni fylgdi önnur samhliða, nokkurn veginn á þá leið að þar sem ég ætti leið vestur fyrir veturinn á Hrossadráparanum skyldi ég aka á honum frameftir. Hrossadráparinn hefur nefnilega marga fjöruna sopið þegar kemur að erfiðum slóðum og spottum og hann getur étið þennan Nónvatnsveg hreinlega í morgunmat. 

Þegar inn á aðalveginn kom langaði mig að klára brekkuna og aka upp í háskarðið, milli kinnanna tveggja þangað sem sæist vestur til Önundarfjarðar. Á kortinu mínu heitir skarðið Breiðadalsskarð og úr Breiðadalsskarði er víðsýnt til beggja handa. Þaðan var líka auðséð að Kinnin (með stórum staf) yrði ekki ekin á sjúkrabílnum í þetta sinn því "vegurinn"  var lokaður af grjóthruni og úrrennsli.  Ég lét því staðar numið þarna á hæsta punkti Breiðadalsheiðar og myndaði yfir Dagverðardalinn, Tungudals"hálendið, út yfir Skutulsfjörð, Ísafjarðardjúp og allt yfir til Snæfjallastrandar:



Mig langaði að aka upp á Þverfjall og litast þar um. Hér áður fyrr var ég hagvanur á Þverfjalli enda átti ég mörg sporin (og hjólförin) þangað upp í misjöfnum veðrum og færð til að huga að radíóbúnaði á vegum Pósts og Síma (sem svo hétu þá). Hér gilti hins vegar hið sama og um Nónvatnsafleggjarann - ég vildi ekki mölva postulínið í hillum og skápum sjúkrabílsins og lét því liggja að sinni. Þverfjallið bíður Hrossadráparans líkt og Nónvatn og Fossavatn í Engidal.

Það er kannski rétt, af því í mörgum pistlum á undanförnum árum hefur verið minnst á Hrossadráparann, að gefa örstutta skýringu á þessu nafni - sem mörgum finnst hálf óhugnanlegt. Þannig er að sumarið ´08 sá ég á tjónaútboði hjá VÍS auglýstan átta ára Suzuki Vitara jeppa, illa dældaðan að framan. Hann var hins vegar lítið ekinn, ættaður úr uppsveitum Suðurlands og í eigu sama manns frá upphafi. Þannig hagaði til að ég átti framenda í heilu lagi á þennan bíl, gerði því allt að því fáránlega lágt tilboð í hann og lét slag standa. Fyrir einhverja tilviljun var mér hins vegar sleginn bíllinn og ég tók það sem merki um að einhver vildi greinilega stýra honum í mína eigu ( það er allt í lagi að dramatisera hlutina dálítið, ekki satt?). Þegar gengið var frá kaupunum hjá VÍS spurðist ég fyrir um tilurð tjónsins á bílnum og fékk að vita að hann hefði lent á hesti-eða hestum og skemmst svona illa við það. Ekki lágu fyrir upplýsingar um afdrif hestsins/hestanna en miðað við skemmdirnar hefur a.m.k. ein skepna steinlegið.


 Bíllinn fór svo heim á Lyngbrekkuna í viðgerð sem lauk á stuttum tíma enda allir hlutir til staðar, og hefur síðan snúist langt á annað hundrað þúsund kílómetra í minni eigu. Nú sýnir mælirinn tæpa tvöhundruðogfjörutíu þúsund kílómetra og enn er ekkert lát á þeim gamla.


Þá er upplýst allt það helsta um hrossadráparann og útúrdúr lokið.  Þverfjallið fékk semsagt að vera í friði að sinni og leið okkar Bassa lá til baka niður að gamla sæluhúsinu Kristjánsbúð, við vegamót Botns- og Breiðadalsheiða. Sú var tíðin að við skellinöðruguttar höfðum þarna viðkomu á ferðum okkar yfir heiðar þegar við sóttum í að heimsækja upprennandi dömur á Suðureyri og Flateyri (Hér er skylt að taka fram að í þeim efnum bar Suðureyri höfuð og herðar yfir Flateyri - miklu fleiri og miklu fallegri stelpur!). Ég fullyrði að í þá daga var hlutum sýnd meiri virðing en síðar varð og aldrei mun það hafa hvarflað að nokkrum okkar að ganga um húsið öðru vísi en með tilhlýðilegri virðingu. Nú er öldin önnur og gamla sæluhúsið á heiðinni hefur ekki sama hlutverki að gegna og áður, þegar engin voru Vestfjarðagöngin. Nú koma þangað fáir, og þeir fáu sem koma fá að vera í friði með það sem þeim dettur í hug. Stundum rekast þarna uppeftir krumpaðar sálir sem fá eitthvað út úr því að leggjast á gamalt, fúið sæluhús og rífa það sundur með berum höndunum:



