Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


20.03.2016 09:55

Hestur um Hest....



Í Höfðaborg er ekki til siðs að vaka frameftir á kvöldin, hvorki á virkum dögum né um helgar. Þess vegna vorum við Bassi á fótum rétt um sjöleytið. Hann hefur raunar minna við að vera en ég og þess vegna leyfir hann sér stundum að leggja sig aftur eftir "morgunfagnið"

Myndir dagsins (ekki svo að skilja að ég ætli að setja myndir inn daglega) eru teknar haustið 1993 við eyðibýlið Hest í Hestfirði. Ég var þarna einn á ferð, einu sinni sem oftar, það var síðdegi og stórkostlegt haustveður.




 Ég klöngraðist á jeppanum út fyrir býlið og út fjöruslóða allt þar til hraðinn var kominn undir gönguhraða. Þá lagði ég bílnum og gekk áfram langleiðina út í Tjaldtanga, þaðan yfir nesið og að gömlu eyðibyggðinni í Folafæti Seyðisfjarðarmegin. Þar var aðeins eitt hús uppistandandi og þó ekki meira en svo að það marraði í því þegar ég lagðist á húshornið og ýtti. Á sínum tíma fann ég fyrir því heimild að húsið / jarðarhlutinn muni hafa verið Heimabær, en kannski vita einhverjir betur.

Í skáp í hálfhrundu eldhúsi var gestabók í krukku ásamt blýantsstubbum. Ég kvittaði fyrir komuna en hélt svo áfram göngunni, upp langa og djúpa laut sem sk. heimildum heitir Álfalág. Þar var gríðarleg bláberjaspretta, svo mikil að ekki varð framhjá horft. Ég át mig upp lautina sem hallar stöðugt til fjalls. Þegar henni sleppti ofan til, hún jafnaðist út og ég sá loks til beggja handa var ég kominn himinhátt upp í Hestinn - a.m.k. fannst mér það. Bílinn sá ég sem lítinn depil í fjörunni Hestfjarðarmegin. Á niðurleiðinni í átt að bílnum var sama berjasprettan og það var farið að bregða birtu þegar ég hafði étið mig niður hlíðina.


Klukkan mun hafa verið að nálgast háttatíma þegar ég loks renndi í hlað heima á Ísafirði...


Síðasta myndin er reyndar ekki mín. Þegar ég yfirgaf bílinn og hóf gönguna sá ég ekki fyrir endann og skildi myndavélina eftir í bílnum. Þetta þótti mér afar slæmt en var ekki að gert því ég ætlaði ekki að eyða tíma í að ganga til baka eftir vélinni. Ég ætlaði að bíða betra tækifæris að ganga leiðina aftur og mynda allt sem fyrir augu bæri. Nú, 23 árum seinna er enn beðið tækifæris... Myndin af Heimabæjarhúsinu er klippt úr úr dagatali Hjálparsveitar skáta á Ísafirði og á sinn sess í albúminu mínu með svipuðum skýringum. Mig minnir að Gísli Gunnlaugsson á Ísafirði hafi tekið hana og ég vona að birtingin verði ekki illa séð.

Flettingar í dag: 57
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 92
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 64320
Samtals gestir: 16679
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 09:18:02


Tenglar