Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Júní

30.06.2013 10:43

Fluttur í sjúkrabíl........

Örpistill á sunnudagsmorgni:  

Ferðadrekinn svarti sem stundum var kallaður Arnarnes, svona til jöfnunar við trilluna Stakkanes og landbátinn Fagranes (sem er algert rangnefni) seldist um daginn - eiginlega hálfpartinn óforvarendis, eins og einhver í minni fjölskyldu var vanur að segja. Jú, það er satt, hann var auglýstur til sölu á tveimur stöðum en ég átti samt ekki von á að hann færi svo fljótt. Ég hafði hálfpartinn átt von á að ferðast á honum framan af sumri en það er sumsé dagsljóst að hann fer ekki fleiri ferðir í minni eigu. Ef mig misminnir ekki skrifaði ég nokkur orð í þá veru sl. haust að líkllega væri ferðamennsku á þeim svarta lokið. Ástæðan var, eins og þá kom fram, að ég hafði fest kaup á ellefu ára gömlum sjúkrabíl frá Selfossi og skyldi sá leysa þann eldri af hólmi með tíð og tíma. Sjúkrabíllinn hefur svo staðið óhreyfður og ósnertur í allan vetur og það sem af er vori og sumri. Hann var hins vegar í ágætu lagi, svona þannig séð þó í hann vantaði súrefniskútana, börurnar og bláu ljósin. 





Það var ætlunin að geyma sjúkrabílinn bara áfram meðan ég ætti þann svarta og leggja frekar áherslu á að ljúka endursmíði litla vörubílsins. Svo gerðist þetta sem nefnt var ofar, að sá svarti seldist "óforvarendis" og þar með var ég ferðabílslaus.

Nánast á sama augnabliki og salan gekk í gegn hringdi Sigurður Bergsveinsson og bauð mér að taka þátt í hópsiglingu súðbyrðingamótsins sem haldið verður um næstu helgi (er það ekki 5-7 júlí?). Ég var orðinn hálf vonlaus um að komast með í þetta sinn og tók því boðinu fegins hendi. Mig grunaði reyndar hvernig það væri til komið, og að þar ætti Elín Huld einhvern hlut að máli. Hún þekkir nefnilega nokkuð margt fólk, hún Elín og til hvers eru spottar ef ekki má toga í þá? Mér fannst þessvegna liggja beinast við að spyrja Sigurð hvort nokkursstaðar mundi finnanlegt pláss til að stinga henni Elínu niður líka, því ég vissi sem var að hún myndi selja sálina fyrir svona siglingu. Sigurður taldi það ekki vandamál.

Það var þó kannski ekki sopið kálið þó siglingin sjálf væri í höfn - eða þannig. Mótið stendur frá föstudagskvöldi til sunnudags og hjarta þess slær að Reykhólum. Gistingin var óleyst vandamál því enginn var ferðabíllinn...

Í svona stöðu er aðeins eitt til ráða: Að endurmeta öll fyrri plön, forgangsraða upp á nýtt og snara saman öðrum ferðabíl í hendingskasti. Menn geta svo ímyndað sér hvað "hendingskast" þýðir í svona tilfelli því þótt það taki að sönnu ekki margar sekúndur að hafa yfir þuluna" Bara að rusla út lyfjaskápadraslinu, slá saman rúmstæði í staðinn og skella í það dýnu"  þá fylgja ótal aukahandtök með í pakkanum og "hendingskastið" getur þýtt stífa yfirlegu í allmarga daga - og nætur ef þannig vill til. Það má því kannski segja að smiðurinn hafi í þeim skilningi "flutt" í bílinn...

Sjúkrabíllinn var því drifinn á númer og heim í Höfðaborg. Þegar þetta er ritað er hann um það bil að verða ferðafær, með rúmstæði og öllu! Hluti lyfjaskápanna ( sem geymdu margt fleira en lyf ef marka má merkingarnar) er nýttur fyrir allskonar húsbíladót og það er m.a.s. komin eldavél um borð. Í skiptum fyrir farið og gistinguna tók EH að sér að gardínuvæða vagninn og miðar vel. 



Það er gott að geta unnið úti í sólinni þá sjaldan hún sést, en ef það rignir er einfalt mál að stinga vagninum inn fyrir dyrnar. Þó plássið sé ekki stórt þá rúmar það bílinn ágætlega ef vel er lagt.



