Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


20.04.2014 14:36

Páskadagur 2014!



Jú, það var myndað. Að vísu var aðeins myndað innandyra og út um glugga því veðrið hefur ekki gefið tilefni til útiveru. Frá skírdagskvöldi var samfelld innivera fram yfir hádegi á laugardegi. Þá gaf í sundlaugina og þar var setið á annan tíma í félagsskap íslenskra og ítalskra ferðamanna. Það er alveg makalaust hvað þessir bannsettir Ítalir geta verið háværir og hraðmæltir auk þess sem þeir virðast deila þeirri skoðun þýskra ferðamanna að þegar þeir hafi greitt sundlaugargjaldið eigi þeir ekki bara aðganginn heldur svæðið eins og það leggur sig. 

Þegar lagt var upp í gönguferð á skírdag var maður frá læjónsklúbbnum hér í Stykkishólmi mættur á Borgarbrautina til að selja páskaliljur. Ég sló um mig með tvöþúsundkalli enda er tvöþúsundkall lágt gjald fyrir gott og upplýsandi spjall við heimamann. Það var engan blómavasa að finna á Borgarbrautinni svo kaffikannan sem fékk það hlutverk í febrúarbyrjun 2011 ( á stórafmæli Elínar Huldar) fékk aftur sama hlutverk. Hér að neðan birtast myndir frá báðum tilefnum:





Svo var páskaeggið myndað með páskaliljunum:



....og svo éljaði og éljaði og það rauk upp með stormhraglanda svo ekki var hundi út sigandi:





Svo rigndi og þá fór snjórinn:



Þannig gekk þetta afturábak og áfram. Það var því fátt betra að gera en að sitja við tölvuna og láta sig dreyma:



.....alveg eins og fyrir rúmum þremur árum, á nákvæmlega sama stað:



Sem betur fer hafði Gulli, Gunnlaugur Valdimarsson frá Rúfeyjum, gefið mér heilan bunka af Sjómannablaðinu Víkingi frá árunum 1965-69 við komuna í Hólminn á miðvikudaginn og það var því hægt að taka pásur frá tölvugruflinu og sökkva sér í blöðin. Þar var að finna þónokkur gullkorn og ekki er að vita nema nokkur þeirra eigi eftir að birtast hér á síðunni. Svo voru auðvitað nokkrar góðar bækur með í för:



Inniverunni á föstudaginn fylgdi samt örlítill leiði og þessum leiða fylgdi löngun í súkkulaði. Ég er súkkulaðifíkill eins og oft hefur komið fram, höndla ágætlega páskaegg í plastumbúðum en þegar þær hafa verið fjarlægðar er eggið fljótt að hverfa. Það var akkúrat það sem gerðist - eggið með græna páskaunganum hvarf eiginlega á örskotsstundu og til að ekki liði páskadagur án eggs fór ég í Bónus á laugadaginn (í gær) og keypti endingargott egg uppá eitt kíló!



Ég barðist lengi morguns við freistinguna. Fékk mér morgunmat og kaffi á eftir, gerði semsagt allt til að teygja líftíma þessa risaeggs:



.......en um síðir falla flest vígi og svo fór einnig um þetta:



Klukkan er að ganga fjögur á þessum páskadegi og enn gengur á með dimmum éljum. Súkkulaðifíknin hefur heldur rénað og ég er eiginlega kominn með nóg í bili af þesslags dóti. Svo er líka lambalæri í kvöldmatinn og ég ætla að eiga magarými fyrir það, enda er lambakjöt eitt það albesta sem ég borða - og svo líka allt hitt......

Þetta verður samt að vera alveg extragott læri ef það á að toppa folaldið sem var í matinn á föstudagskvöldið langa....




...og nú út að ganga áður en næsta hryðja gengur yfir!



..................................................................

Flettingar í dag: 92
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 115
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 59294
Samtals gestir: 15670
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:49:36


Tenglar