Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Blogghistorik: 2012 Mer >>

26.06.2012 22:01

Ég hálfskammast mín eiginlega.....

Undir þessum titli kom færsla með þónokkrum myndum, sem ég eyddi u.þ.b. hálfum öðrum tíma í að vinna. Þegar farið var að hilla undir lok birtust allskonar ókennileg tákn á skjánum og síðan hvarf öll færslan eins og hún lagði sig. Lái mér hver sem vill þó ég nenni ekki svona vitleysu........

02.06.2012 07:23

Annar júní 2012

Jahá, nú er týra! Nú verða engar innsláttartruflanir, enginn týndur texti, engar aukalínur og ekkert kjaftæði!  Ég er nefnilega búinn að fá gömlu tölvuna mína með haus og hala inn á gólf og upp á borð. Sú gamla er reyndar haldin þeirri meinloku aða allt nýtt sé slæmt og þess vegna neitar hún alfarið að þýðast netpunginn, sem er mitt eina tölvusamband sem stendur. Afleiðingin var verst fyrir hana sjálfa, því lyklaborðið var einfaldlega aftengt og stungið í samband við fartölvuna. Nú er ég því með sama lyklaborðið og vandræðalaust hefur spýtt frá sér texta undanfarin ár en ekki þetta sjálfeyðandi og sjálfútþurrkandi rusl sem fartölvulyklaborðið er. 

Það er semsagt annar júní, klukkan er hálfátta að morgni og ég á afmæli í dag. Fimmtíuogfimm ára. Time flies, eins og Herbert söng eitt sinn. Herbert var annars nærri brostinn í söng þegar ég skoðaði fyrir hann gamla Volvoinn á dögunum enda fékk hann fallegan, fjólubláan miða á númerin. A.m.k annar átti miðann skilinn......

Ég var búinn að heita því að skrá niður allan þann þvæling sem átti sér stað fyrsta maí sl. og þó verkefnið hafi dregist er það síður en svo úr sögunni. Ástæðan fyrir drættinum er aðallega sú að ég treysti ekki lyklaborðinu til að eyða ekki textanum mínum í tíma og ótima - nú er öldin önnur og annað borð!

Kýlum  á ´ða!

Eins og áður var fram komið á General Bolton ( sem skv. þjóðskrá heitir Ásgeir Jónsson og er Ísfirðingur) gamla, bláa rútu uppi á Mýrum. Það var einnig fram komið að við fórum uppeftir til að gera athugun á ástandi bílsins og áætlun um úrbætur. Að morgni fyrsta maí sl. var komið að næstu ferð. Nú skyldi hinn veiki hægri framfótur fjarlægður af skepnunni og fluttur suður til viðgerðar. Klukkan var rétt um sjö að morgni þegar ég ók héðan úr Höfðaborg upp á Lyngbrekku til að safna saman nauðsynlegum verkfærum. Generállinn var sjálfur snemma á fótum í Sandgerði og uppi á flugvelli í sömu erindum. Við sameinuðum svo verkfærasöfnin í svarta hrossadráparanum um hálfníuleytið og einum kaffibolla síðar vorum við lagðir af stað uppeftir - með fullan bíl af verkfærum og í þær smugur sem fundust á milli var troðið tveimur hundum. Frændurnir Gosi Ásgeirsson og Edilon B. Breiðfjörð voru báðir með í för sem ráðgjafar. Þeir virtust þó hálfráðalausir þegar á hólminn kom og voru því bundnir við nærstandandi nýtísku heyvinnuvél:



Síðan var hafist handa við að fjarlægja sýkta hluti, og mér er sagt að svipurinn á þessari mynd segi meira en mörg orð um ástand búnaðarins:



Ekki var þó annað í boði en halda áfram og skrúfa, plokka og berja eins og þurfti. Kuldagallinn var bráðnauðsynlegur enda var skítkalt og vindbelgingur eins og venjulega á Mýrunum. Allt í einu heyrðist í símanum og yfir helltust torkennilegar skeytasendingar frá Danmörku. Þær voru frá Jóni Þór Birgissyni og fjölluðu aðallega um Hornbæk, Gilleleje, tuttugu stiga hita, sól, sand og ís. Tímasetningin virtist valin beinlínis til að pirra okkur kuldagallaklædda og skeytunum var svarað á viðeigandi hátt, í skjóli bílsins: 




