Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


26.03.2016 08:40

Stakkanes undir áföllum.


( Fært af Facebook frá 23/3)


Allt fram til þessa dags hélt ég að í Stykkishólmi byggi gott og heiðarlegt fólk. Nú renna hins vegar á mig tvær grímur....
Eða nei, það renna eiginlega engar grímur á mig - Nú veit ég einfaldlega betur.
Hvers vegna? Jú, vegna þess að í haust, hafandi fengið reynslu frá síðasta vetri, batt ég Stakkanesið mitt tryggilega niður á fjórar fullar vatnstunnur inni við Skipavík. Tvær vatnstunnur höfðu nefnilega ekki dugað veturinn þar áður því Stakkanesið fauk til hliðar með þær hangandi á sér - 400kg. af vatni. Í haust var þess vegna búið vel og tryggilega um með fjórum tunnum - 800kg. af vatni, tvær á hvora hlið og bundið yfir allt saman með nýjum, sterkum strekkiólum. Þannig umbúið hefur Stakkanesið staðið af sér öll vetrarveður. Þar sem ég er búsettur á höfuðborgarsvæðinu hef ég litið uppeftir öðru hverju og fylgst með en að öðru leyti treyst á að böndin héldu. Síðast var ég hér í Hólminum helgina 5-8 febrúar og þá stóð skipið í skorðum og böndin höfðu hvergi gefið eftir. Fyrir stuttu síðan gekk hér yfir mikið illviðri svo olli tjóni á eignum. Ég var hins vegar rólegur í Reykjavík, vitandi af Stakkanesinu eins vel frágengnu og mögulegt var.

Nú um páskana kom ég uppeftir og leit auðvitað á bátinn minn. Ég er ekki viss um að ég hefði verið jafn rólegur í illviðrinu á dögunum hefði ég vitað það sem ég sá nú. Einhver auðvirðileg sál hefur sumsé fundið hjá sér hvöt til að stela nýju strekkiólunum mínum, einu foktryggingunni minni, af bátnum! Ég hef gruflað og gruflað en ég kem ekki inn í minn heimska haus hvers konar manngerð fær af sér að gera svona nokkuð. Í mínum uppvexti vestur á Ísafirði var brýnt fyrir mér hversu rangt það væri að stela frá öðrum. Ég veit ekki hvernig þeim málum var háttað hér í Hólminum en eitthvað hefur viskan þá fallið utan garðs. Ég hef enga hugmynd um hver eða hverjir voru að verki og verð þess vegna - eðlilega - að setja alla undir sama hatt.






Ég er ekki að óska eftir strekkiólunum mínum til baka - ég á nóg af þeim og þykist enda vita að slík ósk væri gagnslaus. Sá sem er nógu siðblindur til að stela foktryggingunni af bátnum mínum er líka nógu siðblindur til að sitja sem fastast á henni í trausti þess að til hans hafi ekki sést við verknaðinn. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að skömm aumingjans lifir, hver sem hann er og meðan hann ekki finnst verða fleiri að bera þessa skömm.....
Eftir páskana fer ég suður með hálfum huga - ég get ekki ímyndað mér hverju verður stolið næst enda hef ég ekki ímyndunarafl til þeirra hluta eins og fram kom ofar. Þetta aumingjaframtak verður hins vegar til þess að ég verð að koma aftur á næstu dögum með nýjar ólar - þótt aumingjanum hafi verið sama þó Stakkanesið mitt fyki er mér það ekki, enda smíðaði ég það sjálfur og vil ógjarnan sjá þetta handverk mitt eyðileggjast - allra síst af þessum orsökum. 

Flettingar í dag: 121
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 159
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 63471
Samtals gestir: 16518
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 22:42:05


Tenglar