Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


17.11.2015 08:13

Vika fjörutíu og sjö.


Upp er runnin vika 47 og líður hratt á hana, kominn þriðjudagur. Síðastliðinn laugardag var haldin nafnaveisla afaskottsins sem hingað til hefur aðeins heitið lilla. Foreldrarnir hafa í þeim málum ákveðna sannfæringu og samkvæmt þeirri sannfæringu (sem er jú ákveðin trú, þannig séð...) var þeirri litlu gefið nafn að borgaralegum sið. Eftir athöfnina, sem var hátíðleg eins og slíkar eiga að vera, heitir lilla Emma Karen. Nafnið er í hvoruga ættina sótt, frekar þá til vina ef eitthvað.



Mér skilst nefnilega að Karenarnafnið hafi jafnvel verið löngu ákveðið en Emmunafnið sé afleiðing af miklu áhorfi á þættina um "Friends", en þar mun vera til kríli með því nafni. Svo er ekki að neita hinu að þegar að því kemur að Emma Karen leggi heiminn að fótum sér (eða það sem eftir verður af honum eftir svosem tuttugu ár...) þá er vissulega til bóta að heita jafn alþjóðlegu nafni!

Laugardagurinn var að mestu lagður undir athöfnina og veisluna en kvöldinu eytt í slökun heima í Höfðaborg. Snemma á sunnudagsmorgun réðumst við General Bolt-on í Sandgerði nefnilega í stórleiðangur upp í Melahverfi (Melahverfi er íbúðahverfið rétt við nyrðri Hvalfjarðarvegamótin) með kerru í eftirdragi til að sækja dót. Okkur generálnum finnst alltaf gaman að spá í dót og ekki er verra þegar sá sem á dótið reynist vera fyrrum verkstæðisformaður hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Þegar svoleiðis hittingur á sér stað er sest yfir kaffi og meððí og rifjuð upp gömul kynni af mönnum og málefnum, spurt frétta og spáð í fortíð og framtíð. Þetta gerðum við allt saman auk þess að skoða dót sem við - að breyttu eignarhaldi -  höfðum svo á brott með okkur alla leið suður í Sandgerði. Í Sandgerði fengum við aukahendur til að taka dótið af kerrunni og þá var aðeins eftir að koma sér til baka til Höfðaborgar. Að loknum leiðangri var dagurinn eiginlega úti og fundi var slitið. Enn lifði þó nokkuð kvölds og eftir misheppnaðan ísrúnt í Grafarvog ( þar sem varla reyndist almennilegan ís að fá...) var haldið upp í Mosó og málið leyst þar. Á heimleiðinni einsetti ég mér að finna þrjú aðventuljós í gluggum. Um daginn var ég ákveðinn í að finna a.m.k. eitt slíkt og tókst það eftir litla leit. Það er nefnilega alveg merkilegt hvað Íslendingar, sem almennt þekkja þessar sjö ljósa stikur úr gyðingasið sem "aðventuljós", eru gjarnir á að þjófstarta aðventunni með því að setja ljósin út í glugga löngu áður en hún hefst. Ég renndi gegnum örlítinn hluta Grafarvogshverfis og þaðan yfir í Grafarholtið. Ekki tók langan tíma að finna þrjú logandi ljós, auk eins sem var slökkt á. 

Í gærkvöldi þurftum við tveir vinnufélagar að skjótast upp á Hellisheiði til að bjarga biluðum snigli á austurleið. Það tókst von bráðar og snigillinn hélt sína leið til Reyðarfjarðar með aftanívagn og allt. Við gátum hins vegar illa snúið við á heiðinni vegna víravirkis Vegagerðarinnar, en "snilldarverk" þess apparats á heiðinni munu verða talsvert í fréttum í vetur og það verða ekki alltaf góðar fréttir. Þetta er mín spá.......

Allt um það gátum við illa snúið og ákváðum því að aka austur í Hveragerði og snúa þar um hringtorgið á Suðurlandsveginum, einn frægasta flöskuháls svæðisins. Í Hveragerði blasti við a.m.k. eitt full-jólaskreytt einbýlishús með marglitum seríum á girðingu, trjám, þakskeggi og gluggum.

Ég held áfram að birta skipamyndir sem ég fékk sendar frá Dalvík, eins og áður kom fram. Hér er það Daníel SI.152 á Siglufirði:



Daníel SI 152 er löngu hættur að fara á sjó, eins og sjá má á myndinni. Þegar ég kom fyrst til Siglufjarðar eftir langt hlé - það mun hafa verið haustið 2000 - þá man ég ekki betur en Daníel SI hafi verið þarna í slippnum. Hann hét upphaflega Guðmundur Þórðarson, bar einkennisstafina GK 75 og skipaskrárnúmer 482 eins og enn má sjá. Smíðaður í Hafnarfirði 1943 fyrir Garðsmenn, rúm 50 tonn og knúinn 120 ha. Lister. Þrettán árum síðar er sett í hann 280 ha. MWM sem endist fimmtán ár, þá Kelvin-Dorman sem ekki virðist hafa lifað nema árið því skv. skráningu er sett í hann Cumminsvél ári síðar, eða 1972. Ekki kemur fram hvenær þetta stýrishús er sett á bátinn en trúlega er það ekki upprunalegt - 1943 voru menn ekki mikið í að smíða ályfirbyggingar. Daníel SI 152 er líklega búinn að standa þarna í slippnum eitthvað á þriðja áratug og enn er ekkert fararsnið á honum.