....og þegar lagt verður af stað upp að Reykhólum á föstudaginn komandi verður fararskjótinn ekki lengur sjúkrabíllinn YU-455 heldur Ford Econoline V8 Powerstroke með skráningarnúmerinu  Í-140.   Nema hvað??

Þennan sunnudagsmorgun hefur samt ekkert verið unnið í sjúkrabílnum. Það er sólskin og hægviðri, við Edilon Bassi vorum snemma á fótum, leystum landfestar Stakkanessins og dugguðum upp á Eiðisvík. Það var harða aðfall og stóð orðið hátt í svo ég framkvæmdi það sem mig hefur í langan tíma langað að gera - ég sigldi milli klettadranganna út frá Gufunesinu. Það kom á óvart að dýpið milli þeirra var ekki minna en 2,7 mtr. og það var ævintýri líkast að dóla þarna á milli. Það var hægur vandi, væri höfðinu snúið frá ruslinu kringum áburðarverksmiðjuna gömlu, að ímynda sér að maður væri að sigla á einhverjum mjög fjarlægum slóðum. Því miður tók ég engar myndir en ég skal endurtaka siglinguna fljótlega og þá með myndavél.......

Ég lofa!

æææææææ

16.06.2013 08:44

Rekið um í reiðileysi - þriðji hluti (og sá síðasti í bili)

Í síðasta pistli bar dálítið á minnisleysi, kannski aldurstengdu, kannski tengdu athyglisbrestinum en kannski líka vegna þess að það er fljótt að fenna yfir ómerkilega hluti eins og stuttar ferðir á löngu kannaðar slóðir. Samt er það einhvern veginn þannig að í hverri ferð má sjá eitthvað nýtt, beri maður sig á annað borð eftir því. Það er hægt að aka sömu leiðina mörgum sinnum án þess að sjá nokkuð nýtt, en renni maður svo augunum dálítið út fyrir hefðbundna sjónlínu má oft sjá eitthvað sem ekki hefur vakið athygli áður. Stundum er það eitthvað nauða ómerkilegt, svona rétt eins og hálfhulin heimtröð að hálfföllnu eyðibýli. 

Svo gerist það að maður beygir inn á þessa hálfósýnilegu heimtröð og kemst að því að við enda hennar, í hvarfi bak við hóla og hæðir, standa rústir sveitabýlis sem á langa og merkilega sögu. M.a. hefur heil sýsla verið nefnd eftir þessu býli og nóbelsskáldið (dálítið merkilegt að hjá sögu-og sagnaþjóðinni er nóg að nefna "nóbelsskáldið". Við eigum nefnilega bara eitt, og það mun vera nær mannsaldur síðan það fékk sín verðlaun.....) hefur m.a.s. skrifað um heimsókn þangað á sínum sokkabandsárum.

Kannski skilur enginn bofs í þessum skrifum, en kannski hefur einhver áttað sig á að ég er að skrifa um býlið Bringur, sem ekki ómerkari sýsla en Gull-Bringusýsla er nefnd eftir (ritháttur sýslunafnsins er hins vegar minn eigin). Sé ekið um þjóðveginn fram Mosfellsdal er afleggjarinn að þessu merka eyðibýli til hægri spölkorn ofan við Gljúfrastein. Hann liggur þráðbeint út frá malbikinu, upp dálitla hæð og hverfur yfir hana. Þetta er stutt leið og við enda hennar er upplýsingaskilti. Síðasta hluta leiðarinnar að eyðibýlinu þarf að ganga og þá er ekki verra að hafa með sér myndavél því í farvegi neðan heimatúnsins rennur Kaldakvísl og í henni fellur Helgufoss í afar fallegu gili. Kaldakvísl rennur svo áfram niður Mosfellsdal og undir þjóðveg eitt í öðru fallegu gili rétt við nýja húsahverfið í Leirvogstungu.

Rétt ofan við afleggjarann að Bringum er svo annar til vinstri ( norðurs) sem merktur er Hrafnhólar, muni ég rétt. Sé beygt inn á þann afleggjara og ekið spölkorn hverfur veröldin eins og við þekkjum hana og við tekur sú sem var - maður dettur svona fimmtíu, sextíu ár aftur í tímann og Reykjavík sést ekki. Aðeins hólar, ásar, stöku sveitabæir þar sem jú, ókei, hestamenn hafa komið sér fyrir í stað fjár-og kúabænda áður og sjá má stöku Landkrúser og Reinsróver í stað Willy´s-jeppa. Reykjavík er eins víðs fjarri og hugsast getur og hvílíkur léttir, trúið mér !!

