Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


27.04.2014 09:11

Síðasti sunnudagur aprílmánaðar.


Þeir verða ekki fleiri, sunnudagarnir í apríl þetta árið. Þarna um daginn var pálmasunnudagur, svo kom páskasunnudagur og þessi sunnudagur getur svo sem vel heitið eitthvað án þess að ég hafi hugmynd um það. Ég veit allavega að það er ekki Fomúlusunnudagur. Sá næsti með því heiti er ellefti maí og þann dag átti ég að vera á áhorfendabekk úti í Barcelóna að horfa og hlusta. Formúlan hefur hins vegar þróast þannig í ár að það er fátt að sjá og enn minna að heyra. Svo er maímánuður einn besti tími ársins og þegar allt er reiknað saman þá tímdi ég ekki að eyða tveimur vikum af uppáhaldsárstímanum til að horfa á keppni sem ekkert er varið í að horfa á - svo ég sleppti ferðinni og ákvað að fara frekar í fermingarveislu hjá General Bolt-on þessa helgi, enda veit ég að það verður miklu meira gaman. Ekki orð um það meir!

Þetta verður ekki langur pistill. Við Bassi erum á leið út í sólskinið til að líta á stórskipið Stakkanes og gera lauslega áætlun um sjósetningu. Svo þurfum við að líta aðeins á ferðabílinn því nú styttist í að hann verði settur á númer. Eftir hádegið er áætlað að fara til Keflavíkur í smá könnunarleiðangur sem ekki er ólíklegt að tengist bátum á einhvern hátt. Mér þykir heldur ekki ólíklegt að leiðin gæti legið á vélasafnið úti í  Garðskaga. Þar er nefnilega prýðilegt kaffihús og ef veðrið helst eins og það er núna er rjómapönnukaka vel við hæfi.

Hún Sigrún Sigurgeirsdóttir átti stórafmæli sl. miðvikudag. Hún vildi reyndar lítið gera úr því sjálf, segist eiga enn stærra afmæli næsta ár og vissulega er það rétt. Ég veit að þá verður mikið um dýrðir enda á hún Lalla allt það besta skilið:


Það bregst aldrei að hjá þeim hjónum er manni alltaf tekið eins og týnda syninum. Svo má ekki gleyma henni Emmu, sem alltaf geltir fyrst þegar maður mætir en er svo fljót að venjast að við aðra eða þriðju heimsókn er hún farin að þekkja mann og fagnar einungis á rólegan og virðulegan máta. Ég mátti til að mynda Emmu við einhvern samanburð, því hún er einn minnsti hundur sem ég hef séð, ef ekki sá alminnsti:


Svo má ekki gleyma því að hann Gulli á líka afmæli á næstunni. Hafi ég ekki reiknað rangt verður hann 87 ára þann 20. maí nk. Þó hann segist sjálfur vera orðinn óttalega lélegur fær maður á tilfinninguna að það sé mest í nösunum á honum! Af manni sem er að nálgast nírætt er hann ótrúlega brattur og þótt eljan sé kannski farin að minnka - sem eðlilegt er - þá er áhuginn alltaf jafn brennandi þegar um er að ræða báta, veiðar og eyjalíf við Breiðafjörð. Manni hlýnar alltaf dálítið við að heimsækja þessi heiðurshjón.


Ég ætla að enda þessa syrpu á þremur Skagstrendingum. Þeir voru allir myndaðir í Stykkishólmi um páskana.




Ég hef ekki gefið mér tíma til að grafa upp skipaskrárnúmer "Jómfrúarinnar" á efstu myndinni. Þessir bátagerð er rétt yfir sex metrunum - skráningarskyldunni - og allnokkrir þeirra hafa verið styttir eilítið til að komast undan peningaplokki ríkisins og tengdra aðila. Líklega er því þannig varið með Jómfrúna. Sá drappliti á miðmyndinni er Litli vin SH6. Litli vin hefur alltaf átt heima í Hólminum og borið sama nafn. Honum hefur verið breytt nokkuð frá upphafi, m.a. skipt út 30ha BMW vélinni sem sett var í hann nýjan. Ég hef séð hann á siglingu með sinni áttatíu hestafla Yanmarvél og þvílíkur gangur, maður lifandi.........
Sá guli er svo Lundi SH54, eins og vel sést. Lundi risti sitt fyrsta kjölfar á Skagafirði sem Hrönn SK, þá knúinn 23ha Volvo Pentu sem enn er í honum ef marka má nýlegar skrár.

Gott í bili.....
..............................................

Flettingar í dag: 11
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 171
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 63532
Samtals gestir: 16522
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 01:39:59


Tenglar