Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Blogghistorik: 2012 Länk

15.05.2012 07:06

And-pistill !

Ég ákvað að setja viðbótina ofanvið að þessu sinni. Mér ætlar nefnilega ekki að auðnast að ljúka pistlinum áður en haldið verður til Ísafjarðar. Það er föstudagsmorgunn, átjándi maí, klukkan er sjö fjórtán og eftir vinnu í dag liggur fyrir að keyra vestur með kerru í eftirdragi. Það var komin hánótt þegar búið var að tæma bílskúrinn á Lyngbrekkunni og dótinu hafði verið dreift um öll gólf hér á höfðingjasetrinu. (sem sumir eru raunar farnir að kalla Höfðaborg í höfuðið á síðasta "fátækrahverfi" Reykvíkinga. Ég man vel eftir þeirri Höfðaborg og get alveg sætt mig við það nafn á höfðingjasetrinu mínu!)

Ég á enn eftir nokkur handtök á Brekkunni. Garðskúrinn er fullur af ýmisskonar "útgerðardóti", sumt af því flyst hingað en annað fer væntanlega í endurvinnslu, enda spannar safnið rúm fjörutíu ár og rúmlega þó því hluti þess er frá dögum pabba í Aðalvík á sjötta áratugnum. Þá er strandferðaskipið Fagranes geymt ofan á bílskúrnum og enn á eftir að finna því nýjan geymslustað. Einhverjir muna kannski eftir því skipi frá ferðinni út í Engey, sem tíunduð var með myndum í október 2010.

Vinnan kallar og ferðalag að henni lokinni. Ísafjörður, here we come..........





Þessar línur eru ekki hugsaðar sem eiginlegur pistill, heldur aðeins til að ýta á sjálfan mig. Ég ætlaði fyrir löngu að skrásetja eigin feril þann fyrsta maí sl. en hef ekki komist í verkið vegna ýmisskonar anna. Það er ekki útlit fyrir að erlinum linni fyrr en að lokinni Ísafjarðarferð um komandi helgi svo nú liggur á að finna tíma fyrir skrif. Nikkólína sagði forðum: "Nóttina á ég sjálf" og sennilega verð ég að nýta komandi nætur til að stinga niður stöfum. Það er kalt á Höfðingjasetrinu, uppi undir rjáfri á norðurvegg er gömul lofttúða sem virðist standa opin inn í loftstokk innanhúss. Stokkurinn er ekki þéttur og því blæs hressilegur norðanvindur óheftur um húsakynnin - þá helst um svefnsalina! Afleiðingin er sú að nýja Tempur- dýnan er líkari gangstéttarhellu að leggjast á en mjúku rúmi. Trúlega er því þægilegra að eyða nóttinni niðri í stofu við tölvuna en uppi í herbergi við indversk þægindi.

Fyrsti maí hófst kl. sjö að morgni við undirbúning ferðar upp á Mýrar á Runólfi þeim sem áður var minnst á í fyrri pistlum. Deginum lauk með siglingu frá Akranesi til Reykjavíkur þar sem bundið var við bryggju kl. 10 að kvöldi. Það var ekki mikið um afslöppun þann daginn!

Ef næsta nótt verður ámóta köld og tvær síðastliðnar er von á löngum pistli...........

09.05.2012 08:09

Sýnishorn af sumri...

Mikið assgoti var kalt í morgun þegar fyrsta sjóferð Stakkanessins var farin. Hún var enda stutt, rétt útundir austurenda Viðeyjar og heim aftur. Hásetanum var orðið kalt jafnvel þó breitt væri undir hann teppi. Hann hefði betur munstrast sem vélstjóri, því í "vélarrúminu" er alltaf hlýtt.

Myndirnar tala..........






07.05.2012 07:10

Í fylgd með fullorðnum.

Ég man ekki lengur hvort ég var búinn að útlista eitthvað í sambandi við kaupin á litla vörubílnum sem ætlað er að flytja Stakkanesið milli landshluta. Í stuttu máli var ferlið þannig að upphaflega bauðst annar bíll til sölu á bland.is  en við skoðun á þeim bíl kom í ljós að hann var ranglega skráður í upphafi. Hann var sumsé skráður með minni vél og minni burðargetu en raunin var, og þegar við bættist blýþungur járnpallur sem á honum var, var svo nærri gengið burðargetunni að bíllinn mátti tæplega bera Stakkanesið, hvað þá meira. Ég var rétt kominn af stað í því ferli að fá skráninguna leiðrétta hjá Umferðarstofu  þegar annar samskonar bauðst, einnig á -bland.is-. Sá var rétt skráður og að auki með glerfínan álpall (sem að vísu var farinn að láta dálítið á sjá). Bíllinn var ekki í fullkomnu lagi en þar sem ég kaupi yfirleitt ekki bíla í fullkomnu lagi var alveg í fullkomnu lagi að kaupa hann. Ég kom honum svo fyrir til skammtímageymslu bak við iðnaðarhúsnæði félaga míns í Hafnarfirði. Leiðin frá kaupsstað (má ekki segja það?) að því húsnæði var þægilega stutt enda hafði bíllinn átt "heimahöfn" þar í bæ lengst af.



