Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


07.01.2016 17:21

Tvö þúsund og átján.


 Nei, ekki alveg - enn eru tvö ár í 2018. Samt situr þessi tala í mér, ekki sem ártal heldur brot úr gömlum dægurlagatexta þar sem sagði frá óvenjulegu barnaláni fjölskyldu einnar sem hélt áfram að fjölga sér  "uns þau urðu tvö þúsund og átján".  Ég er svo undarlegur til höfuðsins að ég er handviss um að þetta brot ásamt fleirum úr sama texta á eftir að óma í hausnum á mér allt það ár.

Nú er aðeins tvöþúsund og sextán og ætti að vera nægur tími til að losa sig við kvillann - ef það er þá kvilli. Áramótin fóru fram eins og áður var fram komið, þ.e. við Bassi sátum tveir saman í Höfðaborg og horfðum á sjónvarp. Hann horfði samt eiginlega meira á nammiboxið á borðinu. Í Höfðaborg er venjulega til nóg nammi. Við álítum nefnilega að allt sem smakkast vel sé á sinn hátt nammi og af því hér er enginn sem stjórnar eða sér um matarinnkaup fyrir okkur feðga  þá kaupum við bara það sem er gott - semsagt nammi. Ég get upplýst það hér með af því aðeins örfáir lesa þetta og fer fækkandi, að til hátíðanna voru keypt inn fimm kíló af konfekti, fyrir utan 750gr öskjuna sem Óskabarnið gaf. Ég ánafnaði reyndar veislustjóranum okkar þeirri öskju, við Höfðaborgarþrenning höfðum nefnilega veislustjóra sem sá um allar meiriháttar máltíðir um jól og áramót. Það er einmitt sá sami veislustjóri sem er eigandi kínversku jólaseríunnar steindauðu. Hin fimm kílóin höfum við Bassi alveg séð um.

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær, á þrettándanum, mátti glöggt sjá gilda sönnun á reglunni sem ég útlistaði þann 21. des. sl. Þótt ekki væri sérlega bjart í lofti var greinileg lengingin á deginum. Þess vegna bendi ég enn á þessa einföldu reglu um dagsbirtu með orðum fengum beint úr þykku bókinni: "...og hafið þetta til marks....".

Þannig er nú það. Fyrir stuttu fullyrti ég að ég ætlaði á mótorhjóli til Færeyja á komandi sumri. Mér eru alveg ljósir annmarkarnir á fullyrðingunni og þess vegna ætla ég að nota Norrönu sem stökkpall því þótt mótorhjól séu orðin þokkalega fullkomin er enn ófært á þeim til Færeyja án þess að annarra farartækja njóti við. Ég fékk óbeinar athugasemdir við framsetningu fréttarinnar varðandi þetta atriði en tek fram að þær voru allar frá lítt þenkjandi fólki og því illa marktæku. Til að taka af allan vafa hef ég nú þegar pantað, greitt og gengið frá farinu með færeysku trillunni Norrönu þann 16. júní n.k. og næst þegar fæti verður stigið á fósturjörðina verður kominn sá 23. Ennfremur er búið að hnýta alla lausa enda varðandi gistingar og ég get upplýst að þær eru ekki af verri endanum. Ég fer ekki einn, eins og líka kom fram og þegar maður gistir með General Bolt-on dugar helst ekkert minna en hótel Hilt-on.

Þetta verður ekki lengri pistill því í mörg horn er að líta þessa dagana. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil koma að, til að fyrirbyggja misskilning. Margir halda að áhugi á vélum og tækjum erfist einungis í karllegg. Það þarf ekki að vera rétt eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Hún mamma gat eitt og annað.......



Flettingar í dag: 41
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 171
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 63562
Samtals gestir: 16529
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:27:11


Tenglar