Sveit í borg...............

Sé maður vel akandi ( og þá er átt við jeppling ekki síðri en svarta hrossadráparann) má aka gegnum dalinn, yfir ársprænur, læki og polla til vesturs, þá liggur leiðin meðfram Leirvogsá allar götur niður að iðnaðarhverfinu á Esjumel.  Vilji einhver hins vegar halda áfram að skoða fossa má finna enn einn afleggjarann til hægri af Hrafnhólavegi. Sá er einfaldlega merktur Tröllafoss og leiðir að samnefndum fossi í Leirvogsá ofanverðri. Ekki er Tröllafoss nú neitt tröllvaxinn í samanburði við marga aðra, en það er heldur ekkert gull í Gullfossi......

Ég var jú í huganum kominn niður á Esjumel hér áðan og best að halda áfram þaðan. Þegar ekið er út úr iðnaðarhverfinu og beygt eins og mann langi helst heim til Ísafjarðar (þ.e. til vesturs/hægri) kemur maður nær strax að gatnamótum, rækilega merktum Álfsnes. Þar fá Ísafjarðardraumarnir snöggan endi því leiðin liggur til vinstri á þessum gatnamótum og út á nesið þar sem Reykvíkingar og nærsveitamenn urða sorpið sitt. Á nesinu, sem er talsvert landmikið, er einnig skotæfingasvæði og líklega vissara að halda sig sem lengst frá því. Á leið út nesið standa þessi listaverk, unnin æfðum höndum úr áli en ómerkt með öllu og fátt eða ekkert um þau finnanlegt á netinu:







Ef einhver veit eitthvað um þessi listaverk væri gaman að heyra af því.....

Sveitabýlið Álfsnes er nú aðstaða fyrir starfsmenn sorpurðunarsvæðisins og þar er allt hið snyrtilegasta og vel um gengið. Eitt vakti þó sérstaka athygli: Skammt frá býlinu er skurður í landið og ég sá ekki betur en hann væri fullur af dósum og flöskum. Mátti til að athuga þetta betur og það var rétt: Í skurðinum og kringum hann á þónokkru svæði voru dósir og flöskur í hundraðavís - ef ekki þúsunda-. Ég gat ekki að mér gert að hugsa hvort þetta væri öll endurvinnslan sem verið væri að borga fyrir þegar fólk kæmi með tómu ílátin á móttökustöð og skipti þeim fyrir aura. Ég hugsa að ég hefði getað aurað saman fyrir utanlandsferð með öllum þeim dósum og flöskum sem þarna lágu á víð og dreif. Ja, allavega góðri ferð innanlands með hóteli og öllu..........

Áfram um eitt skref, til suðurs framhjá sorpurðunarsvæðinu og því svæði sem metangasvinnslan er á, í átt að hælinu í Víðinesi. Enn liggur afleggjari af okkar leið, nú mjög ógreinilegur til hægri og út nesið til móts við Þerney, sem liggur þarna skammt undan landi. Þarna kemur sér vel að vera akandi á hrossadrápara því slóðinn er afleitur, alla leið niður í fjöru gegnt Þerney. Í fjörunni er vinnuskúr, gámar og sitthvað fleira, enda hefur mér skilist að starfsmenn Húsdýragarðsins hafi þarna aðstöðu og Þerney sé notuð sem "sumarleyfisstaður" fyrir dýr úr garðinum. Ekki kann ég meira frá því að segja en flest þarna í fjörunni var lúið og þreytt: 







Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Álfsnesbæinn í baksýn. Á þeirri hér fyrir neðan er horft frá landi út til Þerneyjar:



Það var ekki meira að sjá þarna í fjörunni svo slóðinn var þræddur til baka. Þegar upp á "almennilegan" veg kom var haldið áfram þar sem frá var horfið, beygt til suðurs og ekið inn á hlað við Víðineshælið. Ekki er ég alveg með á hreinu hvað kalla á þennan stað. Eitt sinn var þarna drykkjumannahæli, eins og það var kallað í minni sveit. Síðar var um árabil rekið heimili fyrir heilabilaða í Víðinesi. Öllum rekstri þarna var hætt fyrir fáum árum og það er hreint sorglegt að sjá hve húsunum hefur hrakað. Þetta eru ekki gamlar byggingar en af þeim má tvennt ráða: Líklega hefur ekki verið sérlega vandað til þeirra í upphafi og viðhaldi seinustu starfsárin hefur verið verulega ábótavant.  Af því í umræðu um staðsetningu nýs fangelsis kom Víðines til greina  en var sópað út af borðinu, þá sýnist mér menn hafa farið dálítið fram úr sér. Ef einhver staður gæti orðið fangelsi með skikkanlegum tilkostnaði myndi ég halda að þarna væri staðurinn og enginn annar. Staðurinn er afskekktur en þó nánast inni í borginni, húsin eru til staðar ( þau lélegustu hafa þegar verið rifin og jafnað yfir) og fátt eitt að gera nema girða sæmilega kringum svæðið. Ég er nær hundrað prósent klár á því að flestir þeirra sem þarna yrðu dæmdir til dvalar tækju fegins hendi tækifæri til að taka til höndum og bæta og lagfæra húsakostinn sjálfir. Það er fátt verra en iðjuleysi og m.t.t. þess hvernig að málum er staðið á Kvíabryggju hlýtur að vera hægt að nýta þessi hús á svipaðan hátt. 

 
Deginum var farið að halla verulega, svona eins og oft áður þegar maður kemst á kaf í eitthvað skemmtilegt, og tími til kominn að halda heim í kjúkling á KFC. Þó ég muni það ekki alveg, er líklegt að á eftir hafi fylgt ís á Aktu-Taktu. 

........og af því ég var nú farinn að prédika hér ofar, þá má ég til að nefna að vilji fólk fá ís með lúxusdýfu sem er líkust múrhúð, þá er ráðið að fara á Aktu- Taktu. 

Kannski kemur að því að Víðines verði nýtt sem meðferðarstöð fyrir ísfíkla. Ég veit hver yrði vistmaður númer eitt.......




11.06.2013 08:05

Rekið um í reiðileysi - annar hluti

Næst var það Borgarfjörður. Af því ég er farinn að tapa minni - eða það held ég allavega - þá man ég ekki hvers vegna leiðin lá þangað, en eitthvert erindi átti ég þó. Ég man heldur ekki hvernig svo æxlaðist að Elín Huld fór með. Það er eins og mig minni að það tengist eitthvað fyrirlestri sem Einar Kárason hélt í Sögusetrinu í Borgarnesi, um skáldið Sturla Þórðarson. Hvort fyrirlesturinn var orsök eða afleiðing man ég ekki......

Allavega var fyrsti viðkomustaður - ég á alltaf í vandræðum með að koma beint að efninu og það á líka við ferðalög, ég kemst sjaldan beint á áfangastað - Akranes. Ég hef svo sem oft komið áður til Akranesar, svo enn sé vitnað í sjónvarpskonuna sem ég nefndi síðast. Nú datt mér hins vegar í hug að rannsaka nokkra spotta sem liggja út frá þjóðveginum við norðanvert Akrafjall. Nálægt steypustöðinni og gámastöð Akurnesinga liggur spotti til suðurs í átt að rótum Akrafjalls. Þar, þ.e. undir fjallsrótunum, mátti sjá nokkurn fjölda bíla og er nær dró mátti álykta af umferð og búnaði gangandi fólks að skipulögð hópganga á fjallið væri á niðurleið. Þarna innfrá var einnig mannvirki sem líklegast er vatnsból Akurnesinga og minnti nokkuð á hið gamla vatnsból Ísfirðinga á Dagverðardal - sem einnig var vinsæll sundstaður sauðfjár á svæðinu. Mér sýndist frágangur Skagamanna þó betri á vatnsbólinu þeirra. Vegurinn reyndist liggja í hring og eftir stuttan akstur var komið inn á malbikaða þjóðveginn vestan undir Akrafjalli. Annar áhugaverður spotti lá til norðurs, nærri tjaldsvæði bæjarins. Hann lá í sveigum og bugðum til austurs að hluta en endaði við lága klettavík í fjörunni. Á ýmsu mátti sjá að þarna væri göngu- og útivistarsvæði, sjá mátti borð og bekki, minnismerki og svo þennan afar sérstaka stein: 



Á nálægu skilti mátti lesa útlistun á tilveru steinsins:



Þið afsakið glampann á myndinni, sólarglennan sem gerði þennan dag dugði til að skemma myndir en ekki til að ylja upp veröldina, hún mátti sín lítils gegn ísköldum vindbelgingnum. Þarna má semsagt með þolinmæði lesa um þær systur Elínu og Straumfjarðar - Höllu. Í framhaldi af myndatökunum lá beint við að máta ferðafélagann í sæti nöfnu sinnar. Af myndinni má marka að afturhluti Elínar Höllusystur muni hafa verið allmiklu fyrirferðarmeiri en mátsins........




