Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


29.11.2015 08:54

Til Geira.


 Síðasta helgi var alger andstæða þeirrar yfirstandandi. Nú hafa snjórinn og frostið tekið völdin og leyst af hólmi rigninguna og þokuna sem þá var boðið uppá. Það var hins vegar beinlínis vegna rigningarinnar sem mér datt í hug um síðustu helgi að fara og heimsækja Geira. Geiri býr suður með sjó og það er alltaf gaman að heimsækja hann stutta stund öðru hverju. Hann býr við rysjótt veður en ég hef aldrei heyrt hann kvarta - eðli málsins samkvæmt getur hann það ekki. Hann hefur staðið jafn keikur hvernig sem á hann hefur blásið og hvorki bognað né brotnað undan álaginu, sem óneitanlega hefur á stundum verið gífurlegt, bæði vegna ágangs tvífætlinga og svo vegna náttúruaflanna sem geta verið afar óblíð þarna á Suðurnesjum.

Þegar rignir á snjólausa jörð að vetri má venjulega treysta því að ekki sé hálka. Hálkan er einn versti óvinur vegfarandans að mínu mati og þess vegna fagna ég hverjum hálkulausum vetrardegi. Mér er slétt sama um skammdegismyrkur og allt sem því fylgir, bara ef ekki skapast hálka. Í hálku er fólk að meiða sig, bæði gangandi, hjólandi og akandi......hálkan myndast við frost og því fleiri frostlausir vetrardagar, því minni saltaustur á götur og vegi. Það er líka gott að losna við saltið.

Eins og fyrr sagði rigndi um síðustu helgi og því var tilvalið að leyfa bláa bifhjólinu að sprikla aðeins á sunnudeginum. Ég setti gallann minn og hjálminn í bílinn og tók stefnuna á Sandgerði þar sem bláa hjólið er geymt - reyndar hjá Geira sem þar býr en það er allt önnur ella, eins og sagt er, enda þekkjum við þann Geira miklu betur sem General Bolt-on. Generállinn var mættur í athvarfið sitt og hjólið stóð frítt á gólfinu. Því var snarað út, ég snaraðist í gallann og og augnabliki síðar var athvarfið að baki og búið að setja kúrsinn á Hvalsnes. Það rigndi hóflega og blés mátulega en hitastigið var ekki hátt - það fann ég fljótlega á höndunum sem þrátt fyrir þokkalegar hlífar kólnuðu fljótt. Ég velti fyrir mér hvort það væru ellimörkin sem ég er alltaf að bíða eftir að finna og fann út að ef kaldar hendur væri það eina sem ég þyrfti að hafa áhyggjur af, verandi 58 ára gamall þá þyrfti ég litlu að kvíða. Þegar ég hugsaði "kvíða" var ég kominn suður að Stafnesi......

Það er gaman að aka þessa leið á mótorhjóli. Hún er hæfilega kræklótt til að maður hafi nóg að gera og hæfilega þröng til að halda manni stöðugt einbeittum. Venjulegir fólksbílar eiga erfitt með að mætast á þessum kafla og þegar venjulegur bíll mætir mótorhjóli eiga venjulegir bílstjórar það til að hugsa eitthvað á þann veg að fyrst aðeins sé mótorhjól á veginum megi bíllinn eiga hann allan því hjólið taki svo lítið pláss. Sá sem er á hjólinu veit að gagnvart bíl er hann alltaf minni máttar og verður því að vara sig........

Þennan sunnudagseftirmiðdag voru hins vegar nær engir bílar á ferð. Ein ljós sá ég á eftir mér en þau hurfu niður að Hvalsnesi og voru þar með úr sögunni. Ég ók veginn um Ósabotna neðan flugvallarins, ákaflega skemmtilega leið að fara í góðu veðri og jafnskemmtilega í regni og vindi á mótorhjóli. Hendurnar voru hins vegar farnar að kvarta dálítið enda hanskarnir eini hluti gallans sem var lélegur. Ég huggaði mig við að það er stutt til jóla.

