Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.11.2015 08:39

Sunnudagur áttundi nóvember.



Það líður hratt á nýbyrjaðan mánuð og kominn áttundi dagur af þrjátíu. Í gærkvöldi sá ég fyrstu jólaseríuna í glugga uppi í Hraunbæ og það má búast við því að þeim fjölgi hratt úr þessu því margir vilja stytta skammdegið með jólaljósum. Fram til þessa hefur enginn vetur verið hér á suðvesturhorninu, aðeins rigning og aftur rigning. Rigningin hefur þá augljósu kosti að henni fylgir ekki hálka - hálka veldur slysum bæði á akandi og gangandi vegfarendum og í mínum augum er fátt jafn illa séð og hálka. Sá böggull fylgir þó rigningarskammrifinu að loft er þungbúið og blautt malbik gleypir bílljós. Fyrir vikið er veröldin dekkri og þyngslalegri, skammdegið meira og því grípa margir til jólaljósanna fyrr en ætla mætti. Á sömu forsendum hafa margir tilhneigingu til að láta jólaljósin loga út janúar. 

Mér finnst það bara allt í lagi........

Um daginn nefndi ég óbirtar myndir frá Hauki Valdimarssyni á Dalvík. Nú er gott tækifæri og hér kemur sú fyrsta:



Þetta er, eins og sjá má, Margrét SU 4. Skipaskrárnúmerið er 1153 og miðað við skráninguna hefur Margrét ratað til átthaganna á ný. Hún var smíðuð á Seyðisfirði árið 1971 sem Sæþór SU 175, skráð á Eskifirði og var knúin 125 ha. Perkinsvél. Eitthvað varð til þess að Perkinsvélin vék aðeins fimm ára gömul fyrir dálítið stærri VolvoPentu. Maður hefði haldið að Perkins væri endingarbetri vél en svona Volvo-þeytispjald en menn skipta ekki um vél að gamni sínu og hvergi hef ég séð neina sönnun þess að Perkinsvélin hafi verið sett ný í bátinn. Hins vegar eru dæmi um að menn hafi sett góðar, notaðar vélar í nýja báta. Árið 1971 voru menn lítið farnir að smíða stýrishús úr áli á þessa litlu báta og Sæþór SU 175 fékk ljómandi laglegt stýrishús úr trjáviði. Á mynd í skipaskrá ársins 2008 heitir báturinn Búi EA 100, er gerður út frá Dalvík - heimabæ Hauks Valdimarssonar - og er ljómandi snyrtilegur að sjá. Eftir það hefur báturinn heitið Gói ÞH, Viktor EA og Margrét KÓ. Undir síðastnefndu skráningunni sá ég hann eitt sinn sigla út úr Hafnarfjarðarhöfn og þá var greinilegt að eitthvað meira en lítið hrjáði VolvoPentuna frá 1976 því reykjarkófið var slíkt að vart sást í sjálfan bátinn. Kannski var það líka til bóta að lítið sæist í hann því þá var komið á hann þetta nýmóðins álhús sem satt að segja minnir meira á vitabygginguna á Látrabjargi en stýrishús á laglegum eikarbáti. Líkt og fallegir hjólkoppar geta híft bíldruslu upp í áliti og verðmæti geta lagleg stýrishús gert svipað fyrir báta. Svo getur þetta snúist algerlega við og það finnst mér eiga við um Margréti SU 4. Snyrtileg umgengni og hirða ásamt ryðfríu rekkverki og fleiru smálegu bjarga þó miklu. Við skulum því bara segja að Margrét SU 4 sé flottur bátur og eigandanum til sóma.


(....en af því ég er að nefna "nýmóðins" stýrishús þá má ég til með að nefna Þorkel Björn NK, sem raunar leit sitt skapadægur suður í Þorlákshöfn ekki alls fyrir löngu, og svo "Dísirnar" tvær sem lengi voru í Bolungarvík, þær Sædísi og Bryndísi. Á Þorkel Björn, sem var laglegasti bátur áður var settur einhver allra ljótasti kofi sem ég hef séð á bát í langan tíma og svo var skitið yfir skömmina með enn ljótari hvalbak. Báðar Dísirnar fengu í áranna rás ný stýrishús en meðan húsið á Bryndísi var bara þokkalega laglegt og fór bátnum ágætlega var húsið á Sædísi hreinlega hryllilega ljótt. Sædís er nú, eins og menn vita safngripur á Ísafirði og hefur fengið stýrishús sem er eftirmynd þess upphaflega en Bryndísi sá ég síðast húslausa uppi á Hlíðarenda ofan Akureyrar og þar áður niðri í slipp. Af tillitssemi við aðstandendur sleppi ég því svo viljandi að minnast á Fram ÞH.62 ) 

Hér kemur svo líka mynd af Frosta ÞH. 229. Hann var smíðaður árið 2001 í Kína fyrir Bjössa Jóakims úr Hnífsdal og hét þá Björn RE. Síðan eignaðist þyrlu-Mangi skipið og gerði út sem Smáey VE 144. Nú er það semsagt komið norður til Grenivíkur og heitir Frosti.



Ég þekki lítið til þessa skips og enn minna til annars Grenivíkurskips, Varðar ÞH. Mér er ómögulegt að muna hvort skipið ég sá vestur á Ísafirði fyrir örfáum árum. Það var að leggja frá Sundahöfninni eftir löndun, þurfti að taka snúning á gönguhraða og ég man að ég hugsaði um það hvort einhvern tíma væri elduð súpa þar um borð, svo svakalega lagðist skipið í lítilli beygju á engri ferð. Það hélt svo áfram að rúlla eins og tunna út eftir Sundunum.....

Þriðja skipið í þessarri myndasyrpu H.V. er Blængur NK. Eins og kunnugt er er þetta gamli Freri og þar áður Ingólfur Arnarson. Skipið var smíðað 1973 á Spáni fyrir B.Ú.R. og er lifandi sönnun þess að Spánverjar smíða betri skip en bíla:



Ögurvík átti þetta skip frá 1985 og lagði í það mikla peninga fyrir fimmtán árum eða svo. Þá var það lengt, hækkað og MANíunum tveimur skipt út fyrir eina Wärtsilä uppá 5000 hestöfl. Maður hélt að Freri væri orðinn hálfónýtur af viðhaldsleysi eftir að þrengja fór að hjá Ögurvík. Ekki virðist það þó vera því varla færi Síldarvinnslan að draga ónýtt skip á sjó með tilheyrandi kostnaði og það er seigt í þessum þúsund tonna Spánverjum. Þótt rúm fjörutíu skrokkár séu u.þ.b. tvöfaldur líftími margra nýsköpunartogaranna þá eru eins og fyrr segir "ekki nema" fimmtán ár á aðalvél og eflaust mörgu fleiru sem skipt var um um sama leyti. Allt um það, skipið er flott og skilar vonandi sínu.

Hér syðra rignir með köflum og hitinn er þrjár til fimm gráður eftir því á hvaða mæli er litið. Pistillinn er skrifaður í tveimur hlutum og milli þeirra skaust ég á bláa bifhjólinu suður í Sandgerði þar sem það mun hafa hávetrardvöl. Það rigndi hressilega á leiðinni en góður hlífðarfatnaður skýldi gegn allri bleytu. Ég átti svo víst bílfar í bæinn aftur og það var notalegt að koma í hús í Höfðaborg.

Gott í bili.
....................................................................................................

Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64386
Samtals gestir: 16710
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 00:23:27


Tenglar