Klukkan er rúmlega sex á þriðjudagsmorgni, það er áttundi maí og tími til að halda áfram:

Það fór ágætlega um Isuzu vörubílinn þarna í Hafnarfirði. Það sem fyrst og fremst hrjáði hann var ónýt kúpling, hún olli því að bíllinn var ekki hreyfanlegur fyrir eigin vélarafli. Ég pantaði kúplingu gegnum umboðið, Ingvar Helgason því svo sérkennilegt sem það var virtist enginn varahlutasali hafa neinar upplýsingar um þessa bíltegund og allir gáfu frá sér að panta í hann varahluti. I.H. gat hins vegar útvegað kúplinguna á ágætu verði og hún kom á uppgefnum tíma til landsins. Á þeim tíma fóru hins vegar aðrir hlutir að velta heima fyrir, eins og fram hefur komið hér neðar. Allt það ferli olli því að áhugamálin voru sett í bið og Isuzu hálfgleymdist þarna bak við iðnaðarhúsnæðið í Hafnarfirði.

Svo gerðist það á dögunum að vinnufélagi benti mér á samskonar bíl sem væri í útboði hjá dráttarbílafyrirtækinu Króki í Hafnarfirði  (bilauppbod.is). Þegar ég kíkti á útboðið sá ég að þar var kominn hinn Isuzuinn, sá með stálpallinn og röngu skráninguna. Þegar ég skoðaði þann bíl stóð hann suður á Vatnsleysuströnd og eigandinn, sem ekkert hafði botnað í ræðuhöldum mínum um þungan pall og ranga skráningu  taldi sig jafnvel vera búinn að selja hann fyrir miklu hærra verð en ég vildi borga (enda sá ég ekki önnur not fyrir bílinn en í varahluti). Eigandinn hafði sagt mér að sá bíll væri í fullkomnu lagi en í útboðslýsingunni kom allt annað fram, þar voru taldar upp bilanir sem aldrei var minnst á í okkar samtölum. Ég fylgdist með útboðinu og þar sem aðeins örstutt var milli aðstöðu Króks hf. og þess staðar sem minn nýkeypti bíll stóð á fannst mér vera farið að hitna undir honum - hann var fullkomlega gangfær þó kúplingin væri óvirk, og því tilvalið fyrir þann sem eignaðist útboðsbílinn að ná sér í alla þá varahluti sem vantaði í skjóli nætur!

Þar með vantaði mig nýjan geymslustað ekki seinna en strax. Ég ákvað að halla mér að öxl sem áður hefur reynst vel. Hún er áföst Kristmundi Kristmundssyni Sörlasonar Hjálmarssonar frá Gjögri.  Kristmundur á vélsmiðjuna Stálver við Eirhöfða, aðeins steinsnar frá Höfðingjasetrinu og þar hefur Stakkanesið staðið í vetur og haft það fínt. Ég bað Kristmund að geyma fyrir mig bílinn og fékk leyfið strax. Reyndar tók dálítinn tíma að ná í Kristmund, því hann var upptekinn við byggðakvótaveiðar úti í Faxaflóa á trillunni sinni, Lunda ST 11, auk þess sem síminn hans hafði fallið í sjóinn og "hafmeyjar svara ekki í síma" eins og hann orðaði það sjálfur.

  Mér þótti óráðlegt að draga bílinn sunnan úr Hafnarfirði upp á Eirhöfða og hringdi þess vegna í Vöku. Á fyrirfram ákveðnum tíma sendu þeir sinn stærsta bíl til flutninganna, enda hafði ég ekkert dregið úr lýsingum á stærð Isuzu vörubílsins. Mig langaði að vera dálítið grand á því þegar hann loks yrði fluttur milli staða! Því miður var bílstjóri flutningabílsins svo snöggur að svipta Isuzu uppá pall að ég var ekki búinn að kveikja á myndavélinni. Ég var hins vegar mun sneggri upp á Eirhöfða og "ef myndin prentast vel" má sjá hvar Vökubíllinn kemur fyrir horn með farminn á palli:


Við Stálver var tilbúið ektafínt stæði fyrir Isuzu og það vafðist ekki fyrir bílstjóra flutningabílsins að komast að því, þó þröngt væri:





.......og nú koma myndir sem beinlínis voru teknar fyrir Magna:





Mér þótti við hæfi að mynda Isuzu bílinn gegnum Stakkanesið:



Það var ekki liðið nema augnablik eða svo, þegar Isuzu bíllinn var sestur í það sæti sem honum er ætlað að sitja í næstu vikur:



Það má alveg koma því að að hægra megin við Isuzu sér í afturenda á hvítum Man- Volkswagen vörubíl. Þetta er varahlutasafn "Gamla brýnisins", Péturs í Ófeigsfirði, en hann notar samskonar bíl með flutningakassa til að flytja grásleppuhrogn milli staða norður á Ströndum, meðan sú vertíð stendur yfir. Sá bíll  Péturs í  Ófeigsfirði kemur við sögu í lok næsta pistils, sem væntanlegur er fljótlega. Pistillinn spannar einn dag, fyrsta maí. Sá dagur hófst snemma og lauk seint, eftir landshornaþeyting frá morgni til kvölds. 

Eins og þeir segja í Amríkunni: Stay tuned.......



  • 1
Antal sidvisningar idag: 262
Antal unika besökare idag: 18
Antal sidvisningar igår: 274
Antal unika besökare igår: 13
Totalt antal sidvisningar: 62905
Antal unika besökare totalt: 16437
Uppdaterat antal: 16.4.2024 23:36:35


Länkar