Rétt áður en ég kom inn á veginn sem liggur frá Keflavík (Njarðvík) suður um Hafnir að Reykjanesvita kviknaði rauðgult ljós í mælaborði hjólsins. Á því var mynd af bensíndælu. Ég átti ekki von á þessu enda hafði ég ekki ekið svo mikið frá fyllingu, hélt ég. Ég fyllti hjólið  - fimmtán lítra - þegar ég keypti það og ók svo Nesjavallaleið inn að Hengli og um Hafravatn til baka. Næst ók ég alla leið á Nesjavelli og sömu leið til baka og því næst suður í Sandgerði þar sem tekið var á hús. Ekkert þess á milli og ég fór að velta fyrir mér hvurslags eiginlega eyðslukló þetta hjól væri! Mælaborðið er nefnilega digital - stafrænt - og ég hafði ekki nennt að grufla upp hvernig ætti að "trippa" á því. Rauða skellinaðran er með svona gammeldags hraðamæli og vegmæli með tölum sem rúlla og maður ýtir aðeins á takka til að núlla þær. Það finnst mér góður búnaður, enda gildir hér það sem alltaf gildir og KK gerði svo eftirminnileg skil í laginu um Æðruleysið - "Það einfalda er best"

Ég hafði semsagt enga hugmynd um hversu marga kílómetra ég hafði lagt að baki frá því ég fyllti tankinn á bláa hjólinu og nennti ekki að reikna það út þarna á staðnum. Það skipti líka litlu máli - ljósið hafði talað og eftir því skyldi farið. Ég var nokkuð viss um að ljósið þekkti bensínbirgðirnar betur en ég. Í stað þess að beygja suður í Hafnir beygði ég í átt til Keflavíkur og nam ekki staðar fyrr en við Olísstöðina í Njarðvík. Þar fyllti ég á og þessi fimmtán lítra tankur hafði gleypt tólf komma þrjá lítra þegar yfir flaut. Þar með var ekkert að vanbúnaði og ég hélt af stað aftur upp á Reykjanesbraut og áleiðis suður með Höfnum.

Ég var ekki á leið suður í Hafnir og ók því framhjá. Ég var að fara að hitta Geira og hélt þessvegna áfram móti vaxandi vindi og regni. Leiðin suður Reykjanesið er alveg stórkostleg hjólaleið og eiginlega alveg eins og vegurinn frá Sandgerði að Stafnesi, bugðóttur og mishæðóttur en þó mun breiðari. Á góðum sumardegi kemur breiddin sér vel vegna mikillar túristaumferðar en nú var hvorugt. Það var síð-nóvember og hreint ekki gott veður. Það eina sem var raunverulega gott við þennan dag var hálkuleysið. Jú, og frelsið sem fylgir því að vera einn á hjóli úti í "óbyggðum", eða þannig. Það er ekki alveg hús við hús á leiðinni frá Höfnum suður að Reykjanesvirkjun og þegar túristarnir eru fjarri kemst maður nærri því að eiga heiminn aleinn......

Spottinn frá Reykjanesvirkjun niður að Reykjanesvita er ómalbikaður og í ofanálag bæði holóttur, blautur og forugur. Þetta var kaflinn sem við generállinn slepptum í haust þegar við ókum (eða hjóluðum)  þessa leið á krómhjólunum okkar. Krómhjól myndi aldrei bera þess bætur að vera ekið svona veg fram og til baka. Á bláa hjólinu er hins vegar ekkert króm að finna nema ef vera skyldi í spegli framljóssins. Þess vegna var það látið vaða á holurnar og forina á fullri ferð  - eða já, þeirri ferð sem hæfir slíkri færð - og hvergi slegið af fyrr en á klettabrúninni þar sem land mætir hafi sem nær óslitið alla leið til útlanda......




........og þar var sá eini og sanni Geiri:






Niðri á klöppunum stóð einn lítill bílaleigubíll og tveir túristar fetuðu varlega stíginn upp á  Valahnjúk. Þarna á ysta horni landsins var nefnilega hvorki regnúði né hægur vindur, heldur ósvikið Íslandsveður, hávaðarok og hellirigning. Viðstaðan hjá Geira varð því ekki löng, rétt aðeins myndatakan og svo var haldið af stað til baka með viðkomu við Gunnuhver. Að öðru leyti var ekin sama leið til baka en þótt viðstaðan á bláhorninu væri stutt náði veðrið fram hjá mér og æddi viðstöðulaust upp ilina á stígvélinu (sé tekið mið af lögun landshlutans á korti....). Ég ók - eða hjólaði - alla bakaleiðina í Reykjanesrokinu og rigningunni sem linnti ekki fyrr en við dyr athvarfsins hjá Geira hinum í Sandgerði. Þar var sú leðja af vitaveginum sem ekki skolaðist af í náttúrlegum háþrýstiþvotti heimferðarinnar, þvegin af með garðslöngu og hjólið tekið á hús að nýju.

