Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.06.2015 10:04

Bara stutt....


 

....að þessu sinni enda er sumar í dag fram til kl.18 eða þar um bil og því um að gera að nota tímann. Góður maður sem ég þekki vonaðist til að í ár félli sumarið á helgi af því í fyrra hefði það borið upp á miðvikudag. Kannski verðum við heppin...

Stakkanesið var notað nýliðna helgi. Veðrið í Hólminum var óvenju gott, aðeins u.þ.b. þrír metrar á sekúndu, sem bæjarmenn kalla staðarlogn. Þegar við bættist skýlaus himinn gat útkoman ekki orðið önnur en sjóveður. 



Það var raunar siglt stutt á laugardeginum, aðeins inn að Skákarey og áð þar við bryggjuleifar úti í sjó. 



Á fyrstu myndinni sér til lands í Seley og stuðlabergshellirinn (sjá kort) sem er fastur áfangastaður í siglingum með túrista, sést við sjávarmál fyrir miðri mynd:


Horft til lands í Skákarey:



 Við höfðum ætlað okkur að sigla inn Stapastraum og skoða magnað stuðlabergshrunið í Stöpunum en vorum fullsnemma á ferðinni á aðfalli og straumurinn var enn of harður til að leggjandi væri í hann.


 Því tókum við nestispásu við bryggjuleifarnar í Skákarey eins og fyrr segir en héldum svo til baka og lögðumst í heita pottinn í sundlauginni.


 



Á sunnudaginn (í gær) lögðum við frá bryggju rétt eftir hádegi áleiðis upp að Hrappsey. Vindurinn var heldur hægari og heiðríkjan sú sama og daginn áður. Við vorum sléttar fjörutíu mínútur að sigla frá bryggju inn að Hvítabjarnarey og þaðan þvert yfir Hvammsfjörðinn að Hesthöfða við Hrappsey. 



Myndin hér næst að neðan er raunar tekin norðan við Hesthöfða, við eina af mörgum eyjum sem bera nafnið Seley. Á myndinni blasir við varðan sem á kortinu er nefnd "leiðarmerki":



Insiglingin inn á voginn við bæjarhús í Hrappsey er þröngt sund milli heimaeyjarinnar og Dagmálaeyjar. Við vorum á hálf-aðföllnu og í sundinu var tveggja metra meðaldýpi. Inni á voginum var lagst við akkeri og tekið til nestisins.

 







Mig vantar upplýsingar um hvaða bátur þetta er, sem þarna ber beinin. Þetta gæti  verið 30-40 tonna bátur en þar sem við fórum ekki í land gat ég ekki athugað flakið betur.


Húsakosturinn í Hrappsey má muna sinn fífil fegurri. Þessi skúr í forgrunni hefur verið byggður á bakkanum neðan við gamla íbúðarhúsið, sem er að sjá ónýtt með öllu. Skúrinn er að sjá á sömu leið.......


Einhvern tíma hafa útihúsin verið lagfærð eitthvað, ef marka má gaflinn, en sú lagfæring er að litlu orðin:






Frá Hrappsey var svo haldið að Purkey og skoðaðar stórkostlegar stuðlabergsmyndanir í Suðurstakki við leiðina inn á Íravog. Við sigldum alveg inn á voginn og snerum á honum þegar dýptarmælirinn flautaði á metra! Það þurfti raunar ekki mæli til að sjá dýpið því sjórinn var alveg kristaltær.

 











Frá Purkey héldum við að Klakkeyjum - eða Dímonarklökkum - og renndum gegnum straumhart sund inn á Dímonarvog - já, eða Dímunarvog, eftir því hvar er lesið. Stakkanesið stýrir hálfilla í hörðum straum en hefur þó stórbatnað eftir að skriðbrettið var sett á það í fyrrahaust. Það var hálfgerð "fylleríisstýring" gegnum straumiðuna inn á voginn en þar inni var klár lygna.



 







Við mynduðum klakkana í bak og fyrir, kannski má segja að af voginum höfum við myndað þá í bak en við færðum okkur svo út af voginum og vestur fyrir, þar sem við mynduðum í "fyrir".

 







Frá Klakkeyjum var siglt fulla ferð (full ferð á Stakkanesinu getur verið allt frá 4,8 mílum til 7 mílna eftir straum en þarna var harða aðfall og straumsúgur milli hólma svo hraðinn var að meðaltali 5,5 mílur) með stefnu 276 gráður vestur fyrir Skörðu og nálæg sker en síðan stefnt beint á Þórishólma. Áður en að honum kom var tekin stefna austur fyrir Húsaflögur, sem eru sker innan við hólmann, og siglt gegnum geysiharða straumröst í áttina að Byrgiskletti innan við Hvítabjarnarey. 

Ég sagði frá því um daginn að við hefðum litið á toppskarfa í klettinum á hvítasunnusiglingunni og nú langaði okkur að sjá hvernig hreiðurgerðin hefði lánast. Ekki var annað að sjá en allt væri í standi þótt á köflum væri erfitt að koma auga á skarfinn, svo samlitur sem hann var klöppunum. Þarna við Byrgisklett var kúplað frá og rekið reyndist vera 1,2 sjm. á GPS. Líklega hefði hraðinn aukist ef við hefðum látið reka lengur......


 








Frá Byrgiskletti lá leiðin út í Hólm, með stuttri viðkomu við Hvítabjarnarey þar sem Edilon Bassi hafði veður af kindum. Honum þótti leitt að mega ekki hlaupa upp á eyju og reka dálítið, svo leitt að hann hékk gólandi á borðstokknum meðan eyjan fjarlægðist.

 

En fyrst ekki fékkst leyfi til að heilsa upp á kindurnar var ekki annað í stöðunni en að setja upp hundshaus og láta duga að horfa löngunaraugum upp á eyju:


Það hafði verið ætlunin að taka Stakkanesið á land áður en haldið væri suður að nýju en þrátt fyrir afar vandaðan undirbúning (að mínu mati....) varð dráttarkrókurinn á ferðabílnum eftir fyrir sunnan. Þetta er prófíltengi með dálítið sérstöku sniði og ekki dugði að fá lánað hjá öðrum þó nóg væri af prófíltengjum í Hólminum. Því var bátnum lagt í bryggju og bundið vel. Það eru nefnilega tvær vikur í næstu ferð í Hólminn - nema sautjándi júní verði nýttur til að renna uppeftir og taka á land. Það ætti ekki að vera stórmál, tveggja tíma akstur hvora leið og landtakan klukkutíma vinna.

 

Eftir það er allt óvíst. Þegar þetta er skrifað eru enn líkur á verkfalli þann 22. nk. og ef til þess kemur er sjálfsagt að nota tímann til að leika sér. Ferðabíllinn, athvarfið mitt í sumar var auglýstur til sölu á dögunum og á þeim hlutum er talsverð hreyfing. Ég gæti því allt eins selt ofan af mér á miðju sumri og orðið athvarfslaus uppfrá. Lúkarinn í Stakkanesinu er jú brúklegur í neyð en hann er engin hótelsvíta.........

 

Svo er tveggja vikna sumarfrí skráð í júlíbyrjun og í hvað þær vikur verða nýttar ræðst eðlilega af ferðabílnum - eða sölu á honum. 

Það þarf að koma fram að Elín Huld tók flestar myndanna, enda er hún mun betri myndasmiður en ég eins og áður hefur komið fram.....

 

Gott í bili.....


Flettingar í dag: 272
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 77
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 64083
Samtals gestir: 16611
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 11:56:02


Tenglar