Ég man núna allt í einu hver megintilgangur ferðarinnar var. Hann var sá, að mynda í bak og fyrir aflagðan fjallabíl sem vistaður er á afviknum stað í Borgarfirði. Ég er trúaður á framhaldslíf (farartækja) sér rétt á málum haldið og einn félagi minn er sömu trúar. Honum voru myndirnar ætlaðar. 

Leiðin mun næst hafa legið í Borgarnes (eða til Borgarnesar, svo enn sé vitnað í þann fræga sjónvarpsþátt, Djúpu laugina) og að öllum líkindum hefur verið áð í Geirabakaríi við brúarsporðinn. Ég man það ekki en ágiskunin er góð í ljósi þess að ég kem helst alltaf við í Geirabakaríi. Næsti áfangastaður var svo bíllinn (hér langar mig að bæta við "góði" en ég veit ekkert hvort hann er góður svo ég sleppi því bara) sem ætlunin var að mynda. Það var gert vel og vandlega, en myndirnar eru afar viðkvæmt trúnaðarmál að sinni. Eitt má ég þó segja - trú mín á framhaldslíf farartækisins styrktist heldur við nánari skoðun.

Annar útúrdúr: Þegar við Arnar þór Gunnarsson, fyrsta eggið í hreiðrinu okkar, spjöllum saman um ferðir og ferðalög, minnir hann mig stundum á eitt sem ég sagði við hann fyrir langalöngu. Það var eitthvað á þá leið að færi maður í bíltúr eitthvert út úr bænum ætti maður helst ekki að velja sömu leið til baka væru aðrir kostir í boði. Í Borgarfirði er eitthvert þéttasta spottakerfi landsins og venjulega um nokkra möguleika að ræða vilji maður breyta um bakaleið. Í þessu tilfelli lá leiðin suður af þjóðvegi eitt, um Ferjukot og gömlu Hvítárbrúna. Við syðri sporð brúarinnar er gamall sumarbústaður, skammt frá er enn eldri kofi og á hól á árbakkanum er minnisvarða, með sama sniði og víðar má sjá í Borgarfirði. M.a. hef ég birt mynd af annarri samskonar uppi á Mýrum. Sú er til minningar um Ána, einn af hásetum Skallagríms. Áni þáði jörð að gjöf frá Skallagrími og gaf nafnið Ánabrekka. 



...og svo varðan við sporð Hvítárbrúar, sem minnir með áletruninni: "Hvítárvellir - hér var kaupstefna til forna" á hinn gamla  verslunarstað er þar stóð:



Heiðurshundurinn Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff notaði tækifærið og eftir að hafa merkt sér vörðuna kannaði hann strúktúr sjálfar brúarinnar:



....og svo ein af kofanum og farartækinu:



Enn var ekið, nú um spotta sem liggur af malarveginum við býlið Hvítárvelli og til austurs (eða það fannst mér allavega). Á vegskilti stendur "Reykholt" og kílómetratala sem telur eitthvað tæpa þrjá tugi. Þennan spotta hafði ég ekki ekið svo ég myndi og beygði því inná hann. Ekki hafði langt verið ekið er umhverfið rifjaðist upp og þegar veiðihöllin við Grímsá kom í ljós mundi ég að ég hafði ekið þennan veg fyrir rúmum áratug á Járntjaldinu sáluga. Nú var fararskjótinn sjálfur Hrossadráparinn og var auðvitað eins og svart og hvítt.

Þessi merkti vegspotti reyndist svo ekki nema lítill hluti þeirra tæpu þrjátíu kílómetra sem tilgreindir voru á skiltinu, von bráðar vorum við komin út á malbikaða Húsafellshraðbrautina og beygðum til suðurs.

