Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


10.10.2015 21:15

Flug, skip og hjól...



S.l. miðvikudag var ég sendur flugleiðis vestur á Ísafjörð til að setja saman gámalyftara.

....eða þannig sko, ég var ekki beinlínis sendur heldur þurftu tveir menn að fara í verkefnið og öllum á verkstæðinu var gefinn kostur á að fara ef þeir vildu. Maður hefði haldið að menn gripu fegins hendi tækifæri til að skreppa dagstund út á land og vinna verk sem teldist tiltölulega einfalt en svo var nú aldeilis ekki. Sumir höfðu aðeins óljósa hugmynd um hvar Ísafjörður væri og sú hugmynd fól aðallega í sér illviðri, fannfergi og ekkert gsm samband. Aðrir vildu helst bara halda sig inni á hlýju og björtu verkstæði og ekkert vera að taka sénsinn á svaðilförum að óþörfu - heima væri best. Að endingu stóðum við tveir eftir, báðir Ísfirðingar og þrautsjóaðir sem slíkir - vanir illviðrum, fannfergi og lélegu gsm sambandi. Mæting á flug var kl. 7:30, brottför 8:00 og auðvitað var ófært fyrsta hálftímann. Okkur grunaði að sú ófærð leyndist að mestu úti í flugskýli þar sem stæði ófullbúin flugvél. Svo varð allt í einu fært, um það leyti sem flugvélin birtist á brautinni og lagt var af stað í dæmigerðu Reykjavíkurhaustveðri, þoku og rigningu. Það létti svo til er nálgaðist Snæfellsnes og hélt áfram að birta er norðar dró - hvað annað?

Veðrið á Ísafirði var með besta móti, sól, hægur vindur og átta stiga hiti. Verkið gekk vonum framar og kl. 17 vorum við aftur staddir á flugvellinum á Ísafirði, nú á heimleið. Ég má til að minnast á afar fínan hádegisverð á veitingastaðnum Húsinu, því þótt mötuneytið hjá Óskabarninu sé alla jafna framúrskarandi þá er Húsið sko ekkert mötuneyti heldur Gala-veitingastaður og hananú...

Heimflugið var nánast eins og útsýnistúr - einn og einn skýjafláki þvældist fyrir en að öðru leyti var sýn niður á landið alla leiðina. M.a.s. í Reykjavík hafði birt og var þokkalegt veður við heimkomu.

Víkur þá að skipi: Í vikunni fékk ég sendar myndir frá honum Hauki Sigtryggi á Dalvík og með fylgdi eftirfarandi texti:

"Sæll Teddi.

Ég var að lesa pistilinn þinn, datt í hug að senda þrjár myndir.
Það eru fleiri en þú sem þurfa að búa  sig undir veturinn.
Þarna er Birnir Jónsson (sonur Jóns Drífubyssusmiðs) að taka Hafdísi á land.

En Hafdís veiðir þann besta saltfisk sem ég fæ og líka síginn fisk, algjör humall.

kveðja suður yfir heiðar.
haukur sigtryggur."








Saltfiskveiðiskipið Hafdís er, eins og sjá má Skagstrendingur og af fyrri kynslóð þeirra ágætu báta. Þó ekkert sjáist á henni skipaskrárnúmer má merkja það af lágu stýrishúsinu, sem á seinni bátunum var hækkað til muna enda var ekki fyrir hávaxna menn að standa inni í svona lágu húsi. Hér syðra má sjá dæmi um heimagerðar breytingar á stýrishúsum Skagstrendinga með hroðalegum afleiðingum. Á Hafdísi er engu slíku til að dreifa, hún hefur fengið að halda sér óbreytt, utan hvað kannski hefur verið nagað örlítið af stefninu og opinbera eftirlits (les: innheimtu..) kerfinu þar með gefið langt nef. Á efstu myndinni er Hafdís knúin einhverri lítilli dísilrellu en á hinum tveimur er hún knúin Landcruiser 120 með miklu stærri dísilrellu. Flottur bátur, flottur bíll, flott veður á Dalvík þennan daginn og flott sending frá Hauki Sigtryggi. Kærar þakkir fyrir þetta.



Þá að því síðasta: Rauða skellinaðran er lögst í vetrarhíði hér uppi í Árbæ, innan um marga sína líka en flesta þó öflugri. Hún þarf þó ekki að hafa neina minnimáttarkennd því ef aðeins þarf 90 km. hraða til að brjóta lög getur hún nokkurn veginn tvíbrotið þau. Það ætti að duga. Það er hins vegar ómögulegt að geta ekki "hjólað" næsta hálfa árið eða svo , allt þar til fer að vora á ný. Ég ákvað að bæta þar úr og bætti við einni blárri í safnið:



Þessi er, eins og glöggir sjá, talsvert frábrugðin þeirri rauðu enda er þetta hreint engin skellinaðra heldur alvöru hjól, með bæði talsvert meira vélarrúmtak og fleiri hestöfl. Ég kalla það ferðahjól enda hljómar það mun betur en torfæruhjól og að auki fylgdu því farangurskassar úr plasti með tilheyrandi festingum. Þetta bláa hjól er jafngamalt því rauða og álika mikið (lítið?) ekið en líður dálítið fyrir að hafa átt sín fyrstu ár utarlega á norðanverðu Snæfellsnesi og staðið þar úti í öllum veðrum. Ég skrapp á því Nesjavallaveginn í dag (laugardag 10.10.) og get sagt hreint út að þetta er fantahjól. Ef einhver hefur áhuga þá er örlítil lýsing HÉR, fengin af netsíðu Sverris Þorsteinssonar sem á sínum tíma fór hnattreisu á svona hjóli ásamt Einari bróður sínum.


Efnisskráin er tæmd að sinni.









.........................................
Flettingar í dag: 43
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 360
Gestir í gær: 62
Samtals flettingar: 64214
Samtals gestir: 16633
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 10:10:39


Tenglar