Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.11.2014 09:23

Þriðjudagsmorgunn.


 .... fjórði nóvember og ég er kominn úr Hólminum. Kom reyndar síðla dags í gær, í ágætu veðri sem var tilbreyting frá því hávaðaroki sem ríkt hefur á Nesinu síðan fyrir helgi. Hann blés kröftuglega af norðri á föstudaginn þegar ég keyrði uppeftir með kerruna "fulla af drasli" og ég hef aldrei fundið jeppakvikindið jafnkvalið né séð aðra eins bensíneyðslu! 

Laugardagurinn var tekinn snemma og strax í birtingu var ráðist á vagninn undir Stakkanesinu og hjólabúnaðurinn fjarlægður. Vörubrettum og plönkum raðað undir í staðinn svo nú er allt mun stöðugra en áður. Svo voru það tunnurnar sem nota átti sem akkeri. Úti í Skipavík var ekkert vatn að fá og allar slöngur höfðu verið fjarlægðar af bílaþvottaplani bensínstöðvarinnar. Eini staðurinn sem vatn var að finna á, var bátahöfnin. Þangað fór ég með tunnurnar og fyllti á þær. Ég hef svo sem handfjatlað fullar tunnur áður en það var helvítis puð að troða 200 kg. tunnu milli Stakkanessins og Farsæls litla hans Gulla. Svo var bundið utan um allt heila galleríið og súrrað eins og hægt var. Ég er sannfærður um að þótt í vetur geri einhverja verstu fellibylji í manna minnum muni  Stórskipið Stakkanesið ekki haggast......







Það er annars ágætt að hafa svona lítinn bát eins og Farsæl við hliðina því þá virkar stórskipið enn stærra. Þar við hliðina er svo Fleygur Sturlu frá Öxney.



Það þarf greinilega eitthvað að hugga þennan hluta vagnsins næsta vor því ekki má nýyfirfarinn og endurnýjaður hjólabúnaðurinn hrynja af vegna ryðs í festingum. Það er eins gott að allt haldi - það stefnir nefnilega í stórátök næsta sumar, þegar til stendur að draga Stakkanesið vestur í Djúp. Nú fer hins vegar vetur í hönd og enginn veit hvernig allt kemur undan honum. Fátt er þó framkvæmt án undirbúnings og þegar einu lýkur hefst annað - nú hefst semsagt undirbúningur þess að flytja Stakkanesið vestur í Djúp og að nokkrum dögum liðnum aftur til baka í Hólminn.

Svo er bara að krossa fingur og vona að allt gangi nú eftir......
....................................................

Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 360
Gestir í gær: 62
Samtals flettingar: 64256
Samtals gestir: 16650
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 22:27:51


Tenglar