Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.02.2013 09:24

Áfram um eitt skref.

Síðasti pistill lokaði með "Eikhaug" við bryggju Shell-olíustöðvarinnar á Stakkanesi. Áður en sú næsta birtist langar mig að koma einu að: Þegar ég birti myndina af henni Gunnhildi liggjandi á bb-síðu í fjörunni undir Óshlíðinni orðaði ég bæði Gugguna og Borgþór. Þetta með Borgþór var aðeins minningabrot sem skaut upp kollinum um leið og ég skrifaði. Ég var búinn að fara mörgum sinnum um Óshlíðina áður en yfir lauk og veginum var lokað, en ég held að næstum í hverri ferð hafi ég skimað eftir vélinni úr Borgþóri liggjandi þarna í fjöruborðinu. Marga hafði ég spurt gegnum árin um þennan bát og strand hans en fæstir virtust kannast við neitt, sumir höfðu einhverja óljósa hugmynd en enginn gat frætt mig svo neinu næmi.  Ég hef leitað í bókunum "Íslensk skip" e. Jón Björnsson heitinn en þar var engan Borgþór að finna utan þann sem er nú Aðalbjörg ll RE. Ekki bar hann beinin við Óshlíðina, svo mikið er víst. Mér var næst að halda að mig hefði dreymt þetta allt saman. En vélin var þó þarna, svo mikið var líka víst.......

Fyrir ekkisvohelvítilöngu tók ég upp á því að eyða síðasta klukkutímanum fyrir ból á kvöldin í að lesa "Þrautgóðir á raunastund" enda til enda. Ég er búinn að blaða í þessum bókum gegnum árin og hef svo sem lesið þær allar í slitrum en aldrei svona "grundigt", eða þannig. Svo kom að því, í bók númer XV - sem á mannamáli er sú fimmtánda - að ég rakst á eftirfarandi kafla á bls. 180:

M.b. Borgþór strandaði.

Að kvöldi 15. desember strandaði vélbáturinn Borgþór frá Ísafirði við svo kallaðan Kálfadal, en báturinn var þá að koma úr róðri. Veður var gott og bjart. Ástæða strandsins var sú að unglingspiltur sem var við stýri bátsins mun hafa sofnað og bar bátinn síðan af leið. Mennirnir á Borgþóri voru aldrei í hættu og komust þeir af sjálfsdáðum í land á gúmbátnum. Báturinn eyðilagðist hins vegar á strandstaðnum. M.b. Borgþór var 25 lesta bátur, smíðaður í Reykjavík árið 1929.

.....................................................................................................

Þannig var nú það. Þetta var árið 1963 og ég man eftir þessu óhappi! Það eina sem ber á milli er að mig minnti að báturinn hefði verið keyrður upp vegna óstöðvandi leka en hafa skal það sem sannara reynist. "Þrautgóðir á raunastund" er að vísu ekki hundrað prósent heimild, sbr. Gunnhildi ÍS sem í bókinni er sögð hafa eyðilagst á strandstað. Á öðrum stað er sagt frá Fagranessbrunanum í Djúpinu og Fagranesið þar sagt hafa verið nýtt skip. Ekki var það nú alveg rétt eins og flestir vita, það var gamli Fagginn sem brann til ónýtis en sá "nýi" hefur reynst nokkuð eldfastur til þessa. Það hefur svo óvíða komið fram að meðan gamli Fagginn lá í olíukróknum á Ísafirði ónýtur eftir brunann og beðið var eftir þeim "nýja" var það m.a. Svíþjóðarbáturinn Fjölnir ÍS frá Þingeyri sem þjónaði hlutverki hans í bílaflutningum ofl. Ég skal  m.a.s. bæta einu við: Á Fjölni var togspilið framanvert við brúna en ekki frammi undir hvalbak. Þetta þýddi að hífivír bómunnar lá fram eftir miðju þilfari því ekki dugði minna en togspilið til að hífa bíla að og frá borði. Ég man þetta jafnvel og nafnið mitt því við fjölskyldan fórum einhverju sinni með bátnum inn í Djúp og alla leiðina var mamma á nálum yfir áhuganum sem 6-7 ára guttinn sýndi feitisbornum stálvírnum. Nærri 50 árum síðar er stálvírinn enn brenndur í minnið...........

Ég ætlaði að birta myndir af skipum en eins og oft vill verða drukknar áhugaverða efnið í innantómum kjaftagangi. Nú kýlum við á´ða:



Myndefnið er Guðbjartur Kristján ÍS, síðar Orri ofl. Þarna glænýr, talinn 330 tonn og sérstaklega talinn til ískastarinn í frammastrinu. Þetta var glæsiskip, stærsta skip Norðurtangans til þess tíma. Báturinn sem áður bar nafnið Guðbjartur Kristján fékk þá nafnið Víkingur lll. Skipið sem liggur aftan við Guðbjart hefur mér ekki tekist að þekkja en hallast að því að það sé erlendur togari. Svo má ég til að nefna Ísafjarðarlognið.....



Það er engin skýring við þessa mynd önnur en að aftan á hana er rituð ágiskun um að þarna liggi "-fell" við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Mig minnir að þetta hafi einhvern tíma verið rætt og Magni Guðmunds í Netagerðinni hafi talið þetta vera einn af Fossum Eimskipafélagsins. Strípurnar á reykháfnum benda vissulega til þess. Myndin er ekki heilög svo ef einhvern langar að rýna í "orginalinn" er bara að hafa samband og þá sendi ég hana í tölvupósti. ( Ég er reyndar, eftir mikið myndagrúsk, nokkuð viss um að þetta sé Katla. Það eru t.d. tveir gluggar í loftskeytaklefanum aftast. Kíkið á þessa slóð. Takk fyrir, Ólafur:     http://fragtskip.123.is/blog/2011/04/23/518703/ )




Þessi er flott, þó aðeins sé á henni eitt skip. Þetta er nokkuð örugglega trillan sem hann Alf Överby átti. Hún var dálítið sérstök í útliti og eftirminnileg af þeim sökum. Ég held þetta sé rétt hjá mér en ef einvher veit betur er leiðrétting vel þegin. Það gildir sama um þessa mynd og þá efri - hún er skönnuð risastór og afar skýr, svo ef einhvern langar að rýna betur í hana er leyfið auðfengið.






Ég ætla að loka þessu að sinni með mynd sem er tekin að Gemlufalli í Dýrafirði. Fjöllin handan fjarðar eru auðþekkt, myndin er merkt þannig á bakinu og að auki stendur á henni: "Magnús Amlín á Tóka". Þarna er þá líklega verið að ferja fólk og farangur til eða frá Þingeyri, því áður en vegur kom fyrir Dýrafjörðinn var þetta eina samgönguleiðin og lengi lágu í fjörunni neðan við Gemlufall  leifar af stórum pramma sem notaður var í faratækjaflutninga yfir fjörðinn.

Næst langar mig að birta nokkrar af myndum Árna heitins Matthíassonar rakarameistara á Ísafirði. Árni var flinkur maður á margan hátt, m.a. var hann mikill áhugamaður um ljósmyndun og átti góðan búnað til þeirra hluta. Pabbi og Árni voru skólabræður og miklir vinir. Eftir að Árni lést um aldur fram eignaðist pabbi nokkrar af myndum hans. Mig langar að tína þær til, sérstaklega þær sem tengjast bæjarlífinu. Þar eru taldar til bæði þær myndir sem Árni tók sjálfur og eins þær sem hann safnaði frá öðrum.

Gott í bili.....

mlllllllll



Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 274
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 62738
Samtals gestir: 16430
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 17:04:11


Tenglar