Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


25.04.2014 09:45

Undir lok.

 
 Tvo síðustu daga páskadvalar í Stykkishólmi var veðrið orðið skaplegt og að morgni annars í páskum renndum við á litla bláa bílnum út í Bjarnarhöfn. Þar var fátt um manninn og lítið um að vera enda ferðamannavertíðin ekki hafin. Okkur langaði að skoða kirkjuna (fyrsta tilraun mín til að skoða kirkjuna í Bjarnarhöfn var gerð fyrir fjórtán árum. Þá hafði fólkið ekki tíma til að sýna mér hana) og töluðum við unga dömu sem var á gangi á bæjarhlaðinu. Hún sagði okkur að kirkjan væri lokuð og aðeins til sýnis fyrir hópa. Okkur væri hins vegar frjálst að aka niður að henni. Því miður vorum við ekki með neinn hóp með okkur, við vorum aðeins tvö en auðvitað þótti okkur stórkostlegt að fá að aka bílnum niður vegspottann að kirkjunni og ganga kringum kirkjugarðinn - hliðið var nefnilega bundið aftur. Það besta var auðvitað að aksturinn og gangan var hvorttveggja endurgjaldslaust!





Við höfðum ekki lengri viðdvöl í Bjarnarhöfn enda hóplaus og því varla velkomin. Áfram var haldið út í Grundarfjörð. Þar byrjuðum við á að heimsækja ísbúðina - það átti vel við að enda páskaeggjasukkið á ís með dýfu - og á sjoppunni var okkur ákaflega vel tekið, þrátt fyrir að við værum aðeins tveggja manna hópur. Við fengum fínan ís og með hann í hendi lögðum við í skoðunarferð um bæinn. Eðlið sagði til sín og það sem mér fannst helst skoðunarvert voru bátarnir. Það var greinilegt að strandveiðimenn voru að búa sig. Í forgrunni er (6112) Lilla SH, sem upphaflega hét Pollý SK og var frá Sauðárkróki, sá rauði er (6024) Brasi SH, sem upphaflega var Jón EA og hefur víða farið síðan. Uppi á bakkanum er svo (6283) grunndönsk Akureyrarsmíð sem eitt sinn hét Hafbjörg ÞH og var afturbyggð með þennan fína drottningarskut. Nú er öldin önnur og búið að "uppfæra" fleyið verulega.





Svo var þessi timbraða furðufleyta milli húsa og virtist albúin til hvers sem var af rauðu Atlanterrúllunni að dæma. Báturinn er raunar skrokkfallegur en stýrishúsið hefur eflaust meira notagildi en fegurðar-. 





Þessi bátur hét upphaflega Svanur GK 205, smíðaður í Hafnarfirði 1979 og var þá ólíkt fallegri en nú. Ég tók mér það bessaleyfi að skanna þessa mynd upp úr stórvirki Jóns Björnssonar, "Íslensk skip - bátar" 1sta bnd.bls 238.



Út úr nálægu iðnaðarhúsi stóð þetta "geimfar".  Það er líklega eitthvað verið að glíma við þennan nýja Sómabát innandyra:



Á öðrum stað stóð  snyrtilegur Færeyingur, nýmálaður og tilbúinn í strandveiðislaginn. Hann virðist lengst af hafa átt heima á Nesinu, upphaflega Minna SH í Ólafsvík:



Svo var það hún Sigríður blessunin. Hún skartaði engu skipaskrárnúmeri en það er nú til engu að síður og mun vera 6250. Hún leynir ekki sínum dansk/norska uppruna enda ekta NOR/DAN fleyta. Sigríður hét áður Gunnar RE 108 og var um árabil gerð út frá Reykjavík af Jóni Trausta heitnum Jónssyni frá Deildará í Múlasveit vestra:



Kannski ég láti fljóta með eina mynd af Deildará í Múlasveit, svona í minningu duglegs manns:



Upp við gám í horni iðnaðarsvæðis stóð hún Auður. Mér fannst hún hálf hnípin og ekki líkleg til að hafa verið á sjó alveg í gær eða fyrradag.  Auður mun upphaflega hafa heitið Vega (ekki misritun) RE 500 og það var dálítið eftirtektarvert að hún er aðeins tveimur númerum frá fyrsta bátnum á myndunum hér ofar, Lillu SH, sem er 6112. Það hafa aðeins liðið dagar milli skráninga þessara tveggja báta - ef þá svo mikið - og sýnir kannski hversu hratt endurnýjun trilluflotans gekk fyrir sig þegar tréð var að víkja fyrir plastinu á árunum uppúr 1977:



Svo mátti alveg snúa sér aðeins og horfa til Kirkjufellsins frá hvílustað Auðar. Sýnin er frekar kuldaleg:



Hún Elín Huld var ótrúlega þolinmóð meðan bátarnir voru myndaðir. Þegar hún svo rak augun í þennan gamla Volvo Amazon vildi hún endilega mynda hann - enda flottur bíll:



Svo var það ein klassísk kirkjumynd en þessari myndatöku fylgdu talsverðar vangaveltur um það hvernig kirkjan sneri. Miðað við hefðina "austur/vestur" þá hlýtur þetta að vera annar gafl kirkjuskipsins. Altarið myndi þá vera í austurendanum:



Loka pistlinum með mynd af þessum höfðingja, sem var eini Grundfirðingurinn sem við sáum á fæti þennan annan páskadagsmorgun - fyrir utan jú konuna í ísbúðinni.



Punktur.
....................................................

Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 92
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 64292
Samtals gestir: 16666
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 02:51:02


Tenglar