Gamla sæluhúsið er klárlega ekki svona útlítandi af völdum veðurs, því það veður sem hefði valdið álíka skemmdum hefði líka feykt ruslinu burtu. Brotin lágu hins vegar beint neðan við, sárin voru nýleg og það var deginum ljósara að sá eða þeir sem þarna höfðu "skemmt sér" höfðu haft nægan tíma og nægan áhuga. Innandyra var eitt og annað sem hefði mátt hirða ef áhugi hefði verið fyrir hendi, svosem forláta olíuofn - en kannski höfðu farartæki þeirra sem dunduðu sig við að eyðileggja húsið ekki haft flutningsgetu fyrir slíkt. Dagatalið sem hékk á veggnum innandyra hafði heldur ekki haggast fyrir neinu veðri.......


Mér fannst þetta dapurlegt merki um mannanna eðli. Ofan við húsið stóð gamli vitinn sem í náttmyrkri og dimmviðri varpaði hvítum geislum með stuttu millibili yfir heiðina. Oft var vitaljósið eina skíman sem maður hafði á heiðinni þegar ferðast var um í slæmu veðri á vélsleða Símans sáluga. Þá var ekki verra að geta skotist inn og beðið af sér hríð eða safnað kröftum fyrir næstu atrennur, annaðhvort upp á Þverfjall eða áleiðis heim. Það er orðið langt síðan síðasta leiftrið lýsti út yfir heiðina en vitinn stendur enn:



Frá Kristjánsbúð lá leiðin niður heiði á ný. Það var farið að halla degi og Hamraborg farin að kalla í kvöldmat. Enn ein helgin að líða, tvöhundruðogsjötíu kílómetra þvælingur um Keldudal í Dýrafirði, Súðavík, Bolafjall og Breiðadalsheiði að baki og kominn tími á smáhvíld. Við tóku fimm virkir dagar, svo var aftur komin helgi. Það var mikið ferðast þá helgi og dugar í annan pistil...........


(Örstutt í lokin: Mér hefur ekki tekist að finna pistilinn sem ég skrifaði forðum um Keldudal í Dýrafirði. Blog-central kerfið er lokað og ég kemst ekki í efnið mitt þar. Ég á líka eftir að finna myndir af ferðinni yfir að Nónvatni ´89 en hún er geymd á vísum stað og birtist síðar)


10.11.2013 09:43

Dagur dýranna.




Frídagur verslunarmanna árið 2013 var ekki frídagur dýranna. Í það minnsta ekki frídagur dýranna í dýragarðinum að  Slakka í Laugarási, Biskupstungum. Eins og fram kom í síðasta pistli eyddum við EH sjálfri helginni á stefnulitlu rápi um flatlendið austan fjalla en á meðan tveir eldri afleggjararnir skemmtu sér á þjóðhátíð í Eyjum stóð sá yngsti sína plikt í vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Bergrós Halla átti svo sitt frí á mánudeginum líkt og margir aðrir og við EH höfðum ákveðið að gefa henni þann dag - þ.e. gera eitthvað það með henni sem henni þætti skemmtilegt og óskaði eftir. Við höfðum jafnframt ákveðið að leggja fram okkar tillögu, sem mótaðist fyrst og fremst af veðurútliti dagsins og svo öðru (smá)atriði sem okkur grunaði að hægt væri að stilla upp. 

Bergrós Halla hafði aðspurð engan sérstakan viðburð í huga, var aðallega þreytt eftir vinnutörn helgarinnar. Þegar við svo viðruðum okkar hugmynd gleymdist henni öll þreyta á svipstundu og andlitið ljómaði eins og á þeim sem gleðjast beint frá hjartanu. Okkar tillaga snerist nefnilega um bíltúr austur í Slakka í Laugarási, þar sem vistuð eru dýr af flestum mögulegum tegundum, jafnt láðs- sem lagar. Jú, og lofts auðvitað því ekki má gleyma fuglunum (hvort eru hænsni annars dýr loftsins eða láðsins?)

Það voru liðin allmörg ár síðan Bergrós Halla heimsótti Slakka síðast. Ef við giskum á fjögur ár þá er mikill munur á því að vera fjórtán eða átján, ekki satt? Rósin okkar var rétt að detta yfir átján ára markið langþráða en það var hreint ekki að sjá á kiðlingalátunum þegar ferðin var undirbúin og lagt var af stað. Okkur EH leiddist svo sem ekkert heldur enda fátt skemmtilegra en að sjá afkvæmin gleðjast svo innilega. Aðeins einn lét sér fátt um finnast og hreiðraði um sig upp við drifaskiptistöng sjúkrabílsins - ekki kannski notalegasti staðurinn en þegar maður (hundur) veit af nammipoka í nágrenninu er vissara að halda sig nærri...


