Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


24.05.2014 09:01

Nú segir af tveimur hefðarfrúm.



 Þessar tvær hefðarfrúr koma hvor úr sinni áttinni. Upprunaríki þeirra elduðu löngum grátt silfur og gera jafnvel enn. Hefðarfrúrnar tvær láta sér hins vegar fátt um finnast, báðar hafa þær dvalið langdvölum í framandi landi og sinnt sínum skyldum þar. Nú er þeim skyldum lokið og ellin sækir að. Sú kerling leggst misvel - eða misilla á hefðarkonurnar tvær eins og sjá má á myndunum hér neðar.

 Sú fyrri sem við nefnum er hún Kata. Hún hefur á sínum tíma þótt vel vaxin - íturvaxin eins og það var stundum orðað (eða í þessu tilfelli "ýturvaxin" ). Enda hafa henni eflaust verið falin verkefni í samræmi við stærð. Ekkert veit ég um ferðalög hennar innanlands en þau hljóta í áranna rás að hafa verið þónokkur. Á efri árum hefur hún valist til starfa í grjótnámu S.R. undir Þyrli í Hvalfirði og þar hefur hún lokið starfsævinni. Ég efast ekki um að Kata hafi sinnt sínum störfum með meiri sóma en henni sjálfri er sýndur eftir starfslok.




Ég er ekki viss um aldurinn á henni Kötu. Hún er þó líklega smíðuð eitthvað fyrir 1960 því uppúr því komu svona tæki almennt með vökvatjökkum. Kata er hins vegar með allt í vírum, spilum og kúplingum. Þetta risaspil aftaná gegndi því eina hlutverki að hífa ýtutönnina upp og slaka henni niður aftur. Vírinn liggur frá tromlunum um blakkir inn í leiðararör gegnum stýrishúsið og fram eftir vélarhúsinu sitthvoru megin:




Svo er hún auðvitað með þennan einstaka startbúnað sem einkenndi Caterpillar (og kannski fleiri) um árabil: Tveggja strokka bensínvél utan á stóru sex strokka dísilvélinni, sem hafði þann eina tilgang að snúa þeirri stóru í gang. Það má sjá tvö kerti ofan á flatheddinu og magnetubúnað framan á vélinni. Sér loftinntak með olíubaðssíu ofaná og svo er pústið frá litlu vélinni lagt inn í soggöng þeirrar stóru og blandast  þannig inntakslofti dísilsleggjunnar - sannarlega hjálplegt við gangsetningu í köldum vetrarveðrum. Startari þeirrar litlu er ofaná tengigírnum milli vélanna og snýr til hægri:




Startarinn tengdist svo aftur einhverjum stærsta sex volta rafgeymi sem ég man eftir að hafa séð:




Svo þegar kúplað er saman og litla vélin tengd þeirri stóru er auðvitað hægt að hafa "Hæ" og "Ló":




Hún er engin smásmíði, línusexan og ekki undarlegt að þurft hafi talsvert afl til að snúa þessu flykki í gang:





En svo gat auðvitað komið til þess að sex volta rafgeymirinn væri tómur, eða svo slappur að hann orkaði ekki að snúa tveggja strokka hænunni í gang. Kaninn sá auðvitað við því enda menn  þaulvanir að smíða sex volta Willysjeppa. Hvað gerðu menn í svoleiðis tilfellum? Jú, þeir lögðust á sveifina:




Á þessum ræsibúnaði var hálfgerður dúkkubragur,  í hróplegu ósamræmi við stærðina á tækinu öllu - pínulítill bensíntankur við hlið risaolíutanks, pínulítill vatnskassi aftan við annan risastóran, pínulítil loftsía, pínulítið púströr......

Það hefur verið þokkalega rúmt um ýtustjóran sjálfan, en þar með eru þægindin eiginlega upptalin. Enginn hljóðeinangrun, enginn fjaðurstóll, engin "joystick" til að stjórna með, bara stórar og miklar stangir til að toga og ýta ásamt risapedölum í gólfi. Dálítið ólíkt nútímanum - en við erum heldur ekki með hugann í nútímanum heldur fortíðinni:




Til hliðar lá sjálf ýtutönnin og kannski var þar að finna lykilinn að endalokum ýtunnar. Festiauga hægri kjálkans var brotið aftan af kjálkanum sjálfum. Það hefur eflaust ekki verið einfalt að sjóða þesháttar suðu svo vel væri og kannski var það akkúrat þarna sem notkun var hætt:




Þannig var nú það og líklega mun hún Kata hvíla lúin (og fúin) bein í námunni undir Þyrli allt þangað til einhver tekur sig til og færir hana til eyðingar og endurvinnslu. Hver veit nema í framtíðinni eigi einhver eftir að negla saman sólpall eða eitthvert annað smíðaverkefni með nöglum sem gerðir eru úr járninu af henni Kötu gömlu frá Ameríku?