Ekinn var hringur um Hvanneyri og litið á helstu byggingar. Þaðan var ekið að Hreppslaug, sem í dag er í fréttum vegna rekstrarerfiðleika og skuldabagga s.l. sumars. Eins og fram kemur í frétt dagsins glímir laugin við sama reglugerðarfarganið og tröllríður flestu hér á skerinu, enda samevrópskt og stórborgarmiðað að flestu leyti. Mér fannst þetta slæmar fréttir því Hreppslaug við Andakíl er ein þeirra sundlauga á listanum mínum sem ég hef enn ekki heimsótt, þrátt fyrir margar tilraunir hefur mér aldrei tekist að hitta á opnunartímann. Ég ætla sannarlega að vona að takist að opna laugina í sumar svo ég geti prófað hana og merkt við á listanum, sem nú telur um eða yfir áttatíu heimsóttar laugar.

Frétt mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/11/hreppslaug_ad_drukkna/

Heimtröðin af þjóðveginum um sunnanverðar Borgarfjörð að Hreppslaug liggur áfram yfir lágan háls yfir í Skorradal. Af þessum hálsi var fallegt útsýni norður yfir sveitirnar og uppi á honum gat að líta skilti með ekki síður fallegri mynd. Ég gat ekki betur séð en þekkja mætti fyrrum umhverfisráðherra á henni, í rjúpulíki:



Deginum var, þegar þarna var komið, farið að halla verulega og maginn kallaði á fóður. Olíssjoppan í Borgarnesi en ein fárra vegasjoppa sem býður upp á djúpsteikta fiskrétti og er góð tilbreyting frá pizzum og hamborgurum. Það var ekkert hægt að kvarta undan plokkfiskinum þeirra...........

05.06.2013 09:25

Rekið um í reiðileysi...

Klukkan er rétt að verða hálftíu á miðvikudagsmorgni og af því ég nenni engu öðru í augnablikinu ætla ég að gefa mér hálftíma í skrif. Önnur verkefni bíða uppúr tíu.

Á dögunum rak mig austur fyrir fjall. Það gerist stundum að mig langar að skreppa eitthvert, og ef þokkalega viðrar læt ég það eftir mér - það er ekkert til að stoppa mig hvort eð er. Leiðin lá til staðar sem mig hefur lengi langað að skoða en aldrei orðið af. Sumir staðir eru einfaldlega of nálægt manni. Þannig er um Laugardæli, rétt utan (austan) Selfoss (eða Selfossar, eins og Dóra Takefusa beygði nafnið svo snilldarlega í einhverjum sjónvarpsþætti). Að Laugardælum stendur sérstaklega falleg kirkja sem um margt svipar til Selfosskirkju en ber einnig svip af kirkjunni á Húsavík og jafnvel fleirum sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði, svosem kirkjunni að Undirfelli í Vatnsdal:


(ómerkt mynd fundin á netinu. Sjá líka http://www.kirkjukort.net/kirkjur/undirfellskirkja_0276.html )
 

Allt um það er Laugardælakirkja afar fallegt hús:







Framan við kirkjuna er leiði stórmeistarans Bobby Fischer, en megintilgangur ferðarinnar var að líta á það:



Að Laugardælum hefur löngum verið stórbýli. Ekki veit ég hver staða búskapar er nú en þetta gamla fjós hefur allavega lokið sínu hlutverki. Það minnti raunar dálítið á svipaðar byggingar sem ég hef séð úti í Danmörku - sumar voru þar jafnvel í svipuðu formi og þessi:





Við íbúðarhús í grendinni stóð þessi aldni höfðingi og virtist, fljótt á litið, í fínu formi. Ég man í fljótu bragði eftir tveimur álíka heima á Ísafirði. Öðrum ók Kristján Reimarsson pípulagningameistari og hinum Hermann heitinn Jakobsson:



Líklega hef ég svo, að lokinni skoðun á öllu því sem mér fannst skoðunarvert, fengið mér að borða á veitingastaðnum Kaktus á Selfossi. Ég nota hvert tækifæri sem gefst til að borða á þessum snyrtilegasta veitingastað landsins. Af máltíðinni á ég hins vegar enga mynd.

Klukkan er orðin tíu og tíminn útrunninn. Bæti við þetta síðar í dag.

Viðbót kl. 23.15: Var að koma heim eftir snúninga dagsins og vil frekar fara að sofa en skrifa meira. 

  • 1
Flettingar í dag: 27
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 281
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 63218
Samtals gestir: 16477
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 06:41:01


Tenglar