Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.04.2014 09:50

Stykkishólmur um páska 2014.


.Það er morgunn lengsta föstudags ársins. Frá því á miðvikudagssíðdegi hefur ýmislegt gengið á - aðallega þó í veðrinu. Hér hafa skipst á dimm él, rigningardembur, rokhviður og fleiri tilbrigði íslensks veðurfars hafa einnig látið á sér kræla. Ég fór í Bónus í gær til aðfanga og sá þar stærsta páskaegg sem ég hef látið mig dreyma um, heilt kíló af súkkulaði er enginn smáfengur fyrir súkkulaðifíkil sem hefur enga löngun til bata og ég er að hugsa um að sækja mér svona egg rétt fyrir lokun búðar á morgun - laugardag. Það ætti þá að endast eitthvað fram á páskadaginn sjálfan.

Það er hálfeinmanalegt hér án Bassa, sem ekki má dvelja í svona félagsbústað eins og ég er í. Hann er í góðu yfirlæti (og þá meina ég góðu.....)  hjá fyrri eigendum í Hafnarfirði og ég veit að þar er dekrað við hann fram úr öllu hófi. Hann er reyndar ekki óvanur slíkum trakteringum, hundurinn er löngu orðinn alger dekurrófa enda eftirlæti flestra sem honum kynnast.

Það er annars helst að frétta að súðbyrðingurinn Bjartmar, sameign okkar Gulla, hefur verið afskrifaður sem skip. Það þýðir ekki að hann sé talinn ónýtur heldur er einfaldlega ekki talin eign í honum lengur. Báturinn hefur verið til sölu nokkuð lengi en enginn viljað kaupa - a.m.k. ekki fyrir ásættanlegt verð - og nú er svo komið að vélin verður tekin úr honum, hreinsuð upp og seld sérstaklega, enda er hún prívateign Gulla og miðað við aðstæður í raun það eina sem einhver eign er í. Skrokkurinn fellur til mín og mun verða fluttur til Reykjavíkur í fyllingu tímans. Um framhaldið er óvíst en það má búast við að einhver not verði fyrir hann að undangengnum frekari lagfæringum og breytingum. Bjartmar sem slíkur hefur semsagt siglt sinn síðasta sjó og hverfur úr sögunni á fjörukambinum í Gullhólmavík.

Það er heldur að birta í lofti þó enn blási hressilega. Ég gæti trúað því að myndavélinni yrði beitt eitthvað í dag...........

Flettingar í dag: 88
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 92
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 64351
Samtals gestir: 16690
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:50:47


Tenglar