..............................................................................................................

Hverfum þá  vestur á Mýrar - og um leið heimsálfa á milli, alla leið austur til Rússlands.  Það er ekki löng leið milli Bandaríkjanna og Rússlands, aðeins eitt mjótt sund norður í Íshafi. Samt er óravegur þarna á milli í flestum öðrum skilningi. Lengi vel horfði almenningur þarna austur frá í átt til Bandaríkjanna með stjörnur í augunum og sá þar hið fyrirheitna land frelsis þar sem allt var leyfilegt, allt var fáanlegt og enginn var undir járnhæl valdhafanna eða stöðugu eftirliti þeirra. Ég veit ekki hvernig þessu er háttað í dag en víst er þó að "land frelsisins" hefur færst þó nokkuð í austurátt, a.m.k. hvað varðar stjórnunarhætti valdhafanna. Ég veit ekki hvort hún Raisa var nokkuð að sökkvar sér ofan í svona hápólitískar pælingar þar sem hún stóð og sleikti sólskinið. Ég sá hana þarna fyrir nokkrum árum og eflaust er hún enn einhvers staðar í grenndinni. Ég fór  sömu leið fyrir stuttu og þá var Raisa ekki á þessum bletti lengur. Það er því ekki ólíklegt að þrátt fyrir þreytulegt útlit hafi hún verið gangfær og enn nothæf til síns brúks. Svona babúska eins og hún Raisa gufar nefnilega ekki upp í einu vetfangi.




Sú Raisa sem þessi Mýradrottning dregur nafn af átti (og á líklega enn) mann, rússneska forsetann Mikhail Gorbatsjov og sá hafði valbrá á enninu. Þessi Raisa hefur ekki einungis þegið nafn eiginkonunnar heldur einnig talsvert af valbrá eignimannsins og hún var eiginlega að verða ráðandi í litarafti hinnar rússnesku hefðardömu sem helst virtist hafa það hlutverk að slétta þýfi vestur á íslenskum Mýrum.  Eflaust hefur verið - og er - hlýrra á þeim mýrum en þeim rússnesku freðmýrum sem Raisa hefur verið byggð til að kljást við. Ég veit því ekki hversu mikil þörf hefur verið á þessum upphitunarbúnaði stýrishússins, þ.e.a.s. hafi ég séð og skilið rétt. Ég skoðaði ekki vélina í henni Raisu en miðað við allt og allt þykir mér ekki ólíklegt að hún sé loftkæld og þetta sem horft er á þarna inni í hægra framhorni stýrishússins sé einfaldlega upphitunarbúnaður tengdur afgasi vélarinnar.




...en svo má auðvitað vel vera að þetta sé tómur misskilningur hjá mér, þetta sé einungis lofthreinsari vélarinnar svona staðsettur vegna sandstorma og ryks. Mér fannst bara dularfullur þessi stóri fjögurra bolta flans sem blasir við ofarlega á kútnum og er ekki í neinni líkingu við hefðbundna sogloftslögn. Þetta er eiginlega miklu líkara hljóðkút en loftsíu og mér finnst einhvern veginn líklegt að tæki sem byggt var til að vinna í fimbulkulda austur um hið víðfeðma Rússland hafi verið smíðað loftkælt og öll kælivatnsnotkun hafi þótt fásinna á þeim slóðum. Því þótt það sé auðvitað ekki alltaf kalt í Rússlandi þá verður, þegar almennilega kólnar, hreint andskoti kalt!

Eins og ofar segir var hún Raisa ekki á þessum stað þegar ég átti leið um síðast og þar sem hún flýgur ekki af sjálfsdáðum og Mýramenn virtust lítið láta pirra sig allskonar drasl og rusl sem lá á víðavangi er ólíklegt að hún hafi verið fjarlægð til að fegra umhverfið. Miklu líklegra er að sú gamla sé enn brúkleg og hafi verið flutt á nýjan vinnustað.

...........því nóg er af þýfinu á Mýrunum........


Flettingar í dag: 57
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 115
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 59259
Samtals gestir: 15667
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:57:09


Tenglar