Sá næsti er öllu stærri, smíðaður í Þýzkalandi 1959 eftir íslenskri teikningu og einn margra systurskipa. Þetta er Björgúlfur EA 312, smíðaður fyrir Útgerðarfélag Dalvíkinga.



Dalvíkingar fengu tvö samskonar skip, Björgúlf og Björgvin, sem kom ári fyrr. Báðir höfðu samskonar vél, 800 ha. MWM og báðir hafa eflaust átt að geta borið mikið af síld, þótt þeir væru byggðir fyrir síðutog. Báðir voru seldir burt frá Dalvík á svipuðum tíma, Björgúlfur suður til Grindavíkur en Björgvin vestur til Suðureyrar. Saga Björgúlfs í Grindavík varð endaslepp, hálfu öðru ári eftir komu þangað sökk hann undan suðurströndinni, þá undir nafninu Járngerður GK. Skipið var á austurleið með loðnufarm sem ekki var svo stór að hefði átt að valda skaða en talið var að uppstilling í lest hefði gefið sig og farmurinn leitað út í stb. síðuna í mjög slæmu veðri og þungum sjó. Annars var haft á orði um þessa tappatogara að þeir hefðu verið mun burðarminni en ætla mætti af eigin stærð. Það er hins vegar önnur saga.

Um Björgvin EA, sem lifði mun lengra lífi og endaði í brotajárni inn við Skarfaklett í Rvk. sem Árfari SH, ætla ég ekki að hafa mörg orð, utan þau sem ég viðhafði í "kommenti" undir mynd á skipasíðu Þorgeirs Baldurssonar árið 2008:

Var á ferðinni þarna ´93 eða ´94 ( innsk: Í Rifi á Snæfellsnesi) og þá lá Árfarinn svona á fjörukambinum. Mikið fannst mér skelfilegt að sjá skip sem búið var að gera allt þetta við, bæði ný brú og dekkyfirbygging, liggja svona í reiðileysi. Svo fór ég að velta fyrir mér hvaða skip þetta hefði verið áður og það rifjaðist upp að þetta hefði verið Björgvin Már GK. Þar með hvarf söknuðurinn því Björgvin Már var eitt af þessum guðsvoluðu hræjum sem send voru vestur á úthafsrækju forðum þegar það ævintýri var í uppsiglingu. Ég held að botninum í þessum grátlega flota sem "gerður var út" frá Ísafirði hafi verið náð þegar þeir lágu allir bilaðir í höfn, Björgvin Már, Búrfellið og Vatnsnesið (KE) Ég set "gerðir út" í gæsalappir því ég held að þessir bátar hafi legið meira við bryggju en verið á veiðum. Man eftir einu tilfelli þar sem spilöxullinn brotnaði í Björgvin Má. Þá lágu og ryðguðu við bryggju á Patró leifarnar af Jóni Þórðarsyni en í honum var samskonar spil. Það var siglt suðureftir á Björgvini Má með smiðjugengi úr Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði, og þeir börðu sig inn úr ryðinu á spilinu í Jóni Þórðar, sem um árabil hafði aðeins verið á línu, til að ná því sundur. Það tókst með harðfylgi og nauðsynlegum varahlutum var náð. Þessarar ferðar var lengi minnst af smiðjumönnum.

Til frekari upplýsingar set ég beina tengingu á pistil Þorgeirs Baldurssonar HÉR.


Þriðja skipið í þessum þætti er Keilir SI 145. Fallegur eikarbátur í góðri hirðu að sjá.


Keilir hét upphaflega Kristbjörg og bar einkennisstafina ÞH-44. Stykkishólmssmíði ( eins og þeir vita sem lesa þykir mér flest gott í Hólminum....) frá 1975, fjörutíu og fimm tonn og knúin 360 ha. Caterpillar. Báturinn var smíðaður fyrir Korra hf. á Húsavík og ekki ótrúlegt að Hafþór Hreiðarsson skipagúrú þar í bæ hafi til hans einhverjar taugar.... sjá HÉR.

 ....og af því talað er um Kristbjörgu ÞH 44 er ekki úr vegi að enda syrpuna á rauðu stálskipi sem ekki hefur alltaf verið rautt. Það var allavega grænt þegar það var forðum á Flateyri og hét Sóley ÍS. Það er hins vegar rautt á myndinni hér að neðan, sem Haukur Valdimarsson á Dalvík sendi mér ásamt öðrum hér að ofan:


 Sóley ÍS var smíðuð í Noregi árið 1966 fyrir Hjallanes hf á Flateyri. Upphaflega með 600 ha. Wichmann sem seinna vék fyrir 870 ha Ölfu. Alfan er enn hjarta skipsins, orðin 33 ára gömul. Það sem er aðallega skemmtilegt við myndirnar tvær frá Hauki - af Keili SI og Röst SK er ekki bara nálægðin, annar á Sauðárkróki og hinn á Siglufirði - heldur það að báðir hafa heitið Kristbjörg og borið einkennið ÞH-44. Sjá HÉR.

Upphaf pistilsins er skrifað á þriðjudegi, eins og fram kemur efst en honum lýkur hér með kl. 15.30 á föstudegi. Tíminn er ekki alltaf mikill til að grúska og skrifa.....

...........................................................................................

Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 171
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 63566
Samtals gestir: 16529
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:54:43


Tenglar