Prinsessan fékk að sitja frammí og þar sem hún sat og föndraði við símann sinn var upplagt að hrinda í framkvæmd (smá) atriðinu sem fyrr var nefnt. Við vissum nefnilega að Áróra átti ferð frá Eyjum til Landeyjahafnar á svipuðum tíma og var ein á ferð á eigin bíl. Við höfðum því ákveðið að reyna að stilla hlutum svo upp að systurnar gætu hist í Slakka og átt þar góða stund með sínu uppáhaldsáhugamáli.


 Allt gekk þetta eftir og innan skamms voru systurnar sameinaðar í kattakofanum. Ég segi það dagsatt að með kettina í höndunum höfðu þær ekki elst einn dag frá síðustu heimsókn og þetta velþekkta "Gvuð, má ég eig´ann?) hljómaði alveg jafn djúpt, heitt og innilega og áður fyrr:




Það þarf vart að taka fram að Edilon Bassi var geymdur úti í bíl á meðan. Hegðunarmunstur hans hæfir ekki slíkum samkomum og þótt hann sé gæðahundur að flestu leyti var óþarfi að taka áhættuna - enda bannað að koma með eigin dýr inn á svæðið. 

Svo kom að því að fleiri -og yngri - vildu klappa kisunum. Okkar tvær voru ekki alveg á því að sleppa en létu sig þó á endanum. Næst var það hvolpahornið:



Það má svo vel giska á hvað hvolpurinn er að hugsa. Manni gæti dottið í hug: "Kræst, það eru enn þrír tímar til lokunar. Hvað þarf maður (hundur) eiginlega að þola þetta oft og lengi?"


Við foreldrarnir höfum svo sem ekkert á móti dýrum. Þessvegna máttum við alveg líka - svona aðeins........



Ég mátti til að mynda þennan fallega blending með raunalega andlitið. Hann var orðinn svo þreyttur á vafstrinu að hann stóð varla undir sjálfum sér. Starfsstúlkan sem heldur á honum sagði mér að búið væri að finna honum heimili og hann væri á leið þangað næstu daga. Vonandi hefur honum vegnað vel:



Svo fundu systurnar kanínubúrið. Þar festust þær algerlega og á tímabili héldum við að þær yrðu framvegis heimilisfastar í Slakka:




Meðan þær tvær sinntu sínu litum við aðeins á fiskabúrin. Þar gat að líta fisk sem ég kunni ekki að nefna og kann ekki enn, en hann er sannarlega með því ljótasta sem ég hef á ævinni séð:



...og svo voru allir hinir, sem alls ekki voru ljótir:



Ekki má gleyma þessum bölvaða hávaðasegg, sem rak upp hvert öskrið á fætur öðru svo menn og dýr hrukku við:



Þessi var öllu rólegri, sat á öxl eiganda síns og litaðist um:



Mér finnst mýs ekki skemmtileg dýr og vil helst ekkert af þeim vita. Þó man ég eftir skemmtilegu músabúri sem til var í Efri-Engidal uppúr 1960 og kúarektorinn Kristinn Sölvi safnaði músum í. Þær mýs voru ólíkt líflegri en þessi dauðyfli sem hrúguðu sér saman inn í alltof lítið hús:



Það leið að lokun dýragarðsins þennan daginn og Áróra, sem hafði tekið þjóðhátíðina með trompi vildi fara að nálgast bólið sitt í bænum. Hún lagði því af stað heimleiðis á undan okkur hinum, sem dóluðum í rólegheitum í átt til höfðuðborgarinnar og létum berast með straumi ferðafólks á heimleið eftir misvel heppnaða helgarútilegu. Sjálf höfðum við undan engu að kvarta. Við höfðum verið á ferðinni síðan á miðvikudagseftirmiðdag og spannað svæði allt frá ysta tanga Skálmarness í vestri til Þykkvabæjar í austri. Í okkar huga var þetta eins og mánaðarlöng reisa enda mun þetta vera áttundi pistillinn sem skrifaður er um þetta sex daga tímabil. 

Ferðaáætlun sumarsins var þó hvergi nærri tæmd og á heimleiðinni voru rædd drög að næsta þvælingi. Þau plön áttu svo öll eftir að breytast................


..........................

  • 1
Flettingar í dag: 286
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 77
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 64097
Samtals gestir: 16615
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 18:19:28


Tenglar