.....og af þessum pistli má marka að lengd ferðasögu þarf ekki endilega að vera í samræmi við lengd ferðarinnar sem um er fjallað.......

Endum með einni bátamynd frá Hauki á Dalvík:



Þetta er hún Sturla - eða hann Sturla, eftir því hvað menn vilja hafa því Sturla er, muni ég rétt eina karlmannsnafnið sem beygist eins og kvenmannsnafn og er því - "Sturlu" í öllum föllum nema nefnifalli. Til að allt sé rétt þá skrifa ég að myndin sé af Sturlu og sé tekin á Siglufirði - jafnvel þótt ég myndi sjálfur vilja segja " í Siglufirði". Förum ekki nánar út í það, gæti bara misskilist, eins og Kr. Ól. sagði.

Sturla hét upphaflega Senior og var smíðaður í Noregi 1967. Í vélasalinn var sett ellefu hundruð hestafla MAK sem er þar enn en hefur hlaupið dálítið í tímans rás og er nú ekki nema rétt rúm þúsund hestöfl. Upphaflega hefur Senior trúlega verið nótaveiðiskip og keypt þannig hingað til lands árið 1972 en er yfirbyggt 1974. Á sax.is kemur fram dálítið skemmtileg tenging, en þar er skipið sagt smíðað á Karmöy í Noregi. Símon heitinn Olsen, sem var upphafsmaður rækjuveiða vestur við Djúp - og raunar á Íslandi, fari ég rétt með, var Norðmaður, fæddur á Karmöy og gaf bátnum sínum vestra það nafn. Báturinn Karmöy var reyndar líka smíðaður í Noregi, í Fana, sem nú er hluti Bergen. Hann var smíðaður fyrir Gunnar heitinn Friðriksson sem kunnastur er af Vélasölunni og störfum fyrir SVFÍ. Gunnar var þá kornungur maður vestur í Aðalvík. Vél þessa nýja báts bilaði illa í reynslusiglingunni fyrir vestan og í framhaldinu var hann seldur Símoni Olsen sem gaf honum eins og fyrr segir, nafnið Karmöy. Karmöy varð þannig fyrsti rækjuveiðibáturinn á Íslandi. 

Nú er ég hreinlega kominn út á tún! Samt þykir mér ekki ólíklegt að Senior frá Karmöy, seinna Guðmundur frá Íslandi hafi einhvern tíma stundað rækjuveiðar fyrir vestan, þó ég muni það ekki. Mig minnir að hann hafi verið í hópi fjölmargra úthafsrækjuveiðiskipa sem höfðu mislanga viðdvöl á Ísafirði áður fyrr en þori ekki að sverja það. Allt um það fer Guðmundur til Vestmannaeyja 1983 og er þar sem uppsjávarveiðiskip allt til ársins 2004 - með einu grænlensku úthlaupi þó - að Þorbjörn hf. í Grindavík kaupir skipið og breytir því í línuveiðiskip. 

Skipið er yfir 50 metra langt en var upphaflega mun styttra. Það var, ef rétt er með farið, lengt úti í Noregi tveimur árum áður en það var keypt hingað til lands. Á síðu Markúsar Karls Valssonar heitins - eða "HÉR" - má t.d. finna fínar upplýsingar um skipið.

Sturla GK 12 er fallegt skip og hefur gegnum árin alltaf litið vel út, bæði sem Guðmundur og sem Sturla hjá Þorbirni hf. Makkinn er að verða fimmtugur og á eflaust náðugri daga nú á línunni en oft áður. Myndin frá Siglufirði er fín og Haukur fær allar þakkir fyrir hana.

Gott í bili.



................................



 

Flettingar í dag: 57
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 92
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 64320
Samtals gestir: 16679
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 09:18:02


Tenglar