Verkið potaðist áfram þó fingurnir yrðu hálfloppnir, hjólnafið sjálft virtist lítið skemmt þó hjóllegurnar væru mölbrotnar og bílnum hefði verið ekið einhverja vegalengd þannig. Við ákváðum að fjarlægja allt sem hægt væri með góðu móti, og flytja það með okkur suður til aðgerðar:



......og eftir því sem á leið og verkinu miðaði léttist brúnin á viðgerðarmanninum:



Það mátti jafnvel hleypa generálnum sjálfum að verkinu eitt augnablik:



Eftir að gengið hafði verið frá hjólnafinu og tilheyrandi hlutum í skotti hrossadráparans var lagst í "kjallaraskoðun". Þar leit allt þokkalega út þó vissulega hafi tímans tönn nagað ystu húðina dálítið:



Skoðunaráhuginn kom fram á anna hátt hjá mér, og áður en ég vissi af var ég farinn að athuga með aðvörunarþríhyrninginn í kvikindinu. Hann reyndist ekki um borð og eftir það kom ekkert annað til greina en falleinkun, sama hvað generállinn kvartaði:



Fljótlega var allt tilbúið til brottfarar, gallarnir í geymslu og við komnir í ballfötin. Um leið og síðustu mynd var skotið mátti ég til að taka eina af Hiluxjeppa sem stóð við nálæg útihús. Bílar aka ekki á útlitinu, ég veit það vel en þessi kom í alvöru akandi fyrr um morguninn. Ég vona að það hafi ekki verið krappar holur á leið hans því hann virtist hreinlega vera að detta í sundur. Það sem á myndinni virðist vera ryð er það svo sannarlega ..........









Suðurferðin var hnökralaus og við vorum í Höfðaborg rétt um hálfþrjúleytið. Generállinn hélt sína leið suður með sjó en ég fór að huga að Stakkanesinu. Í vélsmiðjunni Stálveri var Alexander Hafþórsson að sýsla við annan eða þriðja mann. Ég leit inn til þeirra og ákvað síðan að nýta þennan ágæta dag í að koma Stakkanesinu úr vetrarhíðinu heim að Höfðaborg. Það var létt verk, aðeins þurfti að færa til nokkra stálbita og þá var leiðin greið.







Það var ekki langur spölur heim og eftir örfáar mínútur var Stakkanesinu plantað í innkeyrsluna og stillt upp við lítinn fögnuð minna litháísku nágranna sem fram að því höfðu notað mína innkeyrslu eins og sína eigin, sem löngu var orðin full af bílhræjum.

Á spjalli við þá Kristmund í Stálveri og Alexander Hafþórsson komst ég að því að til stóð að sigla strandveiðibátnum Lunda ST 11 frá Akranesi til Reykjavíkur þá um kvöldið. Þó veðrið væri svo sem ekkert sérstakt fannst mér tilvalið að munstra sem háseti í ferðina. Það passaði nákvæmlega að skella sér í heita pottinn í Laugardalslauginni áður en lagt skyldi af stað upp á Skaga klukkan sex. Tímasetningarnar stóðust ágætlega og uppúr sex vorum við Kristmundur á fullri ferð út úr bænum sem farþegar hjá Alexander. Líklega hef ég aldrei verið jafnfljótur upp á Akranes.

......................................................................................................

Hér verð ég að slíta frásögnina sundur. Það er enn annar júní og ég á ennþá ammalli, en klukkan er orðin korter yfir níu og ekki seinna vænna að fara að huga að ferðabílnum. Nú síðdegis er ég nefnilega á leið upp í Stykkishólm og ætla að vera þar í nótt. Það má geta þess í lokin að þegar ég fór út að borða í gærkvöldi með börnunum í tilefni afmælisins hringdi síminn. Það var Gunnlaugur Valdimarsson í Hólminum. Stöðunnar vegna gátum við ekki átt langt samtal en Gulli kom því frá sér sem hann ætlaði: "Ég ætlaði bara að segja þér að skipið er komið á flot!!"

Það getur ekki þýtt annað en reynslusiglingu á BJARTMARI í kvöld eða á morgun!!


  • 1
Antal sidvisningar idag: 59
Antal unika besökare idag: 1
Antal sidvisningar igår: 115
Antal unika besökare igår: 7
Totalt antal sidvisningar: 59261
Antal unika besökare totalt: 15667
Uppdaterat antal: 29.3.2024 11:35:51


Länkar