Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.05.2013 07:36

....og enn sigldi Lundi!

Það virðist ekki vera mikill áhugi fyrir togaramyndinni hér neðar. Ég skoðaði frummyndina, sem er raunar hér í Rvk en ekki fyrir vestan, eins og ég hélt. Bakhlið hennar er með línum eins og póstkort og á það er handskrifað nafn afa míns, Theodórs Jónssonar, ásamt heimilisfanginu Aðalgata 9 Ólafsfirði. Afi byggði það hús og nefndi Jaðar. Uppúr 1940 flutti hann svo með fjölskylduna frá Ólafsfirði til Ísafjarðar. Fleiri nöfn eru skrifuð á kortið en fæst bendir til að átt hafi að senda það, frekar líkist skriftin e.k. ritæfingu og mér er næst að halda að þar hafi mamma mín blessuð verið að æfa rithöndina. Allt um það er ég nokkuð viss um að myndin af togaranum sé erlend en ekki tekin hér við land. Reykháfsmerkin ættu þó að segja sína sögu enda greinileg, þau sem á annað borð sjást......

Sömuleiðis virðist enginn áhugi fyrir flakinu af henni Ásu við Grindavík. Kannski var ég sá síðasti til að frétta af því og kannski er ég sá eini sem hef einhvern áhuga á örlagasögu þessarra þriggja "Ása" og þar með Duus-verslunarinnar. Veit ekki.......

Hitt veit ég, að hann Kristmundur fór í róður frá Akranesi á dögunum á gerbreyttum Lunda sínum. Á landleiðinni hringdi hann svo í mig skv. umtali og boðaði suðursiglingu eftir löndun. Lundi ST 11 var nefnilega að fiska síðustu tittina úr Strandabyggðakvótanum sínum frá því í fyrrahaust og nú stóð strandveiðin fyrir dyrum. Að lokinni löndun á Akranesi og siglingu suður til Reykjavíkur skyldi Lundi upp í vagn og landleiðina norður til Hólmavíkur að morgni uppstigningardags. 

Auðvitað slær maður ekki hendinni á móti svona boði. Ég ók í loftköstum upp á Skaga og kom á bryggjuna um sama leyti og Lundi renndi að henni til löndunar. 



Aflinn var í einu kari svo báturinn var fljótafgreiddur. Að nokkrum mínútum liðnum vorum við lagðir af stað suður í sólskini og einmuna veðurblíðu.





Ég sigldi þessa sömu leið með Kristmundi á Lunda um sama leyti í fyrra en nú var margt breytt. til samanburðar ætla ég að endurbirta myndir frá þeirri siglingu.





Þannig var nú það. Þrátt fyrir vetrarharðindin nyrðra skein sól hér syðra, og veðrið nú var talsvert frábrugðið því sem við fengum á suðursiglingunni í fyrra. En það var fleira breytt. sjáiði til dæmis "hamingjusvipinn" á Kristmundi á þessarri mynd frá því í fyrra:



....og takið svo eftir breytingunni:






Víst er Kristmundur miklu glaðari á neðri (og nýrri)  myndunum. Ástæðuna má m.a. sjá á siglingatækjunum fyrir framan hann (sjáiði afstöðumuninn miðað við andlitið á honum Kristmundi) og lofthæðinni fyrir ofan hann (sem er allmiklu meiri á neðri myndinni). Svo er enn ein ástæða fyrir kætinni sem kemur berlega í ljós hér fyrir neðan:



Við vorum aðeins tveir um borð og það hlýtur að þýða að ég sé enn aftar í bátnum en Kristmundur. Í fyrra hefði þessi myndataka verið ómöguleg því ekki mátti yfirgefa rattið á ferð. Nú er Lundi ST 11 hins vegar kominn með dýrindis "fjarstýringu" og Kristmundur gat því komið aftur á dekk og sólað sig, myndatökumanninum til samlætis. Það er rétt, þegar hingað er komið sögu, að birta skýringuna á afstöðumuninum sem sást á fyrri myndunum, þ.e. tæki v.s. andlit og Mustad-húfa v.s. hvíta rýjateppið í loftinu.



Þessi mynd var tekin fyrir ári við Snarfarabryggjuna eftir suðursiglingu.



Þessi er hins vegar tekin utan við Stálver nú í vor, og hefur áður birst á síðunni. Skýringin á lofthæðarmuninum er sumsé sá að búið er að lyfta allri yfirbyggingunni á honum Lunda um ríflega fet. Það er fljótlegt að skrifa fet, enda bara þrír stafir. Það var samt ekkert fljótlegt við þetta fet, að baki því liggur gríðarleg vinna sem hvíldi mest á herðum Alexanders Hafþórssonar, fv. kaupfélagsstjórasonar á Ísafirði en núv. risaskipstjóra við Afríkustrendur.  Alex er fátt ómögulegt og í stað þess að nota fríin sín til að liggja með tærnar upp í loft sinnir hann öllu sem sinna þarf, jafnt eigin dóti sem annarra. Eitt af vetrarverkum Alexanders var semsagt að færa Lundann frá því að vera lágkúrulegt trilluhorn til fyrsta skrefs í áttina að risa-handfæraskipi - enda veit Alexander uppá hár hvernig risaskip eiga að líta út.

Það var því eins og fram hefur komið, ekkert eitt atriði sem framkallaði þetta fallega bros á honum Kristmundi. Fínt veður, sól og hlýtt, ný sjálfstýring og allt önnur aðstaða í lúkar og stýrishúsi er nóg til að gleðja hverja sál, og þegar  á siglingunni hljómar undir tónlist frá  gamalli Ford Mermaid sem syngur eins og engill svo heyra má bergmál af lífsreynslunni í hverju slagi, hvers er þá hægt að óska frekar?

Í Snarfarahöfninni beið Pétur í Ófeigsfirði með Lundavagninn nýyfirfarinn og ferðakláran. Örfáum mínútum eftir komu í höfnina var Lundi ST 11 kominn á þurrt, fastur og frágenginn og við Kristmundur lagðir af stað upp á Skaga aftur akandi  til að sækja sinnhvorn bílinn. 

 

Að morgni uppstigningardags var Lundi svo dreginn norður á Hólmavík og sjósettur þar síðla dags.







Flettingar í dag: 81
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 171
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 63602
Samtals gestir: 16537
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 17:02:05


Tenglar