Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


21.12.2015 17:08

Jólahjól....


Jútakk, við komumst suður og vel það því klukkan var hálffjögur á miðvikudeginum 16. þegar rennt var í hlað í Höfðaborg og hún var á slaginu fjögur þegar yðar einlægur þeyttist inn um dyrnar hjá Óskabarninu og stimplaði sig inn á kvöldvakt. Vaktinni lauk kl. 24 og þá var satt að segja ákaflega gott að halda heim í borgina og halla sér. Hundur Íslands, sá eðalborni Edilon Bassi Eyjólfs/ og stundum Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff Sandhaug Sóðalöpp var í heimsókn hjá fyrri foreldrum í Hafnarfirði meðan við feðgar dvöldum á Akureyri, því hundar eru venjulega ekki velkomnir í orlofsíbúðir. Hann var sóttur daginn eftir og er dottinn í sína rútínu að nýju. 

Það er einungis sólarhringur í að daginn fari að lengja á ný. Munurinn sést á stuttum tíma og fyrir mörgum árum kom ég mér upp þumalputtareglu hvað birtutímann varðar. Hún er svona: Sé bjart í lofti á þrettándanum er strax farinn að sjást nokkur lenging. Þegar hún Elín Huld  ( kona sem ég þekki...) á afmæli þann sjöunda febrúar nær þokkalegur birtutími allt til kl. 18. Réttum mánuði síðar, þann sjöunda mars, má vel segja að bjart sé orðið kl. átta að morgni. Þá nær dagsbirtan sirka til kl. hálfátta að kvöldi. Tveimur vikum síðar eru svo jafndægur að vori og ekki þarf að útskýra nánar hvað þau þýða. 

Þetta eru semsagt hin einföldu fræði Gunnars Theodórs um dagsbirtu. Við þessi fræði má bæta örlitlu broti - en samt nokkuð mikilvægu. Þegar dagurinn er hvað stystur - semsagt nákvæmlega þessa dagana - er nýtanleg dagsbirta u.þ.b. fjórar klukkustundir. Það skal þó tekið fram að þessi jafna er miðuð við nafla alheimsins, Ísafjörð og má vera að hér syðra gildi einhver skekkjumörk. Mér er bara alveg sama. Þessi viska er þannig til komin að þegar ég var ungur maður vestra og ók um á skellinöðru (slík farartæki voru raunar á þeim tíma kölluð smellitíkur..) af Hondu SS50 gerð, þá varð ég fyrir barðinu á slæmri rafmagnsbilun. 




( Hér má sjá Hondu SS 50, nákvæmlega eins og ég átti en myndin er úr auaf netinu)

Bilunin lýsti sér þannig að framljós hjólsins lýsti aðeins í beygju en slokknaði í beinum akstri. Á Ísafirði og nágrenni eru þónokkuð margir beinir vegarkaflar og þar sem ég gat ekki alltaf haldið stýrinu í beygju bagaði þessi bilun mig verulega. Fyrir ungan mann með brennandi bifhjólaáhuga er það líkast því að missa hönd eða fót að geta ekki (vél) hjólað og þessvegna gjörnýtti ég þann tíma sem slíkt var hægt birtunnar vegna. Síðan er lengd birtutíma í desember brennd í minnið. Á þessum tíma var ég ekki kominn svo langt í vélfræðum að geta lagað svona bilun sjálfur og það var ekki fyrr en um páska 1973, þegar mokað var yfir heiðina til Súgandafjarðar, að ég lagði land undir hjól og ók vestur til Barða frænda. Hann var rafvirki (og er enn) og var aðeins nokkrar mínútur að átta sig á meininu og laga það. Svo fór sumar í hönd og annar vetur en þá var ég með ljós í lagi og skertur dagsbirtutími snerti mig lítið.

Þannig var nú það. Eftir morgundaginn fer daginn semsagt að lengja og lengstur verður hann kringum 21. júní 2016. Vitiði hvar ég ætla að vera þann 21. júní 2016? Nei, það er eðlilegt því það hefur ekki verið upplýst um það fyrr en nú.

Ég ætla að vera í Færeyjum. Algjörlega gjörsamlega svei mér þá!

....og skyldi ég nú ætla gangandi til Færeyja?

Nei. Það er ekki ætlunin. Ég ætla á þessu hér:



Þessi Geiri við hlið bláa hjólsins fer hins vegar hvergi. Ég ætla að teyma með mér annan Geira sem hingað til hefur ekið (eða hjólað) um á perluhvítu pimpbike (ég vona að mér fyrirgefist orðalagið).

Það fer hins vegar enginn óbrjálaður maður með perluhvítt pimpbike til Færeyja, þar sem allra veðra er von. Þess vegna fer ég líka á bláu hjóli en ekki perlurauðu. Og hvað skyldi þá eiga að koma í stað þess perluhvíta?

Þetta hér, sem sótt var í gær:



Þeir hafa ekki margir fengið höfðinglegri gjöf í skóinn frá sjálfum sér og sínum. Þar með sér fyrir endann á fyrsta hluta undirbúnings - tvær bláar Yamaha- systur klárar í hvað sem er. 

Eins og segir í jólalaginu: " Hæ hæ, ég hlakka til........"

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 360
Gestir í gær: 62
Samtals flettingar: 64244
Samtals gestir: 16643
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 19:08:14


Tenglar